. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Áskorun....

Mæli með því að íslenskir þingmenn taki þann eistneska sér til fyrirmyndar og prófi hvernig það er að framfleyta sér og sínum af því sem ellilífeyrisþegum og öryrkjum er ætlað að framfleyta sér af, sú upphæð nær ekki lágmarkslaunum......
mbl.is Lifði á lágmarkslaunum í mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggleti........

En ekki samt að hafi ekki verið mikið að gerast.  Fékk gleðifréttir snemma morguns þann 29 júní, Majan mín var búin að eignast dóttur, 18 merkur og 53 cm.  Stór og kúlulaga hlýtur að vera, ég er ekki farin að sjá hana enn.    Lena útskrifaðist sem viskiptafræðingur 12 júní og þá um kvöldið héldu þau hjónin upp á 35 ára afmælin sín og svo útskriftina með góðri veislu, morguninn eftir vorum við Gísli farin vestur til mömmu og pabba, áttum með þeim rólega og góða daga í viku. Síðan heim, Gísli sagðist þurfa að fara að hugsa um slátt á blettinum okkar góða, svo það var varla stoppað á Húnabrautinni nema til að setja í þvott.Sólríkt að venju á Núpi svo sláttumaðurinn var bæði sólbrenndur duglega og skítugur að auki.  Óskar var með synina hjá Árnýju þegar við komum heim, þá vorum við að sjá í fyrsta skipti.  Ekki var að sjá annað en þeir yndu sér hið besta.

Næsta ferða lag var fyrihugað 2 júlí, Flakkarar stefndu á suðausturhornið og byrjuðu á Grenivík.  Hjá okkur barðist löngunin að fara með þeim en... vorum boðin í afmæli á Þingeyri 8 júlí....... og Dýrafjarðardagar helgina á undan.  Því er ég að skrifa þetta á tjaldstæðinu á Þingeyri, kom vestur í gær.  Gísli er farinn í gönguferð út í Haukadal, á slóðir nafna síns Súrssonar.

Afmælið, Davíð bróðir mömmu varð áttræður í mars í vetur, Kata verður sjötug í janúar næstkomandi og þau eiga gullbrúðkaup á næstu jólum.  200 ár samanlagt.  Þarna var tækifæri fyrir mig að sjá margt af frændfólki mínu sem ég hef ekki séð í mörg árog afmælisveisla er hundrað sinnum betra tækifæri en erfisdrykkja

 


Ég á ekki orð .....

Er búin að halda mig óþarflega nærri menningunni síðasta sólarhringinn, er semsé ekki uppi á Núpi.  Þaraf leiðir að ég frétti í morgun að það ætti að loka Dómkirkjunni 17 júní ... nema völdum gestum.  Næsta hrellling, einhver kínversk sendinefnd er hér á landi í heimsókn og er með vopnaða verði sér til halds og trausts .... ekki bara úr eigin ranni heldur íslenska líka.

Hvað er eiginlega í gangi, spyr ég nú bara.

Annars er frúin enn að drepast úr kulda, þrátt fyrir lopasokka væna sem ná upp að hnjám, já og flíspeysu.  Er alvarlega að hugsa um að ná í sængina mína og breiða vandlega yfir mig áður en ég held áfram að leika mér ... er að sauma út jólaskraut.


Sunnudagur.....

Og sólskin um allar áttir.  Kom heim til að fara í sturtu og þvo þvott.  Svo var eitthvað sem beið í tölvupósti, fólk skilur ekkert í því að ég skuli ekki vera í netsambandi alla daga. En uppi á Núpi er ekkert af öllu því sem telst nauðsyn í dag ..... nema kyrrð og friður.

Betra blogg á morgun, er að fara í sveitina.


Sólskin.......

Um áttir allar og ég þurfti að fara niðureftir með Gísla í morgun. Eins og ég hefði nú getað hugsað mér að vera bara ein með sjálfri mér í dag í þessu yndislega veðri þarna framfrá.  Bæti mér það upp á morgun.  Þá verða líka gestir í kvöldmat og jafnvel gistingu líka, Rip, Rap og Rup (Gísli yngri, Birgir og Jón ) þeir ætla að tjalda og sjá um sig sjálfir. Humm, hvernig skyldi það ganga hjá þeim þegar afi er að grilla steikur og nammi ofan í sína gesti.  Næstum því viss um að þeir gæta hvort sé afgangur hjá gamla.

Fór með Maju minni og mömmu hennar í blómatúr í gær, þar með gátum við Gísli farið með sumarblóm á leiðin þeirra tengdaforeldra minna og Öbbu.  Það er byrjað að slá garðinn  og verður eflaust orðinn flottur og nýsleginn þann 17 júní.

Svanhildur mín kom hér í morgun og hjálpaði mér við að ryksuga og þrífa bílana og þegar hún vissi af kjötsúpuafgang í ísskápnum neitaði hún að fara heim fyrr en eftir mat. Og enn fjölgaði, Smári kom rétt fyrir mat svo það var hringt í Önnu Guðbjörgu og hún hjólaði í snatri til ömmu.  Yndislegt að fá svona heimsóknir og matlystug börn að borðinu.

Kría þangað til kallinn skilar sér........


Ekki furða.........

Þó að ég fái ákúrur fyrir að blogga ekki, hef ekki skrifað neitt það sem af er sumri.  Ekki er það þó svo að ekki hafi verið eitthvað um að vera í kringum mann ... bloggandinn hefur bara verið víðsfjarri.

Samt er margt að hlaðast upp í kolli mér sem ég þarf að koma á blað, kveikjan að því var símtal við Valla bróðir snemma í maí, þá hafði hann verið að velta fyrir sér ýmsu sem tengist pabba og hans fólki sem lengst af var lítið rætt um og ennþá minna vitað.  Nú er ég farin að leita og spyrja þá sem ennþá eru hérna megin og muna ömmu mína Sigurlaugu Þorláksdóttur .... kalla kaflann sem ég er að skrifa.....Rótað í ryki fortíðar.  Þetta er forvitnilegt, gaman og stundum sárt.

Um mánaðarmótin apríl/maí eyddi ég helgi með barnabörnunum mínum á Bakkastöðum 75, með Svanhildi til aðstoðar.  Anna og Óli fengu hvíld þá helgina fyrir austan fjall.  Þetta var bara gaman og þökk sé Svanhildi fyrir hjálpina sem og að keyra megnið af heimleiðinni  fyrir ömmuna, mömmu hennar tókst að fá skráðan æfingaleyfisakstur á mig fyrir hana.  Rúmri viku seinna  var ég svo komin á Bergveginn til Oddnýjar og Jökuls, Oddný var að fara í smáviðgerð og amman reyndi að sjá um Birni fyrstu dagana á eftir.  Börnin voru reyndar öll nema Aron heima helgina eftir að hún kom heim, en allt bjargaðist þetta vel.

Um síðustu helgi var sitthvað um að vera hjá mér, fjörutíu ára afmæli mitt á Laugalandi í Eyjafirði og við mættum ekki nema sextán. Tvær kennslukvennanna  eru enn á lífi og mættu, okkur stelpunum til óblandinnar gleði.  Þetta var alveg yndislegur sólarhringur sem við eyddum saman, borðuðum góðan mat og spjölluðum fram á nótt, fórum og skoðuðum skólann okkar, safn og gallerý já og jólahúsið slapp ekki við okkur.  Svo var það ferming hjá Öspinni minni og Sigga, nú var það Elvar Jóhann.  Yndislegt að fá að vera með fjölskyldunni svolítið í undirbúningi á laugardeginum og svo ferming í Laufási á sunnudagsmorgni. Yndisleg athöfn og minnisstæð og stórveisla í Brúnahlíðinni á eftir.

Núpurinn okkar Gísla var sóttur í geymslu meðan ég var fyrir sunnan svo það varð verk Gísla að þrífa bílinn í þetta sinn. Síðan ég kom heim erum við búin að vera flestar nætur fram á Núpi og geymum bílinn bara framfrá í girðingunni góðu. Þarna kom allt vel undan vetri og mesta furða hvað er mikið lifandi af plöntunum sem settar voru niður í fyrra.

Ég ætla ekki að lofa neinu um bloggandann, en reyni........


Síðasti......

Dagur vetrar og Jón Tryggvi litli bróðir minn á afmæli í dag ... 46 ára ef ég man rétt.   Á morgun er það Ella Bogga, mín yndislega vinkona sem á afmæli og unginn minn hún Árný á föstudaginn. Innileg hamingjuósk til ykkar allra héðan úr húsi.

Það er ekki svo gott að hér sé sumarlegt um að litast utan dyra, það snjóaði látlaust í gær frekar blautum og óyndislegum snjó sem allstaðar er manni til ama og leiðinda. Kemst ekki á inniskónum yfir til Árnýjar, hvað þá út í bílskúr ... eins og óféti það þarfnast þó vopnaðrar heimsóknar.  Ennþá eftir að þrifa eftir smiðinn Gumma, þarna sagaði hann flísar og fleira sem notað var við að gera upp baðherbergið á neðri hæðinni. En einhverntíman fer þetta hvíta óféti af planinu og þá verður hægt að henda þarna út, ryksuga... gera hreint.. skúra .... og henda einhverju af draslinu sem enginn vill nýta.

En það kemur samt sumar á morgun og ég vildi svo innilega að færi að létta til í öllu því sem angar mig og gerir mér erfiðan svefn og áhyggjur daga flesta.  Verst að í kolli mínum þýðir ekki að beita ryksugu né blautri tusku ...en það hlýtur að birta.


Hinsta kveðjan, hjartans þakkir.......

Í gær var mamman mín, Soffía Lárusdóttir kistulögð í kapellunni hér á sjúkrahúsinu, falleg stund og hlýleg undir handleiðslu Úrsúlu prests.  Síðan fygldum við kistunni allur hennar stóri hópur í kirkjuna á Hólanesinu, en þaðan verður hún jarðsungin klukkan tvö í dag.

Þau buðu í kvöldmat í Skeifunni systkinin, þegar búið var að koma kistunni fyrir og það var yndislegt að setjast niður í stofunni, borða hangikjöt og spjalla. Aldrei var mamma ánægðari en þegar sem flestir af ungunum hennar voru við matarborð hjá henni, borðandi á sig gat.

Ég á henni svo ótalmargt að þakka frá liðnum árum, umhyggjuna og ástúðina fyrir mér og mínum, ótaldar stundir, ýmist við hennar eldhúsborð eða mitt, og ekki síst kvöldin sem ég átti með henni eftir að hún veiktist og var svo dögum eða vikum skipti hér á sjúkrahúsinu. Nú birtast mér þessar stundir sem perlur á festi og hlýja mér um hjartað og minna mig á að besta líkamsrækt í heimi er sú að létta byrðar náunga síns. Þá líkamsrækt  stundaði mamma alla sína ævi... óslitið.

Nú er best að þurrka af sér tárin, kveikja á kerti við myndina hennar hérna frammi .... og halda áfram að vera til.  Og reyna að muna eftir öllu því góða sem hún kenndi mér ....... þó svo ég viti að ég kem til með að hrasa og stíga skakkt, sporin sem hún fór bein.

Ég veit að hinu megin hefur hún átt góða heimkomu.


Mjúkar slæður minninganna......

Umvöfðu mig í dag.  Við hjónin fórum í bíltúr og út á Skagaströnd í heimsókn.  Pabbi var einn heima, Lára hafði skotist inn á Blönduós til Hrefnu.  Það var svolítið skrýtið að koma í forstofuna ... engin mamma ... en hún var þarna samt.  Allt á sínum stað, páskablóm í vasa, dúkarnir gulu á borðum, rúmið uppbúið .... allt var eins og það hafði alltaf verið. 

Mér er ennþá hlýtt að innan .... hún er ekki farin langt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband