. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Laugardagsmorgunn.........

Komin framúr bólinu, en ætla upp í aftur, ætla semsagt að vera góð við sjálfa mig í dag.  Lesa siðfræðiritgerð yfir fyrir eina dótturina og gleðst yfir því að sjá öll börnin mín sýna öldruðum virðingu og hjálpsemi, þótt það sé bara eitt þeirra sem kaus að feta í fótspor mömmu sinnar og vinna við umönnum aldraðra.  Einhverntíman í fyrndinni vann ég einhverja mánuði í fiski, en síðan tók við umönnum barna og gamalmenna, þar var minn staður.  Fyrirmyndin var Lena móðuramma mín, hún tók inn á heimili sitt aldraða foreldra og tengdaforeldra, húsmennskuhjón sem vantaði athvarf og svo tvö gamalmenni sem voru bæði komin í kör, rúmföst.... ef einhver þekkir ekki orðið.  Þannig byrjaði hún búskap sinn og hjúskap, ekki voru öll gamalmennin orðin óverkfær með öllu þannig að innabæjar þurfti hún oft ekki annað að gera en fylgjast með og nægar barnfóstrur hafði hún.  Þessi amma mín tók á móti börnum þarna í sveitinni þegar ekki náðist í ljósuna yfir úfinn Dýrafjörðinn, þótt ekki hefði hún lært  til þeirra verka, bjó um sár og skeinur og gerði vel, það er ekki mikið né stórt ör eftir saumaskap á skurði í hársverði sonar hennar. Hárið hvarf snemma af kolli hans en amma hafði unnið verk sitt vel, svo ekki voru ummerkin áberandi eftir að hafa fengið öngul í ennið ofarlega og fengið við það langan skurð aftur á höfuð.

Farin upp í aftur, með bók.  Gísli er sloppin út í vinnuna.


Föstudagur og .......

Útför Einars Guðlaugssonar fór fram í dag, undir styrkri hendi séra Hjálmars Jónssonar dómkirkjuprests, synir Einars og Immu og einn sonarsonur sáu um mestallan tónlistarflutning, einnig söng karlakór sem Einar var einu sinni í.  Þetta var mögnuð tilfinning að hlusta á þá bræðurna spila.... enda tónlist þeirra ær og kýr. Tvívegis var ég næstum því farin að klappa, en .... náði að hemja mig og mikið var ég fegin þegar ég heyrði fleiri tala um að það hefði verið erfitt að hemja lófana.  Ég var þá ekki ein um þetta.

Gísli skilaði sér heim í kvöldfréttabyrjun og fann þá konu sína afvelta við sjónvarpið.   Væri búin að ljúka blogginu plús að góna á imbann, ef ekki hefðu birst hér góðir gestir, hjónin sem seldu okkur húsið.  Gaman að sjá þau hress og spræk.


Vandræðavika.......

Sem er senn á enda, ég er grasekkja síðan í gær að Gísli fór í skrattaskýrslu...... ég meina skattaskýslugerð vestur á Strandir og kemur ekki heim fyrr en á morgun.  Lena skilaði sér hinsvegar til baka úr sinni vinnuferð í dag.  Er hálforkulaus þessa dagana, líklega gengið eitthvað á varatankinum undanfarið.  Verst þó hvað ég sef illa ... vakna jafnþreytt og ég sofna.

Núna er vetrarstarfið uppi í Hnitbjörgum að síga á seinni hlutann, sýning annan laugardag og þá væri ekki verra að vera búin með eldhúsgardínurnar mínar, það er að segja setja þær upp. Já og svínin hennar Sollu minnar, það þarf líka að setja þau í "stíu" ..... setja þau upp í gardínu fyrir hennar eldhús, þar hanga jólagardínur þangað til ég kem þessu af........


Ég sakna Hugins líka .........

Já, Fjólan mín og Mummi, það eru margir sem sakna hans, snáðans ykkar litla sem kenndi manni svo margt um lífið.  Ég hef hlustað á misgóðar ræður presta við útför, en þessi prestur snerti svo margt.  Ég er ekki hissa þótt þið hafið valið hann til að kveðja snáðann.  Munið alltaf setninguna sem hann endaði ræðuna á..... hjálpumst að. Takist ykkur það, ungarnir mínir, þá verðið þið réttu megin í prósentutölunni 80/20. Enn og aftur... hjartans þökk fyrir að hafa lofað okkur svo mörgum að fylgjast með baráttunni fyrir drenginn ykkar... og betra lífi.

Ég var með Birni litla um helgina og átti með honum góðar stundir, vorum farin að sofa þegar afinn kom til okkar seint á laugardagskvöldið, enda var skrýtinn svipur snáðans þegar það var afi en ekki mamma eða amma sem kom til hans nývaknaður í gærmorgun.  Eftir að taka af honum næturbleyju og klæða í þurr föt, brölti sá stutti þvers og kruss yfir okkur afa sinn þangað til að hann kom okkur fram úr og vildi þá mat .... strax. En ekki hvað, drengurinn er Jökulsson.


Enn í Reykjavíkinni...........

Ójá, stóra systa, bróðir þinn og hjásvæfill minn má þola einveru enn og aftur.  Mér til málsbóta er að hann lagði fast að mér að vera yfir nótt en ekki að keyra til baka á miðvikudagskvöldið, nú og ég þurfti að vera komin aftur suður á föstudag, til hvers að æða norður fyrir einn sólarhring.  Ergo ... ég er hér enn.  Er reyndar að hugsa um að koma ekki hér aftur fyrr en í byrjun júlí, mér er farið að líða eins og jójó.

Árný mín er á leiðinni í helgarfrí, ekki veit ég hvort nýbakaðir eigendur leysa hana af, hún var reyndar búin að semja við Sollu um hjálp.  Hún á að vera með aukaföt og inniskóna mína í farteskinu, einna mest hef ég saknað skónna minna.  Var ekki búin undir að stoppa svona lengi.

Mér finns annars skrýtið mjög að keyra hérna í bænum núna, mann athugar vel áður en farið er úr húsi hvar bílstjórar eru að mótmæla háu bensín og olíuverði.  Þverfótar varla fyrir lögreglunni, nú eru þeir sko vel sýnilegir á götunum.  Eitt indælið stöðvaði mig í gær, ökuskírteinið var til allra lukku með í för en manngarmurinn gerði nú samt athugasemd við mig ....... hvort væri eitthvað að, ég liti illa út. Ég svaraði honum stuttlega.... hvort hann kæmi ekki til með að bera þess merki að hafa sofið illa síðustu nætur og grátið af og til undanfarinn sólarhring? Hann spurði ekki frekar.


Erfiður dagur ..........

Í meira lagi.  Ég keyrði ein suður í morgun, beint til Önnu minnar og við urðum samferða í Keflavíkina að útför Hugins litla.  Það var friðsæl stund í kirkjunni fyrir athöfn, leikin tónlist meðan fólk var að tínast inn og setjast.  Og útförin sjálf var falleg og friðsæl, þrátt fyrir að flestir grétu.  Við Anna fórum beint úr kirkju í kaffi sem þau buðu til, Mummi og Fjóla, meðan nánasta fjölskyldan fór með kistuna í kirkjugarð.  Ég dáist að því þreki sem þessum vinum mínum er gefið, ég held að ég sé ekki að skrökva þótt ég segi að þeirra leið saman frá upphafi hafi verið á brattann að sækja .... og oft verið þungt fyrir fæti.

Við vorum varla lagðar af stað til baka þá hringir Árný, til að segja mér að Einar Guðlaugs hafi farist í slysi í nótt, ásamt öðrum manni, þeir höfðu verið í veiðikofa fram á heiði og gasleki orðið þeim að bana. 

Ég er úrvinda eftir daginn og fer ekki norður í kvöld...... 


1 apríl .... löggiltur til að plata aðra......

Er nú samt að hugsa um að sleppa öllu plati þennan daginn.  Ekki í skapi til að hrekkja fólk. Eyddi morgninum með stelpunum mínum við eldhúsborð þeirrar yngstu, fór svo í hænsnahúsið með henni til að pakka og taka smáþrifaskurk. Og var næstum búin að fá hjartaáfall við að bannsett loftpressan þurfti að fara í gang meðan ég var að þrífa undan henni nokkurra vikna skít. Bankaði reiðilega í hana með kústinum í refsingarskyni. Svo er það hádegið með möppudýrunum mínum og komin hér heim ætlaði ég að taka mér pásu undir teppinu hans tengdapabba og var rétt búin að koma mér vel fyrir.... hentist hjásvæfill minn elskulegur inn og sagði að ég þyrfti að koma með sér í bankann, sem ég og gerði möglunarlítið.  Nú er ég að bíða eftir Stebba Berndsen með síðasta smíðaverkefnið sem hann á að vera lööööngu búinn að skila af sér.

Ég er í döpru skapi í dag, hlustandi á tónlist sem ekki ratar í eyru mín allajafnan og get ekki haldið inni tárum við að heyra sum lögin.  Fullorðið fólk á ekki að þurfa að lifa börnin sín, og börn eiga ekki heldur að þurfa að sjá á bak foreldum sínum meðan þau eru sjálf í æsku. Stundum skilur maður ekki almættið ...... 


« Fyrri síða

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband