. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ég hata flugur.........

Það er alveg hreinasatt, ég þoli ekki þessi risavöxnu kolsvörtu háværu kvikindi sem fara hér í loftköstum um íbúðina.  Í morgun þegar undirrituð vaknaði, ein í fletinu, var eitt eintak úr þessum árásarher í brjáluðu stuði á rúðunni, ég reif upp gardínur og opnaði vel og... út með þig. Skellti svo aftur og tók þá fyrst eftir að ég var nánast á evuklæðunum.  Haukur nágranni hefur vonandi annað hvort verið í fastasvefni eða kominn í vinnuna.  Nú ég hypjaði mig í föt, nema vinstrifótarsokkinn og fram í eldhús, þar sat Gísli með morgunblaðið og eitthvað morgunfóður sem ég tók ekki eftir hvað var .....viti menn, eitt hávært og urrandi flykki á eldhúsglugganum.  Örstuttu seinna tautaði Gísli, kominn með dauða fluguna í lófann, hún angrar þig ekki meira þessi, stóð upp og losaði sig við líkið, kystti mig góðan dag og klæddi mig í sokkinn. Nú, ég náði mér í morgunfóður og las blaðið gaf mér tíma til að kveðja kallinn þegar hann fór í vinnuna, lauk við að lesa blöðin og svo hingað fram í tölvuna.  Varla sest á rassinn .... nú var það sýnu verstur hávaðinn.  Þetta hlýtur að vera amman, hugsaði ég meðan ég elti ófétið með handklæði að vopni, þangað til ég náði henni.  Nú er ég alveg harðákveðin í að ef ég þarf að pissa, ætla ég niður á klósett, þar er ekki gluggi og vonandi ekki fluga.... og inn í stofu fer ég ekki heldur strax, þar eru örugglega einhverjir ættingjar þessara sem búið er að ná.

Morgun kveðjur ... flugnahatarinn.


Fyrrverandi.........

Tengdamamma, Fjóla mín, ég er nefnilega svo lánsöm að flest þau sem hafa lagt í sambúð með einhverju barnanna minna, en slitið sambúðinni, skildu ekki við okkur Gísla. Ég fæ meir að segja að vera amma barnanna sem bætast við á seinni stigum, þó svo að skyldleikinn sé enginn nema tengslin í gegn um hálfsystkinið.  Ég er lánsöm, svo sannarlega og forrík...... margra barna amma.

Í dag er ömmustelpan mín hún Anna Guðbjörg fjögurra ára, ég fór áðan uppeftir til hennar með pakka, hún var hin fjörugasta, í sykurflippi uppum allt og alla, það þurfti ekki til að Gummi kæmi í dyrnar og trekkti hana aðeins upp.

Ég eyddi miðjunni úr deginum steinsofandi , er að kvíða því hvernig ég sofna í kvöld.  Ef ég ekki get sofið fer ég fram og set í myndband með Luciano Pavarotti og hlusta.  Hann lést úr krabbameini síðast liðna nótt.  Einhver fallegasta tenórrödd síðustu áratuga er þögnuð....... hérna megin grafar.


Bersvæði og samviskubit.........

Það að upplifa sig á beru svæði, þýðir nákvæmlega að það er ekkert sem hlífir manni.  Þessi tilfinning hefur verið að narta í hæla mér undanfarið en ekki bitið fast fyrr en tvo síðustu daga.  Ástæðan .... umræðan um aðstæður öryrkja og sjúklinga í þjóðfélaginu. Síðast í morgun fékk ég með morgunkaffinu að nú er farið að rukka mann um allan kostnað, sé  maður svo óheppinn að þurfa inn á sjúkrahús í sólarhring eða svo. Mínar síðustu viðkomur á slíkum stað hafa verið af þessari lengd og það er ekki eins og ég hafi haft val, hvort ég gisti þessa ágætu staði í síðustu tvö skipti.  Nú get ég búist við að vera rukkuð um þennan gistikostnað og þá koma næstu áhyggjur. Ég er öryrki, en þar sem ég er í hjónabandi og eiginmaðurinn hefur tekjur ofan við mörk þau sem ríkið ákveður að sé við hæfi að taka örorkubætur nánast af manni, þá fæ ég lágmarks greiðslu frá Tryggingastofnun.  Ég ætti samt ekki að kvarta, þökk sé eiginmanninum, og þó, mér finnst það lágmarksmannréttindi að vera ekki refsað fyrir að vera í hjónabandi, ég er einstaklingur og vil vera virt sem slík.

Þá er það samviskubitið. Ég fékk upphringingu frá yngstu dótturinni í gær, seinnipartinn og auðmjúka bón ... mamma viltu koma í sveitina og elda kvöldmatinn hér.  Sökum kvefs af verstu sort hefur hún mátt halda sig innan dyra og undir sæng síðustu daga. Jú ég var til í þetta, dreif mig í sveitina og eldaði, Gísli var í verkum uppi í hænsnahúsi svo hann fékk þá kvöldmat á réttum tíma.  Góður matur hefur lengi verið minn akkilesarhæll og nú tókst mér ekki að halda í græðgina og fékk mér væna ábót á diskinn.  Að henni etinni var auðvitað ekki annað að gera en taka hvíld við sjónvarpið og horfa á rest af fréttum, kastljós og ER (bráðavaktina). Enn kíkti græðgin, Árný, áttu ís? Jú hann var til svo ég fór inn í búr, náði í Daimtopp, settist aftur og maulaði ísinn. En þá vaknaði samviskubitið, glaðvaknaði þegar ég var að enda við kexbotninn af ísnum og uppgötvaði mér til hrellingar að mann á ekki að vera að mylja í sig svoddan fóður við sjónvarpið, hálfliggjandi útaf og í flegnum bol, a la Kristín Magg.  Nú hefði ég betur verið í rúllukragabolnum sem þú vandir mig af, Kristín mín kær.........


Asnaeyrun.....

Endalaust læt ég börnin teyma mig á asnaeyrum beint útí eitthvað sem ég þekki ekki.  Konan, sem man ekki það sem tengist tölvunni og framkvæmdum í henni stundinni lengur.  Guði sé lof, Árný mín að ég get hringt frítt í þig ... alla 24 tíma sólarhringsins.....

En kannski kemst ég upp á lag með þetta blogg, seinna.


Alltaf má kenna gömul hundi að sitja

Ég er að kenna mömmu nýjasta trendið.... moggabloggið Smile

Mamma kemur innan tíðar og bloggar Smile

Árný 

 


« Fyrri síða

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband