. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Síðasti......

Dagur vetrar og Jón Tryggvi litli bróðir minn á afmæli í dag ... 46 ára ef ég man rétt.   Á morgun er það Ella Bogga, mín yndislega vinkona sem á afmæli og unginn minn hún Árný á föstudaginn. Innileg hamingjuósk til ykkar allra héðan úr húsi.

Það er ekki svo gott að hér sé sumarlegt um að litast utan dyra, það snjóaði látlaust í gær frekar blautum og óyndislegum snjó sem allstaðar er manni til ama og leiðinda. Kemst ekki á inniskónum yfir til Árnýjar, hvað þá út í bílskúr ... eins og óféti það þarfnast þó vopnaðrar heimsóknar.  Ennþá eftir að þrifa eftir smiðinn Gumma, þarna sagaði hann flísar og fleira sem notað var við að gera upp baðherbergið á neðri hæðinni. En einhverntíman fer þetta hvíta óféti af planinu og þá verður hægt að henda þarna út, ryksuga... gera hreint.. skúra .... og henda einhverju af draslinu sem enginn vill nýta.

En það kemur samt sumar á morgun og ég vildi svo innilega að færi að létta til í öllu því sem angar mig og gerir mér erfiðan svefn og áhyggjur daga flesta.  Verst að í kolli mínum þýðir ekki að beita ryksugu né blautri tusku ...en það hlýtur að birta.


Hinsta kveðjan, hjartans þakkir.......

Í gær var mamman mín, Soffía Lárusdóttir kistulögð í kapellunni hér á sjúkrahúsinu, falleg stund og hlýleg undir handleiðslu Úrsúlu prests.  Síðan fygldum við kistunni allur hennar stóri hópur í kirkjuna á Hólanesinu, en þaðan verður hún jarðsungin klukkan tvö í dag.

Þau buðu í kvöldmat í Skeifunni systkinin, þegar búið var að koma kistunni fyrir og það var yndislegt að setjast niður í stofunni, borða hangikjöt og spjalla. Aldrei var mamma ánægðari en þegar sem flestir af ungunum hennar voru við matarborð hjá henni, borðandi á sig gat.

Ég á henni svo ótalmargt að þakka frá liðnum árum, umhyggjuna og ástúðina fyrir mér og mínum, ótaldar stundir, ýmist við hennar eldhúsborð eða mitt, og ekki síst kvöldin sem ég átti með henni eftir að hún veiktist og var svo dögum eða vikum skipti hér á sjúkrahúsinu. Nú birtast mér þessar stundir sem perlur á festi og hlýja mér um hjartað og minna mig á að besta líkamsrækt í heimi er sú að létta byrðar náunga síns. Þá líkamsrækt  stundaði mamma alla sína ævi... óslitið.

Nú er best að þurrka af sér tárin, kveikja á kerti við myndina hennar hérna frammi .... og halda áfram að vera til.  Og reyna að muna eftir öllu því góða sem hún kenndi mér ....... þó svo ég viti að ég kem til með að hrasa og stíga skakkt, sporin sem hún fór bein.

Ég veit að hinu megin hefur hún átt góða heimkomu.


Mjúkar slæður minninganna......

Umvöfðu mig í dag.  Við hjónin fórum í bíltúr og út á Skagaströnd í heimsókn.  Pabbi var einn heima, Lára hafði skotist inn á Blönduós til Hrefnu.  Það var svolítið skrýtið að koma í forstofuna ... engin mamma ... en hún var þarna samt.  Allt á sínum stað, páskablóm í vasa, dúkarnir gulu á borðum, rúmið uppbúið .... allt var eins og það hafði alltaf verið. 

Mér er ennþá hlýtt að innan .... hún er ekki farin langt.


Laugardagur.....

Og páskar að morgni.  Held nú samt að hér verði páskaegg ekki falin, þolinmæði drengjanna endist ekki til að þurfa að leita að eggjunum.  Svona ef tekið er tillit til þess að nammidegi var frestað til morguns .... annars hefði verið sætindaát tvo daga í röð.

Það er hætt að snjóa, vona ég, búin að fá nóg af þessu hvíta teppi sem er að verða ansi þykkt.  Anna og Óli eru að sjá leikritið, tóku Sigurjón með sér, hin eru hér hjá afa og ömmu.


Löng og farsæl ......

Æfi að baki, Amma Sossa eins og hún var kölluð af börnunum mínum lést í gær, tæpra 85 ára að aldri, hún var fædd 23 júní 1925. Ég var efins um hvort ég sæi hana aftur hérna megin, þegar ég kvaddi hana um miðjan dag þann 16 mars síðastliðin, var á leið til London.  Lasin og döpur var hún en gladdist við að sjá nöfnu sína með mér .... duglega stúlkan mín ... og strauk um kinn þeirrar yngri.  Þetta hefur verið mér sterkur vani .... ekki úr landi án þess að kveðja þessa yndislegu konu sem leyfði mér að kalla sig mömmu í áratugi og reyndist mér ávalt sem slík.  Ég er rík að hafa átt tvær mömmur sem stoltar fygldust með mér við skírn minnar elstu dóttur þann 15 ágúst 1971 ..... Valgerður Soffía var svarið sem prestur fékk við spurningunni... hvað á barnið að heita?

Það er af svo mörgu að taka þegar hugsað er til baka,  endalausrar hlýju, umhyggju og bæna fyrir mér og mínum, kleinurnar sem hún færði okkur í kílóatali, jól á Hólabrautinni eftir að við fórum að fara í miðnæturmessu í Hólaneskirkju á aðfangadagskvöldi og svo í miðnæturkaffi til þeirra mömmu og pabba. 12 apríl 1993 var stór dagur hjá mér, tvöföld ferming og Vala og Gummi að gifta sig.  En það var verið að ferma líka á Sauðárkrók hjá Guðmundi syni þeirra .... hún sagði að guð hefði tekið frá sér að þurfa að velja, hún var lasin og því heima. Um kvöldið fóru þau því ungu hjónin til hennar í heimsókn og færðu henni brúðarvöndinn.  Fermingarbörnin fóru með og færðu henni líka blóm sem höfðu verið á fermingarborðinu. Seinna sagði hún að líklega væri hún eina amman sem hefði fengið brúðarvöndinn svona.

Gleði ... sorg ..... hversdagsleikinn, hún var alltaf til staðar, hvatti, huggaði og gladdist með glöðum ... það er stór hópur afkomenda hennar og eiginmaður til meir en sextíu ára sem syrgir nú um páska.


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband