. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Miðvikudagur ......

Og takk, stóra sys og Sifin mín fyrir að taka í eyrun mín og benda mér upp í birtuna.

Inni á spjallinu netkellnanna minna fann ég glaðning áðan.  Ein þeirra hafði verið að taka til í saumadóti sínu og fann þar kit með garni og plasti til að búa til kaffibolla, mundi eftir áráttu minni í að sauma út hina ýmsustu kaffibolla.  Þetta kemur hún áreiðanlega með í næsta klúbb .... sem ég er svo heppin að geta mætt í.  Að mæta hefur mér ekki tekist nema einu sinni á þessum vetri.

Ég á kaffibolla sem mamma heklaði og gaf mér, hafði samt orð á að líklega læki bollinn.  Pabbi bætti úr því með því að renna úr tré annan bolla og úr honum lak sko ekki nema í rétta átt. Ég kem því til með að geta sett upp í skápinn minn góða eina hillu af mjög sérstökum bollum. Þar eru komnir dúkkubollarnir mínir sem enn voru til þegar ég flutti úr sveitinni.

Við fórum á skemmtilega tónleika upp í kirkju á mánudagskvöldið, þar hélt Heiðar Kristjánsson upp á sjötugsafmælið sitt með því að bjóða fólki á tónleika.  Frjáls framlög sem hann tók við, hann afþakkaði öll blóm og gjafir, runnu öll til orgelsjóðs kirkjunnar, að því máli hefur Heiðar komið af miklum myndarskap.

Komið mál að linni, ég ætla út í göngutúr, set gemsann í vasann.... ef ég færi á hausinn.


Það er mánudagsmorgunn.....

Og helgin að baki, grár veruleikinn mættur á nýjan leik.  Og hefur dökknað síðan á föstudaginn finnst mér.  Ég veit ekki hvar þessi vitleysa endar sem við þurfum að þola síðan í haust að bankar okkar íslendinga sneru upp iljunum.  Enn sitjum við með sömu einstaklingana við stjórnvölinn á þjóðarskútunni, sömu seðlabankastjórana, viðskiptaráðherrann flúði að vísu um helgina, en ...... því miður alltof seint sem hann "axlaði ábyrgð sína ".  Nú eru að verða liðnir fjórir mánuðir, sáralítið gert til hjálpar fólkinu sem er að missa ofan af sér húsnæðið, atvinnuleysið eykst, heilbrigðisgeirinn sparar og sker niður hjá gamalmennum og geðsjúkum, er nema von að maður fyllist örvæntingu og kvíði því að vakna á morgnana......

Barnahelgi.....

Og þá er mér alveg sama um veður, þegar þau sjá mér fyrir félagsskap.  Anton, Elísa og Smári bönkuðu hér upp á eftir hádegið í gær og uppskáru því bíltúr með afa og ömmu upp í Núp. Anton vildi svo fara heim en hin tvö komu hér heim með okkur aftur og léku sér fram að kvöldmat, þá fór Elísa heim, lítið kát að vísu, hún vildi gista.  En mamma hennar er að fara suður í dag með Anton og vildi hafa hana heima. Síðan birtist Alexander stuttu fyrir kvöldmat og endirinn var sá að þeir gistu hér bræður, Smári og Alexander.  Það var ljúft að vakna við þá í morgun, læðast inn svefnherbergisgólfið og stökkva upp í til okkar sitthvoru megin...... afi ... amma .... okkur þykir svo vænt um ykkur.

Vondur dagur á eftir enn verri nótt......

Ég svaf bæði illa og lítið fyrir þessum andstyggðar veðurofsa sem entist fram eftir nóttu, var komin snemma á fætur og á morgunáætlun var að gefa möppudýrunum mínum eitthvað gott að eta, það er jú föstudagur.  Og bóndadagur í þokkabót. Ekki gat ég nú samt haft þorramatinn í hádeginu, hann var á kvöldmataráætlun.  Fyrri ferðin í búðina var fyrir skrifstofuna og lukkaðist sæmilega. Svo var það sú seinni, farin um miðjan dag í fygld þeirra Elísu og Antons.  Þau höfðu ömmu sína að sjálfsögðu til að kaupa snúð og kakó, hvorutveggja var í hillu rétt við inngang.  Svo fór amman að leita að því sem vantaði í þorramat kvöldsins, sossum eins og svið, harðfiskur, hákarl.  Sviðin fann ég ekki fyrr en ég hafði sótt mér aðstoð, ja nema þá að væri búið að breyta þeim í sviðasultu og margfalda á þeim verðið.  Útyfir allan þjófabálk tók þó þegar kom að harðfiskinum. Pokasnepill sem innihélt frekar óaðlaðandi mulinn harðfisk reyndist kosta 2990 krónur.  Ég fleygði honum aftur í hilluna eins og ég hefði brennt mig á pokanum.  Náði í minnsta skammt sem ég fann af hákarli og ákvað þar með að þorramatarinnkaupum mínum þetta árið væri lokið.  Súrmat hafði ég haft rænu á að útbúa mér í haust og þrátt fyrir að eta nokkuð reglulega af því nammi það sem af er vetri, þá hef ég bara sett aftur í tunnuna.

Okkur varð bara vel af því sem fram var reitt í kvöldmat, þrátt fyrir að harðfiskinn vantaði.......


Alveg snargalið veður.....

Sem djöflast hér núna, yfirleitt er það Gísli sem er öfugsnúinn ærlega þegar hvasst er úti, en nú er það ég.  Hann sefur inni í rúmi en ég hélst ekki við fyrir veðurofsanum utandyra.  Á tímabili í kvöld hélt ég að þakið færi af húsinu, nýja fína þakið mitt sem kostaði heilan helling af peningum.  Niðri er ég að vona að dóttlan hafi náð að sofna í kvöld.

Á laugardagskvöldið fæ ég næturgest, Alexander Snær ætlar að vera hjá ömmu og afa, mamman er að vinna á þorrablótinu, svo koma þær Elísa og Embla til ömmu á miðvikudaginn, allir foreldrar annað hvort að vinna...Ragnar og Sandra.... í skólanum, Árni ..... fjarstaddir.... Lena í Reykjavík með Anton.  Og eins og einhver mun segja..... aldrei þessu vant er amman heima og er aldrei kátari en þegar eitthvað er af ömmubörnunumí heimsókn......

Jæja það er best að gera eina tilraun enn til að bæla sig niðurog sofna.... sveimérþá er veðrið enn að versna.....


Enn......

Er ég stödd í borg syndanna, en er á heimleið á eftir.  Búin að eiga góða daga með börnum og barnabörnum síðan á fimmtudag, Gísli fór hinsvegar heim í gærmorgun... áður en fuglarnir vöknuðu, hvað þá ég.  Mest verið hjá Bakkastaðafjölskyldunni en í gær fórum við öll í Keflavíkina til Oddnýjar og Jökuls, mikið fjör og gaman.  Halla Katrín og Birnir orðin svo dugleg að þau fara ein um stigana á milli hæða en samt svona helst undir eftirliti, minnsta kosti er Birnir minn svolítill glanni ennþá. Anna saup hveljur, sitjandi við eldhúsborðið þegar hann kom hlaupandi að stiganum niður.... og bremsaði eiginlega í efsta þrepinu til að velta ekki niður. Úps ...  hann náði þessu og studdi sig niður , þykist of stór til að bakka þegar hann sér að frænka hans gerir það ekki.

Þykir slæmt að ná ekki að koma í Fellahvarfið núna, en Ellan mín kær, næst ertu efst á heimsóknarlistanum, þetta er ekki við hæfi að vanrækja elstu vinkonu sína svona.


Aldrei skyldi ég segja aldrei......

Er búin að hafa um það nokkur hógvær orð að inn á Facebook hafi ég ekkert að gera.  Þetta er tímaþjófur( ég er mjöög upptekin kona) ég nenni ekki að læra á þetta og til hvers sossum?  Í tölvupóstinum mínum var hinsvegar beiðni frá hrossinu mínu góða um að opna slóð inn á síðuna hennar á fésbókinni, nei skrá mig svo ég gæti farið inn á hennar síðu á téðri bók. Ég skráði mig eftir öllum reglum sem þar að lutu og reyndi svo ...... halla@efrimyrar.is  og password ............ en nei takk errormelding á netfangið mitt.

ERGO, ég er ekki hæf á Facebook, því miður.

Sneri mér bara aftur að saumaskapnum, svo kíktu Majan mín og Guðjón Freyr til mín, han lék sér  hinn ánægðasti að Klóa ketti inni í saumaherbergi hjá okkur mömmu sinni meðan við rótuðum eftir litum sem hana vantaði í gjöf sem hún ætlar að búa til.


12 jan.........

Tvö afmæli..... hann Kristján Atli er 15 ára í dag, til hamingju með daginn, ömmustrákur.  Þetta er líka afmælisdagurinn hans Ómars ........ sem hvarf okkur svo alltof snemma... og alltaf er saknað.  Hann fékk frumburðinn hennar Önnu minnar í afmælisgjöf.

Er búin að liggja góða stund, eiginlega tvo klukkutíma andvaka og hugsa til baka, um nóttina fyrir 15 árum, manni var ekki farið að standa á sama um þessa þrjóskudós sem sat föst eins og tappi í flösku og allir biðu í ofvæni eftir fréttum uppúr miðnæti, þá héldu ljósan og amman  að þetta væri alveg að hafast, en .... ónei, við máttum bíða, hvað þá þeir sem ekki voru á staðnum og var búið að segja um miðnættið að barnið væri rétt ófætt.  Allavega var langafinn á Garðabyggð 8 orðinn órólegur, hann hringdi þegar búið var að senda veðrið á miðnætti og fékk þá þessi svör. Ég held að hann hafi ekki sofnað fyrr en drengurinn var fæddur, þetta varð líka mikill langafa/langömmu strákur enda bjó hann við hliðina á þeim fyrstu árin sín.

Í dag hefði hann Ómar orðið 55 ára.


Sunnudagur.....

Ég veit ekki einu sinni hvort lottóvinningur gærdagsins gekk út, veit bara að þetta voru ekki tölurnar mínar. Þá það.  Ég þurfti líklega ekki á þessu að halda, og einhver því að hafa vit fyrir mér.....

Hér var lítill gestur í gærkvöldi að horfa á kvöldmynd í afa og ömmurúmi, nú er komið sjónvarp með dvd spilara í þarna á vegg og er vinsælt. Þegar myndin var búin, leitaði hún afann uppi og stakk sér í fang hans... með apaskottið sitt í eftirdragi.  Þarna kúrði hún góða stund, í fangi afans, með teppið hans langafa yfir sér, 10 jan og afmælisdagur langafans.  Við Gísli vorum búin að fara með ljós á leiðið hans fyrr um kvöldið.

Núna er Gísli uppi á Efrimýrum í afleysingu, ég skrapp til hans þegar ég var komin á fætur og færði honum hans eigin hákarl ....... vona að hænsnin hætti ekki að verpa við óþefinn af þessu indæli.


Mig langar ......

......í lottópottinn..... já og til London, Kristín viltu koma með.... langar líka í Tenerife ferðina hjá Mogganum.... en þá tæki ég nú Gísla með ... sorry Kristín.  Langar ábyggilega í eitthvað fleira sem ég man ekki í svipinn hvað er.

Þetta ferðaflipp er nú eiginlega þér að þakka eða kenna, Kristín mín kær, með því að minnast á handavinnusýningu  í morgun, var eins og olíu væri skvett á eld.  Meðan ég er að pikka þetta trónir kaffikrúsin mín... kyrfilega merkt Hilton... á borðinu til hliðar, með heitu og ilmandi kaffi og ég á alveg bullandi fyrri ferða flippi.... ussusussu mín kæra Kristín.

Hér er búið að rota jólin, það er að segja taka niður skraut og jólatré, Majan mín kom hér á þriðjudaginn og dreif í þessu, skúran mín var nefnilega væntanleg morguninn eftir og men hvað ég var fegin þegar búið var að þrífa út í hvert horn, þurrka af og snyrta til.  Meir að segja tókst mér að laga sæmilega til í saumaherberginu mínu, svo kannski finn ég eitthvað þar næstu daga án þess að leggja út í allsherjarleit.... 

Farin að sauma jólakort .... já ég veit að það er komið fram í janúar..... 


Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband