. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Laddi 6tugur..........

Bara snilld, ég hef ekki hlegið svona mikið og lengi síðan ég veit ekki hvenær .... og þakkaði fyrir að sitja ekki á fremsta bekk, dr. Saxi fór nokkuð grannt yfir tilurð nokkurra sem þar sátu.  Alveg meiriháttar skemmtun.

Sem og líka saumaklúbburinn var á miðvikudagskvöldið, alltaf jafngaman að hitta netkellurnar, samt vantaði í hópinn.  Við erum svo ólíkar í verkefnavali en alltaf jafn gott og gaman að sjá árangur hinna og fá ábendingar og ráð, ef mann er  ekki alveg viss um eigin vinnu.  Ég lá yfir tillögu að eldhúsgardínum handa mér, fyrst með Ellu Boggu við eldhúsborðið  hennar og svo með hinum kellunum í klúbbnum. Held að hugmyndin sé að verða fullmótuð.

Morgninum er ég búin að eyða hjá tannlækni og síðan með Árnýju á föndurrúnti, okkur " vantaði " viðbót í föndurkistuna fyrir jólakortagerð, það er víst farið að styttast í jólin.... það segir fJÓLan amk...... 


Friðarsúlan......

Var að horfa á, að vísu í fjarlægð, Yoko Ono kveikja á þessu margumrædda fyribæri.  Ef að þessi súla verður til að friður komist á í heiminum ....... af hverju var ekki löngu búið að þessu, mér er spurn?

En nóg um það, sit hér við tölvuna þeirra Önnu og Óla, búin að knúsa nöfnu mína vel og ærlega, Kristján búinn að lána mér rúmið sitt meðan ég stoppa í bænum, samt er eitthvað að naga mig í hnakkann..... veit bara ekki alveg hvað það er. 


Borg syndanna?

Ja eða borg óttans, ef ég væri að fara suður á eigin bíl, umferðin í Reykjavík er oft svo erfið þeim sem ekki aka þar að staðaldri.  En fer með Jökli, hann er að skila strákum sínum úr helgarfríi í dag og mamma fær far. Saumaklúbbur, leikhús og fleira. Búin að vera með einhverja ritstíflu síðustu daga, kannski er þetta að skána núna......

Kvöldpistill .........

Það er ekki margt sem tekur fram grjónagraut með nýsoðnu slátri sem meðlæti og rjóma útá, namminamm, Árný hafði ágæta lyst, Gerða aftur á móti enga. Tiltekt dagsins endaði snögglega um kaffileytið þegar við Svanhildur heyrðum að það lak vatn einhverstaðar rétt hjá okkur og mikið rétt það lak niður úr loftinu í endanum á skúrnum.  Beint niður í hillurnar og nokkur glös, í einni bjórkönnunni var vænn botnhylur.  Mér var allri lokið, vissi reyndar að glugginn gæti verið varasamur en þetta datt mér ekki í hug.  Það var bara í gær sem ég tók þarna úr endanum helling af blaðamöppum og setti annarstaðar. Þau skemmdust allavega ekki, spurning hvað hillurnar þola.

Ég var að rölta hérna ein í dag og allt í einu rann upp fyrir mér hvað margt af því sem er hér innan veggja minnir á fyrri tíma, kommóðan hennar tengdamömmu, sófasettið þeirra og klukkan, myndirnar af afa mínum og ömmu sem bjuggu langa ævi á Núpi, Beta, Þorvaldur, Unnur .... allt í einu fann ég allt það góða sem tengdist þessu fólki og umvefur mig alla daga.


Er vöknuð.........

Meir að segja fyrir þó nokkru síðan.  Þegar ég fór að hreyfa mig til að komast fram úr heyrðist undan hinni sænginni.... veistu að það er alhvítt úti.  Það var ekki laust við að færi um mig hrollur við þessar fréttir, snjór er ekki mitt uppáhald.  Nema sé komið vel fram á vetur og sé mikið af honum og ....... snjósleðinn og ég séum í fínu lagi.  Núna erum við líklega bæði í hálfgerðum lamasessi, sleðinn og ég og þessi snjór er bæði lítill og blautur, hoj bara.........

Þetta verður eiginlega framhaldssaga hjá mér, á erfitt með að sitja lengi í einu við tölvuna, svo að ég er að fara í ýmsa hluti á milli þess sem ég pikka.  Morgunstundin fram að hádegi fór í tiltekt úti í skúr, það er loksins að koma einhver mynd á umhverfið þar.  Svanhildur var hér í nótt, það var konupartý í pottinum hjá mömmu hennar í gærkvöldi, Sassan of ung og ég of gömul til að taka þátt svo afi sat uppi með báðar, kelluna og dótturdótturina og fannst bara fínt.  Hann fór svo upp í Mýra þegar hann var sæmilega vaknaður en við Sassan í skúrinn.  Núna í hádeginu er hún komin heim til að horfa á fótbolta, en ætlar að koma aftur seinnipartinn, hafði pata af grjónagraut í kvöldmatinn.  Bað að vísu um að sleppa við slátur með honum, finnst það ekki gott.  Árný hinsvegar bað um slátur, restin sem er í pottinum fer í súr ...... nammi nammi nammi namm.


Bloggþreyta eða hvað??????

Nei, ekki bloggþreyta, bara svona almenn, safna orku í nótt og set svo eitthvað hér inn á morgun......

Setti í bakk.........

Og brunaði á skrifborðsstólnum eftir fjarstýringu sjónvarpsins, eitt er nú að eyðileggja kvöldið fyrir manni með alþingiskj...... en að ætlast til að ég hlusti eða horfi, ónei ekki nú aldeilis.  Ég SLÖKKTI.  Enda á hraðri leið í að blogga um helgarferðina.

Þessari síðustu helgi eyddi ég  og Gísli nefnilega vestur á Þingeyri hjá foreldrum mínum, regnblautir dagar reyndar en það var allt í lagi, við héldum okkur mest innadyra.  Pabbi þurfti reyndar að sinna smalamennsku báða dagana, en það var allt í lagi, hann var kominn heim uppúr miðjum degi.  Spjall og handavinna, rifja upp gamla daga, frásagnir af ýmsu sem annars hyrfi með þeim....  Ekki spillti að ég átti afmæli á sunnudeginum, þann dag varð ég 55 ára     og einnig áttu þau afmæli þennan dag.... 57 ár frá því að þau sáust fyrst.  Þetta vissi ég ekki fyrr en nú.

Síðan var að koma sér heim á mánudegi.  Stutt stopp í Holti, Önundarfirði hjá séra Stínu og maddömu Óla, manni hennar, síðan tók við akstur heimleiðis í mikilli rigningu..... og for á þeim vegaköflum sem ekki er komið malbik á.  Fyrirkvíðanlegt ferðalag að mínu mati, ekkert samband við útsendingar útvarps á löngum köflum og ég hafði gleymt að taka með geisladiska. Nú kom sér vel afmælisgjöfin frá Gísla, Íslandslagaalbúmið.  Ég var reyndar búin að segja honum skýrt og skorinort að ég vildi fá Kitchen Aid hrærivél í afmælisgjöf... með hakkavél.  Þegar hann rétti mér pakkann með tónlistardiskunum varð mér að orði hvar hann hefði fengið hrærivélina þjappaða svona saman?  Þú færð enga hrærivél, var svarið. Nú .....heim komustum við á haugdrullugum bílnum, ég varð á undan í dyrnar og þá runnu á mig tvær grímur, ef ekki fleiri.  Skór í forstofunni sem ekki voru þar þegar ég fór, skólatöskur og fatnaður..... pönnukökulykt?  Upp stigann og þar mætti mér fullt af fólki, Lena með sín börn, Svanhildur og svo stóðu þær hlið við hlið, Vala og Árný við eldhúsbekkinn, önnur með spaðann á lofti, að vísu að baka vöfflur.  Það var býsna grunsamlegt hve þétt þær stóðu saman systurnar, svo ég kíkti......... Ný hrærivél var það sem þær voru að fela á bak við sig.  Og gjafabréf, ég ætla að reyna að koma því hér inn við tækifæri, það er nokkuð skondið.

Vöfflurnar voru etnar með bestu lyst, Sollan mín kom í dyrnar með Önnu Guðbjörgu og náði í síðustu vöffluna áður en hún hyrfi ofan í Völu, þær færðu mér blóm mæðgurnar, fallegar fjólubláar rósir.......


Meira rok .......

Ég hélt að nýviðgerði bíllinn minn fyki þegar ég ók upp Ámundakinnina í morgun.  Og þetta átti bara eftir að versna ... undir hádegi hélt ég að þakið tæki af hænsnahúsinu, þar var ég ein að pakka. Róaðist til muna þegar Árný skilaði sér heim, heil á húfi eftir að hafa þurft að keyra út eggjum á sendlinum í þessu þá líka veðri.  Og allar skrúfur og naglar héldu þakinu á púddukofanu.

En þetta fór skánandi seinnipartinn og nú er ég að snúa mér að því að tína saman það sem á að fara með..... vestur á Þingeyri í fyrramálið.........


Ekki dauð, bara þreytt........

Alveg hreina satt, bara þreytt.  Árný kom heim í gær og náði að sækja systkinin í skólann, þau fögnuðu frænku sinni mikið, sennilega orðin leið á ömmu. Þau borðuðu hér hjá mér áður en var farið heim á Hlíðarbrautina .... með frænku. Í morgun var það svo morgunkaffi hjá Árnýju, fyndið að hún varð síðust  í hlaðið á Efrimýrum, mamma fyrst, síðan Vala og húsráðandi seinust.  Kisan Tanja varð fóstru sinni fegin, búin að vera ein heima í marga daga Síðan tók við venjulegur morgunn, pökkun, verðmerking, hádegismatur og síðan aftur í sveitina að klára verk. Við vorum konar til baka mátulega til að sækja börn í skóla og leikskóla og Elísu tókst að sofna í fanginu á frænku sinni strax og hún var búin með kvöldmatinn.  Núna steinsefur hún inni í litla herbergi hjá ömmu og afa, frænka kemur með hrein föt og skólatöskuna í fyrramálið og fylgir dömunni í skólann.  Núna er ég farin á deit við koddann minn og sængina, hellingur af hugsunum á harðahlaupum í kolli mínum, ætla samt að fara að sofa.

Rok en ekki rigning.........

Mætir mér snemma morguns og talvan í fýlu og vildi ekkert fyrir mig gera til að byrja með, hvorki hleypa mér inn á netið eða leyfa mér að blogga.  Lét hana því hugsa sig um á meðan ég fékk mér morgunhressingu og lauk við að lesa sunnudagsmoggann, mér tókst ekki að ljúka því í gærkvöldi. Eldsneytið á mér var þrotið fyrir kvöldmat, held að ég hafi verið háttuð fyrir klukkan níu.  Gísli þorði ekki annað en fara "einusinni enn" upp í Mýra seint í gærkvöld, það spáði svo illa, þvottahússgluggin opinn fyrir kisu og best væri að athuga vel alla glugga og hurðir fyrir nóttina.  Vonandi er allt á sínum stað þegar hann kemur uppeftir á eftir, reiður köttur sem kemst ekki út að pissa, hús og hænsnakofinn, já að ógleymdri geymslunni.

Ég ætla að vera hér heima í dag veit þó ekki hvort mér tekst að ýta áfram verkum síðustu tveggja daga. Það er að setja upp fleiri hillur úti í skúr, veggurinn reyndist vera hæfur til að setja þar upp hansahilluvegginn minn. Þá er komið að því að tæma fleiri kassa svo að verði fært um klósett og forstofu, þar eru slatti af kössum sem bíða eftir losun.

 

Mér verður ekki að ósk minni, Anton og Elísa mættu fyrir hádegi, mamma þeirra er á leiðinni til London með grunlausan eiginmanninn, allavega þangað til að hann kemst að því að pabbi hans er að ferja hann í veg fyrir konuna sem ætlar að koma honum á óvart, en ekki að ná í gamlan bíl sem var sagan sem pabbi hans plataði hann af stað með.  Elísa var með hita í gær svo hún fer ekki út í dag allavega.  Rétt áður en þau komu, duttu Svanhildur og Þorsteinn inn um dyrnar.  Eftir viðgerð á buxunum hans Þorsteins (ónýtur rennilás) fóru þau aftur, með Anton með sér og ætluðu í fóbolta og svo að horfa á boltaleik í sjónvarpinu.  Mér tókst reyndar að ginna þau hér heim í millitíðinni með nýelduðum grjónagraut.  Nú sefur Elísa svefni hinna réttlátu í rúminu mínu, sagðist vera þreytt og það væri rok.....þetta með þreytuna kannast ég við að reyna að sofa af mér en rokið verður örugglega bara verra þegar hún vaknar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband