. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

25 október .....

Þessi dagur er mikið uppáhald í fjölskyldu Gísla, foreldrar hans gengu í hjónaband þennan dag 1941.  Réttu ári seinna fæddist Sigrún og hún er því að ná stórmerkum áfanga í lífinu í dag ... 67 ára.  1945 fæddist Katrín, Sæunn og Gísli voru svo skírð þennan dag.  Þau notuðu svo þennan dag systkinin óspart, opinberuðu trúlofanir, létu skíra mörg barna sinna....  og öll giftu þau sig þennan dag, lengst er síðan Kata og Jonni giftu sig, þau eiga 45 ára afmæli sem löggilt hjón í dag. Ég held að afmæli dagsins innan fjölskyldunnar séu orðin vel á þriðja tug talsins.

Hér er ennþá mikið fjör barna og fullorðinna,  Anna og Óli eru núna að nýta sér stóra baðið hans Gumma... eins og nafna mín segir og á þar við heita pottinn þeirra Völu og Gumma. Höllu Katrínu finnst óþarfi að Vala eigi þessa snilld með Gumma, hann er mikið uppáhald stelpunnar  eins og reyndar fleiri barna í fjölskyldunni.


Haustmorgunn úti......

Verst er að hann er líka inni, það er einhver vetrarþoka í kolli mínum núna.  Ég er að dunda við að búa mig undir fjölgun á heimilinu næstu dagana, ef svínaflensan hefur ekki hertekið fleiri af Bakkastaðafjölskyldunni, þá koma þau norður í kvöld og verða fram á þriðjudag í næstu viku.  Niðri glímir dóttlan yngsta við sitt "svín", hún endaði á sjúkrahúsi í fyrrakvöld en fékk að koma heim í gærkvöldi.  Og enn ... 7-9-13 ..... sleppa aðrir á heimilinu, þetta var ekki svinaflensan sem stríddi Gísla í síðustu viku, frétti hann í gær.  Ragnar og Sandra komin heim svo að við Gísli erum laus úr afleysingum í hænsnahúsi og sjá til þess að ekki svelti smiðir.....

Ræðan sem ekki var flutt ......

Fyrir nokkru síðan fékk ég bréf í pósti sem innihélt boð í fertugsafmæli norður í Eyjafirði.  Bréfið var nokkuð skondið og alveg í anda konunnar sem var að bjóða okkur hjónum í fertugsafmælið sitt.  Til dæmis manni til upprifjunar var yfirskriftin ... fertug-fjörug-frumleg-frísk-frábær- fönguleg og neðst á blaðinu var... forvitin-fagnandi-frjó-foreldri-fullorðin frjálsleg. Eins og ég myndi gleyma einhverju af þessu?

Ég ætlaði sko að þiggja þetta boð en komst svo að því að sonurinn ætlaði að halda upp á sitt afmæli hinumegin á landinu þá varð ég að velja og valdi soninn.

En ég var byrjuð á ræðustúf handa Guðrúnu Ösp og er að hugsa um að setja línurnar hér inn.

Elsku Guðrún Ösp.

   Fertug, fínleg, frumleg, frökk

   frjósöm, fjörug, fyndin, 

  kátleg, kyndug, kröftug, klökk ?

  kannski er svona myndin.

Þetta  skrifaði ég á blað sama dag og ég fékk boðið þitt í hendurnar.   Ég á margar myndir af þér í huganum frá því þú varst pínulítil.  Og endalaust þakklát fyrir hve oft þú dvaldir hjá okkur Gísla sem barn og unglingur. Uppátækin þín voru ærin ... enn er geymt bréf sem þú skrifaðir Gísla þegar þú þorðir ekki að segja honum beint að þú hefðir brotið slatta af eggjum við að bera þau heim. Í umslagi og skrifað utan á það rétt og riktuglega, en í stað frímerkis hafði hún teiknað hanahaus.  Einhverntíman komstu um páska og að sjálfsögðu með spariföt, þar með talið sparifatavesti föður þíns, sem að sjálfsögðu fannst ekki í Tungusíðunni þegar eigandi vestisins ætlaði að klæðast því þessa sömu páska.  Kannski voru þetta líka páskarnir sem þú grófst páskaeggið hennar Völu niður á botn í hveitiíláti Efrimýraheimilisins ... sem vel að merkja tók fimmtíu kíló hveitis en var til allrar lukku ekki fullt þá dagana.  Ég hef vægan grun um að þrátt fyrir að vera orðin eiginkona og þriggja barna mamma, eigir þú enn til prakkaraskap og hafir gaman af að hræra aðeins upp í tilverunni í kring um þig.  Takk fyrir allt gamalt og gott og guð gefi þér alla daga góða, hér eftir sem hingað til.


Fyrir þrjátíu árum ......

Stóð ég í stórræðum, yngsta barnið mitt var á leiðinni í veröldina.  Á afmælisdegi Katrínar Grímsdóttur langömmu sinnar enda hafði Gísli það við orð þegar ég var borin út úr húsinu heima... búin að missa allt vatnið..... ef að stelpan verður fædd fyrir miðnætti verður hún nú að heita Katrín.  Ég samþykkti strax uppástunguna, Katrín er ágætisnafn og ég var orðin ærlega þreytt á þessum innbyrðis kúlubúa sem átti að vera mættur fyrir næstum þrem vikum.  Búið að reyna sitt af hverju til að ná unganum út ... langur og góður göngutúr, holuakstur á vondum vegi, lyfjagjöf í æð sem átti að skila þrjóskudósinni út í hvelli ... laaangt og gott gufubað fram í Saurbæ ... ekkert dugði. Barnunginn var kyrr, það er að segja innanborðs hjá mér, ja nema nóttina eftir gufubaðið voru spörk og fyrirgangur með minnsta móti svo ég svaf vel.  En þarna um miðjan dag þann átjánda fór vatnið hjá mér og við komu á spítalann mætti læknirinn mér úti í dyrum með græjur til að setja upp hjá mér lyf í æð til að reka á eftir. Loksins fór þetta nú að ganga eitthvað en hefði svosem alveg mátt taka styttri tíma, svona lyfja eftirrekstur orsakar yfirleitt strangari verki og styttra á milli þeirra.  Upp úr klukkan ellefu um kvöldið var séð að þetta myndi nú hafast af fyrir miðnættið og klukkan var 23 mínútur yfir ellefu þegar ljósan stóð með  organdi barn í höndunum,  og Gísli fullyrðir að ég hafi sagt með tortryggni mikilli í rödd ... lof mér að sjá.... þegar hann segir ... þetta er strákur, við verðum að finna annað nafn.

En þetta var satt, þarna var kominn strákur sem byrjaði skammarstrik sín hér í heimi með því að spræna beint á ljósu sína svona mínútu gamall.

Við vorum í Keflavík í dag í þrítugsafmælinu hans, hann hundveikur af inflúensu og sagði öllum að hann væri með kúariðu.  Til hamingju með daginn Jökull minn.


Get ekki sofnað.....

Og hvað gerir frúin þá ..... bloggar.  Búin að vera róleg helgi hjá mér, engir svangir smiðir um helgina, bara kallinn.  Við fórum upp í Núp í gær, þar var allt með kyrrum kjörum, allar hríslurnar búnar að fella blöð og komnar í vetrarbúning, nú er bara að sjá hvernig þær vakna í vor.  Það er orðið hvítleitt niður fyrir hjalla og haustlitirnir hafa orðið grátt yfirbragð þarna uppfrá.  Komum við á Efrimýrum og skoðuðum hvað væri búið að gera í breytingum á hlöðunni, það hafði tekist að steypa á föstudaginn eins og til stóð.  Í dag fórum við Árný fram í Saurbæ og Smárinn minn með,  Anna Guðbjörg var þar um helgina og Árný notaði fallegan dag til að elta þau systkinin utandyra... vopnuð myndavél.  Það er auðvelt að mynda Önnuna, erfiðara með bróður hennar.  Svo setti Árný upp sparisvipinn og plataði Mumma til að keyra sér upp á brúnir ... með myndavélina og myndirnar sem hún tók þarna uppi ..... æðislegar.

Best að hypja sig aftur í bólið og vita hvort að Gísli hóstar enn á tveggja mínútna fresti .....


Á morgun segir sá lati....

Ætlaði að blogga í gær en hafði bara ekki tíma.  Var að ljúka sláturgerð haustsins, þurfti að elda hádegismat ofan í svanga smiði uppi á Efrimýrum, húsráðendur eru enn í fríi ... og pásur sem gáfust eftir hádegið, meðan sláturverk voru framin, voru nýttar til hvíldar og kaffidrykkju.  Nú er bara eftir að verða sér úti um folaldakjöt í frystirinn, já og fisk, sonurinn hættur á sjó, fiskiviðhaldið mitt fluttur, Fannar "tengdasonur" eitthvað á milli vita í sjósókninni ..... fisklaus get ég ekki verið.  Fékk hugmynd.... inn á facebook og sendi forvitnisspurningu, hver veit nema ég finni fisk.

Úti er orðið kalt og hvítt í fjöllum, farið að örla á hálku og ófærð svona sumstaðar, enda styttist í fyrsta vetrardag... já og þrítugsafmælið hjá syninum.....


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband