. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Flökunarvél eða ???????

Ég var að lesa bloggið hennar Lenu minnar og þaðan kom fyrirsögnin, það sem mig langar til að flaka þessa dagana gæti ég nú bara hugsað mér að gera með höndum og/eða orðum.  Er semsagt í valkyrjuskapinu mínu í augnablikinu,  það lagast seinnipartinn þegar Jökull og fylgifiskar mæta í heimsókn.  Fyrigefðu Oddný mín, þú er sko enginn fiskur, mér þykir vænt um þig og allt þitt.

Er að byrja á að setja upp jólaljósin, aðventuljósið komið hér í glugga, inn í eldhúsi er líka ljós í glugga og þegar ég stend upp frá tölvuskriflinu fara tvö upp í stofugluggana.  Og minn sérlegi jólasveinn, Sollan mín, við verðum að fara að huga að innkaupum á ljósin sem skal setja upp í garðinum mínum á grenitréð stóra. men hvað mig hlakkar til jólanna, ljósanna, piparkökulyktar og baksturs .... og gamlaárskvölds í stúkusæti við stofugluggann minn, með koníaksglas í hendi til að skála við kallinn minn.


Tiltektarkast.......

Þetta kom yfir mig eins og elding í morgun þegar ég fór að ganga frá hreinum þvotti í skúffur og skápa, út með allt sem er of stórt, men hvað það er notalegt að vaxa NIÐURÚR fötunum sínum en ekki uppúr þeim.  Út líka með föt sem ég hef ekki notað sem mánuðum skiptir. Gera við smá hér og þar..... og hugsa um hvernig ég fer að því að herja út endurnýjun á tölvuskriflinu mínu, hún er alveg að gefast upp á vistinni, enda víst komin vel fram á grunnskólaaldur.

Framhald enn.....

En síðasta færslan held ég, nefið er að skána, hægt og bítandi ... og pappír innan seilingar svona til að forða slysi.

Það var ekki fyrr en aðfaranótt mánudags sem við urðum vör við rigningu en sú var líka glæsileg, alveg eins og hellt væri úr fötu.  Ég hentist út á svalir til að skoða og svei mér þá ég hefði getað notað þetta í sturtustað, en af tillitsemi við aðra nágranna en Sigrúnu og Mumma, hypjaði ég mig aftur inn og svo uppí, það var svo ókristilega snemmt.  En kvöldið áður en við fórum heim löbbuðum við á uppáhaldstaðinn okkar kínverska í "síðustu kvöldmáltíðina" .  Það var aðeins farið að dropa svo við hvötuðum för eftir getu og sluppum lítið blaut undir þak.  En það var til lítils því þakið var varla hæft til að standa undir því stóra nafni, svo ég bað um flutning að borði sem við yrðum ekki vatnsósa við að snæða. Það var létt yfir okkur að venju, gott ef þetta var ekki "græna" kvöldið okkar. Og það var hætt að rigna þegar við ultum, ja eða gengum heim, alveg stútfull ..... af mat.

Heimferðahrellingar.

Þær hófust eiginlega strax  við komu á flugvöll, þrátt fyrir að vera mætt of snemma í innritun, tók hún eina og hálfa klukkustund. Í innrituninni á okkar flugi gekk ekkert upp, en hjá Ævari og Ingibjörgu fluggekk þetta, þau voru komin í gegn tæpum klukkutíma á undan okkur hinum. Að hluta til óþolinmæði okkar íslendinga að kenna, í stað þess að mynda einfalda röð að hvoru borði sem innritaði var hvor röð orðin þreföld, fólk kom utan á röðina, tróð sér inn á milli ..... og lái mér hver sem vill þótt væri farið að síga í mig og því óvenju snakill þegar ég komst loks að, með passana okkar Gísla + Sigrúnar og Mumma í hendinni og segði þeim að koma með töskurnar, þau höfðu lent aðeins á eftir okkur í hrindingunum og hrærigrautnum.  Einhverjir aftan við mig hvæstu. Kannski líka vegna þess að ég hafði hleypt fram úr mér gömlum manni sem var greinilega með parkinsons einkenni á háu stigi og hafði hann eiginlega í skjóli við mig síðustu metrana að borðinu svo hann ylti ekki hreinlega um koll. Alltént var mér slétt sama þótt brussan sem á eftir mér var og búin að keyra margoft aftan á fætur mína ... þyrfti að biða svolítið í viðbót.  En boardingpassana fékk ég þegar ég var búin að borga 5 kílóa yfirvigt, sem hefði verið meiri, ef Gísli hefði ekki verið svo viss um að farangurinn væri of þungur, að hann kippti upp bakpokanum okkar sem innihélt öll blöðin sem mér höfðu áskotnast í túrnum.  Inn í gegn og þá var farið að ýta á eftir farþegunum sem enn vantaði um borð í 2671 til Íslands.  Enginn tími til að fá sér eitthvað að eta né drekka, Mummi reyndar náði sér í vatn sem átti sko eftir að koma sér vel.  Þessi eftrirrekstur var nefnilega til þess eins að sitja í klukkutíma og fjörutíu mínútur og bíða eftir flugtaki.  Og ekki bætti þetta skap manns. Þegar á leið biðina sé ég að það er farið að taka töskur út úr vélinni aftir .... og þær voru margar.  Það var ofbókað, flugfreyjur í vandræðum við að greiða úr flækjunni því að sumt af þeim sem ofbókaðir voru, sluppu út í vél... með farangurinn.  En loks hypjaði vélin sig frá og af stað, og eftir stóðu þrír farangursvagnar með samtals 90 töskum.  Ég fann nú kannski ekki mest fyrir biðinni, þökk sé bók sem var í veskinu mínu og saumadótinu mínu.  Engin flugfreyjanna var íslenskumælandi og tvær þeirra,amk töluðu bara spænsku, svo að það var kannski afsakanlegt að enginn segði frá að slatti af farangri hefði verið skilinn eftir.  En það var heldur enginn sem gerði það eftir að heim var komið og töskur skiluðu sér ekki.  Það var ekki fyrr en ég dró einhverja konu frá þjónustuborði sem ég fann eftir leit til að koma fram og skýra þetta.  Við fengum hvoruga töskuna okkar, við Gísli og ekki heldur Sigrún og Mummi.  Sem var til þess að þau keyrðu heim um kvöldið, öll lyf okkar Mumma voru í týndum töskum.

Fimmtudagur leið og föstudagur líka og enn engar töskur. Ég tékkaði í hádeginu og skal láta duga að viðurkenna að svörin sem ég fékk voru hreint ekki mér að skapi. Á laugardagskvöld hringir Árný sunnan úr Reykjavík .... mamma,  töskurnar þína eru upp á skála. Ég þangað og þar var önnur taskan mín og önnur þeirra.  Mín ónýt og úr henni lak það sem átti að vera manni til sælgætis á steik og amerískar pönnukökur um jólin.  Ég opnaði hana varlega og hjálpi mér sá sem vanur er, svona er ekki venjulega útlits farangurinn manns. Snyrtitaskan mín ónýt, handavinnutaskan skemmd ..... og fötin, oj bara.  Síðan er þvottavélin mín búin að vera í nánast fullu starfi og ef einhver finnur skrýtna lykt af mér á næstunni........ þá er ég bara með nýjustu ilmvatnslyktina frá Spáni. Seinni taskan mín birtist svo frá Akureyri í morgun og taskan hennar Sigrúnar kom í hádeginu, og ... þær voru með heilu og óskemmdu innihaldi.

Það er ekki laust við að mér sé létt yfir að farangurinn sé allur kominn til skila og uppúr stendur að þessir dagar voru yndislegir og okkur leið vel...... öllum. 

 

 


Framhald.....

Öll vorum við ferðafélagarnir tiltölulega sátt við íbúðirnar okkar við komu í þær seint um kvöld.  Helst að við kviðum því að ekki væri hægt að hafa opinn glugga á svefnherbergi að næturlagi sökum þess að hann sneri út á svalir sem gengið var um inn í okkar íbúðir og fleiri.  Held nú samt að glugginn hafi bara verið aftur fyrstu nóttina nema hjá Ingibjörgu og Ævari, þar sneri glugginn beint út að stigauppgöngunni úr anddyrinu, okkar íbúðir voru töluvert fjær. Og hlið við hlið, ekki var það verra. Fyrsti dagurinn fór í grenndarkönnun og komufund, já og prófa sólina. Um kvöldið fundum við þennan fína kínverska veitingastað til að borða á .  Þar var sko gott að vera, þjónustan til fyrirmyndar og maturinn snilldargóður. Við höfðum pantað saman þannig að þetta voru fjórir réttir og súpa á undan. Eftir súpuna og fyrri matarskammtinn strauk Ævar  um magann og var saddur ...... og skelfingarsvipurinn sem á hann kom þegar Gísli sagði rólega .... aðalrétturinn er eftir.  Hann hélt greinilega að Gísli væri að ljúga að sér.

Morguninn eftir höfðum við pantað okkur ferð í dýragarð, Ævar sagðist ætla að heilsa upp á vini sína og ættingja ( asna og apaketti) . Ferðinn var aflýst sökum ónógrar þátttöku en við erum þrá og fórum þetta bara á eigin spýtur seinna í vikunni og reyndist ótrúlega auðvelt... og gaman. 

Ég sé að það verður lööööng færslan ef ég ætla að rekja svona hvern dag, svo ég stytti þetta.

Gönguhrólfarnir frá í fyrra, Gísli og Mummi, voru duglegir við að hreyfa sig, þeir viðruðu forvitnina og sjálfa sig næstum alla daga. Seinni sunndaginn gengu þeir alla strandlengjuna inn á svokallaðan Laugaveg ..... og Sigrún með þeim. Þolið okkkar hinna leyfði þetta ekki svo við tókum bíl þangað og röltum um á markaði sem þarna var og hittum þau síðan , þökk sé "símaófétinu", gemsanum.  Við fórum líka í skoðunarferð að El Teide, hæsta fjalli eyjunnar, skoðuðum eyjuna La Gomera í fygld Jörundar Guðmundssonar eftirhermu og fórum svo hringferð um Tenerife, nema Sigrún og Mummi, þau voru búin að fá nóg af rútum og voru heima.  Eiginlega sem betur fer, því Mummi var varla búnn að jafna sig af astmakasti og rútan var ömurleg .... mér tókst að ofkælast þennan dag og er ekki orðin góð enn.  

Okkur leið að öllu jöfnu óskaplega vel saman, endalaust gat Ævar séð okkur fyrir hláturskasti oft á dag, aðallega þó við að lesa matseðla. Sænska orðið fleskekött var til hástemmdra yfirlýsinga um að hann ætlaði sko hvorki að eta ófleginn né  fleginn kött, ekki nú og ekki seinna. Þjónninn kom í hendingskasti til að athuga hvort eitthvað væri að og þá lágum við hin að sjálfsögðu nánast fram á borðið í hláturskasti.  Til allrar guðslukku vorum við einu íslendingarnir á þessum stað þetta kvöldið.  Og sushi maturinn, jésúspéturjúlíus og allir hinir.  Þetta var hann sko alveg til í að smakka.  Maðurinn sem  fær flog við sitt eigið eldhúsborð sé maturinn ekki gegneldaður ...... pantaði sér hráan mat.  Sem og kona hans, Sigrún og Mummi.  Við Gísli héldum okkur á varfærnari slóðum í matarvali.  Jújú, maturinn kom og þau höfðu pantað þetta nokkuð fjölbreytt svo væri nú hægt að smakka hjá hinum. Á diski Ævars var svona græn sletta af einhverju sem við vissum ekki hvað var að sjálfsögðu, en hann  setti skammt af slettu þessari á lítinn bita eins og um venjulega rababarasultu væri að ræða..... smjattaði aðeins en bara stutt og guð minn góður..... allt í einu galopnaði hann munninn og út skutust grjón og torkennilegar grænar flyksur langt fram á borð.... og hvæsið sem á eftir fygldi þýddum við í hvelli .... vatn strax.  Það var að sjálfsögu ljótt af okkur hinum að hlæja svona brjálæðislega að þessu, við gátum varla rétt honum meira vatn fyrir hlátri. En Ævar er hetja og náði að slökkva þennan logandi eld í munni sínum og gat haldið áfram að borða, en grun hef ég um að restin af þessari grænu slettu hafi verið ósnert eftir þetta, aðeins fengið ljótt hornauga.

Búin að pikka þetta í þrem áföngum síðan um fimm í morgun, með hléum.  Helmingurinn af töskunum skilaði sér í gærkvöldi, hversvegna er efni næsta kafla....... 


Ferðasagan Tenerife....

Hún hófst eiginlega tveim dögum fyrir brottför, þá kom Gísli heim með þær fréttir að við þyrftum á fund um morguninn sem við flygjum út, með manni sem hafði verið að spá í kaup á Efrimýrum síðan í sumar og við vissum ekki betur en að væri hættur við.  Þeir voru reyndar tveir saman að spá í þetta en nú hafði eitthvað breyst.  Ég reyndist nú ekki neitt tiltakanlega upprifin yfir þessu, sá fram á jafnvel einhverjar hræringar á fríinu okkar langþráða.  En suður fórum við 6 nóvember, komu við á Bakkastöðunum til að knúsa heimilisfólkið á 75 og síðan var það Keflavíkin.  Þar beið Oddný með uppbúið gestarúmið fyrir okkur og klippti mig áður en ég fór að sofa.  Betra nefnilega að sjá út þegar verið er að flakka á ókunnugum slóðum.  Nú, svo var það að vakna snemma, í fötin og á fund inn í Hafnarfjörð.  Ég ætla ekki að tíunda nákvæmlega hvað þar var sagt, annað en víð fórum þaðan út eftir tæplega tveggja tíma spjall .... með tilboð í jörðina. Og skelfilegan "höfuðverk". Ég hafði nú reyndar til öryggis bent öllum viðstöddum á þá staðreynd að við værum að fara úr landi upp úr hádeginu sama dag ... og það væri engin talva né bókhaldsgögn með í töskunum.  En við þurftum ekki nauðsynlega að svara þessu strax, en því fyrr, því betra auðvitað.

Það var nú það.  Við vorum frekar þögul af stað til baka ... og ég keyrði.  Gísli lagðist í símaaat að sjálfsögðu. En út fórum við og gekk vel flugið, ég var bæði með bók og neyðarkitt (útsaum) í handfarangri mínum, held að Gísli hafi ætlað að sofa en sú áætlun fór örugglega öll út um þúfur.  Hann var að hugsa, svo grimmt að ég fann brunalykt yfir ganginn sem var á milli okkar.

Nú er farið að leka bæði úr nefi og augum og lyklaborðið í stórhættu, framhald síðar. 


Helgin framundan.......

Ójá, ekki ber á öðru, meir að segja snjóar pínu ..... og ég er enn kvefuð, komin að vísu á einhver hrossalyf við þessari óværu, skil ekkert í hvað mörg lyf eru orðin framleidd í stærðum fyrir kokstærð hrossa eður kúa frekar en manna. Nema þetta sé líka notað í téðar tegundir líka við kverkaskít og hroða í lungum ... tékka á þessu.

Árný mín fór í langþráð frí á fimmtudaginn eftir að hún lauk verkum, mamma voða kokhraust ... að  hún gæti nú líklega pakkað með Sollunni um kvöldið og hjálpað kallinum um helgina.  Ekki nú aldeilis, hann var með efasemdir um að væri hægt að hafa mig eina um kvöldið heima ... út úr húsi færi ég ekki að hans mati.  Þar sem getan var engin til að þrefa við hann þá háttaði ég bara og skreið í rúmið, með lopasokka á táslunum og hitapoka þar undir og veitti ekki af, ég skalf þá stundina.  Hann fór svo sjálfur í sveitina með Sollu og þau luku pökkum fyrir gærdaginn á methraða. Takk, elsku Sollan mín, það er ekki ónýtt að hafa þig í "björgunarsveitinni " okkar Gísla.

En nú er margt að breytast, best að fréttir mánaðarins fari út í ferðasögunni, varla hægt að aðskilja þetta tvennt..... 


Komin heim, ójá ......

Meir að segja í fyrradag, að vísu seint mjög og kom þar margt til.  Svosem eins og seinkun á flugi, týndur farangur og fleira " þægilegt ". Plús það að ég hafði ofkælst á mánudeginum og var því alls ekki í góðu formi til að þola langt flug, né óþægindi af nokkru tagi, kom því heim heyrnarlaus með öllu á öðru eyra og alveg að kafna úr kvefi. Töskurnar okkar eru enn ekki fundnar og til að forða lyklaborðinu frá að leki niður á það eitthvað slæmt úr nefi mínu, verður ferðasagan að bíða.

Tenerife ...... á morgun.

Loksins frí ... langt í burtu frá áhyggjum og amstri hversdagsins og verður þá betur í stakk búnn til að takast á við þetta allt saman.  Búin að vera tölvulaus síðustu daga og borðið sem þessi stendur á (barnatalvan á skrifstofunni) stendur ekki jafnt í alla fætur svo það er ekki spennandi að pikka ........ elsku Sævar viltu vera svo vænn að þrífa gömlu mína meðan eigandinn er í sólbaði......

Hef ekki hugmynd um hvort ég get bloggað eitthvað í sólbaðinu.......


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband