. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Messa hins heilaga Þorláks .........

Það þýðir að það er kominn 23 desember og dagur nokkru hafinn. Ætlaði skrifa hér inn í nokkrum áföngum í dag, eftir því sem tími vinnst til.  Byrjaði daginn á því að finna rúmfötin mín sem tilheyra jólum og eru næstum jafngömul búskap mínum með Gísla.  Það var ekki nóg að finna þetta, næst tók við að skipta á rúminu og að jafnaði er ég ekki ein við verkið .... dýnurnar eru ófétislega þungar. Þetta hafðist nú samt.  Næst var að þagga niður í þáttastjórnendum á rás tvö, Gísli hafði skilið eftir opið útvarp í eldhúsinu, mér finnst þetta par alveg hrútleiðinlegt og fann því geisladisk með jólalögum til að hlusta á ...... allt annað líf.  Næsta mál á dagskrá er að gera birgðakönnun í búri og ísskáp, hvað vantar fyrir jólagrautareldun í hádeginu á morgun... kannski vantar eitthvað fleira.  Skatan í hádeginu... ekki má ég gleyma henni.......

Komin heim úr skötuáti og verð að fresta ferð á Skagaströnd á meðan Óskar gerir við dekk undir Nissan, bíllinn var nánast á flötu hér fyrir utan. Skatan var góð og við mörg við borðið, Sighvatur og Maja með börnin, Inga... Vala,Gummi og börn og svo Óskar.  Það er gaman að sjá hve margir það eru sem koma þarna í skötu á þorláksmessu.

Dekkið komst í lag, í því var óboðinn gestur ...... nagli sem Pavel fjarlægði og gerði við.  Síðan fóru þeir Gísli yngri og Óskar upp í Mýra í verkin, við Svanhildur út á Skagaströnd, fyrst upp í kirkjugarð með grenigrein á leiðið hennar ömmu Sossu eins og börnin kölluðu hana og síðan niður í Skeifu til afans sem nú er þar einn og gladdist við gestakomuna.  Enn er allt sem áður og ekki margt sem breytist..... nema amman er horfin.  Það er varla hægt að lýsa því með orðum hve yndislegt það er að koma þarna inn og rifja upp gamla daga í huga sér.  Næsta mál á dagskrá, keyra út jólapökkunum sem gleymdist að taka með þegar farið var í skötuveisluna......

Mér entist ekki dagurinn, það er kominn aðfangadagur jóla þegar ég lýk þessari bloggfærslu. Jólatréð er komið upp og fullskreytt, búið að skreyta íbúðina, sjóða hangikjöt og það er að breiðast út rúgbrauðsilmur um allt hús, það er venja að sé til nýtt rúgbrauð með jólagrautnum í hádeginu á aðfangadag.  Þegar Sollan mín kom örþreytt úr vinnunni í kvöld, var jólaísinn testaður.... og reyndist ætur.  Hún fór síðan heim, Árný og Óskar fóru til Lenu og við í að ljúka frágangi hér.

Nú er ég nýkomin úr jólabaði, ný náttföt og inni í herbergi bíður rúmið mitt ...... hreint og fínt ..... góða nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband