. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

31 mars ......

Ár síðan að tengdapabbi kvaddi okkur, Árný kom með okkur pabba sínum inn í garð með kerti áðan. Garðurinn er blautur ennþá, snjór að þiðna  enn og klaki undir og ekki hægt að þrífa þarna til ennþá og enn er eftir að setja stein á leiðið þeirra.  Gerist vonandi í sumar.

Ég er að kafna úr kvefi, það lekur bæði úr nefi og augum og hóstinn er að kæfa mig.  Það er varla að ég hafi getu til að sauma fyrir þessum fjanda...... 


Komin heim ......

Ég sé á kommenti við síðustu færslu að nú þarf að skýra ýmislegt.  Elsku stóra systa, Gíslinn okkar á einskis að gjalda, hann vildi búa með þessari skrýtnu konu ( mér), hefur haft nokkur tækifæri til að losa sig en ekkert þeirra viljað þiggja.  Hann einfaldlega gerði sinni konu kleift að grípa þetta tækifæri og til þess að vera nokk viss um að hún kæmi heil og óskemmd heim fór elsta dóttirin með.

Þú hafði rétt fyrir þér, Anna Lilja, það var handavinnan sem dró mig út. Í byrjun mars sá ég að einn af mínum uppáhaldshönnuðum í útsaumi yrði á sýningunni í Olympia Hall í endaðan mars.  Þessi kona býr í Bandaríkjunum og síðan ég fór að fylgjast með henni fyrir tíu árum eða svo, hefur hún ekki verið sýnileg þarna, bara bækurnar hennar.  Nú ætlaði hún að vera þarna í tvo daga.  Þetta var stærri freisting en ég stóðst og þó reyndi ég.  Oft ef mig langar heil býsn í eitthvað í handavinnunni, nú eða þess utan...... leggja frá sér hugsunina um hlutinn og ef hún er óskýr eða minni eftir einhverja daga, þá er sleppt, ég hef ekki þörf fyrir hlutinn.  En núna versnaði þetta bara við geymsluna... og ég fór.

Og sé ekki eitt andartak eftir því, það var svo gaman að hitta hana Joan.  Ég sýndi henni mynd sem ég er að gera handa Fjólu og Mumma í minningu Hugins litla og það var ekki laust við að hún táraðist við að hlusta á hvers vegna ég væri að gera þessa mynd sem er upphaflega hugsuð hjá henni sem ...susss, hann sefur, yfir í að hann sefur svefninum langa.  Myndina kvaddi hún með því að signa hana.  Ég var svo heppin að vera snemma á föstudagsmorgninum á sýningunni þannig að ég var lengi í vinnustofunni með henni, rennirí í kringum okkur við að skoða það sem hún var að sýna af fullgerðum verkum, en annars ekki mikið truflaðar.  Og þótt hún stæði upp til að sinna öðrum, þá settist hún aftur og við héldum áfram að spjalla og skoða.  Svo áritaði hún fyrir mig nokkrar bækur sem ég kom með heim. 

Elsku Gísli..... takk fyrir að skilja þína skrýtnu konu og gera henni þetta mögulegt.


Ég er ......

Ekki búin að tapa glórunni, þótt svo megi segja að útlit sé á því.  Eyddi síðasta klukkutíma á harðahlaupum um alla íbúð í leit að veskinu mínu, þessu sem inniheldur þá seðla sem ég á í það skiptið plús kortin mín, debet og kredit.  Þetta fannst ...... að lokum.  Ástæðan fyrir leitinni, ég er að fara til London í fyrramálið eldsnemma..... já ég veit að ég er nýkomin þaðan, en nú gafst mér tækifæri sem ekki er víst að gefist aftur.... og ég stökk. Segi ferðasöguna þegar ég skila mér heim aftur um helgina.

Litla hetjan......

Huginn Heiðar lést í nótt.  Löng barátta, erfið með eindæmum hafði þennan endi.  Ekki var nú samt svo að erfiðleikunum fygldi ekki gleði, því þessi litli harðjaxl var miklu oftar en ekki kátur og gleðin ein, þrátt fyrir veikindin. Elsku Fjólan mín, Mummi og  börn, ykkar missir er stór og sár, guð gefi ykkur styrk og orku til að takast á við að missa Gullrassinn ykkar eins og mamma hans nefndi hann oft.

Á morgun.........

er páskadagur hinn fyrri.  Væri ég horfin aftur til æskuára yrði ég að þegja meðan messa stæði yfir.  Ætti svosem ekkert erfitt með það, en ...... nú er bara enginn til að áminna mig um þetta, og sennilega löngu dottið úr tísku að þegja á messutíma, ja nema mann sé staddur í kirkju.  Ég minnist þess nefnilega sem barn að á gömlu gufunni var messað á hverjum sunnudagsmorgni sem upp rann og hverskyns ærsl eða kjaftagangur var bannað á meðan.  Að ég nú ekki tali um daglegar ýfingar okkar systkinana út af hinum ýmsustu hlutum.

Hér er búið að klippa alla fjölskyldumeðlimi .... nema nöfnu mína, bakstri lokið og innkaupum ....... Anna og Óli fundu meir að segja forstofuna áðan.  Mér er reyndar oft óskiljanlegt hvað rúmast af skóm og fötum í/á þessu frímerki sem hún er ( forstofan sko).  Hef gamla og bitra reynslu af hve mikið pláss mörg börn þurfa fyrir útiföt og skó ..... og hvernig þau ganga um téða hluti, hamingjan góða.....

Er að hugsa um að snáfa í bólið, þegar ég er búin að bjóða kallinum góða nótt, þvert yfir landið, mér tókst nefnilega að sofna í gærkvöldi áður en þetta komst í verk hjá mér ... hann kvartaði í dag.


Betur seint.....

En aldrei..... þegar ég tók eftir að dagsetningin á síðustu færslu var röng, leiðrétta takk.  Ég er í hálfgerðu tómarúmi í dag, Anna er að baka, þrif eru nánast búin, stóru strákarnir eru hjá pabba sínum og grjónið hér ... Sigurjón Stefán meina ég.  Kristján kátur vel yfir nýþrifnu herbergi, vona ég.  Annað kvöld á að loka inn til hans og græja fermingargjöfina.... best að skrifa ekki meir... ef hann kíkir hér.

Kominn tuttugasti......og fyrsti

Og Keli er allur, pabbi hennar Öllu Rúnu mágkonu minnar. Hann hafði verið eitthvað betri um miðjan daginn en um kvöldmatarleytið í gær var hann allur ..... og Bogga hans tekin til við að snotra hann og laga hinumegin.  Spurning hvað henni hefur fundist um skrámurnar sem hann fékk við byltuna þegar hann veiktist.  Friður fylgi þeim báðum.

Sumarið 1979 vorum við hjónin á ferðalagi þarna í Aðaldalnum og komum í Hvol til þeirra.  Þáðum þar kaffi og síðan kvöldmat en þegar þau komust að því að við ætluðum að fá að tjalda þarna einhverstaðar um nóttina, kom það ekki til mála.  Inni skyldum við sofa... í rúminu þeirra. Ég var langt gengin með Jökul og af þessu urðu þau ekki ekin.  Við Gísli lögðustum því til svefns í rúmi þeirra hjóna þetta kvöldið og sváfum vel þar til um miðja nótt að við hrukkum upp við að einhver kom inn í herbergið.... og hrökk öfugur út aftur.  Heyrðum að Keli hafði líka vaknað og við vorum því ekkert að hreyfa okkur.  Morguninn eftir þegar við komum á fætur, var Keli skellihlæjandi í eldhúsinu að óförum gestsins sem kíkti inn til okkar Gísla.  Hann hafði tekið andköf óskapleg yfir því að sjá kafloðið skeggjað andlit á koddanum sem hann átti von á velrökuðu andliti húsbóndans á bænum, hver væri  kominn í bólið hans Kela við hliðina á Boggu, manninn hafði sem sé ekki stoppað nógu lengi til að sjá að Bogga var þarna ekki heldur.  Svo var hann víst ekki alveg edrú.....

Hér á Bakkastöðum 75 þokast fermingarundirbúningur vel, Kristján Atli var settur í þrif á herbergi sínu í morgun og tók því ekki fagnandi.... líf mitt snýst bara um vinnu sagði hann mæðulega.  Það eitt græddi hann á athugasemdinni að amman tók að sér leiðsögn við verkið, mamma hans heldur því fram að drengurinn hafi tapað frekar en hitt.  'Eg lét hann meira að segja samþykkja að baða skrímslin sem eru í tugatali upp í hillu hjá honum og má helst ekki snerta. Eina kvikindið sem slapp er rafmagnsknúið og þolir því ekki vatn.....


19 mars........

Sá dagur var reyndar í gær og endaði hjá mér á Bakkastöðunum hjá Önnu og Óla.  Var búin að ætla mér að nota rútuna í dag til að koma mér suður en Alla Rúna og Valli voru á leið á Húsavík en sneru við á Blönduósi, pabbi hennar hafði veikst í fyrrinótt og nú var verið að búa hann í sjúkraflug til Reykjavíkur, svo þau sneru við...... og ég með þeim.  Signý varð eftir í sveitinni hjá frænku sinni.

Ég fór í fygld þeirra Árnýjar og  Gerðu í kirkjugarðinn um miðjan daginn í gær, þetta var afmælisdagur Stellu, í september eru sex ár síðan hún dó, en það er langt frá því að hún sé gleymd á mínum bæ. Anton og Elísa fóru með okkur og snáðinn skaust beint að leiðinu langafa og ömmu, hann þurfti sko ekki að leita.  Á leiðinni til baka hélt hann í hendi ömmu......amma ég verð fullorðinn þegar þú deyrð? Ég var hálfhvumsa ... jú líklega en það er þó ekki alveg víst svaraði ég.  Já en sko ... amma, þegar ég er fullorðinn verður þú orðin gömul og þá getur þú dáið.  Þá veit ég það, Anton vill ekki missa ömmu sína nærri strax.

Núna er úrill nafna mín að tölta inn á bað, í hári hennar er sulta og ís og eitthvað fleira matarkyns leyndist utan á henni áðan, fötin í þvottavélina og stelpan í baðkarið undir stjórn pabba síns, mamman er farin að baka kökur fyrir væntanlega fermingu á mánudaginn. 


Komnar heim......

Allar níu í heilu lagi en misþreyttar eftir ævintýrið. Stórskemmtilegar uppákomur einkenndu ferðina frá upphafi til enda, oft vegna þess að yngri deildinni (órólega) misstu út úr sér orð sem ekki voru kannski endilega við hæfi, sossum eins og ... holy shit..... í yfirfullri lest.  Og sömuleiðis í fullri lest þar sem þær stóðu velflestar í miklum þrengslum heyrðist í Lenu (held ég) .... færðu þinn feita rass svo maðurinn komist út... við systur sína Árnýju, ég veit ekki hvorri þeirra brá meira þegar maðurinn sem var Ólafur Kjartan Sigurðsson söngvari hóf upp sína blíðu rödd... þetta er allt í lagi, ég kemst framhjá....

Eftir þetta gættu þær sín betur.  Að borða með þeim var næsta ævintýri, þeim tókst að finna Angus Steakhouse eftir töluvert labb á fimmtudagskvöldinu, þá vorum við að koma úr leikhúsi, fórum að sjá Queen showið og ekki allar í fyrsta skipti.... Lena líklega í þriðja sinn og er til í eitt skipti enn. Í það skiptið var það leigubíll heim á hótel, við vorum alltof saddar til að brölta niður í lestina til að komast heim.  Og höfðum af því áhyggjur nokkrar að vera að eta steik með rauðvíni og alles ....... klukkan langt gengin í ellefu að kvöldi til, ég allavega lagðist útaf með mikilli gætni í bólið mitt... svo ekkert af þessari góðu máltíð færi öfuga leið út.

Ég er líka ákveðin í að gera ekki að venju að eta amerískar pönnukökur með sírópi + beikon og egg fyrir klukkan níu að morgni, já og bara alls ekki..... en fjandi var þetta gott.  Mér datt heldur ekki í hug, búin að panta mér máltíð á kínverskum matsölustað, að hrísgrjónin sem ég pantaði með matnum, væru svona stór skammtur eins og raun varð á. Stór diskur, kúfaður af grjónum..... plús aðalskammturinn af kjöti og grænmeti. Úfff.......

Svo var það heimleiðin.  Búið var að panta stóran bíl en þegar bílstjórinn sá töskustaflann hafði hann orð á að panta annan bíl fyrir farangur.  Því neitaði Vala staðfastlega, sagðist vera búin að hafa of mikið fyrir því sem í töskunum væri, til að þær yrðu ekki samferða sér á flugvöll.  Enda kom í ljós að þessi hræðsla ökumannsins var óþörf, töskurnar hefðu plássins vegna getað verið fleiri. Við urðum hinsvegar undrandi á hve vel hann fór yfir öryggismál í bílnum og leiðina á völlinn, þetta höfðum við ekki orðið varar við áður. En við komuna á Heathrow brá okkur ærlega, þar blasti við okkur vörður við inngöngudyr vopnaður stórri vélbyssu.  Við reyndum að haga okkur skikkanlega .... nema Gerða.  Hún potaði í byssuna og spurði hvort hún væri ekta .... og uppskar svarið... það ætla ég að vona.  Sem betur fer var ég komin inn fyrir dyrnar, hefði fengið áfall við að sjá til hennar..... svo flissaði hún að þessu.

Ekki orð um yfirvikt eða íslenska tollheimtumenn, þá kviknar í hárinu á Völu .... og skapinu. 


Looooksins.......

Fáeinar leiðbeiningar til ferðafélaganna átta og gestgjafa í Keflavík.

Ég hef séð á bloggi ykkar flestra undanfarna daga að  nauðsynjahlutir eru komnir á sinn stað... ferðatösku eða veskið, bannað að gleyma svo hvorutveggja heima í æsingnum við að komast af stað.  Muna eftir að vera í góðum skóm.... og þá er ég ekki að meina einhverja andsk... með háum hælum.  Svo þurfa þær sem eiga eftir að fara í framköllun hjá Bibbu að koma við hjá henni í Hafnarfirðinum, það er ekki hægt að gera svona hluti í gegn um gsm .... ennþá.

Svo er það Bergvegur 10 í Keflavíkinni.  Jökull minn, við gætum verið svangar norðankonur við komu til þín, muna að eiga nú eitthvað gott í ísskápnum handa þinni góðu móður og systrum, já og frænkum.... til að auðvelda þér flókna hluti teljast Gunna og Anna Kristín frænkur þínar í dag og næstu daga, jafnvel lengur ef við göngum ekki fram af þeim í ferðinni.  Eftirréttur má vera í fljótandi formi .... kaffi með íblöndunarefni sem inniheldur rjóma og vínanda .... þær nota sumar mjólk út í kaffið og þá er vara af þessu tagi handhæg og góð í kvöld.

Svo er það morguninn.  Vakna snemma, ekki seinna en sex og morgunverk á baði verða að ganga vel, við erum níu og baðherbergi bara eitt.  Því skulum við draga um röðina í kvöld um not á snyrtingunni og til að flýta fyrir er aðeins leyfilegt að nota einrúmið til að losa sig við fast og fljótandi í salernið, þvo sér um hendur og bursta tennur.  Það er spegill fyrir framan dyrnar sem hægt er að nota til að ljúka snyrtingu og sparsli, já og greiða sér, svo maður hræði nú ekki fugla himinsins og aðra farþega í Leifsstöð þegar þangað er komið.  Jökull minn, þú verður síðastur í röðinni á snyrtinguna, ég fann bara níu spil.

Best að skutla töskunni út í bíl svo ég gleymi henni ekki..... já og p.s..... góðu konur munið eftir að klæða ykkur í fyrramálið, náttföt myndu vekja ótilhlýðilega athygli í innritun og flugstöð........


Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband