11.5.2008 | 20:13
Hvítasunnudagur hinn fyrri......
Ég er komin heim eftir dvöl í borg óttans síðan á föstudag. Átti góða daga með Bakkastaðagenginu mínu, mest þó með yngri hlutanum. Í dag sneri ég svo í norðurátt með Sigtrygg Einar sem ferðafélaga, hann er að fara í Steiná í sauðburð með mér í nokkra daga. Það er alveg snilld að ferðast með þennan dreng. Nú er hann orðinn svo stór að hann má sitja fram í hjá manni og þá er auðveldara að tala við hann. Enda er ég öllu fróðari um hinar ýmsu gæsa og andategundir,hann tilkynnti hróðugur um einn smyril og himbrima og tókst á loft í sætinu þegar hann sá nýkastað folald. Og víða sá hann kindur og einhverstaðar voru þær allar kollóttar..... eins og norsku kindurnar sagði hann. Nú hváði ég... eru þær þá sköllóttar? Nei amma þær eru kollóttar.
Umferð var töluverð á móti okkur, mér til nokkurrar furðu og ófáar hestakerrur sáum við aftan í misstórum ökutækjum. Þegar ég kom á svokallað Skinnastaðarhorn mættum við bílalest og fremst var jeppi með kerru, enn ein hestakerran tautaði ég. Amma þetta er hjólhýsi, dæsti drengurinn, þekkir þú ekki í sundur hestakerru og hjólhýsi. Það var nú það.
Hann hló líka alveg svakalega þegar hann virti fyrir sér hrossahóp sem var frekar ósnyrtilegur um fax og tagl. Stjúpfaðir minn segir eins og úlfaldar, en bætti svo við... en þeir lifa ekki á Íslandi. Og hló síðan hátt og innilega. Núna er hann farinn upp í Efrimýra með afa sínum og frænku að pakka eggjum, búinn að fá nóg af ömmu í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2008 | 09:22
Ég hélt.....
Að það væri komið árið 2008, en við lestur 24 stunda, forsíðuna í morgun , sá ég ekki betur en allavega ráðamenn á Ísafirði væru komnir öld til baka. Nú eru þeir að taka upp meðferðina sem niðursetningar fengu fyrir áratugum síðan. Flytja fólk nauðugt út af heimili sínu, að vísu bara í sex vikur .... til að spara. Ég hefði haldið að þetta væri ekki hægt. Þetta er að vísu hjúkrunardeild dvalaheimilisins Tjörn sem á að flytja tvo einstaklinga af, en þetta er samt heimili þeirra sem þau vilja eðlilega vera á sem lengst. Ég á kannski ekki að vera að hugsa svona, en ..... ef að gamla Camilla deyr nú í sumar meðan hún er vistuð nauðug á Ísafirði, þá hafa yfirvöld sem réðu þessu það ævilangt á samviskunni að konan sem fæddist á Þingeyri, ól þar allan sinn allan langa aldur, fékk ekki að ráða því að deyja þar.
Fyrirgefðu mér Camilla mín þessa hugleiðingu mína, ég vil að þú fáir að vera í friði á Þingeyri allan þinn aldur, þarna í firðinum á ég rætur eins og þú og þykir vænt um þær .... og ég vil ekki að í sparnaðarskyni sé farið svona með nokkra manneskju.......
Til að sjá fréttina smelltu HÉRNA og stækkaðu svo fréttina til að skoða betur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2008 | 11:10
4 maí .... sunnudagur.
Þær luku við flutninga í gær, frænkurnar Gerða Solla og Árný, fyrir þá síðastnefndu. Við byrjuðum á sveru morgunkaffi í gærmorgun meir að segja Gísli kom uppeftir. Svo dreifðist fólk til verka, Valan heim í breytingar sem þar standa yfir, Lena heim að læra og gamli í vinnuna. Anna Guðbjörg fór alsæl heim með Völu, sleit þar út frænku sinni Svanhildi plús trampolini og heita pottinum. Enda þreytt ærlega þegar hún kom hér eftir kvöldmat með mömmu sinni sem var á leið í innflutningspartý hér niðri. En hér ætlaði sú stutta að gista. Eitthvað var hún lítil þegar mamman kom upp að breiða ofan á, en það var fljótt að hverfa þegar ég kenndi henni að rúnta..... með fjarstýringunni á rúminu hans afa... og mínu. Endirinn var sá að ég var ýmist á haus eða brotin saman í miðju, bæði fóta og höfuðgafl í efstu stöðu og stuttan flissandi. Endirinn á þessu varð nú samt sá að við snerum réttar og nudd undir mínum fótum og hennar baki og rassi. Og sú var fljót að sofna þegar hún loks stoppaði ærslin. Afi kallinn kom svo heim frá pökkun uppi í hænsnahúsi rétt þegar hún var sofnuð. Við litum aðeins niður í partýið, ég entist stutt og fór því að sofa hjá Önnunni minni hinni smærri, sú stærri var í vinnunni sinni á Hrafnistu og bauð góða nótt að vanda á leið í vinnuna, þá hringir hún í pabba sinn.
Ég rumskaði þegar Gísli skilaði sér upp, þá voru fleiri mættir niðri... Gummi, Vala, Fannar, ekki höfðu þau nú samt hærra en svo að ég sofnaði aftur og vaknaði ekki fyrr en stuttir fætur tipluðu inn gólfið í morgun og Anna Guðbjörg klifraði upp í á milli afa og ömmu og alltaf skal hún hnipra sig niður í fang afa, þar svaf hún oft lítil þegar hún var í passi hjá okkur. Yndisleg.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2008 | 21:57
Haltur leiðir blindan.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2008 | 05:37
Enn er ....
Bloggvinalistinn að stríða okkur, Lena mín, þegar ég ætlaði að vista beiðnina þína sem bytheway birtist tvöföld hjá mér... og þú varst "einföld" fyrir .... þá datt allt um þig út. Hvað gera Danir nú? Ég er allavega að leika mér í tölvunni þó snemmt sé. Er búin að vera vakandi af og til í nótt og glaðvaknaði rétt fyrir fimm við alveg skelfilega sjón...... mér fannst hjásvæfill minn elskulegur vera hauslaus við hliðina á mér. Athugun leiddi í ljós að höfuð hans var undir koddanum enn ekki ofan á honum. Mér létti óneitanlega og hafði mér svosem til afsökunar að vera bæði gleraugnalaus og nývöknuð......
Inni í litla herbergi sefur svo lítill gestur, Smári Þór. Hann hefur ekki verið næturgestur hér lengi og í gærkvöldi uppgötvaði amma ástæðuna. Hann þarf ekki að vera í passi lengur þegar mamma er að vinna og ekki er skóli. En að vera boðin gisting hjá ömmu og fá að sofna í afaholu var allt annað mál. Afi hans lenti reyndar í basli með að færa hann þegar hann vildi komast í sitt rúm .... drengurinn sefur skelfilega fast og var alveg eins og spýtukall að eiga við ...... og orðinn stór.
Best að athuga hvort kallinn er búinn að vefja sig innan í mína sæng til viðbótar sinni, glugginn er galopinn.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.4.2008 | 12:59
Ekkert er látið í friði.....
Nú er "meistari" Megas að misþyrma laginu Hagavagninn í útvarpinu, þáttastjórnandinn tilkynnti áðan að þetta væri væntanlegt í útgáfu fljótlega ... gömul og góð lög í flutningi meistarans. Fyrir mér eru þetta hreinar misþyrmingar á góðum lögum, Megas verður seint kallaður góður söngvari.
Enn er skítakuldi hér utandyra og hreint ekkert gott að vera úti. Var uppi á Mýrum mestanpartinn í gær, Árný klemmdi sig illa á hendi við pökkunina svo mamma greip í verkin, ég kann þetta enn .... svo eldaði ég ofan í ofvirka Solluna og Árnýju kvöldmat, þær voru að byrja að flytja búslóð Árnýjar inn hér niðri. Plokkfiskur og þrumari rann ljúflega ofan í heimilisfólk og matargesti .... ójá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.4.2008 | 09:46
Þreytt......
Eftir erfiða síðustu viku en góða. Tvö afmæli, fullt af gestum, veisla á laugardagskvöldinu sem var frábær ..... ergo, mér er alveg sama um þreytuna, hún hverfur næstu daga. Kiddi bróðir og Gerða voru hér á sunnudagskvöldið og Kiddi flutti heim til hennar dót sem hann er búinn að eiga í geymslu hjá okkur Gísla í mörg ár. Einn hlut vantaði og eftir smátiltekt í kollinum á Gísla fannst sá týndi hlutur. Þetta varð til þess að upp rifjaðist í mínum kolli að gamli dótakassinn minn með miklum gersemum var enn staddur í kjallarakompunni undir búrinu á Efrimýrum. Við þurftum að skreppa í sveitina um kvöldið hjónakornin og ég ákvað að sækja kassann. Gamli Musso hrekkjaði Gísla með því að verða olíulaus á leiðinni uppeftir, ég hafði haft vit á að vera á eftir .... okkur kemur sko svo illa saman hjónunum að við getum ekki verið saman í bíl, þannig að ég tók kallinn upp svo hann þyrfti ekki að labba. Ég gerði svo innrás hjá Árnýju meðan pabbi hennar græjaði sig til að ná í þann hrekkjótta. Ég fór nánast beint inn í búr og fljótlega heyrðist í dóttlu.... hvern fjandann ertu að gera inni í búri. Fara niður í kjallara var svarið. Hún birtist í hendingskasti... út úr búrinu með þig. Ég hélt nú ekki, ég ætlaði bara að ná í dótakassann minn. Sko, ég næ í pabba ef þú gegnir ekki...... þessi þræta stóð ekki lengi, ég sá að hún myndi ná í gamla. Svo ég hlýddi og hún brölti niður gamla skipsstigann sem liggur þarna niður og kom upp með kassann minn. Og meðan þau fóru og komu vitinu fyrir Musso, var ég á fortíðarflippi við að skoða gömlu dúkkubollana mína og fleiri gersemar sem þarna voru ..... og það var gaman.
P.S. Musso átti að verða eftir í sveitinni ... svona ef einhver heldur að ég hafi verið að segja satt um samkomulagið.....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2008 | 12:35
Hvað gengur nú á......
Það er hvítt úr lofti og dimmt í kring, skafrenningur á Holtavörðuheiði og hér í vesturátt er ekki hlýlegt um að litast, áreiðanlega hvasst og kalt á þeim sem fóru vestur á Patró til að fylgja Bjössa kjöt til grafar. Var svona veðurskot á þessum tíma ekki kölluð hrafnagusa hér áður fyrr ?
Halla Katrín ræsti í morgun klukkan hálfsjö, spræk og hress, skreið uppí til okkar afa með kubba þannig að nú er það flashback í nótt .... vakna með legokubba fasta á baki eður rassi um miðja nótt. Þar sem hún vaknaði svona snemma var hún nátturlega snemma þreytt og tókst að sofna tvisvar smávegis áður en hún fékkst til að taka miðdagslúr. Bræður hennar voru í sveitinni í nótt.
Svo er það fjölskylduveislan í kvöld, Jökull og Oddný eru á leið norður og þá eru þau öll mætt á svæðið, matur og drykkur, spjall og hlátur eins lengi og hver endist í kvöld og nótt, fyrst á Árbakkanum og síðan hér heima.......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2008 | 17:16
Á morgun...........
Er afmæli, nafna mín litla tveggja ára. Og er hér hjá ömmu og afa í heimsókn ásamt foreldrum og bræðrum, nema Sigtryggi. Hann er hjá pabba sínum og fær að koma einn í sauðburð fram á Steiná hjá Kötu og Jonna ... í fygld minni. Ég segi að sjálfsögðu að ég fari með svo drengurinn sé ekki til tafa, en auðvitað dreplangar mig til að komast í sauðburð sjálfa, hver veit nema að ég verði að gagni í húsunum. Ég kann þetta ennþá ....örugglega.
Er að ljúka við að baka köku handa Höllu Kötu, mamma hennar kom með 2 ára kerti til að blása á......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.4.2008 | 20:16
Ég vil fá.........
lottóvinning kvöldsins, mig vantar hann til að gefa öðrum ... og ekki orð um það meir.
Dagurinn hjá mér var mun betri en hjá vörubílstjórum sunnan heiða, þar sýnist mér hlutirnir hafa gengið ærlega úr böndunum. Sjá hvernig þessir andsk.... fara með eggin. Ég var komin snemma upp í Mýra til afmælisbarnsins og eftir kaffispjall var farið í að græja kökur og svoddan fyrir afmæliskaffið. Síðan eldaði ég grjónagraut fyrir afmælisbarnið og möppudýrin mín. Var búin að sjóða slátur til að hafa með grautnum áður og það var etið með mikilli lyst. Síðan fórum við mæðgur aftur uppeftir, með börn í farteskinu, Anton og Alexander og síðan sótti ég Matthías. Upp úr fjögur fóru svo að tínast gestir og þetta varð hið ljúfasta stund með gestum hjá litlu stelpunni minni.
Núna er ég komin heim og kallinn norður á Krók, ég ætla að taka pásu dagsins.... núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggvinir
-
Anna Gísladóttir
-
Rannveig Lena Gísladóttir
-
Árný Sesselja
-
Svanhildur Guðmundsdóttir
-
Solla
-
Gerða Kristjáns
-
Guðrún Ösp
-
Fjóla Æ.
-
Mummi Guð
-
Evaa<3
-
Fanný
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Brynja skordal
-
saumakarfan
-
Mamma
-
Kolbrún Jónsdóttir
-
Gylfi Guðmundsson
-
Gísli Blöndal
-
Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir
-
Anna Margret Valgeirsdóttir
-
Signý Björg Valgarðsdóttir
-
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
-
aloevera
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Kristján Atli Sævarsson
-
Ragnheiður
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
TARA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2013
- September 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007