. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Gleðipinninn Ómar Ragnarsson..........

Var að hlusta á gleðigjafann Ómar á rás 2 áðan, þar var hann að kynna nýtt öskudagslag sem hann hafði samið í samvinnu við Frey Eyjólfsson og fengið börn til að syngja með sér. Mér var hugsað til lagsins sem hann samdi um íslensku konuna þegar hann frétti í gegn um síma að móðir hans væri látin. Það lag er með því fallegasta sem ég hef heyrt frá Ómari.
Ég er að skemmta mér í borg óttans þessa dagana, fer á landsleik Ísland/Þýskaland í kvöld með Svanhildi, þetta hef ég ekki gert fyrr og hlakka mikið til. Svo eru barnabörnin mér endalaus uppspretta ánægju þótt oft gangi mikið á fyrir þeim.

Veit ekki hvort ég á að lofa sjálfri mér og öðrum að vera duglegri við bloggið... en það má reyna.......


Gleðileg jól........

Búin að taka síðdegislúr, fara upp í kirkjugarð og þaðan upp í Enni.  Ætlum að fara á morgun í garðinn á Höskuldsstöðum með jólaljósin. Nú er að síga yfir rökkur, jólalög í útvarpi, Árný er að stússa í eldhúsinu...... hér er kyrrð í húsi og hugur í ró.  Sendi ykkur öllum sem lesið þetta, mínar hlýjustu jólaóskir og megi friður jóla ríkja sem víðast.

Messa hins heilaga Þorláks .........

Það þýðir að það er kominn 23 desember og dagur nokkru hafinn. Ætlaði skrifa hér inn í nokkrum áföngum í dag, eftir því sem tími vinnst til.  Byrjaði daginn á því að finna rúmfötin mín sem tilheyra jólum og eru næstum jafngömul búskap mínum með Gísla.  Það var ekki nóg að finna þetta, næst tók við að skipta á rúminu og að jafnaði er ég ekki ein við verkið .... dýnurnar eru ófétislega þungar. Þetta hafðist nú samt.  Næst var að þagga niður í þáttastjórnendum á rás tvö, Gísli hafði skilið eftir opið útvarp í eldhúsinu, mér finnst þetta par alveg hrútleiðinlegt og fann því geisladisk með jólalögum til að hlusta á ...... allt annað líf.  Næsta mál á dagskrá er að gera birgðakönnun í búri og ísskáp, hvað vantar fyrir jólagrautareldun í hádeginu á morgun... kannski vantar eitthvað fleira.  Skatan í hádeginu... ekki má ég gleyma henni.......

Komin heim úr skötuáti og verð að fresta ferð á Skagaströnd á meðan Óskar gerir við dekk undir Nissan, bíllinn var nánast á flötu hér fyrir utan. Skatan var góð og við mörg við borðið, Sighvatur og Maja með börnin, Inga... Vala,Gummi og börn og svo Óskar.  Það er gaman að sjá hve margir það eru sem koma þarna í skötu á þorláksmessu.

Dekkið komst í lag, í því var óboðinn gestur ...... nagli sem Pavel fjarlægði og gerði við.  Síðan fóru þeir Gísli yngri og Óskar upp í Mýra í verkin, við Svanhildur út á Skagaströnd, fyrst upp í kirkjugarð með grenigrein á leiðið hennar ömmu Sossu eins og börnin kölluðu hana og síðan niður í Skeifu til afans sem nú er þar einn og gladdist við gestakomuna.  Enn er allt sem áður og ekki margt sem breytist..... nema amman er horfin.  Það er varla hægt að lýsa því með orðum hve yndislegt það er að koma þarna inn og rifja upp gamla daga í huga sér.  Næsta mál á dagskrá, keyra út jólapökkunum sem gleymdist að taka með þegar farið var í skötuveisluna......

Mér entist ekki dagurinn, það er kominn aðfangadagur jóla þegar ég lýk þessari bloggfærslu. Jólatréð er komið upp og fullskreytt, búið að skreyta íbúðina, sjóða hangikjöt og það er að breiðast út rúgbrauðsilmur um allt hús, það er venja að sé til nýtt rúgbrauð með jólagrautnum í hádeginu á aðfangadag.  Þegar Sollan mín kom örþreytt úr vinnunni í kvöld, var jólaísinn testaður.... og reyndist ætur.  Hún fór síðan heim, Árný og Óskar fóru til Lenu og við í að ljúka frágangi hér.

Nú er ég nýkomin úr jólabaði, ný náttföt og inni í herbergi bíður rúmið mitt ...... hreint og fínt ..... góða nótt.


Blogga strax, vantar fréttir......

Var það eina sem stóð í skilaboðum frá Kidda, var að finna þetta í skilaboðum inni á fésinu.  Ég hef greinilega gleymt fyrirheitum um að reyna nú að standa mig sæmilega við bloggið........er ekki sagt að vegurinn til fja.... sé varðaður góðum fyrirheitum.

Ekki það að ég sé á leiðinni til fjandans, hreint ekki.  Það er svosem ekki margt að frétta annað en nú er fjölgað hérna niðri, ekki krakki samt, Kiddi minn heldur er sambýlismaður Árnýjar fluttur norður.  Kom norður í nótt, við höfðum áhyggjur nokkrar af honum á leiðinni sökum veðurs, hér var andstyggilegt veður nánast allan daginn í gær og fram á morgun, en náði ekki einu sinni vestur fyrir Gljúfurá.  Það var svo blint að keyra í morgun að Árný sneri við á leið í vinnuna og var þá komin að vegamótunum við  Skagastrandarveginn.  Nú er hinsvegar orði albjart.

Göslinn og Svanhildur litu inn í morgunkaffi, hún hafði verið ræst af bróður sínum til að hjálpa til við póstútburð, hún var frekar úfin yfir að hafa þurft að vakna fyrir hádegi.  Skapið skánaði við mömmukökur, túkalla og mjólk.  Nú eru það að bera út og Óskar er búinn að moka hér stéttar og svalirnar svo ég geti nú hleypt hundinum út til að pissa... án þess að vaða snjóinn í hné.  Svo þarf að fara í Mýra seinnipartinn og ljúka verkum í púdduhúsinu, Ragnar tínir á morgnana, Gísli og Árný hafa séð um restina með hjálp Svanhildar og Gösla ... eftir því hvort þeirra hefur haft tíma.  Nú sér fram úr þessu, Óskar mættur á svæðið og tekur við vinnu þarna.

Héðan er annars allt gott að frétta bróðir sæll ... skrifa aftur á morgun eftir að skötuát er afstaðið í hádeginu ........ er fáanleg skata þarna á útnára alheimsins ?


Blogga...... jájá........

Eitthvað hafa fínu áformin hlaupið út um þúfur síðustu daga en nú er stund og tími.  Á spilaranum eru Monika og Páll Óskar, það er að segja diskurinn þeirra svo að ljúfir tónar berast um íbúðina.  Vaknaði við að Gísli var kominn á fætur og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma með í salinn ...... klukkan var bara korter yfir sex en ég harkaði af mér og hypjaði mig í fötin, það er of kalt til að rölta þetta á náttfötunum ... fyrir svo utan athyglina sem ég vekti þannig klædd.  Eftir að heim kom var það svo fyrsta verk að fóðrast, svo að lesa moggann.  Þar á eftir fygldu morgunverk, troða í þvottavél, taka af rúminu og setja sængur og kodda út á svalir í viðrun, tína til á sína staði sitthvað sem skilið hafði verið eftir í óreiðu í gær, hér var pakkað inn jólagjöfum af miklum móð í gær með hjálp Elísu Sifjar og síðan Svanhildar í gærkvöldi.  Elísa og Anton fóru heim í gær eftir að hafa verið hér síðan á þriðjudag í síðustu viku, mamma þeirra var úti í Boston og pabbinn að vinna úti í Noregi.  Þau sváfu niðri hjá frænku sinni en voru annars hér hjá afa og ömmu.  Ein með afa sínum á laugardaginn því ég var á Akureyri allan daginn með Árnýju og Sollu.  Nýttum daginn í búðaráp og síðan kvöldmat á Greifanum áður en við mættum galvaskar á Jólagesti Björgvins klukkan átta um kvöldið.  Magnaðir tónleikar fyrir troðfullu húsi og við alveg elskusáttar við daginn.

Óskar er að pakka niður og búa sig undir að flytja norður 22 des, búinn að fá vinnu uppi á Efrimýrum.  Finnst það bara hið besta mál að fara í skítverk og eggjapökkun í sveitinni. Við erum að leysa þar af  fram til að hann kemur og það var ekki laust við ánægjusvip á Árnýju í gær þegar hún kom heim, grútskítug eftir ærleg þrif inni í salnum í gær.  Hún á örugglega eftir að siða kærastann til í verkum þarna... næstsíðasti vinnumaður fékk víst bæði að kenna á henni og mér þegar okkur mislíkaði........


Bráðum koma blessuð jólin .......

Hér fram við eldhúsborðið eru fjögur börn að búa til piparkökur undir stjórn Árnýjar, við ætluðum að baka mömmukökur en deigið breyttist snarlega í leikmuni fyrir börnin og ég sé ekki betur en þau séu alveg alsæl með breytinguna.  Gísli og Óskar komu nýja ísskápnum mínum á sinn stað í hádeginu og hann virkar bara feikivel.  Nú er bara að njóta dagsins þótt svo hann væri planlagður á annan veg, maður fær ekki allt sem maður vill, sagði dóttlan í morgun.......

1 desember ..... Fullveldisdagur Íslands.

Við urðum sammála í morgun, ég og Kiddý, að börnin sem voru að hópast í skólann í morgun í þann mund sem ég var að fara úr ræktinni, vissu ekki hvaða þýðingu þessi dagsetning hefði . Ja nema þá að það mátti opna fyrsta gluggann á jóladagatalinu í morgun og þar með að fara nú að telja niður í jólin. Það var nú það, líklega er ekki lagt mikið upp úr að kenna börnum dagsins í dag um söguna okkar og baráttuna fyrir sjálfstæði Íslendinga fyrr á tíð. Eða landafræði.  Er ekki búin að gleyma því enn þegar þrir nemendur í framhaldsskóla reyndu staðfastlega að færa Mývatn suður á land... í spurningakeppni.

Ég hafði mikla löngun til að leggja mig aftur í morgun en þar sem að ég þurfti að líta eftir Guðbjörgu litlu fyrir hádegið, lét ég það ekki eftir mér. Fór bara upp eftir til Maju og dóttlunnar með handavinnuna mína og eyddi tímanum þar þangað til að Majan fór og ég var í miðju kafi við að mata þá stuttu. Það er hinsvegar mjög auðvelt, svona eins og moka í tóma fötu, daman hefur mjög góða matarlyst.  Svo var hún sofnuð, nöldrandi að vísu, þegar mamma hennar kom heim í hádeginu með Guðjón Frey í farteskinu.

Núna er það rólegheit og jólalög, þarf að fara niður í bókaherbergi og ná í meiri jólatónlist, þyrfti að finna Ómar og Gáttaþef ..... þeir voru ekki viðlátnir í fyrra, mér til leiðinda......


Mánudagur ... sá fyrsti í föstunni......

Ekki er það nú samt svo gott að maður fasti þessa dagana, reyni samt að halda í eigin hemil með át ósiðina.  Það þýðir að jólabakstur verður í algjöru lágmarki og helst til að eiga eitthvað handa svöngum gestum á jólaföstunni.  Svo verður hjásvæfill Árnýjar hér fyrir norðan um jólin og ég veit að honum þykja kökur góðar. 

Mér varð hugsað til búrsins heima á Núpi í gær ... stödd framfrá.  Áður en jólafastan hófst voru þær byrjaðar að baka, mamma og Beta ...... 12 til 14 tegundir af smákökum, brúna og hvíta rúllutertu, fjögurra laga brúntertu og vínartertu, kramarhús og terturbotna.  Já og rasptertuna, ekki má gleyma henni.  Þetta hvarf ofan í hin misjöfnustu box og þess gætt vel að sama boxið hýsti hverja tegund og í því hafði verið árið þar á undan.  Vaninn er sterkur, jafnvel þó sé bara um kökubox að ræða.  Svo var að sjálfsögðu harðbannað að stelast í baukana fram til jóla og ekki vel séð að væri verið að smakka svona beint af plötunni, ja nema eitthvað væri að laginu á kökunni eða ofninn hafði dekkt plötuna óhæfilega...... sem gerðist alltof sjaldan. Svo var þetta allt tekið upp á aðfangadagskvöld, þegar komið var inn úr fjósi var búið til heitt súkkulaði, þeyttur rjómi, sett á tertu og sett eins mikið af smákökum  og randalínum á borðið þar til ekki komst meira.  Sparistellið sótt upp í efstu hilluna í eldhússkápnum og .... nammi namm. 

Er næstum farin að slefa við að rifja þetta upp........                                       


Fyrsti dagur jólaföstu.......

Og við hjónin fórum fram í Núp upp úr hádeginu í dag.  Lítill snjór á vegi og góðar slóðir þannig að Nissan fór þetta eins og ekkert væri.  Gísli var reyndar með ranga lykla að hliðinu svo hann er núna í ferð nr. tvö, er að ná í rafgeymirinn fyrir girðinguna.  Það er frost í kringum tíu gráður og veðrið var alveg yndislegt þarna framfrá, sólin baðaði fjöllin þar sem hún náði til .... magnað að sjá.

Ég er að taka upp bloggandann eftir langt hlé, hef reyndar í gegn um árin átt mun auðveldara með að skrifa á vetrum meðan myrkur er mestallan sólahringinn.  Og nú er jólafastan byrjuð og þá herja á mig minningar frá löngu liðnum jólum og þetta verða fyrstu jólin sem ég held síðan mamman mín á Skagaströnd féll frá.  Flesta daga kemur hún í huga mér ... og alla daga er hennar saknað....

Er að hugsa um að finna meira jóladót til að hengja upp og fleiri  ljós.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband