. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

14 apríl....

Hún frænka mín, Anna Marta Helgadóttir var lögð í sína hinstu hvílu í dag, falleg athöfn  og mikið sungið, með þessum kirkjukór söng hún sjálf fyrr á árum og auðséð var að hún var vinmörg, það sýndi fjöldinn sem fylgdi henni síðasta spölinn.  Notalegt að setjast svo niður með fólkinu hennar við kaffi og spjall að athöfn lokinni.  Þar hitti ég systur hennar, Guðrúnu en hana hafði ég ekki séð í mörg ár.  Maður er alltof latur við að rækta samband við frændfólk sitt.

Góða ferð elsku frænka.

Í dag mundi ég eftir afmælisdegi, Sófus í Tungu var fæddur þennan apríl dag 1926.  Hann var því fjórum dögum eldri en pabbi og lengi erti pabbi granna sinn á því að sín merkisafmæli yrðu ekki dýr framkvæmd, hann þyrfti bara að hafa afréttara eftir veislur Sófusar.  Verst að til þessa kom aldrei, hvorugur hélt upp á tugafmæli sín, pabbi sagðist ekki fara að standa fyrir einhverjum kúnstum í tilefni fimmtugsafmælis síns, það bar upp á páskadag.  Deginum eyddi hann og fjölskyldan á Brekkubyggð 18, hjá okkur Gísla, en svona af meðfæddri stríðni og stráksskap skildi hann bílinn sinn eftir fyrir utan lögreglustöðina.  Alla Rúna var svo skikkuð sem dyravörður þegar Þormar Kristjáns kom í dyrnar að leita að pabba.  Hún var svo nýkomin í fjölskylduna að henni var best treystandi til að koma ekki upp um að kall væri þarna inn.

Komið kvöld og barnabarn hjá ömmu og afa, Anna Guðbjörg ætlar að passa okkur í kvöld og nótt .....


Og enn fækkar ....

Fékk símtal eftir hádegið í dag, frá frænda mínum, bóndanum á Uppsölum, sem sagði mér andlát móður sinnar.  Hún Anna Marta var ekki bara náfrænka mín, hún var líka uppeldissystir mömmu, ólst upp í Neðri-Hjarðardal hjá ömmu sinni, Önnu Guðrúnu Jónsdóttur, sem var langamma mín og bjó hjá dóttur sinni og tengdasyni, móðurforeldrum mínum.  Með þeim mömmu og henni var því kært frá upphafi og höfðu samband eftir getu þegar báðar voru sestar að í Húnaþingi. 

Anna frænka stýrði sínu stóra heimili styrkri hendi og það var ljúft og notalegt að vera gestur hennar, sambandi við ættingja og vini hélt hún meðan heilsa entist, en sú var henni ekki hliðholl nú síðustu árin.

Friður, kyrrð og innileg þökk fylgi henni á veg við vistaskiptin.

Hér er fækkað eftir páskana, gestir horfnir til síns heima, ekkert sjóveður svo Jökull fór líka suður í gær. Elísa mín er nú samt hjá ömmu að leika sér, enginn skóli fyrr en á morgun.


6 apríl......

Og langt síðan ég bloggaði síðast, enda búin að fá áminningu.  Nokkrar en hundsa þær nema þegar Kiddi sendir mér tóninn.  Enda er hann lengst í burtu.  Er ekki einusinni búin að tengja mig á skype við hann, þó ég eigi orðið græju til þess.

Annars er svosem ekki margt að frétta héðan, hér röltir allt sinn vanagang, Gísli enn á kafi í skattinum og sést varla hér heima svo ef mér leiðist þá tolli ég ekki heima, er nýkomin heim eftir nokkurra daga dvöl hjá Önnu og Óla, var í fermingarveislu hjá vinafólki í gær og Gísli sótti mig.  Alltaf sama fjörið á Bakkastöðunum, nafna mín er dugnaðarkona mikil og skapstór og nú er hún að fara í skóla í haust .... mér finnst hún vera næstum nýfædd, ekki eldist ég svona hratt.

Enn kvarnast úr rammanum mínum, nú er Marý konan hans Bjarna frænda látin.  Fyrst til að kveðja úr makahópnum systkinanna frá Neðri-Hjarðardal við Dýrafjörð.  Það hafa verið áleitnar minningarnar um móðurfólkið mitt síðustu daga, fermingarvorið mitt fékk ég að fara vestur með afa sem kom í ferminguna mína.  Þá voru þau Bjarni og Marý farin að búa á móti þeim afa og ömmu og bjuggu á efri hæðinn, þarna kynntist ég henni fyrst, hávær svolítið og lét flest fjúka.  Alltaf tók hún mér og mínum af mikilli hlýju og rausnarskap og skipti þá engu hvort við vorum tvö á ferð eða sjö.

Friður og þökk fylgi henni í nýrri veröld.

Jökull og Árni eru á sjónum að vitja um grásleppunetin þó að sé helgidagur, fólk er alveg hætt að bera virðingu fyrir þessum dögum sem hér áður fyrr voru teknir svo bókstaflega að eingöngu mátti gera það allra nauðsynlegasta  í fjárhúsum og fjósi svo skepnum liði vel.  Veit ekki hvort þið bræður mínir munið eftir að hafa þurft að sitja stilltir og þegjandi undir messu í útvarpinu þegar Kristján afi var í heimsókn, ég man vel eftir þessu.  Einnig að fara í betri föt á sunnudögum og vera svo sífellt með áminninguna í eyrunum að skíta sig nú ekki út ... það var ekki rafmagn hvað þá þvottavél... og við öll skelfilegir sóðar að mati þeirra fullorðnu.  Sem var auðvitað fjarri lagi að okkar mati.

Oddný er væntanleg norður í dag með synina, Magnea er komin svo hér verður ekki dauðaþögn um páskana og ég ætla ekki að leggja það á börnin að sitja stillt og prúð á páskadagsmorgunn og hlusta á messu, ætli verði ekki páskaeggjaleit og át fram undir hádegi ..... Anton trúði mér ekki í morgun þegar ég sagði honum að ég hefði ekki fengið páskaegg þegar ég var lítil.......


19 febrúar......

 Við eigum fjörutíu ára samveruafmæli í dag hjónin ,og einhverntíman fyrir jól fórum við að spjalla um hvort okkar ætti nú að bera ábyrgð á að gera hinu afmælisdaginn eftirminnilegan. Helst var ég á því að nota spil til að draga um þetta ... þangað til að ég uppgötvaði að þennan dag bar upp á konudaginn. Úrskurðaði því ósvífnislega að hann sæti uppi með tvöfalda ábyrgð á þessum degi. Og hananú. Þessu var auðvitað ekki áfrýjað á nokkurn máta svo hann sat uppi með verkið. Byrjunin var svo að kall kom heim nýrakaður og klipptur úr vinnunni á þriðjudaginn var. Ég er venjulega búin að rífast í honum í marga daga, jafnvel vikur áður en hann dr... í klippingu, þetta er svoddan óraleið upp á næstu hæð í sama húsi og vinnan. Hann fékk prik fyrir þetta.  Á föstudagsmorgun eldsnemma keyrðum við í bæinn, hann á fund og var búinn að panta gistingu og mat á hótel Hamri í Borgarfirði í heimleiðinni í tilefni konudags og afmælis. Mér fannst þetta flott hjá honum og var bara sátt við. Ég var svo geymd hjá Önnunni minni á meðan hann var á fundi, hún hringdi reyndar í pabba sinn á leiðinni suður, ég varð hissa því hún átti að vera steinsofandi eftir næturvakt og hann gaf eitthvað lítið út á hvað eiginlega hún hefði viljað og hversvegna hún væri vakandi enn og klukkan að verða hálftíu. En þegar ég læddist inn var hún þó sofandi og Gísli hvarf fljótlega í fundastandið. Við mæðgur höfðum svo nóg að spjalla þegar hún vaknaði, ég búin að lesa öll blöð sem ég fann og sauma svolítið, já og smákríu. Síðan birtist Gísli um hálfsexleytið, of seinn að venju, með bókapoka, þrjár glæpasögur og þrjár ævisögur og gaf mér. Þegar ég vildi svo fara að komast í dekrið á Hamri leit hann upp og spurði dóttluna hvort hún geymdi ekki eitthvað fyrir sig.  Jú.. var svarið, sittu kyrr mamma. Ég hlýddi því sem og að loka augum og helst halda fyrir þau, gólaði hún framan úr herbergi elsta sonar síns. Svo heyri ég eitthvað bjástur og urr í rennilás á eldhúsborðinu sem ég sat við þangað til Gísli segir... nú máttu taka frá augunum. Sem ég geri umsvifalaust. Á borðinu fyrir framan mig var fartalva í opinni tösku með sautján tommu skjá, skype og alles. Á skjánum var risastór blómvöndur og kampavínsflaska og talan 40.
Er einhver hissa á þó hann fengi stórt knús og koss þegar ég hafði loks rænu á að standa upp.

Í dag hefur Gísli svo mest haldið sig í vinnunni, ég hér heima með Elísu og þegar Árný birtist undir kaffi fórum við öll upp á Hlíðarbraut til Maju og Sighvatar í bollukaffi ... hér verður enginn kvöldmatur.


Janúarlok......

Eru alveg að bresta á og mánuðurinn verið ansi fljótur að líða og verið fjölbreyttur.  Það var erfitt að koma heim í snjó og kulda, frá Tenerife úr hitanum þar.  Mér er varla orðið hlýtt ennþá.  Ennþá sunnar kvartar Kiddi yfir 30 stiga hita, vildi óska að þessu væri aðeins betur skipt niður.

Hér röltir allt sinn vanagang, Gísli að vinna, ég reyni að sjá til að við sveltum ekki og séum sæmilega til fara, sauma svo og les þess á milli.  Barnabörnin gleðja mig oft seinnipart dags með því að koma hingað úr skólanum og ýmist leika sér eða læra.Sólin aðeins farin að hækka á lofti og það þýðir bara eitt ..... það styttist í vorið.


Gleðilegt nýtt ár......

Þótt seint sé, þá skal þetta vera yfirskriftin hjá mér núna.  Ekki gafst tími til að blogga áður en ég fór af stað áleiðis til Tenerife þann annan janúar síðastliðinn.  Ekkert gaman að blogga þar á tölvu sem ekki er með íslenska stafi og síðan ég kom heim, hefur hvorki verið friður né tími.

Tenerife dvölin varð góð.... þegar við vorum komin þangað en það tók rúma þrettán klukkutíma frá því við komum í flugstöð hér og þangað til komið var á hótel úti.  Ein "máltíð" í byrjun flugs og síðan var ekki einu sinni hægt að fá vatn, hvað þá eitthvað annað.  Ástæðan, það var ekki hægt að gefa til baka og ekki posi. Seinkun hér heima, millilending í Palma.... seinkun þar í hálfan annan klukkutíma, það var farið að síga illilega í hjásvæfil minn.  Og klukkan langt gengin í eitt um nóttina við komu á hótel var auðvitað allstaðar lokað og allir svangir og þyrstir.  Þessvegna gladdi það mann mikið að sjá á borði í íbúðinni.... þegar hún fannst loksins... ávexti og léttvínsflösku. Og það voru þreytt hjón sem lögðu sig til svefns á herbergi 3049 á Parque Santiago III ....... í góðu rúmi og með frábæra kodda.

Við tóku hlýir og yndislegir dagar og letilíf hjá mér en gönguferðir um allan bæ hjá Gísla, ýmist einn eða með Mumma og Sigrúnu. Já og það kom fyrir að ég fór líka. Oftar þó líklega einn, hann er í mun betra gönguformi og líklega óráð að labba 17 km í einu ...með slæma astma ( Mummi). Gísli hinsvegar fann ekkert fyrir þessu.  Fórum í skoðunarferð, sem við fórum reyndar líka í fyrra en það var svo fallegt í Mascadalnum að ég væri til í eina ferð enn...... magnað.

10 jan fórum við út að borða og minntumst tengdapabba sem hefði orðið hundrað ára þann dag, hefði honum enst ævin lengur.  En níutíu og fimm ár er löng ævi og meðan við borðuðum og drukkum eðalvín með rifjuðum við upp ótal minningar og skáluðum fyrir honum.  Þennan dag varð Magnea hans Jökuls 13 ára, meira hvað börnin eldast hratt.  Og í dag er Aron Leó 10 ára.

Það var því ekki laust við að um mig færi hrollur þegar leið að heimferð, heima snjóaði... og snjóaði meira, fór svo að rigna og spáði andstyggilega fyrir deginum sem við ætluðum að keyra norður.  Vorum búin að frétta að nýji bíllin okkar væri kominn til landsins en ekki næðist að afgreiða hann svo við gætum farið norður á honum.  Þetta leystist þannig að Jökull og Oddný komu á honum norður núna á föstudaginn og fóru í gær á Nissan og skiluðu honum til kaupanda í morgun.

Það var því fjör hér og gleði um helgina, Elísa og Anton tolla hvergi nema hér, sé frændfólk í heimsókn og þau fengu að gista á laugardagskvöldið meðan allt fullorðna fólkið fór á Vökuþorrablót.  Ég fór að vísu heim eftir mat og skemmtiatriði og hér var allt í sátt og samlyndi og Birnir litli sofnaður.  Það var notaleg stund með þeim stóru þegar ég var háttuð, þá kom Magnea og var að segja mér að besti vinur hennar hafði misst ömmu sína fyrr um kvöldið. Nokkru seinna voru þau komin næstum öll í kringum mig í rúmið og voru að rifja upp minningar sem þau áttu um missi og sorg.  Knúsuðu svo ömmu og afa góða nótt og fóru að sofa .... yndislegust.

Í gær tíndist svo fólk heim, Smári og Anton horfðu á handboltann með ömmu, síðan fór Smárinn og Anton ekki fyrr en undir kvöldmat.

Nú mallar á eldavél kjöt í kjötsúpu sem skal etin í kvöld .... og afgangur frystur, það er útilokað að við getur etið fullan pott bara tvö.........


Árið 2012.......

Er bara rétt handan við hornið, hafði af því mikið gaman í gær að hlusta á Villa Vill syngja lag með þessu heiti frá árinu 1968.  Höfundurinn Ómar Ragnarsson var að rifja upp tilurð þess og hvað hefði orðið að raunveruleika.  Ég sé ekki vitund eftir þessu ári sem er að kveðja, það hefur um margt verið mér erfitt og margt breyst í kringum mig. Og enn eru breytingar yfirvofandi, Árný og Óskar eru að flytja á Skagaströnd upp úr áramótum og þá eru við orðin ein hér í húsinu gömlu hjónin.  Það ætti að vera rúmt á okkur.

Hér er ömmustrákur Sigurjón Stefán í heimsókn og kemst ekki heim fyrr en með okkur afa sínum 2 jan.  Hann er ekkert ósáttur við að vera hér um áramótin, öðru nær,  Eltist við ömmu og ketti frænku sinnar og er hinn ánægðasti. Jólin héldum við á Bergveginum hjá Jökli og Oddnýju, Birnir var þar einn barna heima.  Friðsæl og róleg jól ....... þangað til eldri börnin mættu á annan dag jóla, þá minnkuðu rólegheitin. 

Nú er það afslöppun og saumaskapur frameftir degi, ég þarf ekki að elda í kvöld og ætla að njóta þess til hins ítrasta að gera bara það sem mig langar til það sem eftir lifir árs.......

Gleðilegt ár allir þeir sem slysast til að lesa þetta.....


Messa hins heilaga Þorláks einu sinni enn.....

Enn er hún mætt þessi messan með rúgbrauðsilmog skötuvon í hádeginu hjá Majunni og Lenu, þeim ofbauð verðlagningin á Pottinum og ákváðu að gera þetta bara sjálfar.  Ég fékk að leggja til rúgbrauðið. Svo er það tiltektin fyrir Keflavíkina, skrifaði tossalistann komin á koddann í gærkvöldi.  Það var ekki laust við spurnarsvip á hjásvæfli mínum þegar ég skreið upp í með penna og blað plús bók, það er vont að skrifa á þunnt blað á lakinu einu, Þetta tókst bærilega, ekki er nú samt nein snilld á skriftinni.  Var víst farin að dotta, enn með pennan í hendinni og hélt að Gísli væri sofnaður, heyrist þá ekki af hinum koddanum... hangikjöt.  Ekki mátti það gleymast, hann var búinn að semja við Oddnýju að sjóða hangikjöt á þorláksmessukvöld, ég harðneitaði að endurskipuleggja hennar siði og venjur við eldamennsku á jólum.

Hér leika litlu bræðurnir af neðri hæðinni inni í stofu, þau eru bæði að vinna.


Takk Sifin min kær......

Frænka sér að það er þó allavega einn sem kikir hér inn og les það sem ég er að setja hér á blað, ja eða skjá frekar.  Núna er ég eiginlega að þjófstarta jólum, á eldavélinni minn sýður hangikjöt í stórum potti.  Árný birtist hér einn daginn í vikunni með stórt hangilæri og bað mömmu um að sjóða það á föstudaginn ... áður en Svanhildur færi.  Hún er svo heppin stelpan sú að í matinn hefur verið flest hennar uppáhald í matinn síðan hún kom norður, kjötsúpa, kjötbollur, hangikjöt....... og amman að baka smá fyrir jólin svo hún hefur gæðaprófað fyrir mig baksturinn jafnharðan.  Meir að segja mömmukökurnar áður en kremið kom á þær.

Úti er frekar þungt yfir, ekki snjókoma samt en kalt.  Fór í morgun með Smárann og Alexander á rútuna, þeir voru að fara suður til pabba um helgina.  Kátir vel að vanda og Smárinn ekki búinn að gleyma óförum ömmu sinnar frá síðustu ferð og stríddi mér óspart.

Núna er það dagsmottóið að ljúka við eina vinargjöf sem ég er að sauma og svo þvottafjallið eilífa..... Svanhildur var að vakna, ekki seina vænna ...komið hádegi.


Árið 2011....

Er brátt á enda og ég get ekki sagt að ég sakni þess nein býsn.  Það hefur svo margt færst til og breyst í kringum mig og ég enn að sætta mig við breytingarnar.  Stærsta breytingin er þó að Vala og Gummi fluttu suður á Selfoss.  Gerðist nokkuð snögglega og flutningum fygldu hrellingar nokkrar hjá þeim sem ekki var séð fyrir endann á fyrr en nú nýlega. Árný og Óskar giftu sig 16 júlí í sumar fram í Undirfellskirkju og veislan var haldin í hlöðunni í Saurbæ. Góður dagur sólbjartur og fallegur. Við skiptum um húsbíl í sumar, yngri bíll og betri og sómir sér vel á blettinum okkar góða uppi á Núpi.  Notuðum okkur vel að eiga svona grip, gistinætur í bílnum urðu yfir níutíu.  Oftast uppi á Núpi, tvær ferðir vestur, útilega með börnum og vinum um verslunarmanna helgina, bara gaman.  Helgi um hrossaréttir fram á Núpi, Anna og Óli komu norður með börnin, gistu hér heima en voru mest með okkur uppfrá.  Kristján Atli kemur orðið reglulega í heimsókn til Árnýjar og Óskars nokkra daga í mánuði og unir sér vel, ekkert áreiti þegar hann er einn.

Ég eyddi nokkrum dögum núna snemma í desemberfyrir sunnan og naut gistivináttu og hjálpar hjá Valla og Öllu Rúnu, var með "litla" frænku með mér sem þurfti hjálp í nokkra daga.  Uppgötvaði við þetta að ég mætti að ósekju rækta betur sambandið við bræður mína..... mann er víst endalaust að læra.  Laugardaginn sem ég var í bænum fór ég með Önnunni minni á jólatónleika með Björgvin Halldórssyni og gestum hans. Að þeim öllum ólöstuðum naut ég þess mest að hlusta á snáðann hennar Dúu minnar, Svein Dúa Hjörleifsson.  Unun að heyra hve vel hann hefur þroskað þennan hæfileika sinn ... að syngja eins og engill.  Hver veit nema mamma hans hafi getað fyglst með honum.

Svanhildur mín sefur héna niðri, kom norður til afa og ömmu í gær ... yndislegt að hafa hana í nokkra daga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband