22.9.2007 | 09:43
Áminning...........
Hún kom hér inn í gærkvöldi, takk Gerðan mín, að ýta við frænku. En mér er mislagið að blogga og stundum þarf ég að láta það ógert í nokkra daga, svona meðan mitt stóra skap er að róast og jafna sig eftir að einhver/eitthvað hefur æst það upp úr skónum.
En þar sem frá var horfið, Kiddi skilaði sér til baka á mánudeginum og bauð okkur Gísla í mat heima hjá Gerðu, hann hafði orðið sér úti um lambalæri af nýslátruðu og þær frænkur, Gerða og Árný elduðu, það voru til nýuppteknar kartöflur og ég átti rababarasultu, að vísu árgerð 2006 en hún smakkaðist vel. Hann fór svo suður seinnipart nætur og var mættur í vinnu á réttum tíma. Næst heyrði ég í honum um miðjan dag á miðvikudag, þá var hann að bíða eftir flugi á Gatwik. Hann var kátur með þetta stutta stopp og men..... hvað honum tókst að koma systur sinni og mági á óvart.
Það er komið haust og lægðir og hæðir þeytast yfir mann með roki og rigningu, jafnvel slyddu, en stundum birtir, núna í augnablikinu er sólskin,en ..... bara tveggja stiga hiti. Ætla að vera dugleg í dag og set vonandi inn aðra færslu í kvöld. Þangað til .... eigið góðan dag.
P.S. Ekki halda að bróðir minn elskulegur hafi reytt skap mitt upp úr skóm sínum, það gerðu draugar sem áttu að fara amk sex fet niður fyrir meir en ári..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2007 | 07:47
Mánudagur..................
Og ekki til mæðu, nei takk. Kiddi er enn staddur hér einhverstaðar fyrir norðan mig ennþá en er væntanlegur í kvöld. Hér til okkar Gísla hefur hann ekki komið áður.
Ég fór upp í Mýra snemma í morgun, þar leiddi haltur blindan, báðar vorum við þreyttar efir helgina. En það þurfti að keyra út rúmlega hálfu tonni af eggjum, Árný dreif sig í það þegar við vorum búnar að ljúka verðmerkingu og pappírsgerð en ég rölti upp í hús og náði að verðmerkja upp úr 16 körfum áður en hún kom aftur, svo þurfti ég að hypja mig um ellefu leytið, þá voru bara 12 eftir.
En það var gærdagurinn. Hann var ansi kaldur í morgunsárið , vel hvítt á jörðu og því napurt frekar að hlaupa á nærbuxunum og bol inn í bakdyrnar, lét nig nú samt hafa það. Enda hélt Árný að nú væri mamma alveg búin að tapa glórunni. Svo slæmt var það nú ekki, fötin mín voru bara flest inni í bæ. Morgun verkum dreift á alla sem hægt var, nema Kidda, hann var ekki að sofa frameftir morgni frekar en fyrri daginn. Svo var það að mæta vel og snemma í réttina, Smárinn minn og Sigtryggur komu með mér. Anna var komin áður en rekið var inn svo hún fór með okkur Sigtryggi í innrekstur, sem gekk vel, það er að segja úr næturhólfinu. Hross sem komu nokkru seinna ofan Norðurárdal, vildu alls ekki hliðið sem þeim var ætlað og var þras að koma þeim inn, tókst þó án óhappa. Réttarstörfum var nánast lokið fyrir þrjú og þá fengum við leyfi til að hypja okkur heim. Það var nefnilega eftir að koma fyrir helluborðinu fína sem Óli hafði keypt fyrir okkur og fleira þurfti að gera. Kiddi fór uppúr hádeginu norður á Krók til Oddnýjar, yngri dótturinnar sem býr hér heima og ætlaði svo enn lengra norður, á Grenivík til Diddu og koma í garðinn til Ómars, heimsækja Sigrúnu gömlu, mömmu Ómars og svo að skoða skip á Akureyri. Kemur til baka í kvöld.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2007 | 21:18
Réttahelgin þessi.....
Á eftir að verða mér minnisstæð, heldur betur. Ég lauk tiltekt fyrir hana hér heima fyrir kvöldmat og var þar með farin upp í Efrimýra. Árný var að vísu boðin í mat til Völu sem og Anna með sitt lið. Þau ætluðu svo að gista uppfrá. Það ætluðum við Gísli líka að gera, í húsbílnum úti á hlaði. Barnastóðið mitt skilaði sér svo í sveitina, fyrst var Árný með Sigtrygg með sér. Hann ætlaði sko með fyrstu ferð í sveitina. Nafna mín hafði sofið eitthvað á leiðinni svo hún var á stóra sviðinu strax og hún kom inn og sýndi afa og ömmu hvað hún væri orðin dugleg að labba. Það var nú samt ekki farið seint að sofa, langur dagur framundan að morgni. Inni í eldhúsi var allt komið á fulla ferð þegar ég kom svo á fætur í gærmorgun. Morgunkaffi og svo var það lokahönd á súpupottinum sem stundum er kallaður nornapotturinn hennar mömmu/ömmu , 12 lítra eintak. Hann var fullur af kjötsúpu sem eftir var að bæta í svolitlum vökva svo þetta stæði nú undir súpunafninu en ekki þykkur grautur. Meðan ég var að þessu birtist Vala með sín börn og þar á eftir Gerða með sína syni sem Árný var búin að taka að sér frá 1-4, Gerða þurfti að vinna. Hún var úrill frekar og dauðöfundaði okkur að komast fram eftir og skánaði ekki hót þótt ég benti henni á að þetta yrði endurtekið að ári liðnu. Mig langar núna ..... var snubbótt svarið. Eitthvað var etið uppúr pottinum góða áður en lagt var af stað frameftir, fimm bílar takk í einni lest frá Efrimýrum fram í Kirkjuskarð.. Það reyndist skítakuldi framfrá svo að þeir sem ekki höfðu klætt sig í kuldagalla heima (ég ) fundu þessa flík sína og klæddi sig í snarhasti, með dyggri aðstoð eiginmannsins. Nú svo var það að bíða eftir gangnamönnum og ferðamannastóðinu + hrossastóðinu sem verið var að smala. Meðan beðið var var auðvitað rápað um og skoðað hverjir væru nú mættir af kunnuglegum andlitum og þeim fór fjölgandi þrátt fyrir kuldann. Svo fór þetta að tínast, nokkrir gangnamenn með fáeinar rolluskjátur komu vestan ár og yfir og fljótlega þar á eftir kom slatti af ferðamannahópnum, svo bættist enn stærri hópur við. Ég hafði rölt á eftir Sigtryggi svo nærri sem maður mátti fara á móti til að fylgjast með, þá fara þær Vala og Árný að tala um hvort megi ekki hleypa krökkunum í nestið svo að þau hætti að tuða... égersvangur/svöng. Sjálfsagt svaraði ég þið getið gert þetta sjálfar. Þær mögluðu eitthvað en ég nennti ekki. Smástund leið, þá kallar Vala til mín ... komdu mamma , sjáðu, ég rölti til hennar og ..... sá ofsjónir. Lokaði augunum, nuddaði þau og opnaði á ný, jú Kristján bróðir stóð þarna fyrir framan mig , með hest í taumi og greinilega að koma úr smalamennskunni. Ég stökk upp um hálsinn á honum, jú þetta VAR Kiddi, kvartandi yfir að ég hefði ekki verið heima í morgun til að gefa honum morgunkaffi. Ókunnugum sem lesa þetta til skýringar.... hann býr úti í Namibíu. Þetta hafði ungunum mínum tekist að fela fyrir mér og skýringin komin á hve úrill Gerðan mín var, að geta ekki verið þarna líka og tekið á móti pabba sínum. Hún fékk hann þó óvænt í morgunkaffi. Og það sem eftir var dags ríkti mikil gleði hjá okkur, Jón bróðir var þarna líka, við stoppuðum öll góða stund á Núpshlaðinu í útleið og það var glaður hópur sem settist að súpupottinum á Efrimýrum í gærkvöldi.
Restin af helgarfrásögninni verður að bíða til morguns, ég er meira en þreytt........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.9.2007 | 14:28
Ostur og einlægni barna.......
Einhverntíman í þessara viku upphófst deila við hádegisverðarborðið hjá " möppudýrunum" mínum hvernig væri best að skera ost, Lena sagði sína fjölskyldu, ( lesist Árna) alltaf ganga þannig frá að það mynduðust skíðabrekkur í stykkinu og það nýttist illa. Gísli kvartar hinsvegar yfir því að ég skeri alltaf af vitlausri hlið ostsins. Í fyrsta lagi veit ég hvergi um ostskurðarreglur og í öðru lagi finnst mér vont að hafa stykkið upp á endann við að ná af því sneið , meðan það er nýtt riðar þetta á diskinum eins og fyllibytta á fimmta glasi. Niðurstaða okkar Völu var allavega að hagræða stykkinu eins og okkur þótti skást, við að ná okkur í sneið, við vorum þó sammála.
Í gærmorgun átti ég nýnæmi undir ostinn, heimabakað flatbrauð, sem indæl kona hafði laumað að Árnýju í launaskyni fyrir að færa sér egg. Hún skilaði brauðinu til pabba síns með þakklæti fyrir eggin. Meðan ég maulaði sneið af þessu nýnæmi, smurðu með smjöri og osti, mundi ég eftir syni þessarar góðu konu, hann var ekki gamall að svara í símann heima hjá sér og spurt var eftir mömmu hans ... nei hún er úti á hlaði að svíða flatbrauð. Þetta var alveg hárrétt hjá honum, brauðið bakaði hún utandyra á járnplötu og notaði til þess tækið sem notað var til að svíða hausa á haustin. Í annað sinn svaraði sami strákur og spurningin ... er pabbi þinn inni..... svaraði hann af einlægni... nei hann er úti í fjósi að hafa olíuskipti á kúnni. Málið var að um nóttina hafði losað sig ein beljan í fjósinu og komist í fóðurblöndupoka og étið yfir sig. Það orsakaði stíflur í görnum og hefði endað með ósköpum , hefði pabbi hans ekki brugðið á þáð ráð að hella olíusopa ofan í kusu. Og var að bæta á sopann þegar hringt var og snáðinn spurður hvar pabbi hans væri.
Ein kenning um ostinn sem ættuð er úr hrekkjapoka svila míns á Steiná, hér á árum áður hélt hann því staðfastlega fram við syni sína og aðra karlkyns af smærri gerðinni í fjölskyldunni að ákveðinn líkamshluti þeirra styttist við að borða ost og kallaði ostinn gjarnan stytting. Ég minnist þess að hafa lent í basli með að mér væri trúað, þegar ég staðhæfði að þetta væri plat hjá Jonna.......
En nóg um ost, framundan er stóðrétt og smalamennska á morgun. Ég er byrjuð að undirbúa kjötsúpupottinn sem bíður eftir svöngu fólki annað kvöld eftir ævintýri dagsins. Svo þarf nesti upp í rétt á sunnudaginn, best að gera eitthvað annað en hanga í tölvunni........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.9.2007 | 21:53
HR'OS DAGSINS........
Færð þú Árný mín, fyrir að bjarga sauðnum henni mömmu þinni. Eigum við ekki að steinþegja yfir því að ef ég hefði ekki fengið hjálp þína við fjölnotatækið mitt og kennslu .... hefði Anna systir þín fengið gripinn með sér suður á sunnudagskvöldið. Lítið gagn að græju sem ég get ekki notað.
Hér er kominn kvíði í mann fyrir helginni, veðurspá er slæm og ef það er eitthvað sem ekki gengur upp í stóðréttum þá er það rigning og kuldi = geðvond hross.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.9.2007 | 14:00
Mér er líka nóg boðið.........
Til að gera langa sögu stutta, lesist hér..... http://www.annagisla.blog.is/blog/annagisla/ það er að segja seinnihlutinn af blogginu hennar dótur minnar. Skítt með frystikistuna, hitt er öllu alvarlegra. Í fleiri ár en ég man í augnablikinu hve mörg þau eru, hefur hún barist fyrir drengina sína af alefli en ekki alltaf haft erindi sem erfiði, eins og raunin er í þessu tilviki. Nú er t.d til "á pappír" lausn fyrir drengina sem heitir félagsleg úrræði eftir að skóla lýkur á daginn. En þegar leitað er eftir þessu...... því miður finnst ekki húsnæði og svo vantar líka starfsfólk. En mikið rétt, þetta er til á blaði, það virkar bara ekki fyrir börnin. Ég er ekki búin að gleyma hve illa gekk að fá inni í Hólabergi fyrir þá í skammtímavistun, þeir áttu réttinn, jújú, það var bara ekki pláss. Það var heldur ekki pláss fyrir Sigtrygg í skammtímavistun sumarið eftir að þau fluttu suður. Ég fékk inni fyrir hann á Sauðárkrók. þar hafði hann verið stundum í skammtímavistun meðan þau bjuggu hér, en nei, Reykjavíkurborg greiddi ekki fyrir börn búsett í borginni annarsstaðar, þeir höfðu eigin úrræði. Það var fátt um svör þegar ég benti ágætri konu sem ég ræddi þetta við, undir hennar starfssviði var þetta mál hjá borginni. Samtali okkar lauk með því að ég sagði henni að drengurinn færi í vistun á Króknum, reikningurinn yrði sendur borginni, ráðlagði henni að greiða um leið og snepillinn bærist, ég var búin að kynna mér að sólarhringurinn fyrir norðan var svolítið ódýrari en í Hólabergi. Þakkaði henni svo fyrir samtalið og lagði á. Hef ekki heyrt í henni síðan ... og fygldist vel með að Anna fengi ekki reikninginn. Einhverntíman man ég líka eftir því að hafa viðrað þá hugmynd við þáverandi félagsmálaráðherra, Árna Magnússon, að hann vildi kannski prófa að hafa bræðurna í gæslu, bæði í vinnu og heima sossum eins og í viku, það myndi örugglega flýta fyrir skilningi hans á vandræðum foreldra sem væru að berjast við ríkið til að fá eitthvað meira til hjálpar en falleg orð á blaði. Af því að ég þekkti hann að góðu einu gat ég rætt þetta við hann, en það kom fljótlega í ljós í spjallinu að einhverfu vissi hann harla lítið um. En það virðist vera sama sagan hjá ríki og borg, það er til nóg af peningum ef "þarf" að endurnýja skrifstofur eða bíla, nú eða senda sendinefndir út og suður um allan heim helst. Annað mál ef þarf að borga laun fólks sem léttir fötluðum og sjúkum tilveruna, nú eða byggja yfir þjónustu sem þetta sama fólk á rétt á ..... þá er ekki til króna.
Eitt kom líka upp í spjalli okkar Önnu minnar í morgun. Hún fullyrti að það væri allt upp í hálfsárs bið eftir viðtali við borgarstjóra. Hvernig í ósköpunum er þetta hægt, mér er spurn?????????
Best að hætta núna, ef einhver er ekki viss um hvernig mér er innanbrjósts núna, þá skal það upplýst hér með .... ÉG ER ÖSKUREIÐ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2007 | 10:26
Ný vika.........
Og ekki verið í forgang að pikka eitthvað hér inn. Seinnipartur síðustu viku hefði að skaðlausu mátt vera mér auðveldari viðfangs. Löngu var ákveðið að halda árshátíð bókhaldstofunnar þennan laugardag, sem reyndar væri líka hægt að kalla fjölskylduskemmtun. Og ekki hægt að breyta því þó svo sannarlega hefði ég kosið að það væri hægt. En kvöldið varð ágætt, vestur á Staðarflöt, góður matur og umhyggja þeirra Villu og Eiríks brást ekki .... svosem löngun ónefndrar í súkkulaði með kaffinu eftir matinn ( ekki ég ) eftir smástund var Eiríkur mættur með hálffullan höldupoka af súkkulaði og konfekti. Því miður held ég að það hafi horfið ofan í okkur allt saman, tja nema kannski umbúðirnar. Þær eiga það til dætur mínar að setja einhvern einn í gapastokkinn við svona tækifæri og stríða ótæpilega, allavega er ég sannfærð um að héðan af veit Árni glögglega að strútur og storkur er alls ekki sami fuglinn, ef hann gleymir því verður einhver til að minna hann á þetta kvöld. Hann slapp nú reyndar úr gapastokknum eftir matinn, þá stakk Gummi þar kollinum af sjálfsdáðum og sá um að skemmta sér og öðrum það sem eftir lifði kvölds. Miðað við timburmenn þá sem hrjáðu hann í gærmorgun, ætti smíðinni á pallinum hjá þeim að vera lokið, það er að segja ef timburmenn af þessu tagi gætu haldið á hamri og sög.
Svo var haldið heim á leið eftir morgumáltíð í gærmorgun, þeirra sem lyst höfðu á slíku og/eða vöknuðu í tæka tíð. Ég var komin heim um hádegisbil og hafði fataskipti í snarhasti og svo var lagt af stað með Svanhildi og Smárann í fjárréttir uppi í Skrapatungu. Þar er Sassan hennar ömmu í essinu sínu, löngu búin að læra mörk Sölvabakkabænda og dró af kappi. Harðneitaði að koma heim með mér þegar ég var búin að fá nóg, Guðjón og Eva tóku að sér að koma henni heim í Mýra. Og útgangurinn á henni, hjálpi mér sá sem vanur er ... hún háttaði beint ofan í þvottavél frænku sinnar, send í sturtu og fór heim í fötum af Árnýju og skóm af mér. En alsæl með daginn og alveg sama um skítinn, fegin að vísu að þrifin skyldu ekki vera lögð á spánnýja þvottavél mömmu hennar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.9.2007 | 09:30
Ég hata flugur.........
Það er alveg hreinasatt, ég þoli ekki þessi risavöxnu kolsvörtu háværu kvikindi sem fara hér í loftköstum um íbúðina. Í morgun þegar undirrituð vaknaði, ein í fletinu, var eitt eintak úr þessum árásarher í brjáluðu stuði á rúðunni, ég reif upp gardínur og opnaði vel og... út með þig. Skellti svo aftur og tók þá fyrst eftir að ég var nánast á evuklæðunum. Haukur nágranni hefur vonandi annað hvort verið í fastasvefni eða kominn í vinnuna. Nú ég hypjaði mig í föt, nema vinstrifótarsokkinn og fram í eldhús, þar sat Gísli með morgunblaðið og eitthvað morgunfóður sem ég tók ekki eftir hvað var .....viti menn, eitt hávært og urrandi flykki á eldhúsglugganum. Örstuttu seinna tautaði Gísli, kominn með dauða fluguna í lófann, hún angrar þig ekki meira þessi, stóð upp og losaði sig við líkið, kystti mig góðan dag og klæddi mig í sokkinn. Nú, ég náði mér í morgunfóður og las blaðið gaf mér tíma til að kveðja kallinn þegar hann fór í vinnuna, lauk við að lesa blöðin og svo hingað fram í tölvuna. Varla sest á rassinn .... nú var það sýnu verstur hávaðinn. Þetta hlýtur að vera amman, hugsaði ég meðan ég elti ófétið með handklæði að vopni, þangað til ég náði henni. Nú er ég alveg harðákveðin í að ef ég þarf að pissa, ætla ég niður á klósett, þar er ekki gluggi og vonandi ekki fluga.... og inn í stofu fer ég ekki heldur strax, þar eru örugglega einhverjir ættingjar þessara sem búið er að ná.
Morgun kveðjur ... flugnahatarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.9.2007 | 19:44
Fyrrverandi.........
Tengdamamma, Fjóla mín, ég er nefnilega svo lánsöm að flest þau sem hafa lagt í sambúð með einhverju barnanna minna, en slitið sambúðinni, skildu ekki við okkur Gísla. Ég fæ meir að segja að vera amma barnanna sem bætast við á seinni stigum, þó svo að skyldleikinn sé enginn nema tengslin í gegn um hálfsystkinið. Ég er lánsöm, svo sannarlega og forrík...... margra barna amma.
Í dag er ömmustelpan mín hún Anna Guðbjörg fjögurra ára, ég fór áðan uppeftir til hennar með pakka, hún var hin fjörugasta, í sykurflippi uppum allt og alla, það þurfti ekki til að Gummi kæmi í dyrnar og trekkti hana aðeins upp.
Ég eyddi miðjunni úr deginum steinsofandi , er að kvíða því hvernig ég sofna í kvöld. Ef ég ekki get sofið fer ég fram og set í myndband með Luciano Pavarotti og hlusta. Hann lést úr krabbameini síðast liðna nótt. Einhver fallegasta tenórrödd síðustu áratuga er þögnuð....... hérna megin grafar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2007 | 08:48
Bersvæði og samviskubit.........
Það að upplifa sig á beru svæði, þýðir nákvæmlega að það er ekkert sem hlífir manni. Þessi tilfinning hefur verið að narta í hæla mér undanfarið en ekki bitið fast fyrr en tvo síðustu daga. Ástæðan .... umræðan um aðstæður öryrkja og sjúklinga í þjóðfélaginu. Síðast í morgun fékk ég með morgunkaffinu að nú er farið að rukka mann um allan kostnað, sé maður svo óheppinn að þurfa inn á sjúkrahús í sólarhring eða svo. Mínar síðustu viðkomur á slíkum stað hafa verið af þessari lengd og það er ekki eins og ég hafi haft val, hvort ég gisti þessa ágætu staði í síðustu tvö skipti. Nú get ég búist við að vera rukkuð um þennan gistikostnað og þá koma næstu áhyggjur. Ég er öryrki, en þar sem ég er í hjónabandi og eiginmaðurinn hefur tekjur ofan við mörk þau sem ríkið ákveður að sé við hæfi að taka örorkubætur nánast af manni, þá fæ ég lágmarks greiðslu frá Tryggingastofnun. Ég ætti samt ekki að kvarta, þökk sé eiginmanninum, og þó, mér finnst það lágmarksmannréttindi að vera ekki refsað fyrir að vera í hjónabandi, ég er einstaklingur og vil vera virt sem slík.
Þá er það samviskubitið. Ég fékk upphringingu frá yngstu dótturinni í gær, seinnipartinn og auðmjúka bón ... mamma viltu koma í sveitina og elda kvöldmatinn hér. Sökum kvefs af verstu sort hefur hún mátt halda sig innan dyra og undir sæng síðustu daga. Jú ég var til í þetta, dreif mig í sveitina og eldaði, Gísli var í verkum uppi í hænsnahúsi svo hann fékk þá kvöldmat á réttum tíma. Góður matur hefur lengi verið minn akkilesarhæll og nú tókst mér ekki að halda í græðgina og fékk mér væna ábót á diskinn. Að henni etinni var auðvitað ekki annað að gera en taka hvíld við sjónvarpið og horfa á rest af fréttum, kastljós og ER (bráðavaktina). Enn kíkti græðgin, Árný, áttu ís? Jú hann var til svo ég fór inn í búr, náði í Daimtopp, settist aftur og maulaði ísinn. En þá vaknaði samviskubitið, glaðvaknaði þegar ég var að enda við kexbotninn af ísnum og uppgötvaði mér til hrellingar að mann á ekki að vera að mylja í sig svoddan fóður við sjónvarpið, hálfliggjandi útaf og í flegnum bol, a la Kristín Magg. Nú hefði ég betur verið í rúllukragabolnum sem þú vandir mig af, Kristín mín kær.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bloggvinir
-
Anna Gísladóttir
-
Rannveig Lena Gísladóttir
-
Árný Sesselja
-
Svanhildur Guðmundsdóttir
-
Solla
-
Gerða Kristjáns
-
Guðrún Ösp
-
Fjóla Æ.
-
Mummi Guð
-
Evaa<3
-
Fanný
-
Linda Lea Bogadóttir
-
Brynja skordal
-
saumakarfan
-
Mamma
-
Kolbrún Jónsdóttir
-
Gylfi Guðmundsson
-
Gísli Blöndal
-
Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir
-
Anna Margret Valgeirsdóttir
-
Signý Björg Valgarðsdóttir
-
Ásthildur Cesil Þórðardóttir
-
aloevera
-
Kristín Bjarnadóttir
-
Kristján Atli Sævarsson
-
Ragnheiður
-
Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
-
TARA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.5.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2013
- September 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007