. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

2008/2009.........

Fyrra ártalið er að renna sitt skeið og hitt bíður átekta ..... á miðnætti.  Við lokuðum árinu hjónin með því að fara fram í Núp eftir hádegið í dag og virða fyrir okkur gamlar slóðir í miklu hæglætisveðri og fallegri birtu.  Síðan fórum við með kerti út í kirkjugarð á Höskuldsstöðum að leiðunum þeirra afa míns og ömmu, Þorvaldar og Betu, leiði Betu merkti Jón sambýlismaður hennar á sínum tíma en hin voru ekki merkt fyrr en í haust.  Þaðan heim með viðkomu hjá leiðinu þeirra tengdaforeldra minna, líka með ljós, sem reyndar fleiri höfðu gert, þar loguðu fallega tvö kerti þegar við komum að.

DSC00036

Nú er það steikin ofan í gesti og heimafólk, Ragnar og Sandra ásamt litlu Emblu verða hjá okkur í kvöld, sem og Gerðan mín og Árný ..... við ætlum að eyða síðustu stundum ársins með þeim.  Guð gefi öllum sem lesa skrifin mín, gleðilegt nýtt ár og hjartans þökk fyrir árið sem er að ljúka.


Jóladagur/letidagur......

Þetta er allavega letidagur hér á bæ, rólegheit, át, bókalestur ( hjá mér) ..... ég klæddi mig þó í morgun.  Gerða og Árný voru hjá okkur í gærkvöldi og birtust um hádegisleytið aftur til að kanna með afganginn af hamborgararhryggnum ... nú er enginn afgangur, ekki heldur af nammisalatinu, það jaðraði við að þær slægjust um þann afgang.  Kristján bróðir hringdi í dótturina í gærkvöldi og ég naut aðvitað góðs af og heyrði aðeins í honum líka.

Gleðileg jól.........

 Bróðir minn blessaður, sem býr hinumegin á hnettinum, já og bræðurnir sem tolla (tæplega þó ) enn hér á landi, bloggvinir mínir hvar svo sem þeir eru staddir á hnettinum, netkellurnar mínar, allir mínir vinir ... guð gefi ykkur gleðileg jól og farsælt nýtt ár, hjartans þakkir fyrir liðin ár ........ kveðjur af Húnabrautinni, Halla Jökulsdóttir.

Messa Þorláks hins helga.......

Messa þessi er langt gengin , klukkan er farin að halla í fimm.  Skatan var etin í síðasta sinn á Árbakkanum hjá þeim Erlu og Mumma, nú eru þau hætt að reka kaffihús/veitingastað í þessu fallega bláa húsi. Síðan snemma morguns hefur rás eitt hljómað hér um íbúðina, ég verið að ljúka síðustu jólapökkunum, þrífa svolítið og svo er ég að undirbúa kvöldmat.  Það er von gesta í kvöldverð og ég ætla að koma þeim á óvart ... ærlega.  Ég held að það hafi verið í fyrra sem ég rifjaði upp sitthvað um jólahald á Núpi þegar ég var barn, nú ætla ég að elda kótelettur að hætti mömmu, nammisalat og brúnaðar kartöflur ..... og heimagerður ís í eftirrétt.  Frá þessu borði fer örugglega enginn svangur.

Það er einhver deyfð yfir mér þessa daga, eins og eitthvað sé framundan sem mér er ekki að skapi .... verst ef að börnin mín yngstu ætla að erfa þennan galla mömmu sinnar........ 


Túkallarnir.....

Alveg sjálfsagt, Lena mín að setja hér inn uppskriftina að þessum ágætu kökum.

4 egg og 250 grömm sykurs þeytist saman þar til er orðið að ljósri froðu. Saman við hana setjist síðan sossum hundrað grömm af rifnu súkkulaði, 50 grömm hveiti, 30 grömm kartöflumjöl og 250 grömm af kókosmjöli, hrærist allt saman frekar gætilega.  Sett í litla toppa á bökunarplötu ( ekki gleyma að setja bökunarpappír á milli) og bakist við 200 gráðu hita þar til topparnir eru orðnir fallega ljósbrúnir á lit.

Þeim til upplýsingar  sem furða sig á nafninu á kökunum ..... Kiddi bróðir gaf þeim þetta nafn þegar hann var búinn að reikna vísindalega út að hver kaka kostaði túkall ... það árið.  Vel að merkja ..... það eru tæp 50 ár síða.


Afmælisdagur......

Jóla Fjólan mín, Til hamingju með afmælisdaginn þinn, nú ertu komin á undan Völu aftur.  Guð gefi ykkur góð jól, ljúfan mín, þó ég efi ekki að þau verði erfið líka, án Gullrassins þíns í fyrsta sinn.

Hér sígur allt áfram í átt að jólum, Jökull var hér í nótt og var að sækja syni sína, nú verða fjörug jólin á Bergveginum með allan herinn.  Og grautur í hádeginu hjá þeim systkinunum er hjá Jökli og Oddnýju þetta árið.  Gaman að þau skuli flytja þennan sið með sér að borða jólagrautinn saman, hér koma allir sem næst til af börnunum, já og ýmsir fleiri...

Þetta eru svona áfangskrif, nú er farið að halla af degi, og ég er búin að fara út á Skagaströnd til foreldranna sem ég á þar, koma við í kirkjugarðinum hjá afa og ömmu og nú er ég að baka fleiri túkalla, eitthvað af þeim sem ég bakaði í gær voru etnir af heimilisfólki og gestum í gærkvöldi og ein dósin flutti í Keflavíkina með Jökli, hann fullyrti að kona hans hefði ekki bakað téðar kökur......


ég má til......

Af gefni tilefni er ég ekki fylgjandi því að einkapóstur sé settur á netið        en nú ætla ég að víkja frá þeirri reglu minni og tilefnið er jólaísinn minn.  Hann var búinn til eitt kvöldið fyrr í vikunni og þegar við Gísli vorum að testa hvort að þetta væri nú neysluhæft...... hringir Annan okkar.  Hún heyrði að sjálfsögðu að pabbi væri að smjatta á einhverju meðan hann var að tala  og bað hann um að sjá til þess að ég sendi uppskriftina.  Þar fór í verra, þessi er nefnilega bara til í kolli mínum.  Morguninn eftir setti ég eftirfarandi á blað og sendi suður yfir heiði... rafrænt.

Ég lofaði að reyna.......
Fyrst setur mann fjögur sæmileg egg (ósoðin og án skurns)og hálfan bolla af
sykri í hrærivélarskál og þeytir í froðu. Hreinsar þetta í stóra skál og
þeytir einn líter af rjóma ...í hrærivélarskálinni...þarf ekki að þvo á milli.
Setur saman við eggjafroðuna. Út í sull þetta setjist síðan vel brytjað stykki af
toblerone súkkulaði nú eða hvað það súkkulaði sem væntanlegur neytandi kýs ..
plús sykur  sem búið er að bræða og hálfbrenna á pönnu og breyta þar með í
hálfgerðan brjóstsykur. Þennan stökkbreytta sykur þarf að mylja smátt áður
en blandað er saman við  rjóma/eggja sullið. Sett í þar til ætlað ílát og
fryst fyrir át.  Og passa síðan að Óli éti þetta ekki einn ......

kveðja mamma  

Ég fékk svar......

Þakka þér kærlega fyrir kæra mamma :)  EN Óla leikur forvitni á að vita nokkur
atriði nánar varðandi ís þennan.  Í fyrsta lagi er miðað við sæmileg
Efri-Mýarar egg eða bara lífrænt ræktuð egg (frá hamingjusömum hænum sem skíta
á gólfið og ganga svo ofaníðí) ? Í öðru lagi hálfan bolla; er þá verið að vísa
í mávastellsbolla eða tröllastellsbolla ? Í þriðja lagi, varðandi froðuna, er
þá verið að miða við baðfroðu eða slef froðu ?  Í fjórða lagi, því þarf ekki
að þvo skálina á milli ? er ekki hreinlæti undirstaða alls lífs ?
Að lokum hvers vegna í veröldinni má Óli minn ekki borða þetta ALEINN ?

Bestu kveðjur
þín dóttir Anna

PS. Með von um skjót og skýr svör :):):):)  

Ójá þau voru til reiðu.... 

Sko, í fyrsta lagi....Efrimyraeggin eru audda best, þessi með hamingjusama
skítinn að utanverðu gætu innihaldið óhollustu.Spurning 2 bara venjulegan
bolla takk. Nr 3 hér er átt við froðu það er myndast við að hræra saman egg og
sykur..og í fjórða lagi þú er að nota eggja/sykurfroðuna í sama verkinu og það
er vont að þeyta rjóma í nýþveginni og heitri skál  .Og ástæðan fyrir því
að Óli má ekki eta þetta einn....hann fær drullu.... mikla.
PS... gæti ykkur hin ekki langað í ís líka....Mamma.    


                                
.

Hefði átt að bíða....

Þar til dagur var úti, nú er það annar í mottu.  Ég reyndi að ljúka þessu í gær og tókst svosem.  En við að ætla að strauja snilld þessa í lokin, sat straujárnið fast á bakstykkinu og bræddi þar gat, lítið að vísu.  Ergo, straujárnið ónýtt, mottan skemmd...á röngunni og til að toppa daginn er úrið mitt ennþá korter gengin í níu....... síðan í gærmorgun.

Ég tók mjög svo ábyrga ákvörðun um að hafast ekkert stórtækt að í dag.... um leið og ég opnaði augun í morgun. 


Looooksins........

Kemst í verk að blogga.  Ekki er þó alfarið leti af minni hálfu um að kenna, við það að rafmagn fór af bænum á fimmtudagsmorgun síðasta, þá dó talvan mín.  Steindó.  Hún var að vísu vakin upp þann sama dag en þverneitaði að tengjast netinu.... þar til í gærmorgun að setið var og fiktað þar til ófétið gengdi.  Og hangir enn .... 7-9-13.

Hrakfarir minar í morgun fara ekki um með einteyming, ónei.  Ég var að glíma við jólatrésmottuna hennar Lenu á gólfinu niður í saumaherbergi, þessa ágætu mottu skyldi setja upp fyrir jól.  Mér gengur margt betur en að vera lengi á hnjánum svo ég gafst upp við að setja títuprjóna til að festa saman bak og mottu. Seildist í stól til að rísa upp, en við það hvolfdi ég úr títuprjónadósinni ..... og stakk mig á nokkrum þeirra við að færa mig til á hnjánum.  Síðan tók ég til við að ná þessum ófögnuði saman aftur og upp í dósina.  Næsta tilraun var gerð á eldhúsborðinu, mikð betri vinnuaðstaða og pláss. Hver títarinn á fætur öðrum festi saman bak og framhlið og verkinu að verða lokið, þegar ég þurfti að færa aðeins stykkið til á borðinu og...... dósin í gólfið.

Ég er í kaffipásu og dósin fræga er á miðri mottunni..... LOKUÐ. Með innihaldið þar sem það á að vera, undir lokinu. 


Komin heim.....

Eftir viðburðaríka helgi, kerti og kaffibolli í seilingarfjarlægð, söngvar um lífið í flutningi Rúna Júl á spilaranum, snjóar í logni úti ..... er hægt að biðja um meira.......

Ég er þó á lífi ..... ekki Rúnar, hann lést að morgni föstudagsins síðasta, eftir að hafa fyglt úr hlaði á tónleikum söngvasafninu sínu ... Söngvar um lífið. Núna er hann að syngja ... gott er að gefa gaman að þiggja, það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig..... ég þarf að ná í vasaklút.

Og byrja upp á nýtt, takk fyrir mig , Rúnar, og friður fylgi þér, hvert sem þú ferð og hvar sem þú ert... ég er enn að hlusta.


Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband