. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Sunnudagur .... til sælu ......

Helgin er að lokum komin, við hjónin búin að sofa tvær síðustu nætur fram á Núpi í nýja bílnum og fór vel um okkur, þrátt fyrir svolitla rigningu, sérstaklega fyrri nóttina.  Og þarna ríkir öll sú kyrrð sem þreytt sál þarf á að halda, ekkert símasamband, umferð í lágmarki þannig að mest heyrðist í fuglum og einstöku kindajarmur.  Enginn refur að gagga í þetta skiptið.

Núna eru þær Vala og Anna  ásamt fylgifiskum + afleggjurum vestur í Dýrafirði í heimsókn hjá afa ög ömmu/langafa og langömmu, það jaðrar við að ég öfundi þau .......


Föstudagur til fjár ..... ekki satt ....

Og það gladdi mína gömlu sál að sjá viðbrögðin við síðustu færslu, þótt ég átti mig ekki á hver Birnan er ( þekki nokkrar) þá sá ég að einhverntíman hefði ég verið öðrum einhvers virði. 

En það var þetta með föstudaginn.  Síðastliðinn föstudag þurftum við hjónin snögga ferð á Akureyri, Gísli þurfti að kaupa á sig skyrtur.  Tókum Alexander með okkur, hann var hjá ömmu þennan daginn, pabbi hans var á leið norður seinnipart dagsins að sækja snáðana sína.  Fyrir utan torg hins himneska friðar (Glerártorgið ) stöðvaði Gísli bílinn og í sama bili hringdi síminn minn. Látum duga um þá upphringingu að erindið kom mér mjög svo á óvart .... þegar ég loksins fékk málið spurði ég gætilega ... ertu fullur.  Nei ekki ennþá var svarið.  Hafir þú ekki vitað það fyrir, veistu það núna bróðir sæll að ég tæki ofan fyrir þér hatt... væri hann á höfði mér.  Mér þykir óskaplega vænt um ykkur alla þrjá, þig ekki síst Kiddi minn.

En áfram með skyrtukaupasöguna ( er þetta ekki nýyrði ?), Gísli fann skyrtur sem voru honum að skapi, mundi meir að segja eftir að kvarta yfir síðustu sokkakaupum sínum í þessari annars ágætu búð , þeir reyndust ekki þola notkun nema yfir einn þvott.  Þá var bara ólokið einu erindi sem tók sossum eins og klukkutíma, Alexander var allavega búinn að missa þolinmæðina, enda svaf hann alla leiðina norður og hafði því ómælda orku til að skammast yfir seinagangi afa og ömmu.  En um sjö vorum við lögð af stað til baka, drengnum til mikils léttis.  Við vorum hinsvegar með höfuðverk mikinn .... hvað eigum við nú að gera.  Endirinn varð sá að við ákváðum að stökkva... ekki hrökkva.  Afleiðingin... þessar fjórar skyrtur hans Gísla reyndust kosta rúmlega  1,1 milljón króna... stykkið.

P.S.

Við keyptum nefnilega líka húsbíl.  Fáum hann afhentan í kvöld og kemur nokkrum á óvart sem þekkir mig að ég ætli ásamt kalli mínum upp í Núp í kvöld......... 

 


Takk ......

Fyrir kvittið, Sifin mín, nú veit ég þó af einni sál sem lofar mér að vita að hún kemur hér inn og gætir að gömlu.  Veit reyndar af fleirum en hef grun um að margir kvitti aldrei.  Kannski væri ráð að læsa þessu svo ég viti hverjir koma hér inn.  Sé til......

Úti er sólarlítið en 16 stiga hiti þegar litið var á mæli eldsnemma í morgun, var vöknuð á undan hjásvæflinum og þarf þónokkuð til , þessa dagana er hann kominn til vinnu klukkan sjö að morgni.  Ég er að undirbúa hádegismat fyrir möppudýrin mín og fylgifiska ..... fiskibollur.

Dagur kominn að kvöldi og enn er ég sest við tölvuna, núna til að ljúka dagsfærslunni...... hver veit nema andinn komi yfir mig á morgun. 


Mannvonska eða ...... hvað.......

Sitt sýnist hverjum um að lóga ísbjarnargreyinu sem heimsótti Skagfirðinga nýlega, mér varð að orði í gær að það væri hægara að tala um en í að komast að handsama/fanga dýrið.  Ekki viss um að hann hefði fengist til að eta úr lófa löggunnar kjötbita með deyfilyfi, eru þó löggurnar á Króknum bestu skinn. Og ekki langaði mig til berja eða á grasafjall þarna seinna í sumar ef ég ætti von á ísbirni anda ofan í hálsmál mitt.... athugandi hvort ég væri kannski æt.

Hér á bæ ríkir ófriður nokkur þessa dagana sem stafar af smiðum sem skipta hér um gler í gluggum og járn á þaki svo ekki leki vatn hér inn við engan fögnuð okkar hjóna.  Eins og ég er búin að bíða óþolinmóð eftir þessum elskum (smiðunum) þá er með ólíkindum hvað ég á erfitt með að þola í þeim hávaðann og sóðaskapinn.  Eina glerið sem þeir brutu við að ná því úr falsinu var að sjálfsögðu í glugganum við stigann.... þar er nefnilega teppi undir.  Það náðist samt að hreinsa það upp með ryksugunni minni áður en hún skrapp í Efrimýra í þrifin þar.  Hún var sniðug Árný, vitandi það að mamma réðist á óþrifin um leið og sæist í hæla smiðanna út úr íbúðinni, þá skilaði hún engu af hreinlætistrallinu fyrr en á föstudagskvöld ... seint.  Laugardeginum var reddað, ég hafði svo margt annað að gera og kom lítið heim, sunnudeginum var líka bjargað fyrir horn og á manudagsmorgun kom frelsandi engill í líki heimilishjálparinnar minnar og tannburstaþreif íbúðina.

Men hvað var notalegt að finna sápulyktina, rölta berfætt um gólfin án þess að verða svört af skít eða fá flísar í tærnar...og sofna smástund um miðjan daginn eins og litlu börnin...... 


Ísbjarnarblús ...... hinn seinni......

Ef ég hefði ekki verið pottþétt viss um að væri kominn júní á dagatalinu mínu, hefði ég hlegið eins og hýena í morgun..... 1 apríl.   Enda var löggan á Króknum ekki meðtækileg svona í fyrstunni  að hvítabjörn væri að trufla umferð um Þverárfjall í morgun og 112 brást ekki hratt við heldur í fyrstunni, enda hver á von á hvítabirni í júníbyrjun á þessum slóðum....... mér er spurn?

Laugardagurinn síðasti verður okkur hjónum minnisstæður, nýir ábúendur fluttu í Efrimýra.  Vikan snerist um þrif og tæmingu á íbúðarhúsinu hjá okkur mæðgum og nýttum okkur alla þá hjálparkokka sem til náðist.... og þetta hafðist en við vorum þreyttar eftir.  Ekki samt svo að þær héldu upp á sextugsafmæli...... 30x2...... Árný og Solla, enda átti hún sitt afmæli þennan dag ... 31 maí. 

Aðfaranótt laugardagsins sváfum við hjónin í húsbílnum á húsahlaðinu á Efrimýrum og sváfum vel, þarna höfðum við átt heimili í tæp 28 ár.


Í stíl við flest annað.......

Tölvan mín er að bila eitthvað, svo að ég á ekki von á að verða vel virk hér inni á næstunni, get samt fyglst með ennþá.....

Sólskin úti ..... myrkur inni .....

Ég held að guð sé upptekinn í einhverju öðru, áhyggjurnar mínar eru allavega að angra mig ennþá.

Samt er sólskin úti og sumarið á næsta leiti, húsbíllinn minn er að koma úr vorskoðun í dag og tilbúinn í sumarið, verst að sumarið hjá Gísla hefst líklega ekki fyrr en í júnílok ... þökk sé andsk..... skattinum.  Veit ekki hvort ég hef getu til að kljást ein við Göslann, þ.e húsbílinn.  Þegar við keyptum hann stóð stórum stöfum aftan á bílnum.... Lilli.  Þetta fannst mér engin leið og plokkaði snarlega af en er ekki búin að fá samþykki fyrir ... Gösli... í staðinn.

Sat hér ein í gærkvöldi og fygldist með söngvakeppninni og viti menn, þau komust áfram, Regína Ósk og Friðrik Ómar, og stóðu sig svona listavel, ekkert fiður, tjull og rusl né skrækir ..... bara söngur og lífsgleði sem geislaði af þeim.  Nú er bara að sjá hvernig þeim vegnar í aðalkeppninni annað kvöld.  Er að hugsa um að bæla sófann við að horfa annað kvöld í fygld hvítvínsflösku og kjúklings, kalkún ætla ég ekki að tala um í bili síðan írski hryllingurinn gekk fram af mér á þriðjudagskvöldið......


Takk stóra systa.....

Fyrir kommentið þitt um hann Sigtrygg, það varð til þess að ég fór að velta fyrir mér gildi þess að gefa. Stærsta gjöfin í þessu tilviki var auðvitað drengurinn sjálfur, allir sem þekkja hann vita að dýr eru hans uppáhald.  Og því var  gjöfin hennar Kötu stór þegar ég bað hana í vetur að lofa mér að koma með  hann í heimsókn í sauðburð í vor. Ég held að hún hafi ekki einu sinni spurt Jonna, heldur sagt honum  að við kæmum.  Mér þótti heldur ekki ónýtt að gera þetta, ég er sjálf svoddan rollukelling eins og Sigrún systa vissi ....eftir að hafa haft mig í kjölfarinu mörg vor í sauðburði.

Ergo ..... við Sigtryggur erum bæði alsæl með dagana, ástarþakkir Kata og Jonni, ykkar gjöf var stór. 


Skilaboð.... frá guði.

Góðan dag .... þetta er Guð. 

Ég mun sjá um öll þín vandamál í dag og þarf ekki þína hjálp til þess.

Slakaðu því á og eigðu frábæran dag.

 

Ég fann þessa frábæru speki inn á netinu áðan og ákvað að tileinka mér hana, það er svo margt sem herjar á mína hrelldu sál þessa dagana og ég fæ engan vegin við ráðið, veikindi í fjölskyldunni, árlegar áhyggjur um lengingu sólarhringsins hjá eiginmanninum, ungarnir mínir, fleygir jafnt sem ófleygir..... hvaða vitleysingur hélt því fram að um leið og börnin manns kæmust á fullorðinsaldur, væri öllum áhyggjum af þeim, af manni létt ??????


Það er rétt.....

Vika síðan Sigtryggur minn kom röltandi hér upp stigann í kjölfar frænku sinnar, við fara í Steiná amma?  Jú, þangað var förinni heitið, þegar amman væri komin í eitthvað annað fatakyns en náttfötin og búin að taka til það sem þurfti að fara með í sveitina.  Þetta tók ekki langan tíma og síðan var haldið af stað.  Ég prófaði, komin langleiðina að Skagastrandarvegamótum... beygja hér?  Nei amma, halda áfram.  Svo tók við áframhaldandi fuglafræðsla, hann sá skúfönd, toppönd, rauðhöfðaönd og einu sinni sagði hann í hlakkandi tóni... neiii gargönd.  Mér var allri lokið... af hlátri.  Einnig sá hann grágæsir og helsingja já og himbrima fram við Skriðuland. Þegar við renndum í hlað á Steiná var okkur vel fagnað af húsráðendum sem og gestum, Grímur og Harpa voru þarna langa helgi með bæði sín börn.  Sem og Finnur kúasmali hinn yngri og var þarna að frumsýna kærustu sína. Fleiri gestir bættust við um hádegisleytið og þar sem dróst að fara í húsin og Sigtryggur var orðinn óþolinmóður, búin að koma og fara í dyrunum oftar en ég hafði tölu á, stoppaði hann loksins og spurði hvað þetta droll ætti að þýða.  Hann fékk leyfi til að fara á undan og hentist niður í hús með það sama.

Þar undi hann sér einna best alla þá daga sem við stoppuðum, var fljótur að læra að hverju þurfti að gæta hjá kindunum hvort þær væru að bera. Sumar var hann farinn að þekkja með nafni, Kata var dugleg að kenna honum nöfn og hann var búinnn að dæsa i rúman sólarhring yfir óborinn Hnýflu, svartri kind sem Kata benti honum á.  Það var því sprettur á Sigtryggi þegar hann kom úr aðgæsluferð.....Hnýfla búin fá eitt lamb.  Ég rauk upp og á eftir honum niðureftir, vopnuð myndavél.  Þar náði ég þessum fínu myndum af Hnýflu við að klára verkið með gæslumanninn standandi yfir sér.  Síðan var þetta botnlaus gleði hjá drengnum, eltandi alla út um allt , ýmist á fjórhjóli, sexhjóli eða labbandi.

Ég er þreytt, þó sé í bloggstuði...........pása. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband