. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Helgin búin .......

Og var alveg stórgóð.  Á laugardeginum var matarboð þriggja Saurbæjarsystkina á Pottinum til að fagna Guðna Dagbjartssyni og fjölskyldu en þau eru á ferðalagi um landið þessa dagana.  Guðni og frú búa nú í Svíþjóð, ein dóttirin í Sviss, önnur í Virginia USA og sú þriðja í Danmörku að ég held.  Allar tala þær íslenskuna meir en sæmilega og virkilega gaman að hitta þau.  Kvöldinu eyddum við svo með afleggjurum úti á Skagaströnd og gistum.  Árný er að taka við gestgjafahlutverkinu af mér ... alltaf pláss ... matur, kaffi, spjall..... bara gaman.

Svanhildur er búin að vera fyrir norðan síðan fyrir helgi, ekki var það nema til að bæta dagana....

Er á leiðinni í letikast í stólnum mínum...


Er að feta mig í áttina......

Að deginum í dag með bloggið.  Síðustu jól urðu mér erfið um margt og áramót enn verri.  Því varð ég fegin að vera á leið til Tenerife 5 jan með kalli mínum.  Hvíld, ákveðin fjarlægð við erfiðleikana ... og leiðindin skildi ég eftir í Leifsstöð.  Þarna hef ég verið áður, ekki samt á þessu hóteli og líkað vel.  Pínu erfiðleikar í byrjum, 73 tröppur að íbúðinni var meira en mér þótti gott en elskulegur fararstjóri var snögg að kippa þessu í lag og fækkaði tröppum í 3 daginn eftir komu .... fékk aðra íbúð handa okkur.  Útvegaði mér svo rafskutlu á leigu og nú var fru Halla í essinu sínu.  Þetta gerði mér kleift að vera úti alla daga meira og minna með Gísla, sem að venju labbaði þarna um allar trissur.  Góðir dagar ... heilir14.  Fljótlega eftir heimkomu espaðist enn einu sinni upp sýking í fætinum sem merin barði í haust en nú var þolinmæði mín á þrotum.  Einn skammtur enn af fúkkalyfi dugði ekki til að bana þessari pöddu svo ég leitaði mér aðstoðar læknis á Borgarspítalanum .... með aðstoð góðrar vinkonu.  Innan við mánuði seinna var sárið gróið. 

Því fannst mér skelfingin ein að nánast í sömu vikunni og ég gat sagt með góðri samvisku að hægri fóturinn væri heill, gaf vinstra hnéð sig.  Bið eftir segulómun varð næstum sex vikur, er enn að bíða eftir viðtali við bæklunarlækni og núna er ég hölt á báðum fótum.  Get ekki sagt að það sé beint ástand að mínu skapi.  

Einhvers staðar mitt í þessum hremmingum sat ég við eldhúsborðið mitt, Gísli á móti mér, og ég leit upp með ummælunum ... eigum við ekki að hafa íbúðaskipti við Lenu.  Hún var búin að búa á neðri hæðinni hjá okkur síðan að þau Árni skildu snemma í vetur.  

Því er ég núna að skrifa þetta, stödd á neðri hæðinni, við tölvuna mína sem stendur á tölvuborði sem Gísli fékk úr dánarbúi pabba síns.  Erum flutt og enn að koma okkur fyrir......


Laaangt síðan síðast ......

Enda fór öll mín tilvera á hvolf í síðastnefndum hrossaréttum.  Geðill jörp meri slæmdi fæti í hliðinu og hitti svona líka snilldarlega utanvert á minn hægri fót að þar sat eftir hóffarið.  Við tók rúmlega hálfs árs barátta að græða sýkinguna sem af þessu hlaust og það var ekki fyrr en eftir áramót sem ég fór að geta skipt á þessu sjálf.  Sýking tók sig upp aftur og aftur ef hlé var gert á sýklalyfjaáti, nú eða  þá að hella þessu í vökvaformi í æð.  Ég á nokkrar misskemmtilegar minningar frá samskiptum mínum við hina ýmsustu lækna sem að þessu komu, bót í máli að heilsugæsluhjúkkurnar tvær voru yndislegar og misstu aldrei þolinmæðina á mig.

Gönguferðinni hans Gísla var aflýst og ég fór auðvitað ekki með til Tenerife, komst samt  til London með stelpunum með aðstoð þeirra og hjólastóls.  Ekki fórum við þó allar, Lena var á sjúkrahúsi, enn á gjörgæslu reyndar þegar við fórum.  Lán að hún skyldi vera stödd á Akureyri þegar hún veiktist og við henni tók skynsamur læknir sem fór með hana beint í bráðaaðgerð.  Árný tók Elísu að sér svo hún komst með.  Góðir dagar með kvenfélaginu mínu.  Jökull gat náttúrlega ekki falið sín kvenlegu gen og bættist í hópinn síðutu tvo dagana með Birni Snæ og Aron, var að koma frá Portúgal.

Árið endaði svo með skilnaði hjá einu barnanna minna, og erfiðleikarnir sem fygldu í kjölfarið, eru hlutir sem ég hefði alveg getað hugsað mér að vera án. 

Og ekki orð um það meir.

 P.S. 

Nokkru eftir réttir hitti ég Ennisbóndann en hann átti þennan jarpa snilling sem rétti mér fót.  Mér var tilkynnt að ég væri hér með rekin úr hliðvörslunni.  Ástæðan.... þetta er hvorki fyrir öryrkja né ellilífeyrisþega að standa þarna í hliðinu.

Hann hafði verið settur í verkið eftir að ég var farin niður á heilsugæslu ... og líkaði fjandalega.


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband