. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Nú fara.......

Bláu rassarnir hamförum á þakinu mínu... lokatörn að mér er sagt.  Þá er bara eftir að setja upp skápinn minn góða í stigagluggann og setja upp handrið í stigann ......... svo ég þurfi ekki að skríða upp þegar minn vinstri fótur vill ekki hlýða eiganda sínum og yfirmanni.  Er búin að öðlast reynslu af því að fara niður stigann á óhæfilegri hraðferð ... með rangri aðferð. Það var bara vont en hafði þó ekki verri afleiðingar en nokkra marbletti.

Við áttum alveg ágæta helgi, hjónin, þrátt fyrir að  gera ekki það sem við ætluðum ...... fara norður í Eyjafjörð.... þú verður að bíða lengur Öspin mín góð. Gísli þurfti að vinna hluta af laugardeginum og gera verkin á Efrimýrum á sunnudegi svo við fórum ekki langt, upp í Núp til að sofa og svo vestur að Hvítserk þegar húsaverkum lauk í gær.  Og þar stóð náttúruundrið á þurru nánast, það var fjara svona mátulega þegar við komum.  Þetta stóðst Gísli ekki, hann klifraði niður bakkan snarbratta og Lena Einars með honum, hún var þarna með Árnýju, við mæðgur biðum uppi eft í slóðinni, þar var gott skjól fyrir hafgolunni. Og Árný með myndavélina auðvitað.......


Vikan er að verða búin....

Við áttum hitting í morgunkaffi hjá Sollu, mæðgur hér af 11 og vorum allar að myndast við að þoka áfram handavinnuverkefnunum okkar þangað til ég þurfti að huga að hádegismat sem átti að vera plokkfiskur.  Um leið og ég yfirgaf þær, bauð ég þeim að koma og borða. Ekki þurfti að spyrja tvisvar...... þær ætluðu sko að koma.  Þegar sest var að borðinu og Vala var að fá sér horfði hún grunsemdaraugum á plokkfiskinn... hvað er nú að spurði ég.... það er ekki eins og ég hefði sett sellerí í þetta.  Daginn áður hafði hún haft mikið fyrir því að plokka sellerírót úr salati sem var á borðum. Neibb svaraði hún.... mér fannst ég sjá bein.  Það getur ekki verið hrökk út úr mér, Maja er ekki við borðið.  Málið var að ef Majan mín borðaði plokkfisk hjá mér.... lentu öll bein á hennar diski, en eins og allir góðir kokkar vita á téður réttur að vera beinlaus.  Og sem barn hætti Maja að borða ef hún fann bein í fiski. Orðin fullorðin passar hún bara vel hvað hún er að láta upp í sig, en lætur mann heyra það ef kokkurinn hefur ekki staðið sig við beinhreinsun.

Ég tók upp símann og Maja var ekki lengi á leiðinni til okkar, nú var þó tryggt að hún borðaði í hádeginu, næstum fullgengin með pííínulítinn kúlubúa, á eftir þrjár vikur og sér ekki mikið á henni. 

Þær héldu allar yfir mér væna ræðu um hversu óþarft væri að skemma mat með selleríi ... eins og þetta er gott á bragðið........ að mínum dómi a.m.k.......... 


Þvottavélarraunir ......

Þegar ég skilaði mér heim eftir verslunarmannahelgina gat ég farið í fótabað á þvottahússgólfinu, eins og hálfsárs gamla þvottavélin mín flóðlak.  Þar sem indælið var enn í ábyrgð var seljandinn settur í málið og sendi hann gripinn snarlega suður.... í hendur sérfræðinga.  Ég gat þó verið róleg.... vitandi að Vala væri í burtu sumarfríi og ekki var sár hætta á að sonur hennar væri að nota vélina á þeim bænum.  Hann hinsvegar greip tækifærið ... amma viltu þvo fyrir mig líka?  En meðfædd kurteisi kom í veg fyrir að ég þvægi bara sisvona í nýrri fokdýrri vél dótturinnar svo ég hringdi og bað um leyfi ...... og leiðbeiningar.  Hvorutveggja fékkst, að vísu hafði Gummi bent konu sinni á að mamma hennar væri hálfgerð hryðjuverkakona á þvottavélar, hann hefur nefnilega óþarflega oft lent í að gera við slík tæki fyrir tengdamömmuna.  Það er hinsvegar búið að taka tímana tvo að fá úr því skorið hvort ábyrgðin næði yfir bilunina ...sem hún gerði EKKI og þar næst hvort væri hægt að gera við hana.

Því miður .... hún er ónýt.

Ég er enn að velta fyrir mér hvort tengdasonurinn hefur rétt fyrir sér .... og hvort hann hjálpar mér að tengja nýja vél.......

Takk fyrir kommentin við síðustu færslu ..... þau voru verulegur plástur á slæma skapsmuni og auma sál.......

Hrossið mitt góða ... ég er enn að lesa ...... 


Þetta er ekki nokkur frammistaða....

Ekki bloggað í marga daga og kemur margt til.  Nú er ég farin að fá kvartanir og fyrirspurnir hvað sé í gangi svo það er ekki um annað að gera en hysja upp um sig.... og blogga.

Ég sagði að það kæmi svosem margt til, mest þó líklega að hafa þurft að berjast við slæmt þunglyndi meir og minna síðan í vor.  Því fylgir oft vanlíðan sem ég óska ekki einu sinni mínum versta óvini (á enga svo ég viti) og alltof oft brýst vanlíðanin út í ísskápnum eða búðinni.  Afleiðingin ..... síðan í febrúar hef ég þyngst um 17 kíló. SAUTJÁN andsk....... kíló. Og fötin mín, þau eru sko ekki kát, það jaðrar við að að ég sé fatalaus, ég ætlaði sko ALDREI aftur í þriggja stafa tölu.

Nú er ég byrjuð að reyna að rífa mig upp úr þessu fúafeni,  en það er erfitt í meira lagi... nóg um það.

Við fórum suður um síðustu helgi, hjónin og heimsóttum Skaftholt, heimili fyrir fatlaða í fygld þeirra Óla og Önnu + barna, þarna er unnið mikið og gott starf með því fólki sem þarna býr.  Líka heimsóttum við íbúana á Bergveginum + Lenu sem býr þar í nokkra daga meðan hún jafnar sig eftir viðgerð sem hún fór í.  Helgin var góð þrátt fyrir rigningu sem helltist úr loftinu .... alla dagana.


Sofa út .....

Hvað er það nú...... var vöknuð fyrir sex í gærmorgun til að horfa á íslenska handboltalandsliðið fara á kostum gegn Pólverjum og missti ekki af einni mínútu, þetta var svo skemmtilegt að mann sá sko ekkie ftir því að vakna svona snemma.  Ég var varla búin að koma mér heim þegar ég varð þess vör að langt stopp við endurbætur á þaki hjá mér... væri að enda. Smiðir, kerra,stigar, drasl inn á milli bíla á stæðinu svo við Gísli færðum til bílana svo ekki yrðu nú skemmdir. Svo hófst hávaði af versta tagi meðan þeir rifu af þakinu og sóðaskapurinn maður ..... það eru naglar, málningarflögur, þakpappi, plast og ræmur af einhverju sem ég veit ekki hvað er .... úti um allt.  Að ég nú ekki tali um hávaðann.  Eins og ég er búin að bíða eftir að þessum viðgerðum ljúki, mikið skelfing verð ég fegin þegar ég sé í þennan bláa rass smiðanna burtu frá húsinu með allt sitt drasl......

Farin í kaffi til Sollu, hávaðinn er  að drepa mig...... 


Sumarlok ......

Ekki kannske alveg en þau eru samt farin að nálgast.  Það sá ég á litnum í brekkunum kringum Núp um helgina, sem og óvenjumiklu hrafnagargi, og þegar að var gætt voru þeir í hópum á flugi og samkomulag slæmt.  En veðrið var yndislegt og þarna er alltaf jafnljúft að vera.

Ég þjáist af valkvíða núna.  Valið stendur um að taka ærlega og vel til í saumaherberginu mínu hérna uppi, það ber þess greinileg merki að fru Halla mætti ganga betur um .... nú eða þá að setjast við saumavélina mína og gera eitthvað við hauginn sem hefur hlaðist þar upp undanfarið, stytta buxur, gera við nokkur eintök sömu tegundar, sauma svínagluggatjöldin hennar Sollu minnar, gera við rúmföt..... það er ábyggilega eitthvað fleira í haugnum.  Já og handklæðin þeirra Arons og Matthíasar, þau eru enn í vinnslu og skólinn rétt að byrja.

Er að hugsa um að hátta aftur........ 


Helgi að baki......

Enn einu sinni.  Þessari eyddi ég fram á Núpi í bínum, Gísli þurfti að vinna alveg í gær og aðeins í dag svo við fórum á tveim bílum á föstudeginum svo hann þyrfti ekki að labba í vinnuna, þetta er svolítð langt.  Honum tókst samt að klifra tvisvar upp hjallann um helgina.....

Langt síðan síðast......

Var skrifað hér inn, það þýðir þó ekki að sé tíðindalaust eða ekkert hafi verið gert.  24 júlí fórum við hjónin á húsbílnum fram í Núp, í fygld þeirra Önnu og Óla ásamt börnum. Á föstudagskvöldinu bættust Vala og Gummi ásamt Svanhildi  í hópinn og á laugardeginum Lena og fjölskylda.  Árný náði líka að vera töluvert með okkur en þarna eyddum við helginni í blíðskaparveðri og undum okkur vel. Á laugardagskvöldinu fengu margir þá flugu í kollinn að klífa hjallan fyrir ofan Núp.... nýbúnir að eta vel af grillmat.  Til að gera langa sögu stutta..... upp fóru þau Óli, Anna, Sigurjón,Svanhildur, Gummi, Lena, já og Gísli, afinn í hópnum. Ekki er þetta nú samt röðin hvernig gekk og hver var fyrstur upp.

Þetta skrifaði ég fyrir þrem dögum ..... minnst, en setti ekki inn, hversvegna veit ég ekki vel ennþá .  Ef ég væri að byrja skriftir í dag væri yfirskriftin önnur ...... mig vantar ungana mína.  Vala er í sumarfríi með manni sínum, er á leiðinni hringinn um landið og endar á fiskideginum mikla á Dalvík um helgina, Anna og Óli eru komin heim úr sínu fríi, þau hafa verið óvenjumikið samvistum við okkur í sumar, Árný er í sumarfríi og Jökull er kominn heim með sitt fólk til Keflavíkur eftir að hafa verið hér um langa helgi .... mætti koma oftar.  Ergo, Lena er sú eina sem er heima og hennar fjölskylda. Hvað er ég eiginlega að kvarta, Sollan mín kom hér í morgun,í gær kom ég til hennar og þá var Majan mín þar.........  ég er ekkert ungalaus.

Verslunarmannahelginni eyddum við hjónin fram í Saurbæ, vígðum þar sælureit á Húsaflötinni sem þau Sigrún og Mummi eru búin að gróðursetja á aspir margar og gerðu þannig að það eru tvö rjóður fyrir næturstað af þessu tagi, tjöld ,fellihýsi, húsbíl nú eða bara svefnpokann undir tré.  Þarna er yndislegt að vera.  Sunnudeginum eyddum við norður í Skagafirði við messu í Ábæ en fórum svo fjallabaksleið heim, upp Mælifellsdal, yfir á Blöndustíflu og komum niður hjá Vöglum í Vatnsdal.  Yndislegur dagur í félagsskap við þau Sigrúnu og Mumma.

Nú er stefnan á Króksmót í fótbolta með ömmu og afastrákinn Smára Þór sem vill fá að gista í húsbílnum hjá okkur .... eins og systir hans í sumar. 


Ferðasögurest .......

Mér var tjáð að það vantaði botninn í ferðasöguna.  Að vísu er það rétt að margt er ósagt úr ferðinni en hvort það ratar allt hér inn er ekki víst.

Allavega sagði ég ekkert frá heimsóknunum sem við fórum í.  Fyrst til að heimsækja var yndið hún Kolla úr Hólabergi og hennar fjölskylda sem tóku á móti okkur af mikilli gestrisni og víst urðu þeir kátir Sigtryggur og Kristján að sjá hana aftur ... og ennþá kátari að þau skyldu ekki vera búin að pakka leikjatölvu heimilisins niður til flutnings heim aftur.  Við áttum þarna yndislegan morgun og fengum fullt af leiðbeiningum hjá þeim. Fundum ódýrari búð til að versla í til heimilisins eftir þeirra tilsögn þegar við lögðum af stað heim í hús ... í grenjandi rigningu.

Næst urðu þau Siggi Davíðs og Aris Njáls, þau búa í Danmörku í bæjarfélagi sem heitir Hundslund, þetta er eiginlega úti í sveit, gamall búgarður sem þau eru að gera upp.  Og alveg yndislegur staður, sé ekki rigning er þetta paradís á jörð. Skógur allt í kring, tjörn í garðinum með fiskum í, hægt að tína hindber og epli fyrir utan hús. Þarna áttum við alveg meiriháttar dag hjá þeim og ekki  þarf að spyrja að hversu vel drengirnir undu sér , já og ekki síður Halla Katrín.  Við komum svo aftur í hlaðið hjá þeim daginn áður en við fórum heim til að sækja sniðugan hlut sem Siggi útvegaði okkur.

Svo er það síðasta heimsóknin. Einhverntíman fyrir 1950 flutti Salóme Gísladóttir, föðursystir Gísla til Danmerkur, giftist þar og eignaðist fjögur börn.  Hún er löngu látin og nokkur ár síðan maður hennar dó, sem og eini sonurinn sem þau áttu.  Eftir lifa þrjár dætur sem allar búa í Danmörku, tvær í Kaupmannahöfn og ein í Árósum.  Við höfðum heimilisfang hennar í farteskinu og eins mundi Gísli vel hvar föðursystir hans bjó.  Það heimilisfang leituðum við uppi fyrst og sáum þá hvar Lóa frænka eins og hún var yfirleitt nefnd, hafði búið nánast allan sinn búskap. Síðan var það að leita uppi dótturina.  Þar var enginn heima en Gísli skrifaði henni nokkur orð og setti í póstkassann. Vissi að hún skildi talsvert í íslensku en talaði hana ekki.  Morguninn eftir hringdi hún og bauð okkur öllum í kvöldmat daginn eftir.  Það þáðum við og þrátt fyrir tungumálaerfiðleika svolitla var þetta yndisleg stund, ég táraðist næstum  þegar ég sá þessa litlu konu faðma að sér frændann sem hún hafði ekki séð nema einu sinni og það fyrir áratugum síðan.  Bæði vinna þau tengt börnum, hún er hjúkrunarfræðingur en hann starfar sem félagsráðgjafi sem gerði það að verkum að ekki þurfti að segja þeim neitt hvað drengina varðaði þegar þau vissu að þeir væru einhverfir.  Nema að þeim fannst ótrúlegt að þeir væru albræður með þessa sömu greiningu.

Báðar heimsóknirnar sem ég sagði frá í byrjun voru yndislegar, en lái mér hver sem vill þótt í minningunni sé það kvöldið með Önnu Hjort og fjölskyldu sem uppúr stendur......... 


Morgundagurinn........

Þessi sem ég talaði um í gær er runninn upp, svo nú er bara að byrja.  Þvottafjallið lækkar, við Anna verðum að þvo hverja einustu tusku sem með fór sökum raka og fúkkalyktar.  Vorum svo óheppin að farangurinn okkar hefur staðið utan dyra á Kastrup í ausandi rigningunni sem þar var, það lak úr barnabílstólnum þegar Óli greip hann af farangursbandinu í Leifsstöð.  Og allar töskur meir og minna blautar.  Þær komu þó .... minnug ófarannna í fyrra.

Þessi ferð verður um margt ógleymanleg, við komustum að því að Legoland hentar börnum misvel, mínir einhverfu ömmustrákar áttu ekki þolinmæði fyrir þessar endalausu biðraðir og mannfjölda, þó gekk okkur betur eftir að við skiptum liði og höfðum þetta eitt par um tvö börn.  Oftast fygldu Kristján og Sigurjón okkur afanum.  Við komum þarna tvisvar en datt ekki í hug að leggja þetta á þá í þriðja skipti.  Dýragarðarnir voru hinsvegar mikil snilld, við skoðuðum þrjá stóra garða og skemmtum okkur vel í öll skiptin.  Sigtryggur hafði mikinn áhuga á að finna lemúra, ég vissi ekki neitt annað en þetta væri einhver apategund og yrðu þar af leiðandi í búri.  Rétt fyrir innan inngang í garðinum í Ebeltoft voru þeir hinsvegar í manngengu búri og fók gat valsað um þar að vild.  Þetta átti nú við dýrafræðinginn litla og inn fórum við öll.  Þessi kvikindi reyna að stela öllu lauslegu og gleraugun mín komu strax í fókus hjá einum lemúrnum sem klifraði upp í fang mér þegar ég settist þarna á stein. Gísli náði gleraugunum af honum en tókst ekki að koma í veg fyrir að greyið sleikti hendur mínar vel og vandlega og snýtti sér síðan niður á brjóstin á mér.  Maðurinn minn elskulegur var nefnilega önnum kafinn við að mynda athæfið.  Þarna var hægt að fara í bílferð innan um villtu dýrin sem við fórum í og það voru ekki mörg dýr sem Sigtryggur þekkti ekki. Ef nokkuð.

Líka heimsóttum við dýragarð í Álaborg sem vakti mikla lukku, man ekki hvað sá þriðji hét eða hvar hann var.  Líka undum við heima við með börnunum að leika við þau, bæði afi og amma sáust sparka í bolta ... sem ekki er algengt og röltum í geitaskoðunarferð með þeim, það voru geitur þarna á svæðinu í hólfi sem gaman var að heimsækja, sérstaklega fannst Sigtryggi gaman hjá þeim.  Hann tíndi engisprettur í box, fangaði frosk, gróf holur þrátt fyrir bann og skoðaði allar pöddur sem hann fann.  Honum var samt illa við geitungana sem við höfðum talsvert á flögri í kringum okkur við lítinn fögnuð allra.

Framhald seinna.......... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband