. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ferðasögurest .......

Mér var tjáð að það vantaði botninn í ferðasöguna.  Að vísu er það rétt að margt er ósagt úr ferðinni en hvort það ratar allt hér inn er ekki víst.

Allavega sagði ég ekkert frá heimsóknunum sem við fórum í.  Fyrst til að heimsækja var yndið hún Kolla úr Hólabergi og hennar fjölskylda sem tóku á móti okkur af mikilli gestrisni og víst urðu þeir kátir Sigtryggur og Kristján að sjá hana aftur ... og ennþá kátari að þau skyldu ekki vera búin að pakka leikjatölvu heimilisins niður til flutnings heim aftur.  Við áttum þarna yndislegan morgun og fengum fullt af leiðbeiningum hjá þeim. Fundum ódýrari búð til að versla í til heimilisins eftir þeirra tilsögn þegar við lögðum af stað heim í hús ... í grenjandi rigningu.

Næst urðu þau Siggi Davíðs og Aris Njáls, þau búa í Danmörku í bæjarfélagi sem heitir Hundslund, þetta er eiginlega úti í sveit, gamall búgarður sem þau eru að gera upp.  Og alveg yndislegur staður, sé ekki rigning er þetta paradís á jörð. Skógur allt í kring, tjörn í garðinum með fiskum í, hægt að tína hindber og epli fyrir utan hús. Þarna áttum við alveg meiriháttar dag hjá þeim og ekki  þarf að spyrja að hversu vel drengirnir undu sér , já og ekki síður Halla Katrín.  Við komum svo aftur í hlaðið hjá þeim daginn áður en við fórum heim til að sækja sniðugan hlut sem Siggi útvegaði okkur.

Svo er það síðasta heimsóknin. Einhverntíman fyrir 1950 flutti Salóme Gísladóttir, föðursystir Gísla til Danmerkur, giftist þar og eignaðist fjögur börn.  Hún er löngu látin og nokkur ár síðan maður hennar dó, sem og eini sonurinn sem þau áttu.  Eftir lifa þrjár dætur sem allar búa í Danmörku, tvær í Kaupmannahöfn og ein í Árósum.  Við höfðum heimilisfang hennar í farteskinu og eins mundi Gísli vel hvar föðursystir hans bjó.  Það heimilisfang leituðum við uppi fyrst og sáum þá hvar Lóa frænka eins og hún var yfirleitt nefnd, hafði búið nánast allan sinn búskap. Síðan var það að leita uppi dótturina.  Þar var enginn heima en Gísli skrifaði henni nokkur orð og setti í póstkassann. Vissi að hún skildi talsvert í íslensku en talaði hana ekki.  Morguninn eftir hringdi hún og bauð okkur öllum í kvöldmat daginn eftir.  Það þáðum við og þrátt fyrir tungumálaerfiðleika svolitla var þetta yndisleg stund, ég táraðist næstum  þegar ég sá þessa litlu konu faðma að sér frændann sem hún hafði ekki séð nema einu sinni og það fyrir áratugum síðan.  Bæði vinna þau tengt börnum, hún er hjúkrunarfræðingur en hann starfar sem félagsráðgjafi sem gerði það að verkum að ekki þurfti að segja þeim neitt hvað drengina varðaði þegar þau vissu að þeir væru einhverfir.  Nema að þeim fannst ótrúlegt að þeir væru albræður með þessa sömu greiningu.

Báðar heimsóknirnar sem ég sagði frá í byrjun voru yndislegar, en lái mér hver sem vill þótt í minningunni sé það kvöldið með Önnu Hjort og fjölskyldu sem uppúr stendur......... 


Morgundagurinn........

Þessi sem ég talaði um í gær er runninn upp, svo nú er bara að byrja.  Þvottafjallið lækkar, við Anna verðum að þvo hverja einustu tusku sem með fór sökum raka og fúkkalyktar.  Vorum svo óheppin að farangurinn okkar hefur staðið utan dyra á Kastrup í ausandi rigningunni sem þar var, það lak úr barnabílstólnum þegar Óli greip hann af farangursbandinu í Leifsstöð.  Og allar töskur meir og minna blautar.  Þær komu þó .... minnug ófarannna í fyrra.

Þessi ferð verður um margt ógleymanleg, við komustum að því að Legoland hentar börnum misvel, mínir einhverfu ömmustrákar áttu ekki þolinmæði fyrir þessar endalausu biðraðir og mannfjölda, þó gekk okkur betur eftir að við skiptum liði og höfðum þetta eitt par um tvö börn.  Oftast fygldu Kristján og Sigurjón okkur afanum.  Við komum þarna tvisvar en datt ekki í hug að leggja þetta á þá í þriðja skipti.  Dýragarðarnir voru hinsvegar mikil snilld, við skoðuðum þrjá stóra garða og skemmtum okkur vel í öll skiptin.  Sigtryggur hafði mikinn áhuga á að finna lemúra, ég vissi ekki neitt annað en þetta væri einhver apategund og yrðu þar af leiðandi í búri.  Rétt fyrir innan inngang í garðinum í Ebeltoft voru þeir hinsvegar í manngengu búri og fók gat valsað um þar að vild.  Þetta átti nú við dýrafræðinginn litla og inn fórum við öll.  Þessi kvikindi reyna að stela öllu lauslegu og gleraugun mín komu strax í fókus hjá einum lemúrnum sem klifraði upp í fang mér þegar ég settist þarna á stein. Gísli náði gleraugunum af honum en tókst ekki að koma í veg fyrir að greyið sleikti hendur mínar vel og vandlega og snýtti sér síðan niður á brjóstin á mér.  Maðurinn minn elskulegur var nefnilega önnum kafinn við að mynda athæfið.  Þarna var hægt að fara í bílferð innan um villtu dýrin sem við fórum í og það voru ekki mörg dýr sem Sigtryggur þekkti ekki. Ef nokkuð.

Líka heimsóttum við dýragarð í Álaborg sem vakti mikla lukku, man ekki hvað sá þriðji hét eða hvar hann var.  Líka undum við heima við með börnunum að leika við þau, bæði afi og amma sáust sparka í bolta ... sem ekki er algengt og röltum í geitaskoðunarferð með þeim, það voru geitur þarna á svæðinu í hólfi sem gaman var að heimsækja, sérstaklega fannst Sigtryggi gaman hjá þeim.  Hann tíndi engisprettur í box, fangaði frosk, gróf holur þrátt fyrir bann og skoðaði allar pöddur sem hann fann.  Honum var samt illa við geitungana sem við höfðum talsvert á flögri í kringum okkur við lítinn fögnuð allra.

Framhald seinna.......... 


Komin heim......

Alla leið heim meina ég, kom til landsins seint í gærkvöldi og norður í dag. Reyni að skrifa ferðasöguna á morgun ...... á milli þvottavéla.  Skelfing verður gott að hátta í eigið rúm í kvöld......

Danmörk .... ekki á morgun heldur hinn.......

Já þetta er alveg að bresta á, töskur komnar í pökkunarstöðu og mest allt sem á að taka með niður í þær, lýk þessu í fyrramálið.  Í kvöld á að elda kótilettur  að hætti ömmu á Þingeyri, sögðu þær Gerða og Árný áðan og komu með hráefnið.  Vala og börnin runnu á lyktina og koma líka.

Hef ekki hugmynd um hvort ég kemst í tölvu úti .... saknið mín bara þangað til að ég kem til baka...... 


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband