. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Í stíl við flest annað.......

Tölvan mín er að bila eitthvað, svo að ég á ekki von á að verða vel virk hér inni á næstunni, get samt fyglst með ennþá.....

Sólskin úti ..... myrkur inni .....

Ég held að guð sé upptekinn í einhverju öðru, áhyggjurnar mínar eru allavega að angra mig ennþá.

Samt er sólskin úti og sumarið á næsta leiti, húsbíllinn minn er að koma úr vorskoðun í dag og tilbúinn í sumarið, verst að sumarið hjá Gísla hefst líklega ekki fyrr en í júnílok ... þökk sé andsk..... skattinum.  Veit ekki hvort ég hef getu til að kljást ein við Göslann, þ.e húsbílinn.  Þegar við keyptum hann stóð stórum stöfum aftan á bílnum.... Lilli.  Þetta fannst mér engin leið og plokkaði snarlega af en er ekki búin að fá samþykki fyrir ... Gösli... í staðinn.

Sat hér ein í gærkvöldi og fygldist með söngvakeppninni og viti menn, þau komust áfram, Regína Ósk og Friðrik Ómar, og stóðu sig svona listavel, ekkert fiður, tjull og rusl né skrækir ..... bara söngur og lífsgleði sem geislaði af þeim.  Nú er bara að sjá hvernig þeim vegnar í aðalkeppninni annað kvöld.  Er að hugsa um að bæla sófann við að horfa annað kvöld í fygld hvítvínsflösku og kjúklings, kalkún ætla ég ekki að tala um í bili síðan írski hryllingurinn gekk fram af mér á þriðjudagskvöldið......


Takk stóra systa.....

Fyrir kommentið þitt um hann Sigtrygg, það varð til þess að ég fór að velta fyrir mér gildi þess að gefa. Stærsta gjöfin í þessu tilviki var auðvitað drengurinn sjálfur, allir sem þekkja hann vita að dýr eru hans uppáhald.  Og því var  gjöfin hennar Kötu stór þegar ég bað hana í vetur að lofa mér að koma með  hann í heimsókn í sauðburð í vor. Ég held að hún hafi ekki einu sinni spurt Jonna, heldur sagt honum  að við kæmum.  Mér þótti heldur ekki ónýtt að gera þetta, ég er sjálf svoddan rollukelling eins og Sigrún systa vissi ....eftir að hafa haft mig í kjölfarinu mörg vor í sauðburði.

Ergo ..... við Sigtryggur erum bæði alsæl með dagana, ástarþakkir Kata og Jonni, ykkar gjöf var stór. 


Skilaboð.... frá guði.

Góðan dag .... þetta er Guð. 

Ég mun sjá um öll þín vandamál í dag og þarf ekki þína hjálp til þess.

Slakaðu því á og eigðu frábæran dag.

 

Ég fann þessa frábæru speki inn á netinu áðan og ákvað að tileinka mér hana, það er svo margt sem herjar á mína hrelldu sál þessa dagana og ég fæ engan vegin við ráðið, veikindi í fjölskyldunni, árlegar áhyggjur um lengingu sólarhringsins hjá eiginmanninum, ungarnir mínir, fleygir jafnt sem ófleygir..... hvaða vitleysingur hélt því fram að um leið og börnin manns kæmust á fullorðinsaldur, væri öllum áhyggjum af þeim, af manni létt ??????


Það er rétt.....

Vika síðan Sigtryggur minn kom röltandi hér upp stigann í kjölfar frænku sinnar, við fara í Steiná amma?  Jú, þangað var förinni heitið, þegar amman væri komin í eitthvað annað fatakyns en náttfötin og búin að taka til það sem þurfti að fara með í sveitina.  Þetta tók ekki langan tíma og síðan var haldið af stað.  Ég prófaði, komin langleiðina að Skagastrandarvegamótum... beygja hér?  Nei amma, halda áfram.  Svo tók við áframhaldandi fuglafræðsla, hann sá skúfönd, toppönd, rauðhöfðaönd og einu sinni sagði hann í hlakkandi tóni... neiii gargönd.  Mér var allri lokið... af hlátri.  Einnig sá hann grágæsir og helsingja já og himbrima fram við Skriðuland. Þegar við renndum í hlað á Steiná var okkur vel fagnað af húsráðendum sem og gestum, Grímur og Harpa voru þarna langa helgi með bæði sín börn.  Sem og Finnur kúasmali hinn yngri og var þarna að frumsýna kærustu sína. Fleiri gestir bættust við um hádegisleytið og þar sem dróst að fara í húsin og Sigtryggur var orðinn óþolinmóður, búin að koma og fara í dyrunum oftar en ég hafði tölu á, stoppaði hann loksins og spurði hvað þetta droll ætti að þýða.  Hann fékk leyfi til að fara á undan og hentist niður í hús með það sama.

Þar undi hann sér einna best alla þá daga sem við stoppuðum, var fljótur að læra að hverju þurfti að gæta hjá kindunum hvort þær væru að bera. Sumar var hann farinn að þekkja með nafni, Kata var dugleg að kenna honum nöfn og hann var búinnn að dæsa i rúman sólarhring yfir óborinn Hnýflu, svartri kind sem Kata benti honum á.  Það var því sprettur á Sigtryggi þegar hann kom úr aðgæsluferð.....Hnýfla búin fá eitt lamb.  Ég rauk upp og á eftir honum niðureftir, vopnuð myndavél.  Þar náði ég þessum fínu myndum af Hnýflu við að klára verkið með gæslumanninn standandi yfir sér.  Síðan var þetta botnlaus gleði hjá drengnum, eltandi alla út um allt , ýmist á fjórhjóli, sexhjóli eða labbandi.

Ég er þreytt, þó sé í bloggstuði...........pása. 


Hvítasunnudagur hinn fyrri......

Ég er komin heim eftir dvöl í borg óttans síðan á föstudag.  Átti góða daga með Bakkastaðagenginu mínu, mest þó með yngri hlutanum.  Í dag sneri ég svo í norðurátt með Sigtrygg Einar sem ferðafélaga, hann er að fara í Steiná í sauðburð með mér í nokkra daga.  Það er alveg snilld að ferðast með þennan dreng.  Nú er hann orðinn svo stór að hann má sitja fram í hjá manni og þá er auðveldara að tala við hann.  Enda er ég öllu fróðari um hinar ýmsu gæsa og andategundir,hann tilkynnti hróðugur um einn smyril og himbrima og tókst á loft í sætinu þegar hann sá nýkastað folald.  Og víða sá hann kindur og einhverstaðar voru þær allar kollóttar..... eins og norsku kindurnar sagði hann.  Nú hváði ég... eru þær þá sköllóttar?  Nei amma þær eru kollóttar.

Umferð var töluverð á móti okkur, mér til nokkurrar furðu og ófáar hestakerrur sáum við aftan í misstórum ökutækjum.  Þegar ég kom á svokallað Skinnastaðarhorn mættum við bílalest og fremst var jeppi með kerru, enn ein hestakerran tautaði ég. Amma þetta er hjólhýsi, dæsti drengurinn, þekkir þú ekki í sundur hestakerru og hjólhýsi.  Það var nú það.

Hann hló líka alveg svakalega þegar hann virti fyrir sér hrossahóp sem var frekar ósnyrtilegur um fax og tagl. Stjúpfaðir minn segir eins og úlfaldar, en bætti svo við... en þeir lifa ekki á Íslandi.  Og hló síðan hátt og innilega.  Núna er hann farinn upp í Efrimýra með afa sínum og frænku að pakka eggjum, búinn að fá nóg af ömmu í bili. 


Ég hélt.....

Að það væri komið árið 2008, en við lestur 24 stunda, forsíðuna í morgun , sá ég ekki betur en allavega ráðamenn á Ísafirði væru komnir öld til baka.  Nú eru þeir að taka upp meðferðina sem niðursetningar fengu fyrir áratugum síðan.  Flytja fólk nauðugt út af heimili sínu, að vísu bara í sex vikur .... til að spara.  Ég hefði haldið að þetta væri ekki hægt.  Þetta er að vísu hjúkrunardeild dvalaheimilisins Tjörn sem á að flytja tvo einstaklinga af, en þetta er samt heimili þeirra sem þau vilja eðlilega vera á sem lengst.  Ég á kannski ekki að vera að hugsa svona, en ..... ef að gamla Camilla deyr nú í sumar meðan hún er vistuð nauðug á Ísafirði, þá hafa yfirvöld sem réðu þessu það ævilangt á samviskunni að konan sem fæddist á Þingeyri, ól þar allan sinn allan langa aldur, fékk ekki að ráða því að deyja þar.

Fyrirgefðu mér Camilla mín þessa hugleiðingu mína, ég vil að þú fáir að vera í friði á Þingeyri allan þinn aldur, þarna í firðinum á ég rætur eins og þú og þykir vænt um þær .... og ég vil ekki að í sparnaðarskyni sé farið svona með nokkra manneskju....... 

Til að sjá fréttina smelltu HÉRNA og stækkaðu svo fréttina til að skoða betur 

 


4 maí .... sunnudagur.

 Þær luku við flutninga í gær, frænkurnar Gerða Solla og Árný, fyrir þá síðastnefndu.  Við byrjuðum á sveru morgunkaffi í gærmorgun meir að segja Gísli kom uppeftir.  Svo dreifðist fólk til verka, Valan heim í breytingar sem þar standa yfir, Lena heim að læra og gamli í vinnuna.  Anna Guðbjörg fór alsæl heim með Völu, sleit þar út frænku sinni Svanhildi plús trampolini og heita pottinum. Enda þreytt ærlega þegar hún kom hér eftir kvöldmat með mömmu sinni sem var á leið í innflutningspartý hér niðri.  En hér ætlaði sú stutta að gista.  Eitthvað var hún lítil þegar mamman kom upp að breiða ofan á, en það var fljótt að hverfa þegar ég kenndi henni að rúnta..... með fjarstýringunni á rúminu hans afa... og mínu.  Endirinn var sá að ég var ýmist á haus eða brotin saman í miðju, bæði fóta og höfuðgafl í efstu stöðu og stuttan flissandi.  Endirinn á þessu varð nú samt sá að við snerum réttar og nudd undir mínum fótum og hennar baki og rassi. Og sú var fljót að sofna þegar hún loks stoppaði ærslin.  Afi kallinn kom svo heim frá pökkun uppi í hænsnahúsi rétt þegar hún var sofnuð.  Við litum aðeins niður í partýið, ég entist stutt og fór því að sofa hjá Önnunni minni hinni smærri, sú stærri var í vinnunni sinni á Hrafnistu og bauð góða nótt að vanda á leið í vinnuna, þá hringir hún í pabba sinn.

Ég rumskaði þegar Gísli skilaði sér upp, þá voru fleiri mættir niðri... Gummi, Vala, Fannar, ekki höfðu þau nú samt hærra en svo að ég sofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en stuttir fætur tipluðu inn gólfið í morgun og Anna Guðbjörg klifraði upp í á milli afa og ömmu og alltaf skal hún hnipra sig niður í fang afa, þar svaf hún oft lítil þegar hún var í passi hjá okkur.   Yndisleg....... 


Haltur leiðir blindan.....

Var málsháttur sem hefði mátt heimfæra að hluta til um okkur Árnýju í morgun, ég hölt og hún handlama á hægri hendi við að verðmerkja egg. Getan til að lyfta kössum var lítil þannig að við tókum þá á milli okkar , sumum lyfti ég af bretti og beint á vinnuborðið.  Enda vorum við bæði seinar við þetta, kláruðum ekki og tókum okkur þó pásu.  Eða allavega ég, fór inn í bæ og hallaði mér meðan hún fór með egg niður á Blönduós.  Ég dottaði aðeins .... og sneri við..... mörg ár afturábak.  Og viti menn, ég heyrði í litlum fótum, glamur í leikföngum og þras um þau, hurðarskelli og hvaðeina.  Nú er gamla húsið mitt að verða tómt, þar sem við Gísli ólum upp hópinn okkar stóra og minningarnar kalla úr öllum hornum.....

Enn er ....

Bloggvinalistinn að stríða okkur, Lena mín, þegar ég ætlaði að vista beiðnina þína sem bytheway birtist tvöföld hjá mér... og þú varst "einföld" fyrir .... þá datt allt um þig út.  Hvað gera Danir nú?  Ég er allavega að leika mér í tölvunni þó snemmt sé.  Er búin að vera vakandi af og til í nótt og glaðvaknaði rétt fyrir fimm við alveg skelfilega sjón...... mér fannst hjásvæfill minn elskulegur vera hauslaus við hliðina á mér. Athugun leiddi í ljós að höfuð hans var undir koddanum enn ekki ofan á honum. Mér létti óneitanlega og hafði mér svosem til afsökunar að vera bæði gleraugnalaus og nývöknuð......

Inni í litla herbergi sefur svo lítill gestur, Smári Þór.  Hann hefur ekki verið næturgestur hér lengi og í gærkvöldi uppgötvaði amma ástæðuna.  Hann þarf ekki að vera í passi lengur þegar mamma er að vinna og ekki er skóli.  En að vera boðin gisting hjá ömmu og fá að sofna í afaholu var allt annað mál.  Afi hans lenti reyndar í basli með að færa hann þegar hann vildi komast í sitt rúm .... drengurinn sefur skelfilega fast og var alveg eins og spýtukall að eiga við ...... og orðinn stór.

Best að athuga hvort kallinn er búinn að vefja sig innan í mína sæng til viðbótar sinni, glugginn er galopinn.......


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband