. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Versnandi minni......

Og hækkandi aldur ...... ætli það sé ekki ástæðan fyrir því að ég gleymdi að láta Majuna mína vita í morgun að ég kæmi ekki í sjúkraþjálfun ... sökum annríkis við að snýta mér.  Mundi eftir þessu svo seint í gærkvöldi að ég vildi ekki hringja ... of vel alin upp til að ónáða fólk eftir klukkan tíu á kvöldin, nema brýna nauðsyn beri til.  En var svo búin að gleyma þessu í morgun.

En ég mundi eftir að tilkynna manni mínum hvaða dagur væri á morgun ... svona ef hann skyldi hafa gleymt því.

  Núna er hann komin á bakvakt á Efrimýrum næstu tíu dagana, húsráðendur og dóttirin litla eru farin í síðbúið sumarfrí til Austurríkis, ætla að heimsækja þar hryssu sem þau áttu einu sinni og núverandi eigendur hennar.  Vinnumaðurinn sér um daglega umhirðu í púddukofanum en Gísli um verðmerkingu og vöktunina.  Við erum búin að leggja Núpnum okkar í hlöðuna í Saurbæ, nýbónuðum og fínum og strax farin að hlakka til að sækja hann í vor og leggjast út á Laxárdalnum......

Árný kom hér áðan með kökur í báðum höndum frá elskunni henni Jennu, vinkonu sinni.  Einhverntíman hafði ég sent stelpunum hennar dúkkuföt og nú vildi hún launa mér, hjartans þakkir Jenna mín, ég veit af fyrri reynslu að kökurnar þína eru hreint sælgæti.

Morgundagurinn verður bara gleði og gaman ... þrátt fyrir hækkandi aldur.


Blautur dagur og réttir búnar .......

Það er búið að vera svo mikið að gera undanfarna daga að bloggið hefur mátt bíða betri tíma.  Anna og Óli birtust hér á föstudaginn, með Sigurjón og Höllu Katrínu meðferðis.  Kristján kaus að vera heima og halda sér við helgi að sínu sniði og gista hjá afa og ömmu í Heiðarseli. Við skildum þau eftir hér heima á Húnabrautinni, nema Sigurjón, hann fékk að fara með í Núp .... á Núpnum.... og gista.  Han var reyndar orðinn svolítið langeygur eftir mömmu og Óla, þó voru þau komin vel fyrir hádegi.  Sigurjón hóf sinn dag hinsvegar fyrir sjö... með því að bjóða ömmu sinni góðan dag ... þangað til amman urraði undan sænginni .... það er nótt ennþá drengur og þá kom eymdarlega ...... en ég er svangur amma.   Mér tókst að hindra frekari samræður fram undir átta, en þá lá við að ég væri farin að heyra garnagaul í drengnum.

Dagurinn varð góður, þurrt veður og bjart, mannmargt á Kirkjuskarði, fleiri sem fóru á hestbaki á eftir stóðinu en fjöldinn á því sjálfu. Ástæðan kom í ljósí gær, það vantaði svona u.þ.b 2/3 af hrossunum frá Enni.  Ferðin út dalinn gekk seint, við vorum komin á undan út í Núp og inn í girðingu áður en stóðið birtist ... aðeins þéttur hópurinn og stoppað strunsið á þeim fremstu fyrir neðan girðinguna hjá okkur og síðan haldið áfram.  Bílalestin sem á eftir fór var hinsvegar stopp fyrir neðan Mánaskál lengur en manni þótti gott, ástæðan var slasað hross hjá nýja bóndanum á Efrimýrum.  Þegar við komum þangað, klukkan að ganga sjö, með nestisbílinn þeirra, sáum við ástæðuna fyrir töfinni inni á geymslugólfi og dýralækni önnum kafinn við viðgerð.  Sem tókst að því er ég best veit. Kvöldinu eyddum við með þeim hjónum og gestum í góðu yfirlæti á gamla heimilinu okkar, Smárinn minn var kominn til afa og ömmu og var því með okkur og þótti skrýtið að koma þarna og ekki afa og ömmu dót í stofunni ..... og allt öðru vísi allstaðar sagði hann.

Dagurinn í gær varð hinsvegar rigning út í eitt og lítið að gera í dyravörslunni hjá mér sökum þess hve margt vantaði.  Til allrar lukku hafði Gísli fallist á að koma með húsbílinn út að rétt svo maður hafði skjól þar til að næra sig og hvíla.  Gólf bílsins bar þess glögg merki að þar höfð gengið um margir óhreinir fætur en Árný mín hjálpaði pabba sínum að tæma og þrífa bílinn þegar heim var komið.  Við vorum fram á kvöld að ganga frá öllu úr bílnum enda var þetta síðustu notin á honum í sumar.... 62 nætur var sofið í honum, fyrsta heila sumarið í okkar eigu.

Það voru frekar þreytt hjón sem lögðust til hvílu klukkan að ganga ellefu í gærkvöldi hér á Húnabraut ellefu.


Steiná í dag.......

Sagði drengurinn snemma í morgun , svona til að minna sína gleymnu ömmu á hvað gera skyldi eftir hádegið.  Til allrar hamingju hafði ég sýnt honum á klukkunni hvenær brottför væri..... annars hefði hann spurt á tveggja mínútna fresti um leið og hádegið væri að hans mati liðið.  Hann hleypti hundblautri Elísu inn um eittleytið, hún þurfti að sjálfsögðu að kanna hvort hún mætti ekki koma með.  Svo skilaði Anton sér um leið og skóli var búinn ... svangur ærlega, sagðist hafa fengið óætt grænmetisbuff í hádeginu sem hann hefði ekki getað borðað.  Amma leysti úr þessu ... ekki var hægt að fara með svangt barnið í talþjálfun... ekkert heyrst fyrir garnagauli.  Á réttum tíma var svo lagt af stað, Sigtryggur alveg uppnuminn af þessu, hvort að væri ekki hægt að fara strax í Steiná?  Ég leysti óþolinmæði hans með því að fara með þau í bakaríið á Króknum í kaffitíma.  Tók með snúð og kakó handa Antoni svo hann móðgaðist nú ekki.  Svo var það fyrirheitna landið .... Steiná.  Þar tók Kata á móti áhugasömum hvolpaskoðurum,  Sigtryggur skaust beint í kjallaradyrnar.  Þegar ég fór svo að búast til heimferðar.... kallaði hann bless af löngu færi... hann ætlaði sko að vera eftir til morguns.


Þreyttur afastrákur.....

Var fljótur að bursta tennur og koma sér í bólið í gærkvöldi enda komu þeir seint norður.  Í morgun mætti ég honum í stiganum þegar ég var að fara í sjúkraþjálfun.  Afi fann morgunfóður handa þeim.... amma var rokin út.  Þegar ég var svo komin til baka var snáðinn kominn í föt og tilbúinn í daginn. Við fórum og heimsóttum Maju og Guðjón Frey eftir hádegið, reyndar hélt Sigtryggur sig utan dyra með heimilishundinn Lady ... þangað til Maja náði drengnum inn með nýbakaðri köku og mjólk. 

Við erum búin að eiga góðan dag ... á morgun er það svo Steiná .... drengurinn ætlar að gista þar eina nótt og skoða hvolpana hennar Perlu sem eru nýfarnir að sjá.


Forréttindi á æskuárum .....

Ég var að lesa bloggið hans Ómars Ragnarssonar ( ekki læknis ) þar spjallar hann um þau forréttindi sín í bernsku að hafa verið sendur í sveit og hafa upplifað Laxárdalinn að hausti til í smalamennsku.  Fyrir nokkrum árum síðan var ég fram á Kirkjuskarði  laugardaginn um seinni göngur.  Veður var gott, svo gott að það var óþarfi hreinn að vera í utanyfirflík.  Eitthvað seinkaði smalamönnum framanað og mér hugkvæmdist að rölta upp á mel sunnan lækjar og vita hvort ég sæi til smalanna.  Þegar ofar dró sá ég að þarna var einhver staddur með stóra myndavél að vopni.  Sá reyndist vera sænskur blaðamaður sem ég gaf mig á tal við.  Gat skýrt út fyrir honum að þarna væru æskuslóðir mínar, benti honum á hvar ég hafði átt heima og hvað ég hefði verið að gera fram í Kirkjuskarð svona tvisvar til þrisvar í viku.  Miðað við hans uppvaxtarslóðir í blokkaríbúð sem hvergi sást út úr nema í steinvegg eða malbikað port, þá naut ég forréttinda í bernsku og það sagði hann mér.  Þegar reksturinn var svo kominn út hjá Núpi var hann þar kominn ... að mynda gamla bæinn minn .... vel kátur.

Gísli fór suður í morgun og kemur aftur í kvöld ... með Sigtrygg Einar með sér.  Hann fær að vera einn hér hjá ömmu og afa fram á helgi, skreppa til Kötu og Jonna ... og fara svo í réttir um helgina.  Þá verða mamma hans og Óli komin norður með hin systkinin til að taka þátt í réttarfjörinu.  Þau fá gistingu hér heima, afi og amma verða fram á Núpi með Smárann sinn í húsbílnum um helgina.  Hann vill vera með afa og ömmu í þessum réttum ... ekki misst úr nema eitt skipti síðan hann flutti norður smásnáði.


Mánudagur.......

Mér finnast þetta slæm skipti, síðastliðin sex mánudagskvöld höfum við Villi hérna af neðri hæðinni horft á þætti um bresku konungsfjölskylduna.  Núna er manni boðið upp á fyrirlestur um bakteríur.  Í skelfingu minni yfir að komast að hve margar þeirra gætu verið staddar í munni mínum, rauk ég fram á bað áðan og burstaði tennur .... vel.  Hugleiddi meiraðsegja hvort ég ætti að nota ræstiduft í stað tannkrems.  Ergo... þessi þáttur inniheldur upplýsingar sem ég gæti bara alveg hugsað mér að vera án.

Ljósanótt í Keflavík naut návistar okkar hjóna um síðustu helgi.  Í garðinum hjá Jökli og Oddnýju mátti sjá þrjú fellihýsi, einn tjaldvagn, tvö tjöld, innkeyrsluna prýddi hjólhýsi í yfirstærð og húsbíll okkar Gísla var hafður utangarðs.  Ekki það að við höguðum okkur illa, það er bara ágætt stæði fyrir okkur rétt neðan við garðinn hjá þeim. Þarna voru öll mín börn með hjásvæflum og afleggjurum, nema Árný, hún var heima að jafna sig eftir flensu með óþekktu nafni.  Valli bróðir með sína spúsu og dótturina og hjólhýshótelið hýsti Þorgeir og Helgu + börn.  Gestir litu inn og yfir höfuð var þetta hin ágætasta helgi.

P.S. Er að hugsa um að bursta aftur............til öryggis.


Pungfrelsi ???????

Ég fékk sms í símann minn áðan........ ertu með í pungfrelsi?  Hrökk aðeins við ... þangað til ég sá hver sendi þetta og þar sem ég er frekar seinfær við að pikka inn á símann ( þetta eru svo andsk...... litlir stafir og ég sé illa) þá hringdi ég í viðkomandi sendanda.  Og rökræddi aðeins við hana ( jú þetta var kona) að ég ætti svolítið erfitt með að svara játandi og síðan spannst samtalið um hver hefði ekki haft meira hugmyndaflug en þetta við að finna nafn á þennan ómerking sem ekki stendur út úr hnefa.  Báðar vissu sumsé að umræddur hlutur sem veitir hverjum sem hafa vill ( og borgar ) pungfrelsi.... tengist tölvu.

Ekki það að það tengist málinu nokkuð  en kall minn hefur ekki sést hér heima né í vinnu síðan um miðjan dag, hummhummhumm........


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband