Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
31.5.2009 | 17:10
Aftur komin helgi.....
Og þessi er löng, nefnilega hvítasunnuhelgi og því hafa margir frí á mánudaginn líka. Við hjónin komum heim um hádegið í dag eftir hálfsannars sólarhringsdvöl sunnan heiða. Auðfengin gisting á Bakkastöðum 75 í góðu rúmi, húsráðendur og afleggjarar eru vestur á Þingeyri. Við sváfum auðvitað ekki út venju frekar og um níuleytið hrakti ég vinkonu mína Elínu Aðalsteins á fætur með þeim ummælum að við værum á leið í morgunkaffi. Síðan var það næsta verkefni að finna opna gleraugnaverslun fyrir Gísla, hann var nefnilega með í fórum sínum resept fyrir tvennum gleraugum. Sú fannst niður í Kringlu. Þar kynnti indæll hjáparkokkur fyrir honum mikla nýjung í gleraugna umgjörðum, fislétt eintak .. ekki nema eitt gramm á þyngd. Ég hafði efasemdir.. hann á það til að hnerra með ótæpilegum hávaða og ég sá fyrir mér fis þessi þeytast af nefi hans út í loftið blátt og finnast ekki fyrr en eftir langa leit. Og þar sem þolinmæði hans er takmörkum háð þegar hlutir sem eiga sinn fasta samastað... eru þar ekki. Sem betur fer leist honum ekkert á þetta heldur. Næst fóru á nef hans gjarðir.. líka úr títan en efnismeiri og heil fimmtán grömm..... voila...... þetta var bara eins og þau ættu heima á nefi þessu. Þangað til að hjálparkokkurinn sagði að eintakið kostað 51 þúsund krónur.... íslenskar. Ég er ekki viss um hvort þeirra hrökk meira við. Gjarðirnar á borðið og haldið áfram að leita. En nú var álitsgjafinn ( ég ) farinn að skipta sér af, ekkert af því sem á nef Gísla var sett fannst mér nema sæmilegt í besta falli svo endirinn varð sá að hann keypti þessar fokdýru gjarðir... og kennir mér um.
Komin þarna út teymdi ég hann inn í skóbúð, ætlaði að vita hvort ég fengi á mig gönguskó .... ójú þeir voru til, meir að segja Gísli fer að skoða og fann á sig skó, sem hann fékk "leyfi" til að kaupa ... ef ég mætti henda þessum tvennu sem voru nýburstaðir á forstofugólfinu heima. Hann fullyrðir reyndar núna að ég megi bara henda öðrum skónum, það er að segja öðru parinu. En hann var ekki hættur. Eftir var að kaupa stóla og borð fyrir útilegur á Núpi, ferðasalerni sem farið var vinsamlega fram á að yrði sett í kofann sem á að setja þarna niður, já og fætur undir ferðagrillið. Ég veit ekki hvað fólk hefur haldið þegar við röltum út út Húsasmiðjunni, Gísli með stóran kassa í fanginu og ég á eftir honum ..... með pönnu eina stóra í annarri hendi.
Svona til að vera viss um að rata í afmælið hennar Oddnýjar og heim aftur, endaði hann á að kaupa sér GPS tæki. Ég sem hélt að væri nóg að fletta upp í mér.
En í afmælið fórum við og skemmtum okkur ágæta vel, þarna voru margir mættir til að gleðjast með henni, gott að borða og gott að drekka og það lá vel á afmælisbarninu.
Takk fyrir okkur Oddný mín og Jökull .... sem steikti partýbollurnar.
Bloggar | Breytt 3.6.2009 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2009 | 17:41
Blautur dagur ..... utandyra.......
Þorði ekki annað en að taka fram að rekjan væri utandyra svo fólk héldi nú ekki að ég væri farin að staupa mig í miðri viku. Ég sem ætlaði að skipta á rúminu mínu og henda sængunum út á svalir til viðrunar, þessi annars ágæta hugmynd gengur ekki upp, ég þyrfti að hjúfra mig undir blautri sæng í kvöld. Og til þess langar mig minna en ekki neitt......
Á föstudagskvöldið síðasta komu þau norður Ella Bogga og Sævar til að sækja sinn húsbíl í Torfalæk. Við Gísli fórum á móti þeim þangað með númeraplöturnar, áttum góða stund yfir kaffi með húsráðendum á Torfalæk og fórum síðan á báðum bílum í Núp. Vanbúnum svona að vissu leyti, en einhvern mat hafði ég tekið með til morgunfóðrunar, kaffi og brauð til að snarla um kvöldið, og áttum þarna ágætt kvöld. Laugardeginum eyddum við Ella hér heima, eftir hádegið... með Gísla í vinnunni og Sævar sofandi inni í rúmi, tókum svo til grillmat og græjur til að fara aftur uppeftir. Með kallana að sjálfsögðu, þeir áttu að grilla. En það er ekkert sem tekur því fram að vera þarna, við Ella rifjuðum upp margt frá fyrri tíð og það var ekki laust við bros hjá mér þegar við vorum að tala eitthvað um Þorvald og ég tók eftir að Ella Bogga var komin með hendur aftur á bak eins og hann gerði svo gjarnan á göngu.
Ekkert tekur fram góðri helgi með góðum vinum.........
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2009 | 20:36
Yndislegur dagur..........
Sem hófst svo snemma að ég ákvað að sofna aftur og vaknaði bara mátulega til að hleypa Árnýju og Önnu Guðbjörgu í ísskápinn minn, þar var það sem þær vantaði í morgunfóður, mjólk. Svo þurfti ég að fara í sundleikfimi , leitaði að Smáranum þegar heim kom og þá var hann lagður af stað til pabba síns, Solla hafði fengið far fyrir hann. Svo voru þetta bara rólegheit þangað til að kominn var tími á að mæta í kirkju. Þar beið skírnarbarnið ásamt fleirum og þetta varð hin besta og notalegasta stund. Drengurinn var þreyttur og volaði pínu en var annars þægur sem og bræður hans. Svo fórum við upp í Hnitbjörg á sýningu og svo í kaffi sem okkur fannst alveg snilld sem skírnarveisla.
Góður dagur.
Bloggar | Breytt 28.5.2009 kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2009 | 11:27
Best að blogga ....
Áður en Guðjón Freyr mætir á svæðið, hann ætlar að vera hjá ömmu meðan mamman og amma Inga eru í leikfimi. Reynslan af því að pikka í gær með barn í fangi... Embla... var ekki góð. Nógu lengi er ég nú samt að þessu með minni eigin útgáfu af fingrasetningu. Við sóttum húsbílinn okkar í Saurbæ í gærkvöldi og nú er bara að þrífa, gera, græja... og leggjast svo út. Það verður nú reyndar bara yfir eina og eina nótt meðan Gísli er að losa hengingarólina skattsins af sér.
Búin að fara fyrstu ferð í Núp til að kanna færi og merkja fyrir girðingu sem á að reisa þar á allra næstu dögum svo að mann geti sofið þar róleg og ekki vaknað með frísandi hross nærri undir koddanum sínum. Eða rolluófétin, ekki eru þau skárri.
Mér tókst ekki að ljúka áður en ömmustrákur kom, en hann situr hinn rólegasti og fylgist með......
Bloggar | Breytt 21.5.2009 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2009 | 19:34
Þá er komið að því..........
Eurovision keppnin er hafin og nú er það sænska skelfingin sem skefur að innan á mér eyrun, ég er hér ein að fylgjast með þessu. Ekki einu sinni börnin tolldu heima, Smárinn er í partýi hjá vini sínum Pétri Arnari og Anna Guðbjörg fór með frænku sinni Árnýju til Lenu og Árna. Ergo .... ég er hér ein að rolast yfir þessu, það er fyrir neðan virðingu hjásvæfilsins míns að fylgjast með þessu "góli". Lyst mín á rauðvíni kvöldsins fauk á miðju glasi númer tvö ... ég sé fram á afar skemmtilegt kvöld.... í mínum eigin félagsskap.
Best að fylgjast með Jóhönnu Guðrúnu, hún er næst á svið.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2009 | 20:09
Eurovision.....
Undankeppni númer tvö er að hellast í eyrun á mér, það tekur því varla að horfa á þetta ... Noregur er búinn og það var skásta lagið sem ég var búin að heyra af þeim sem eru að strita við að komast inn í úrslit í kvöld. Svo er það aðalkeppnin á laugardag ... í félagsskap þeirra Önnu Guðbjargar og Smára Þórs, mamma þeirra er á rauðakrossþingi um helgina og Fannar á sjó og ungarnir ætla að vera hjá ömmu og afa.
Hér er þrifum á garði potað áfram á hverjum degi, Gísli, Svanhildur og Kristján Atli náðu að gera heilan helling í dag, en smámunasöm amman sá að sumt mátti bæta og í því lendir Kristján Atli með ömmu á hælum sér á morgun. Hann sagði mér óspurður áðan að það væri mikið auðveldara að gera garðverkin í Farm town inni á facebook.... skrítið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2009 | 16:57
Hér standa yfir deilur.....
Um þýðingu orðanna að slappa af. Kristján Atli er gallharður á því að hann hafi átt að slappa af þessa daga sem hann dvelur hjá ömmu og afa. Ég hinsvegar segi að hann hafi átt að hvíla sig á áreitinu og fleiru sunnan heiða .... með því að koma norður og hjálpa til í því sem gera þarf á venjulegu heimili. Út með ruslið, taka til í bískúrnum undir styrkri stjórn ömmu og Svanhildar og nú er hann fúll ærlega úti í garði að þrífa beðin... sem og Svanhildur og Gísli. Þetta er nú meiri afslöppunin, tautaði hann áðan, áttaði sig enganveginn á að amma var úti á svölum og heyrði athugasemdina. Bót í máli að hann veit að það eru kjötbollur að hætti ömmu í kvöldmat, þetta er hans uppáhaldsmatur.
Ég fór nefnilega í gær á móti Óla tengdasyni, hann var að keyra konu sinni og sonum áleiðis í sveitina, það er að segja Kristján varð eftir hér, Anna og Sigtryggur bóndi fóru í Steiná. Það var snáðinn fljótur að koma auga á Hnýflu með tvö lömb komna út í girðingu og var snöggur að koma sér í húsin til að skoða. Ég keyrði þeim frameftir og þegar ég stóð upp og tilkynnti brottför, sagði Sigtryggur snöggt.... ég ætla ekki með og var snöggur út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2009 | 17:26
Það er ekki oft sem......
Ég verð orðlaus, en það gerðist í gærkvöldi. Ég setti mér fyrir löngu að blogga ekki nema almennt um hrellingar okkar Íslendinga í fjármálum, það eru nógu margir sem það gera en nú ætla ég að brjóta þá reglu mína. Ástæðan .... kastljóssviðtalið við Svanberg Hjelm. Ég veit ekki hvort fréttamaðurinn á börn en það á Svanberg og yngstu börnunum sínum bauð hann upp á að sitja undir útskýringum sínum á ástandinu á heimilinu. Ég leyfi mér að draga í efa að þessi börn hafi haft þroska til að hlusta á angist föður síns út af ástandinu og hafi faðirinn ekki haft sinnu á að hlífa börnunum, hefði fréttamaðurinn átt að hafa rænu á því.
Nú ætla ég að setja punkt .... en það sýður á mér enn......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.5.2009 | 22:33
Komin aftur.....
Í Bakkastaðina til unganna minna eftir ógleymanlega helgi í Eyjum með Gerðu minni. Fermingarathöfnin verður ógleymanleg, hófst á skírn, eitt fermingarbarnið hélt tveggja mánaða bróður sínum undir skírn.... og svo þurfti að skíra eitt fermingarbarnið svo það gæti nú staðfest skírnarheitið. Aðstæðna vegna í Eyjum þessa helgina var ekki hægt að hefja undirbúning í sal fyrir veisluna... sem hefjast skyldi klukkan fjögur .... fyrr en eftir hádegi en þetta tókst undir styrkri stjórn Lindu eldri, fermingarbarnið hjálpaði til ... komin í náttbuxurnar sínar og bol. Hún var svo komin í kjólinn sinn flotta í tæka tíð áður en gestir komu og bauð alla velkomna um leið og hún þakkaði öllum fyrir að koma og gleðjast með sér og fjölskyldu sinni... og sagði gjörið svo vel og benti á hlaðið matarborðið. Þarna var að sjálfsögðu etið þangað til að mann stóð á blístri ... og vel það.
Við Gerða gistum þarna í húsi sem langt er komið með að gera upp, vorum einar þar fyrstu nóttina og þó ekki ... umgangurinn var slíkur að ég var komin á fremsta hlunn með að fara upp á miðhæðina og tékka á þessum íbúa... ef ég sæi hann. En stiginn upp var leiðinlegur svo ég sneri mér á hina og sofnaði fljótlega aftur. Það fyndna við þetta var að margir spurðu okkur að þessu hvort væri ekki umgangur þarna sem lítt sæist. En þetta raskaði ekki ró okkar Gerðu, við áttum þarna góðar stundir bæði sofandi og vakandi. Svo bættust fleiri þarna í gistingu, ætli við höfum ekki verið orðin ellefu í restina.
Þeir voru margir gestirnir í fermingunni sem heilsuðu mér sem mömmu hennar Gerðu, okkur var eiginlega skemmt við að leiðrétta þetta ... eitt skiptið svaraði ég... jújú ég á hana en hún er nú samt bróðurdóttir mín.....
Takk elsku Gerða fyrir dagana, það var yndislegt að fá að vera með þér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- Árný Sesselja
- Svanhildur Guðmundsdóttir
- Solla
- Gerða Kristjáns
- Guðrún Ösp
- Fjóla Æ.
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Fanný
- Linda Lea Bogadóttir
- Brynja skordal
- saumakarfan
- Mamma
- Kolbrún Jónsdóttir
- Gylfi Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir
- Anna Margret Valgeirsdóttir
- Signý Björg Valgarðsdóttir
- Ásthildur Cesil Þórðardóttir
- aloevera
- Kristín Bjarnadóttir
- Kristján Atli Sævarsson
- Ragnheiður
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- TARA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2013
- September 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007