. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Snóker var það auðvitað......

Ég kem ekki nálægt þessu borði sé það í notkun, síðan ég fékk olnboga í mig af alefli við að rölta í sakleysi mínu framhjá, horfi í hæsta lagi á ef Jói og Haukur eru að spila, þeir eru nefnilega að þessu sér til skemmtunar, öfugt við þá sem voru að spila brids í gær, notuðu sitt hvort sagnakerfið og létu óspart heyra í sér skoðun sína á asnanum sem sat á móti... eða við aðra hvora hliðina.

Aftur rólegur dagur í dag, sökum fjarvista....... neinei ég er hér enn......  en á morgun verð ég eins og þeytispjald um allt hús.


Bloggað í fjölmenni........

Sit hér fram í kjarna við að flakka á netinu og það er verið að spila hér á næsta borði.  Einhverjir eru að berja kúlur fram og aftur á grænu borði hér enn framar og enn fleiri eru að lesa blöðin. Og við erum tvö að snöfla í tölvu, hvort á sínu borði.  Það er svosem ekkert að frétta, þetta er  rólegur dagur hjá mér, er að hugsa um að hypja mig inn herbergi og sauma smá, þetta röfl um spilin er too much.............

Jólum að ljúka.......

Ójú ekki ber á öðru, þeim er að ljúka.  Ekki það að ég sakni þeirra, en ef ekki hefðu verið hjá okkur Jökull og fjölskylda, þá hefðu jólin orðið mér enn erfiðari en þau voru, það var svo margt sem mig langaði að gera fyrir þessi jól og ekki tókst.  Og er enn að pirra mig.  Ég segi nú ekki að ég hafi verið gráti nær í gærkvöldi þegar Gísli var að lýsa útsýninu úr stofuglugganum heima þegar kveikt var í brennu og flugeldasýning hófst ... með svo stórum hvellum að hann hélt að einhver hefði keyrt á húsið.  Og ég hér, ein inni á herbergi og hundleiddist.

Ég fór út í göngu áðan og það var svo hált að ég hélt mig við stéttar hér í kring, hefni mín á göngubrettinu í kvöld í staðinn..... þangað til er það eldhúsgardínan mín og bók, tesopi á eftir og kannski smálúr.......


Er að fara að sofa.........

Þegar ég er búin að leiðrétta villurnar í því sem ég setti inn í dag, var nefnilega gleraugnalaus.....

Brandari dagsins........

Hann varð til fram á hjúkrunarvakt áðan, ég fékk resept upp á krem við kláða og óþægindum sem gjarnan ræðst á mig þegar ég er að svamla í klórblönduðu vatni oft á dag, alla daga.  Frétti ekkert af þessu í gær en kom svo við hjá hjúkkunum þegar ég kom úr sjúkraþjálfun áðan. Neibb, þetta var ekki komið ég ég skal hringja og tékka, sagði hjúkkan.  Valdi tölur... og kynnti sig... svo spurði hún er þetta ekki apótekið.  Nei var svarið, þetta er  Rammi á Siglufirði.  Ég er ekki hætt að hlæja ennþá, þið getið bara gert ykkur í hugarlund ástand fru Höllu þegar væri  búið að nudda trélími eða einhverju sulli sem þar er notað á hina og þessa viðkvæma fleti þar sem útbrot koma gjarnan á mann.

Annars er dagurinn rólegur, ætla að reyna að vaka eitthvað af þessum dagi og sauma, hlusta á tónlist ........ 


Tókst loksins.....

Að tengja tölvuna hér fram í kjarna og ná inn netinu, án hjálpar.  Er ég ekki dugleg?  Hér er ausandi rigning og rok og lítt fýsilegt að fara út úr húsi, fór þó í göngu í morgun. Og kom hundrennandi inn.  Síðan hefur dagurinn farið í svefn og snæðing til skiptis, sofnaði í heilsubaðinu og sofnaði í slökun en tókst að vaka í sundleikfimi í morgun.  Það er hálfdauflegt núna, vantar svona ca 50 manns í húsið  ennþá, það verður fjör þegar mannskapurinn skilar sér um helgina.  Best að tékka póstinn sinn, annars hvín í Kristínu.... og ekki vil ég það.

Komin í "grasið"............

Komin austur og búin að taka upp farangurinn, ekki búin að testa fartölvuna svo ég skaust bara inn á  bókasafnið.  Verð duglegri við bloggið þegar ég er búin að semja við mína eigin......

Síðasti dagur ársins.........varúð, þetta er langt.

Og ég er að gera það upp við mig hvað skal skrifa í tilefni dagsins.  Ef ég skrifa um allt sem mig langar til .... verð ég að læsa færslunni og vita hverjir lesa.  Vinir mínir flestir og fjölskyldan vita hvers vegna.  Ergo..... ég ætla að vera kurteis og hella ekki úr pokanum sem ég hnýtti fyrir ..... fyrir svo sem eins og ári síðan.

En men hvað mig langar til að opna pokann upp á gátt og láta botninn snúa upp........

Árið varð mér um margt erfitt, mér gengur illa að hemja í mér átfíkilinn, guði sé lof fyrir að ég get þó talað um það í stað þess að hörfa inn fyrir þröskuldinn, skella á eftir mér og BORÐA.  Ég veit að það er ekki til neins að kenna því um hve margt gekk á í fjölskyldunni, en verð þó að viðurkenna að það hjálpar manni ekki mikið að líða illa marga daga, horfa upp á annarra vanlíðan og geta ekkert gert nema tekið utan um viðkomandi.  Svona vanlíðan í kringum matarfíkil endar því miður oft í ísskápnum...... og sonur minn sæll, já og Svanhildur, það er þess vegna sem ísskápurinn hennar mömmu/ömmu lítur oftast að ykkar mati út eins og eyðimörk. Það er nefnilega eitt ráðið að hafa téðan skáp ekki troðinn af einhverju fitandi, sem flytur utan á mömmu/ömmu og heldur að eigi að hlaðast upp utan á henni.  Punktur.

Þetta ár byrjaði með dvöl í Hveragerði hjá mér sem og næsta gerir líka.  Dvölin á þessu ári litaðist mjög af veikindum tengdapabba sem fór í geislameðferð til að reyna að tefja krabbamein í lungum.  Hann eyddi 95 ára afmælisdeginum sínum hérna hjá Gísla og ég veit að þrátt fyrir allt áttu þeir góðan dag 10 janúar.  Daginn eftir fór hann suður með Lenu  og næstu dagar og vikur lituðust af hrakandi heilsu hans meðan geislarnir voru reyndir, og ég veit að feginn var hann þegar hann komst aftur heim, en þá var svo komið að það varð að vera alveg hjá honum.  Það hélt hún stóra systa mín, Sigrún, utan um af stakri prýði, með aðstoð Mumma, og svo okkar hinna sem erum hér á svæðinu.  En það urðu ekki margir dagar sem hann eyddi á sjúkrahúsi í lokin og það var okkur stór gjöf að geta verið hjá honum hverja stund og verið mörg hjá honum daginn sem hann kvaddi okkur.  Hann sagði oft að hann væri ríkur, og víst var hann það, með sinn stóra afkomendahóp, sem hann var stoltur af.  Og hópurinn stækkaði þessa dimmu daga, 29 janúar eignuðust þau Oddný og Jökull soninn Birni Snæ.

 Að kvöldi 31 mars kvaddi tengdapabbi þessa veröld og 10 apríl fór fram útför hans frá Blönduósskirkju að viðstöddu fjölmenni.

Snemmsumars, þann 30 júní giftu þau sig, Annan mín og Óli í Árbæjarkirkju, yndislegur dagur sem við öll nutum vel. 

 Efrimýrar voru á sölu allt árið og síðsumars var þetta ferli farið að toga svo illilega í taugar okkar Gísla að við gripum fegins hendi boð þeirra Oddnýjar og Jökuls að verða þeim samferða til Torreveja á Spáni í 10 daga, þangað voru þau að fara með Magneu og Smára, já og svo auðvtað Birni litla Snæ.  Þetta urðu indælir dagar með þeim og kærkomin hvíld.  Litli kallinn var oft í skjóli afa og ömmu meðan foreldrarnir voru að skrattast við eitthvað með stærri ungunum, sem hvorki var við hæfi gamalmenna né ungbarna.  Heim komum við sólbrunnin og svolítið brún og mun betur í stakk búin í slag við komandi daga.

Ekkert gerðist samt í sölumálum fyrr en  morguninn sem við fórum til Tenerife í nóvember byrjun, við fórun með tilboð í jörðina í farteskinu.  Tókum því eftir töluverða naflaskoðun en ótal þröskuldar og tafir urðu til þess að þessu verður ekki landað endanlega fyrr en núna í janúar. Ferðin var mjög góð, í félagsskap þeirra Sigrúnar og Mumma, plús Ingibjargar og Ævars, ekki spillti að hafa þau með.

Stóðréttir í haust er nokkuð sem ég gleymi seint, Kristján bróðir birtist þar óvænt í göngum, ég nuddaði augun og opnaði aftur, en.... hann var þarna samt, ég var ekki að sjá ofsjónir.  Mikið óskaplega var gaman að sjá hann svona óvænt, þótt hann stoppaði stutt.

Desember er búinn að vera svolítið dimmur , Birnir litli fékk RS vírusinn og er ekki búinn að jafna sig alveg ennþá, Árný hefur verið mjög slæm í baki síðan um miðjan mánuð og Gummi hennar Völu lenti inn á sjúkrahúsi í gær, með nýrnasteina.  Er að vísu heima í leyfi núna, en hafður undir eftirliti, bæði læknis og konu sinnar.

Svanhildur mín var fermd í vor og Gísli yngri er kominn í fjölbrautarskóla á Selfossi, Árný mín er orðin ein í sveitinni með kisu sína, það er sem sé margt breytt í kringum mig.

En ég segi eins og tengdapabbi... ég er rík að eiga svona stóran hóp barna og barnabarna sem öll umvefja okkur foreldrana hvenær sem á þarf að halda. Ég á líka vini sem ég get alltaf leitað til og það er líka mikils virði.

Í lok árs ..... gleðilegt komandi ár, allir þeir sem lesa það sem mér dettur í hug að setja hér inn og hafið þökk fyrir þolinmæðina. 

 


Þá er komið að því.....

Að undirbúa sig fyrir útlegðina í Hveragerði, í endurhæfingu á sál og líkama.  Er ekki alveg viss um í augnablikinu hvort er í meiri þörf fyrir endurhæfingu, sálartetrið eða búkurinn.  En allt um það, ég byrjaði í gær að tína til nauðsynjahluti og fjölskylda og vinir vita alveg á hverju er byrjað ..... handavinnu.  Án hennar fýkur geðheilsan fja...... til.  Er nú samt ekki jafn stórtæk og ég hef oft verið við þá tiltekt.  En það er fátt eins gott þarna og róin og hvíldin sem fæst með því að sitja með fallegt handavinnu verkefni, hlusta á góða tónlist og vita að það er ekkert sem er verið að vanrækja, ég þarf ekki að elda, þrífa né þvo, bara hvíld, þegar að þjálfun og meðferð hvers dags er lokið.

Er búin að leggja línurnar fyrir Maju og Gísla með niðurtekt á jólaskrauti og frágangi á því, hún hafði orð á því fyrir jólin að ég yrði að tolla hérna í einhver ár svo hún þyrfti ekki að læra upp á nýtt hvar ætti að geyma jólaskrautið.  Í fyrra var ég niðri í litlu íbúðinni sem stendur núna tóm og bíður eftir Árnýju.  Og það er mikið tilhlökkunarefni hjá okkur báðum að hún flytji.  Nú fer að sjást í það, við skrifuðum undir kauptilboð í Efrimýra í gær og í janúar er stefnt á að enda þetta langa ferli, næstum meðgöngutími. Sá sem kom hér í gær með pappírana, sagði... nú skal þetta ganga. Ótal óviðráðanleg atvik urðu til þess að þetta dregst fram á árið 2008.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband