. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Enn ein vikan....

Er að kveðja mig og enn er rysjótt veður, þoka á fjöllum og skítakuldi.  Gísli er uppi á Efrimýrum að leysa af, svona sem varaskeifa, Þröstur vinnumaður er enn að læra á pökkun, verðmerkingu og þann frágang, klárar sig orðið vel af húsinu. Ég er ein að rolast hérna heima, Árný fór suður með Völu á fimmtudaginn, Villi að vinna, Lena og fjölskylda fyrir sunnan í leikhúsferð. Tommi er þó heima þar og afinn var beðinn um að sjá til þess að kisi hefði nú nóg fóður og það væri ágætt að klappa honum líka.  Antoni þykir afarvænt um kisu sína.

Þvottavélin mín tók upp á þeim óskunda að leka .... mikið og meðan ég reyndi að stöðva flóðið hringdi Kristján bróðir.  Sú mátti bíða á meðan við spjölluðum, það er ekki svo oft sem mann heyrir í honum svona í síma .... og það er eins og hann sé staddur í næsta húsi.  Mér þykir verst núna að ég gleymdi að spyrja hann hvort stæði til að koma í stóðréttina, ég er ekki búin að gleyma því enn þegar  hann birtist óvænt með hest í taumi úr göngum fram á Kirkjuskarði... ég hélt að ég sæi ofsjónir.

Það styttist nefnilega í réttir þetta haustið, já og svo er ljósanótt eftir viku og aumingja Jökull + Oddný mega þola systur hans allar, afleggjara þeirra og eiginmenn, plús okkur gömlu hjónin í garðinum hjá sér heila helgi.


Fru Kristín......

Er komin úr viðgerð, nokkuð hress í spjalli í morgun og hreint alveg viss um að doksi hafði gert við réttan fót.  Mikið gott að heyra í henni.  Skólabörn fjölskyldunnar eru öll komin á básana sína í skólakerfinu, Vala kom heim í gærkvöldi og fer aftur á fimmtudag.  Mér finnst eiginlega skrýtið að sjá hana komna í skóla, en men ..... hve ég er montin af henni að drífa sig.

Gleði dagsins birtist svo með Villa hérna af neðri hæðinni áðan, hann var að taka til í gömlu dóti og fann þar fimm mokkabolla sem hann gaf mér .... yndislegt.


Rysjóttur mánudagur........

Sem hófst hjá mér um fjögurleytið í nótt, mér til mæðu. Hefði gjarnan viljað sofa lengur, ekki síst þar sem mér gekk illa að festa svefn í gærkvöldi. Ástæðan .... nokkrar risavaxnar suðandi flugur, sem að vísu þögnuðu um leið og ég slökkti ljós.  Þar sem frekar spennandi bók var á náttborðinu var þetta slæmur kostur að slökkva.

Úti er að hvessa með morgninum og frekar þungskýjað svo ekki er mjög freistandi útivera, best að hypja sig undir teppi og hugsa hlýlega til Kristínar Magg, hún er í þessum skrifuðum orðum komin á skurðarborð til viðgerðar á sínu bilaða hné. Vonandi er doksi búinn að taka til varahlutina sem í hnéð skulu setjast, brýna vel ... og geri við rétt hné. Ég bað hana í gærkvöldi að fá mann sinn til að skrifa á skárra hnéð með feitu tússi... ekki skera hér....veit ekki hvort hún fygldi ráðinu.


Loooksins ............

Dru ...... ég til að blogga, búin að fá ávítur fyrir letina og beiðni um að hysja nú upp um mig svona blogglega séð.  Ég sé á dagsetningum að í ágúst hef ég bara ekki sett staf á blað og það er sko ekki vegna þess að ég hafi verið heima og ekkert gerst í kringum mig. Anna mín og börn voru hér vikuna fram að verslunarmannahelgi, Óli þurfti að vinna fyrrihluta vikunnar og við því án hans. En hann skilaði sér norður og lagði af stað með allt sitt vestur á Snæfellsnes snemma á föstudeginum. Við Gísli gátum ekki farið svo snemma, það þurfti að ljúka vinnudegi fyrst.  En við urðum samt á undan þeim í Snorrastaði til Hauks og Ingu en þar var ætlunin að dvelja amk. eina nótt.  Þær urðu tvær, það var gengið á Eldborg fyrridaginn og þann seinni um hraunið fyrir utan bæinn þar sem Haukur hafði virkjað heitt vatn sér og sínum til nytja. Þarna um hraunið fórum við Gísli í fygld Hauks í vor og vorum viss þess að þarna þyrftum við að koma aftur... vopnuð myndavél.  Ekki fannst Önnu síðra tækifærið að sjá sig þarna um ... með sína vél um hálsinn.

Þarna í skjóli Hauks og Ingu var yndislegt að vera en við fórum þaðan á sunnudegi undir hádegi áleiðis að Arnarstapa.  Yndislegt veður, umhverfið magnað ..... það þarf ekki að lýsa þessu frekar. Gistum þarna um nóttina og fyrir nes daginn eftir og svo heim. Óhappalaus og yndisleg helgi með ungunum mínum og kalli.

Dag í senn, hvert andartak í einu.... Björg Þórhallsdóttir er að syngja fyrir mig.

Flesta daga erum við á Núpi, Gísli að erja við að bæta og laga, gera og græja ... ég þvælist fyrir honum og sé til þess að hann hafi að eta.  Við erum stundum að furða okkur á hve mikil umferð er þarna frameftir, síðastliðinn sunnudag voru amk. sjö bílar á ferðinni eftir að við komum fram eftir um miðjan dag... höfðum verið í Saurbæ um helgina.


Föstudagur.....

Og verslunarmannahelgin framundan, er á leiðinni vestur á Snæfellsnes ... í Snorrastaði í kvöld ...... og þarna ætlum við að eyða helginni í félagsskap Bakkastaðafjölskyldunnar, þau voru að fara úr hlaði hér áðan...... ég hlýt að hafa skárri tíma í að blogga eftir helgina.

Hversdagsleikinn......

Tekinn við aftur, Gísli fór að vinna í morgun og tæplega hægt að segja að hann sé glaður með, gæti alveg þegið fleiri daga í fríi.  Við Anna erum næstum komnar niður á botn í þvottakörfunni, úti er svo hvasst að það þornar allt á svipstundu, Vala hafði áhyggjur af sínum þvotti áðan, líkast til væri hann kominn upp í tré eða utan á runnana hjá nágrannanum ... en væntanlega þurr.

Helgin var góð hjá okkur þrátt fyrir kulda og bleytu, plús gráan lit á fjallatoppum, Vala og  Anna mættu með sitt fólk, ja nema Gísli yngri var á kvennafari.  Og svo Árný, nú vinnur hún ekki um helgar eins og í fyrra, þannig að hún náði allri helginni með okkur. Óli tók góðan skurk með Gísla við að þrifa fjósrústina og nú er orðið virkilega spennandi að sjá hve þrifalegt er að verða þar.  Meir að segja nafna mín litla fékk í hendur gamalt verkfæri og skóf mold af ákafa í gamla fjósflórnum sem ég mokaði kúaskít úr fyrir áratugum síðan.

 


Komin heim ... og farin aftur.......

Það varð stutt stoppið á Húnabrautinni í gær, rúmur klukkutími eða svo, síðan var stefnan tekin í Núp .... á Núpnum okkar fjórhjólaða.  Gísli gat ekki beðið eftir að hitta sláttuvélina sína og sú launaði honum dálætið með því að bila þegar hann var búinn að slá svona sæmilegan blett ...... áður en börnin mæta þarna til helgardvalar með allt sitt útilegudót ... plús börnin. Í nótt snjóaði hinsvegar í fjallatoppa og það var kalt að koma út, brrrrr.

Ferðasagan verður að bíða betri tíma, þarf að skipta í þvottavélinni.


Yndislegir dagar........

Að baki og framundan, bíllinn kominn í lag og búið að setja á hann sólarsellu til að sjá manni fyrir rafmagni til ljósa.  Við erum uppi á Núpi næstum alla daga að lokinni vinnu hjá Gísla, tínum upp timbur og glerbrot í kringum gamla bæinn minn og lögum til á blettinum okkar góða. Svo er framundan afmælis boð í Borgarfirðinum og að því loknu ætlum við að leggja upp í hringferð um landið. Þetta höfum við ekki gert áður og hlökkum mikið til.

Sonurinn hringdi í gær ... mamma má ég fá íbúðina lánaða um Húnavökuhelgina? Okkur samdist að vísu með því skilyrði að ef þvottavélin mín er ónýt þegar ég kem heim ... þá kaupir hann nýja. Í fyrra var nefnilega þvottavélin ónýt og frystiskápurinn í flækjukasti þegar hann hafði verið hér með hópinn sinn.  Þau ætla að vera hérna með öll börnin .. og eitthvað af gestum.

Blogg andinn er eitthvað lítill núna .... er farin út í sólina.


In memory ......

Var að hlusta á lag sem Sniglabandið er að gefa á netinu þessa dagana, samið í minningu Heidda, Heiðars Þ. Jóhannssonar, sem lét lífið í slysi á leið heim af landsmóti Sniglanna fyrir þrem árum.  Ég þekkti hann ekki persónulega en börnin mín og tengdasonurinn Óli þekktu hann og ég heyrði þau oft nefna þetta nafn og minntust hans sem sérstaks einstaklings.  Nú í sumar snemma fórst Árni Ragnar Árnason, ekinn niður á gatnamótum Birkimels og Hringbrautar í Reykjavík.  Það er ekki alltaf sem orsökin að slysum mótorhjólamanna er þeirra sök, langt því frá, heldur það að ökumenn bíla virða ekki rétt hjólanna í umferðinni og gæta sín ekki sem skyldi.  Ég þarf ekki lengra en í soninn til að vita afleiðingar þess að þessa virðingu skorti, hann er enn að glíma við afleiðingar slyss sem hann lenti í fyrir meir en ári.

Núna er landsmót Snigla í Húnaveri, guð gefi að allir komist heilir heim.

Í dag er borinn til grafar hér á Blönduósi Jón Ísberg, fyrrverandi sýslumaður okkar Húnvetninga.  Hjá honum byrjaði Gísli sinn vinnuferil og líkaði vel.  Ástæðan fyrir því að hann skipti um starf ellefu árum seinna var ekki yfirmaðurinn, heldur léleg laun hjá ríkinu.  Jón þekkti ég sem milt en röggsamt yfirvald og var ekki smámunasamur, sumu var hægt að horfa framhjá. Enginn beygði hann samt ....ef hann vildi ekki. En nú er komið að leiðarlokum, innileg þökk og virðing okkar hjóna fylgi honum.  


Annar dagur júlímánaðar .......

Er runnin upp og ég ekki bloggað síðan á pilsvargadaginn, afmælisdaginn hennar mömmu minnar fyrir vestan.  Náði ekki að vera komin til hennar á afmælinu, það hefur þó stundum tekist.  En vestur fórum við þrjú, Árný tók upp gamlan sið að fara í sumarfrí með mömmu og pabba og í þetta skiptið var hún ofurþæg ... enda enginn lítill bróðir til að jagast við í aftursætinu.  Men hvað þau gátu rifist.  Þau hafa líklega verið átta og níu ára þegar við fórum með þau í bústað austur við Lagarfljót  á stórum bíl sem kallaður var Surtur, níu manna bíll minnir mig. Það var ekki nóg að hafa þau í sitt hvorri sætaröðinni, það varð að hafa bil á milli til að hægt væri að halda áfram för.  Komin austur lagaðist þó samkomulagið en einhvern daginn tóku örþreyttir foreldrarnir sér hádegisblund og systkinin fóru til veiða í fljótinu.  Þegar við losuðum svefn var auðheyrt að samkomulagið var á bak og burt, Árný var reið en auðheyrt var að Jökull skammaðist sín, hann var allavega lágvær... það var alveg nýtt í þeirra deilum. Við risum upp og litum út ...... og maður minn... kom ekki drengurinn röltandi heim með nýju veiðistöngina sína í hendinni og öngulinn tryggilega fastan í buxnarassi systur sinnar. Þeim fannst lítið til um móttökurnar foreldranna, hlæjandi bæði út að eyrum.

En nú var vopnið sem með var tekið .... myndavél og Jökull fjarri góðu gamni, staddur úti í Portúgal.

En dagarnir með mömmu og pabba urðu góðir, gist úti við Sveinseyri eina nótt, aðra inni í Dýrafjarðarbotni, hinar á planinu fyrir utan hjá þeim.  Þar fann Gísli hellu eina mikla sem hann vildi endilega taka með sér heim.  Ekki hægt að komast á húsbílnum nærri henni svo hann fékk pabba í lið með sér .... alltaf hægt að treysta því að gamli sé til í bras.  Hellan góða sem ég kalla Dýrfirðing var sett á mitt gólfið í bílnum pökkuð vel inn svo ekki skemmdi hún og það var ekki laust við að pabbi væri hróðugur á svipinn þegar ég varð að viðurkenna að honum hefði tekist þetta prýðilega og hellan væri varla fyrir einu sinni.

Heim vorum við komin á föstudag um kaffleytið til að taka okkur til fyrir ættarmót í Húnaveri, vorum þar fram á sunnudag í góðu veðri.  Síðan ætluðum við í Núp en miðstöð í bílnum neitaði að halda á okkur hita um kvöldið, þannig að við höfum sofið heima en verið framfrá eftir vinnu hjá Gísla. Framundan er svo barnahelgi og hænsnahússverk um helgina, erum að leysa af, Ragnar og Sandra eru á Kaldármelum með allavega tvö hross í keppni......

 

P.S.  Það er búið að gróðursetja í reitinn okkar og setja niður húsið og nú er Gísli að hreinsa margra ára sinu uppúr blettinum... með garðsláttuvél.  Ella Bogga og Sævar ...... kíkið á breytinguna frá í vor.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband