. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Úps...... hann kvartaði.....

Og segist ekki vera stríðinn.  Jæja ertinn þá, hann á það allavega til.  Byrjunin var að á laugardagsmorgninum þegar við vorum á leið í morgunmat, hafði ég orð á því að mig langaði til að sjá næluna sem Hendrikka Waage hannaði fyrir krabbameinsfélagið, ef nælan væri til í litlu versluninni í anddyrinu. Nei hún var ekki til þar og ekkert eftir þessa ágætu konu.  Hinsvegar var til íslenskt skart sem ég fer að skoða og festi augun á geysifallegum hring sem ég bað um að fá að handleika. Það fékkst og mér fannst þetta hinn flottasti gripur. Þakkaði svo fyrir og rétti afgreiðslukonunni aftur og var þar með farin í morgunverð. Síðan tók við athugun á innihaldi í þvottavél Önnunnar minnar,heimsókn í Fellahvarfið til Ellu Boggu, göngutúr niður í bæ og á Skólavörðustíginn að athuga með kjötsúpusmakk ( Gísli segir að mín sé betri ) komum við á Jómfrúnni og fengum okkur danskt smurbrauð og bjór og löbbuðum svo heim á hótel.  Ég var búin að sjá bros á manni mínum af og til sem eiginlega breyttist í smástríðnisbros, ég má ekki segjaglott.... svona af og til.  Þegar við vorum svo sest til borðs í kvöldmat var ég orðin alveg viss um að nú hefði hann samið við þjónana að stríða mér eitthvað og í miðjum aðalrétti var mér allri lokið...... ég stend upp og er farin upp á herbergi ... segi ég við hann, ef þú ferð ekki að segja mér hvað þú ert að prakkarast.  Það stóð ekki á svari... hvernig ætlar þú að fara að því, Grillið er uppi á áttundu og við erum á sjöttu hæð..... en svo stakk þessi elska hægri hendi í jakkavasa sinn og dró upp lítið box sem hann rétti mér.  Ég saup hveljur þegar ég opnaði boxið og við mér blasti hringurinn sem ég hafði verið að skoða um morguninn.

Ég er enn hissa, já og Gísli.... hringurinn er ennþá fallegur. 


27okt .......

Nýliðin helgi, hvernig gengur, er gaman ...... hvar á ég að byrja eiginlega.  Já það er oftast gaman hérna og sé leiðinlegt gerir engin neitt í því fyrir mig, ég verð bara að gera það sjálf. Fínt.  Mér gengur vel við að rækta sjálfa mig, betur en ég þorði að vona.  Líka fínt.

Og þá er það helgin, Gísli hóf hana reyndar um kaffleytið á fimmtudag, það spáði svo andstyggilega að hann lagði af stað suður, aldeilis harðákveðinn í að veðrið hefði ekki af okkur hjónum dekurhelgi á hótel Sögu ....... í tilefni þess að við áttum 35 ára hjúskaparafmæli fyrsta vetrardag, 25 október.  Þeir sem þekkja okkur hjónin vita að þetta er margfaldur hamingjudagur hjá Saurbæjarfjölskyldunni.  Við skruppum í Keflavíkina til Jökuls og Oddnýjar á föstudeginum, komum þaðan nýklippt og snyrt ( ekki veitti af) og svo var það Sagan.  Dekur út í eitt, sofið út, þríréttaður málsverður í Grillinu á laugardagskvöldið reyndist vera sex réttir ....... þetta var bara æði.

Frásögn af stríðni Gísla við blásaklausa eiginkonu sína til 35 ára, undir maraþon málsverðinum verður að bíða aðeins annars verð ég of sein í sjúkraþjálfun......


21 okt.....

Vöknuð snemma í morgun og dagur ekki runninn á loft þegar ég leit út.  Svo ég skreið upp í aftur og lofaði huganum að reika og ákvað að kveðja Fylki á þann hátt, hugsa til baka allar góðu stundirnar sem ég átti í félagsskap hans, glaðan og háværan hlátur, þangað til krabbameinið skemmdi rödd hans, þá lækkaði aðeins í honum, stórt og hlýtt fang ..... Fylki fygldi alltaf mikil gleði og oftast var hann í forystu á einhvern hátt.  Svona "forystusauður" sem stofnaði fýlupúkafélag innan bókarahópsins og það voru öfugmæli , því fáir hlógu meira og göntuðust en þeir fýlupúkafélagar.

En nú er hann kominn yfir í annan heim, þar voru fyrir vinir og félagar sem eflaust hafa tekið vel á móti honum, við sem horfum á eftir söknum hans sárt, og biðjum fyrir Láru hans og fjölskyldu sem nú syrgja hann sárt og sakna.

Guð fylgi þér gamli vinur, hér eftir sem hingað til.


Loooooksins......

Komin inn á bloggið aftur, er reyndar ekki í minni tölvu sem þó skilaði sér til mín á fimmtudagskvöldið seint.... með þeim Lenu og Gísla sem voru á leiðinni á haustráðstefnu bókara sem var haldin á hótel Heklu, austur á Skeiðum. Ég "grasaðist" að sjálfsögðu líka á föstudeginum en þá sótti Gísli mig og ég fór með þeim í kvöldmat og gisti svo.  Þarna var svo þónokkuð af fólki sem ég þekkti, gaman að spjalla og borða góðan mat.  Ég stóð upp meðan á borðhaldi stóð og minntist Fylkis sem við söknum öll úr þessum hópi, nú og framvegis er sætið hans autt í þessum hópi.

Hér heim var ég svo komin um kvöldmat í gær, eftir að hafa farið í stórskemmtilega makaferð, týnt símanum mínum, peysu og skóm, munað eftir afmæli sonarins og keypt handa honum afmælisgjöf, verst að geta ekki séð framan í hann þegar hann sér gjöfina......

PS...... það sem ég týndi fannst aftur og tafði að sjálfsögðu heimferð hjásvæfils míns og dóttur.


Ég er orðlaus.......

Eða svona næstum því, frekar ólíkt mér að vera svo illa stödd að geta ekki tjáð mig..... þetta er að koma.

En ég hef ekki haft orku til að tjá mig undanfarna daga hér inni, enda hefur hellst yfir mann kvíði um leið og maður opnar augun að morgni.... hver fjandinn gerðist í nótt? Nú .... það er enginn banki eftir til að setja á hausinn, jú annars, seðlabankinn, en ..... þar ræður Davíð og engum dettur í hug að hrófla við honum enda sagði "alfaðir" Geir H. í gær að hann bæri fullt traust til Davíðs..... engan skyldi undra, eða hvað?

Ekki var þó svo gott að morguninn væri tíðindalaus, tölvupósturinn frá Jóhönnu Eyjólfs tjáði Gísla að Fylkir Ágústsson hefði látist í gær.  Gamall og góður vinur sem við kynntumst í JC hreyfingunni og hefur nú síðustu árin rekið bókhaldsstofu eins og Gísli og við áttum von á að hitta hann á námskeiði eftir slétta viku.  Nú verður sætið hans autt og röddin þögnuð, friður fylgi þér, gamli vinur.

Við erum að leggja af stað vestur til pabba og mömmu núna seinnipartinn þegar Gísli er búinn að vinna, stoppa þar um helgina og svo er það næst í stöðunni að koma sér suður í " grasið " á mánudeginum, er búin svona nánast að pakka niður, það sem gleymist sendir Árný mér með pabba sínum þegar hann kemur suður á námskeiðið. Allavega tölvuna mína sem er núna að notast í Háskólanum á Akureyri, Lena er í skólanum núna í tvo daga.

 


?????????

Ég er svo kvíðin, hrædd og reið í bland að ég finn ekki fyrisögn á þessar hugrenningar mínar sem rata hér niður þennan morguninn.  Fréttir síðustu helgar voru nógu slæmar til að halda manni á tauginni, hvað gerðist nú. og viti menn...... það gerist ekkert.  Landsfaðirinn Geir H. Haarde segir að það sé nóg að bankarnir færi eitthvað af viðskiptum sínum heim og viðskiptamenn Glitnis geti verið fullvissir um að tapa ekki neinu.

Halló, hvar hefur þessi ágæti maður haldið sig undanfarið?  Hvað með þá sem eru að sligast undan lánunum sínum, einstæðingana og öryrkjana sem varla hafa tórt á því sem þeir hafa handa á milli... og allt hækkar, matur, húsaleiga, bensín....

Hvað með alla þá tugi, hundruð manna sem hafa misst vinnu undanfarnar vikur og sjá ekki á sú staða breytist í bráð, á þetta fólk er ekki minnst.  Við heyrum hagfræðingana tala um að nú verði fólk að spara og selja eignir, en hver á að kaupa, hvergi hægt að fá lán nema á okurvöxtum......

Ég er kvíðin vegna unganna minna, þau eru öll með eitthvað lán á herðunum, sum eru nýbúin að kaupa sér þak yfir höfuðið, önnur eru með bílalán og öll eru þau með fjölskyldu sem sjá þarf fyrir, ja nema Árný.  Held nú samt að hennar áhyggjur séu ekki minni en annarra, vegna þeirra sem hún er tengd fjölskylduböndum og vina.

Blogga seinna í dag um gleðiefni helgarinnar, núna ætla ég í restina af morgunverkunum og vita hvort mér léttir ekki í skapi við það. 


Froða......

Var lýsingarorðið sem kom í hug minn......eftir að hlusta á forsætisráðherra í fréttum í gærkvöldi, úrdrátt úr stefnuræðu hans.  Við erum að tala við rétta fólkið og gera réttu hlutina og þið verðið að bíða .... var það eina sem hann hafði til málanna að leggja.  Eini maðurinn sem sagði eitthvað af viti þarna var Steingrímur J ....... loka inni alla þá sem að þessum erfiðleikum koma á einhvern hátt og hleypa þeim ekki út fyrr en er farið að rofa til.  Punktur.

Sólskin úti og skuggi á sálinni, góð vinkona missti mann sinn vofveiflega núna í vikunni, hugur okkar netkellnanna er hjá henni núna.... hittingur í kvöld hjá Kristínu og kveikið nú á kerti fyrir hana, stelpur mínar, mér finnst sárt að geta ekki verið með ykkur nema í huganum.....


Á hraðri leið til helv....?

Nei það er ekki ég sem er á hraðferð "niður", heldur bankakerfi Íslendinga.  Mann fer orðið með faðirvorið sitt í hvert skipti sem kveikt er á fréttum eða flettir blaði, það þarf stærri heila en minn til að botna í þessu öllu saman.

Upflettiritið mamma hefur verið í beinu símasambandi við soninn síðasta klukkutímann, ástæðan er eldamennska hjá honum.  Þetta var ekki hans uppáhaldsiðja meðan ég bar ábyrgð á honum en nú þarf kall oft að elda og þá er stundum hringt í mömmu.

Það er komin dagsetning á "grasið" hjá mér ... mæting á heilsustofnun 14 okt. Úps þetta eru bara tólf dagar og ég sem þarf að gera svo ótalmargt áður en ég fer .......


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband