. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Fortíðar flipp.....

Þetta fyrirbæri hreiðrar um sig í kolli mínum í hvert sinn og ég tek fram tusku og þurrka af myndum þeim sem ég gat ekki hugsað mér annarstaðar en uppi á vegg á mínu nýja heimili þegar ég flutti hér inn á efri hæðina á Húnabraut 11 fyrir bráðum þremur árum.  Núna byrjaði ég á myndunum af þeim afa mínum og ömmu á Núpi, á af þeim bæði "sparimynd" sem er tekin af þeim á miðjum aldri og svo á ég eina sem er tekin af þeim á hlaðinu á Núpi, þau orðin gömul og amma hætt að skynja hvaða dagur væri eða hvort dagur væri eður nótt..... Ég man samt enn hve lófinn hennar var mjúkur og hlýr þegar ég skreið upp í til hennar og hún klappaði mér á bæði koll og kinn.  Afi var svo lánsamur að guð tók ekki af honum skynjun hans á veröldina þó hann væri orðinn gamall og stundum veikur. 

Svo er þarna mynd af mömmu og pabba með börnin sín þrjú sem þau fluttu með í sveitina sumarið 1957, sitt hvorumegin hanga  myndir af stúdentakollunum mínum, þeim Lenu og Ingu Maju.  Báðar brosandi og bjartar á svip, Lenan mín enn búlduleit og hefur mikinn svip af ömmu sinni og nöfnu.  Báðar bera þær í dag merki þess að hafa þurft að hafa töluvert fyrir tilveru sinni, önnur orðin tveggja barna mamma og hin að verða það.  Svo er þarna María Sif ... Sævars og Ellu Boggu dóttir, nýútskrifaður leikskóla kennari, í upphlutnum mínum sem fer henni svo ljómandi vel.....

Amman mín Sigurlaug Þorláksdóttir er þarna líka. Stuttu eftir að ég flutti í Mýra fékk ég boð frá gamla bóndanum á Sölvabakka, Jóni, að finna sig.  Erindið var að gefa mér þessa mynd og þetta er líka það eina sem ég á sem tengir mig við hana , mér er annars sagt að ég sé um margt lík henni, tannhvöss frekar og sitji ekki sem skyldi á skoðun minni um hvaðeina.  Svo er það hún gamla mín eins og ég kallaði hana gjarnan, Unnur á Neðrimýrum.  Ég man eftir að hafa komið blaut og köld heim í eldhús til hennar sem krakki og hún hlynnti að mér , þurrkaði kalda fætur og nuddaði og bjó til handa mér sjóðheitt súkkulaði að drekka.  Þetta gat ég launað henni þegar ég var komin á næsta bæ og hún að hætta að ráða við sinn daglega hring. Og ásamt fleirum gert henni kleift að vera heima til loka, 2 júní 1988 að morgni dags hallaði hún ser útaf í fangi mér og kvaddi veröldina.  Eins og hún var svo oft búin að hafa á því orð.. að deyja heima og ekki að vera ein, þessa ósk fékk hún uppfyllta.

Efst á veggnum er svo barnaröðin þeirra Jökuls og Oddnýjar , hvert öðru fallegra og skemmtilegra.

Farin að elda grjóngraut í hádegismatinn.... svo er það meiri afþurrkun......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æ Halla mín :) þú segir svo vel frá... bara lýsing á einum vegg á heimili þínu verður að litríkri og lifandi frásögn...

takk :)

Sif (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 08:04

2 Smámynd: Anna Gísladóttir

Veistu mamma, þegar ég les þetta rifjast vel upp fyrir mér þegar við systkinin beittum öllum tiltækum brögðum til að fá leyfi til að heimsækja Unni. Hún átti alltaf heitt kakó, súkkulai og fleira gott sem að hún sparaði sko ekki við okkur. Það er ekki laust við að ég brosi út í annað við að rifja þessar aðferðir upp, s,s, eins og þegar að við gerðum tiltaunir með hvort þú segðir já við hverju sem er í svefni ;)

Anna Gísladóttir, 22.2.2010 kl. 13:28

3 identicon

Ég fór einmitt með fjölskylduna á Laxárdalinn í gær, en við fórum nú ekki lengra en að Núpi og held ég barasta að það sé í fyrsta skipti sem ég kem heim á halðið á Núpi. Strákarnir voru að athuga hvernig væri að renna sér á stírissleðunum þar og þeim fannst það frábært.

Aðalbjörg (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband