. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Árið 2012.......

Er bara rétt handan við hornið, hafði af því mikið gaman í gær að hlusta á Villa Vill syngja lag með þessu heiti frá árinu 1968.  Höfundurinn Ómar Ragnarsson var að rifja upp tilurð þess og hvað hefði orðið að raunveruleika.  Ég sé ekki vitund eftir þessu ári sem er að kveðja, það hefur um margt verið mér erfitt og margt breyst í kringum mig. Og enn eru breytingar yfirvofandi, Árný og Óskar eru að flytja á Skagaströnd upp úr áramótum og þá eru við orðin ein hér í húsinu gömlu hjónin.  Það ætti að vera rúmt á okkur.

Hér er ömmustrákur Sigurjón Stefán í heimsókn og kemst ekki heim fyrr en með okkur afa sínum 2 jan.  Hann er ekkert ósáttur við að vera hér um áramótin, öðru nær,  Eltist við ömmu og ketti frænku sinnar og er hinn ánægðasti. Jólin héldum við á Bergveginum hjá Jökli og Oddnýju, Birnir var þar einn barna heima.  Friðsæl og róleg jól ....... þangað til eldri börnin mættu á annan dag jóla, þá minnkuðu rólegheitin. 

Nú er það afslöppun og saumaskapur frameftir degi, ég þarf ekki að elda í kvöld og ætla að njóta þess til hins ítrasta að gera bara það sem mig langar til það sem eftir lifir árs.......

Gleðilegt ár allir þeir sem slysast til að lesa þetta.....


Messa hins heilaga Þorláks einu sinni enn.....

Enn er hún mætt þessi messan með rúgbrauðsilmog skötuvon í hádeginu hjá Majunni og Lenu, þeim ofbauð verðlagningin á Pottinum og ákváðu að gera þetta bara sjálfar.  Ég fékk að leggja til rúgbrauðið. Svo er það tiltektin fyrir Keflavíkina, skrifaði tossalistann komin á koddann í gærkvöldi.  Það var ekki laust við spurnarsvip á hjásvæfli mínum þegar ég skreið upp í með penna og blað plús bók, það er vont að skrifa á þunnt blað á lakinu einu, Þetta tókst bærilega, ekki er nú samt nein snilld á skriftinni.  Var víst farin að dotta, enn með pennan í hendinni og hélt að Gísli væri sofnaður, heyrist þá ekki af hinum koddanum... hangikjöt.  Ekki mátti það gleymast, hann var búinn að semja við Oddnýju að sjóða hangikjöt á þorláksmessukvöld, ég harðneitaði að endurskipuleggja hennar siði og venjur við eldamennsku á jólum.

Hér leika litlu bræðurnir af neðri hæðinni inni í stofu, þau eru bæði að vinna.


Takk Sifin min kær......

Frænka sér að það er þó allavega einn sem kikir hér inn og les það sem ég er að setja hér á blað, ja eða skjá frekar.  Núna er ég eiginlega að þjófstarta jólum, á eldavélinni minn sýður hangikjöt í stórum potti.  Árný birtist hér einn daginn í vikunni með stórt hangilæri og bað mömmu um að sjóða það á föstudaginn ... áður en Svanhildur færi.  Hún er svo heppin stelpan sú að í matinn hefur verið flest hennar uppáhald í matinn síðan hún kom norður, kjötsúpa, kjötbollur, hangikjöt....... og amman að baka smá fyrir jólin svo hún hefur gæðaprófað fyrir mig baksturinn jafnharðan.  Meir að segja mömmukökurnar áður en kremið kom á þær.

Úti er frekar þungt yfir, ekki snjókoma samt en kalt.  Fór í morgun með Smárann og Alexander á rútuna, þeir voru að fara suður til pabba um helgina.  Kátir vel að vanda og Smárinn ekki búinn að gleyma óförum ömmu sinnar frá síðustu ferð og stríddi mér óspart.

Núna er það dagsmottóið að ljúka við eina vinargjöf sem ég er að sauma og svo þvottafjallið eilífa..... Svanhildur var að vakna, ekki seina vænna ...komið hádegi.


Árið 2011....

Er brátt á enda og ég get ekki sagt að ég sakni þess nein býsn.  Það hefur svo margt færst til og breyst í kringum mig og ég enn að sætta mig við breytingarnar.  Stærsta breytingin er þó að Vala og Gummi fluttu suður á Selfoss.  Gerðist nokkuð snögglega og flutningum fygldu hrellingar nokkrar hjá þeim sem ekki var séð fyrir endann á fyrr en nú nýlega. Árný og Óskar giftu sig 16 júlí í sumar fram í Undirfellskirkju og veislan var haldin í hlöðunni í Saurbæ. Góður dagur sólbjartur og fallegur. Við skiptum um húsbíl í sumar, yngri bíll og betri og sómir sér vel á blettinum okkar góða uppi á Núpi.  Notuðum okkur vel að eiga svona grip, gistinætur í bílnum urðu yfir níutíu.  Oftast uppi á Núpi, tvær ferðir vestur, útilega með börnum og vinum um verslunarmanna helgina, bara gaman.  Helgi um hrossaréttir fram á Núpi, Anna og Óli komu norður með börnin, gistu hér heima en voru mest með okkur uppfrá.  Kristján Atli kemur orðið reglulega í heimsókn til Árnýjar og Óskars nokkra daga í mánuði og unir sér vel, ekkert áreiti þegar hann er einn.

Ég eyddi nokkrum dögum núna snemma í desemberfyrir sunnan og naut gistivináttu og hjálpar hjá Valla og Öllu Rúnu, var með "litla" frænku með mér sem þurfti hjálp í nokkra daga.  Uppgötvaði við þetta að ég mætti að ósekju rækta betur sambandið við bræður mína..... mann er víst endalaust að læra.  Laugardaginn sem ég var í bænum fór ég með Önnunni minni á jólatónleika með Björgvin Halldórssyni og gestum hans. Að þeim öllum ólöstuðum naut ég þess mest að hlusta á snáðann hennar Dúu minnar, Svein Dúa Hjörleifsson.  Unun að heyra hve vel hann hefur þroskað þennan hæfileika sinn ... að syngja eins og engill.  Hver veit nema mamma hans hafi getað fyglst með honum.

Svanhildur mín sefur héna niðri, kom norður til afa og ömmu í gær ... yndislegt að hafa hana í nokkra daga.


Jólafasta.....

Ég gaf manni mínum hornauga þegar ég sá hann kíkja hér inn í hádeginu í dag, sá að svipurinn bar þess vott að þetta væri leti hjá mér að blogga svona sjaldan.  Og Sifin mín segir að ég bloggi varla orðið nema einhver deyi sem mér þyki vænt um.  Það er reyndar rétt hjá henni að oft er það mín leið að blogga við þau tækifæri, rifja upp minningar og myndir í huga sem ég á með þeim sem kveður í það og það skiptið.  Oft er það líka á jólum sem mann saknar sárt þeirra sem farnir eru. Síðast í gær rifjaðist upp fyrir mér, við 12 ára afmæli Smárans, að nú væru tólf ár síðan tengdamamma kvaddi þann 4 jan næstkomandi.  Hann náði hún ekki að sjá og því var mynd af snáðanum sett á koddann hjá hennni þegar kistulagt var. Og í mars komandi verða fimm ár síðan tengdapabbi kvaddi okkur. Líka tvö ár í marslok síðan mamman mín á Skagaströnd kvaddi.  Ég sakna þeirra allra sem og margra vina og ættingja sem farnir eru á undan mér .........

En nóg um það, mann á ekki að horfa um of í baksýnisspegilinn, það þarf líka að horfa fram á við.  Og ég hef margt að gleðjast yfir þegar ég sé börnin mín og barnabörnin sýna atorku og dugnað við það sem þau hafa tekið sér fyrir hendur á árinu sem er senn liðið.

Blogga betur um árið næst, núna er að ljúka bakstri hjá mér fyrir aðventukaffi  með neðrihæðarbúum......


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband