. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Eurovision.....

Undankeppni númer tvö er að hellast í eyrun á mér, það tekur því varla að horfa á þetta ... Noregur er búinn og það var skásta lagið sem ég var búin að heyra af þeim sem eru að strita við að komast inn  í úrslit í kvöld.  Svo er það aðalkeppnin á laugardag ... í félagsskap þeirra Önnu Guðbjargar og Smára Þórs, mamma þeirra er á rauðakrossþingi um helgina og Fannar á sjó og ungarnir ætla að vera hjá ömmu og afa.

Hér er þrifum á garði potað áfram á hverjum degi, Gísli, Svanhildur og Kristján  Atli náðu að gera heilan helling í dag, en smámunasöm amman sá að sumt mátti bæta og í því lendir Kristján Atli með ömmu á hælum sér á morgun.  Hann sagði mér óspurður áðan að það væri mikið auðveldara að gera garðverkin í Farm town inni á facebook.... skrítið.


Hér standa yfir deilur.....

Um þýðingu orðanna að slappa af.  Kristján Atli er gallharður á því að hann hafi átt að slappa af þessa daga sem hann dvelur hjá ömmu og afa.  Ég hinsvegar segi að hann hafi átt að hvíla sig á áreitinu og fleiru sunnan heiða .... með því að koma norður og hjálpa til í því sem gera þarf á venjulegu heimili. Út með ruslið, taka til í bískúrnum undir styrkri stjórn ömmu og Svanhildar og nú er hann fúll ærlega úti í garði að þrífa beðin... sem og Svanhildur og Gísli.  Þetta er nú meiri afslöppunin, tautaði hann áðan, áttaði sig enganveginn á að amma var úti á svölum og heyrði athugasemdina.  Bót í máli að hann veit að það eru kjötbollur að hætti ömmu í kvöldmat, þetta er hans uppáhaldsmatur.

Ég fór nefnilega í gær á móti Óla tengdasyni, hann var að keyra konu sinni og sonum áleiðis í sveitina, það er að segja Kristján varð eftir hér, Anna og Sigtryggur bóndi fóru í Steiná. Það var snáðinn fljótur að koma auga á Hnýflu með tvö lömb komna út í girðingu og var snöggur að koma sér í húsin til að skoða.  Ég keyrði þeim frameftir og þegar ég stóð upp og tilkynnti brottför, sagði Sigtryggur snöggt.... ég ætla ekki með og var snöggur út.


Það er ekki oft sem......

Ég verð orðlaus, en það gerðist í gærkvöldi.  Ég setti mér fyrir löngu að blogga ekki nema almennt um hrellingar okkar Íslendinga í fjármálum, það eru nógu margir sem það gera en nú ætla ég að brjóta þá reglu mína.  Ástæðan .... kastljóssviðtalið við Svanberg Hjelm.  Ég veit ekki hvort fréttamaðurinn á börn en það á Svanberg og yngstu börnunum sínum bauð hann upp á að sitja undir útskýringum sínum á ástandinu á heimilinu.  Ég leyfi mér að draga í efa að þessi börn hafi haft þroska til að hlusta á angist föður síns út af ástandinu og hafi faðirinn ekki haft sinnu á að hlífa börnunum, hefði fréttamaðurinn átt að hafa rænu á því.

Nú ætla ég að setja punkt .... en það sýður á mér enn......


Komin aftur.....

Í Bakkastaðina til unganna minna eftir ógleymanlega helgi í Eyjum með Gerðu minni.  Fermingarathöfnin verður ógleymanleg, hófst á skírn, eitt fermingarbarnið hélt tveggja mánaða bróður sínum undir skírn.... og svo þurfti að skíra eitt fermingarbarnið svo það gæti nú staðfest skírnarheitið.  Aðstæðna vegna í Eyjum þessa helgina var ekki hægt að hefja undirbúning í sal fyrir veisluna... sem hefjast skyldi klukkan fjögur .... fyrr en eftir hádegi en þetta tókst undir styrkri stjórn Lindu eldri, fermingarbarnið hjálpaði til ... komin í náttbuxurnar sínar og bol.  Hún var svo komin í kjólinn sinn flotta í tæka tíð áður en gestir komu og bauð alla velkomna um leið og hún þakkaði öllum fyrir að koma og gleðjast með sér og fjölskyldu sinni... og sagði gjörið svo vel og benti á hlaðið matarborðið.  Þarna var að sjálfsögðu etið þangað til að mann stóð á blístri ... og vel það.

Við Gerða gistum þarna í húsi sem langt er komið með að gera upp, vorum einar þar fyrstu nóttina og þó ekki ... umgangurinn var slíkur að ég var komin á fremsta hlunn með að fara upp á miðhæðina og tékka á þessum íbúa... ef ég sæi hann.  En stiginn upp var leiðinlegur svo ég sneri mér á hina og sofnaði fljótlega aftur.  Það fyndna við þetta var að margir spurðu okkur að þessu hvort væri ekki umgangur þarna sem lítt sæist.  En þetta raskaði ekki ró okkar Gerðu, við áttum þarna góðar stundir bæði sofandi og vakandi.  Svo bættust fleiri þarna í gistingu, ætli við höfum ekki verið orðin ellefu í restina.

Þeir voru margir gestirnir í fermingunni sem heilsuðu mér sem mömmu hennar Gerðu, okkur var eiginlega skemmt við að leiðrétta þetta ... eitt skiptið svaraði ég... jújú ég á hana en hún er nú samt bróðurdóttir mín.....

Takk elsku Gerða fyrir dagana, það var yndislegt að fá að vera með þér.


Vestmannaeyjar ..... á morgun.

Ég er á leiðinni til Eyja í ferminguna hennar Lindu Kristínar, millilendi á Bakkastöðunum þangað til í fyrramálið að Gerða sækir mig og við leggjum í'ann til Eyja.  Ætlaði að vera voða dugleg og blogga í gær, en dagurinn fór í allt annað... ferð á Sauðárkrók með Anton Einar eftir hádegið og svo fórum við Gísli norður í Miðgarð á tónleika í gærkvöldi.  Karlakórinn Heimir var að flytja í síðasta sinn dagskrána sem sett var saman um Stefán Íslandi.  Alveg stórgott hjá þeim.  Gestasöngvarar voru Þorgeir J. Andrésson og Óskar Pétursson.  Óskari gekk illa, venju samkvæmt, að sitja á stráksskap sínum, þeir enduðu á því að syngja báðir O sole mio, reynandi að hækka sig yfir hinn ... og í miðju lagi eftir væna þrumu úr munni Þorgeirs rétt við eyra Óskars ...... beygði hann sig og hellti úr eyranu með tilþrifum. Hélt svo áfram að syngja.

Það er búið að gjörbreyta Miðgarði, byggja við nýja forstofu, setja lyftu utan á húsið og endurbæta allt að innan.  Nýir gluggar sem ekkert mál er lengur að myrkva, nýir stólar, nýtt á gólfum ... þetta er snilld.  Legg til að Húnvetningar taki nú granna sína til fyrirmyndar og endurbyggi félagsheimilið á Blönduósi, ekki veitir af.


Mín margfræga þolinmæði.......

Er á þrotum, það er búið að taka mig rúmar tvær mínútur að komast inn á bloggið mitt í tölvunni, líklega hefur Kristján Atli haft rétt fyrir sér um páskana að þessi tölva hennar ömmu mætti muna fífil sinn fegri.  Er búin að slást við af og til í morgun að reyna að lesa netkelluspjallið, nokkur blogg .... og komast inn á facebook... ég gat gleymt því nema að endurræsa hróið, fara beint inn á fésið ... og bíða svo í svona tæpa mínútu eftir því að kæmi ákvörðun um hvort mér yrði yfirhöfuð hleypt þarna inn.  Enda er þolinmæðispottinn minn orðinn mjög stuttur.

Hér er bara gluggaveður, það hætti þó að koma hvítt úr lofti þegar leið á morgun, vafamál hvort ég hætti mér nokkuð út í dag.

Halla Katrín er þriggja ára í dag, til hamingju með afmælið þitt, litla nafna.


Vetur er á förum....

Og síðasti vetrardagur er bæði blautur og grár. Og ekki er það til að létta manni skapið að fylgjast með  stjórnmálaumræðunni í sjónvarpinu, þvílíkur hrokagikkur sem Guðlaugur Þór er.  Og þessu á maður að treysta til að endurreisa Ísland úr öskunni..... ja hérna.

Er annars frekar andlaus og þreytt.... og bæði kvíði sumri.... og hlakka til.

Gleðilegt sumar.


Ég get svo svarið það......

Held að talvan mín hafi tekið athugasemdir páskagesta minna nærri sér, hún hefur fátt gert með góðu undanfarna daga.  Ekki tekið inn póst, hleypt mér inn á moggavefinn eða fésið nema mjööög takmarkað, yfirhöfuð verið mjög andsnúin.  Meir að segja verið með ótugtarhátt við Gísla minn blásaklausan.  En eftir hádegið í dag birtist Gísli yngri og hreinsaði út óværu sem var að pirra tölvugreyið.  Reyndi meir að segja að kenna ömmu hvernig hún gæti gert þetta sjálf.

Hinsvegar er eftir að koma í ljós hvort kennslan tókst......

Framanskrifað er gert nánast um leið og Göslinn minn var búinn að koma vitinu fyrir tölvugarminn.  Í ljósi þess að morguninn hafði verið erfiður hjá mér, Guðjón litli var hér hjá mér milli ellefu og tólf en aldrei þessu vant var hann óvær og endaði með því að gráta sig í óværan svefn í fanginu á mér .... amman er þessu ekki vön og lá við að ég væri farin að skæla með honum.  Ég ákvað því að splæsa á mig smá lúr um miðjan daginn.  Sá varð stuttur, Majan mín hringdi og bauð mér og kalli mínum í kvöldmat, ég man að hafa talað eitthvað meira við hana .... hvað það var kemur í ljós við kvöldmatarborðið, en síðan ætlaði ég að teygja aaaaðeins úr mér áður en ég risi upp .... og sofnaði þar með aftur.  Næst hrökk ég upp með andfælum við brothljóð og læti, áttaði mig á að það væri niðri hjá Árnýju, þegar úrill mamma kom í dyrnar þar stóð yfir flutningur á húsgögnum og þrif... hávaðann orsakaði Göslinn þegar hann braut gamalt skrifborðið frænku sinnar í frumeindir í stað þess að skrúfa það í sundur áður en því væri fleygt út á hlað.

Allar tilraunir til rólegheita hér uppi eru því geymdar til morguns, komin hér upp áðan eftir viðkomu á neðri hæð ætlaði ég að fá mér kaffisopa og flatbrauð og kveikti á síðdegisútvarpinu, þar var Ástþór Magnússon að tjá sig og hafði hátt.......

Guð hjálpi okkur Íslendingum ef þetta er það sem koma skal á alþingi, slæmt var það fyrir.......


Páskar næstum búnir......

Og ungarnir mínir sem komu heim til mömmu og pabba um páska eru komnir aftur heilir til síns heima, var ég að frétta áðan.  Hér er búið að vera mikið fjör um páskana hjá okkur, og margt gullkornið flogið.  Kristján Atli vildi endilega að ég færi að spara fyrir nýrri tölvu, honum finnst þessi óþarflega hægfara, en það komu á hann miklar vöflur þegar ég sagði að mér finndist hún bara fín, en hann mætti spara og gefa mér nýja ef honum líkaði ekki við þessa þegar hann gistir hjá afa og ömmu.  Það varð líka stundum árekstrasamt í biðröðinni hjá þeim bræðrum að komast að í tölvuskriflinu, hún var þegar allt kom til alls, skárri en engin talva.  Veður var kalt og hvasst alla dagana þannig að það var lítið hægt að vera úti.

Núna er það pása til kvölds og svo á tónleika upp í kirkju...


Ég var að skila mér heim.....

Nú fær stórasys flog, hún segir að ég tolli aldrei heima, en nú yfirgaf ég gesti og heimili mitt og fygldi eiginmanni mínum eins og þögulli og hlýðinni eiginkonu ber að gera .... þessu trúir enginn sem þekkir mig... er ég viss um.  Hann var minntur á níræðisafmæli og ákvað að fara ..... og ég með honum.  Gestirnir urðu bara að ganga sjálfala á meðan. 

Ég afreka því ekki mikið í kvöld, svona í ljósi skyssunnar sem ég gerði áðan.  Var búin að hita mér kakóbolla á meðan ég gekk frá varningi úr búð og undirbjó páskadagsmáltíð morgundagsins.  Næsti áfangi var talvan .... öööö ... ganga frá þessu og hinu af borðinu, komin fram að tölvunni var ég með sápulögsbrúsann frá vaskinum í hægri hendinni... ekki kakaóbollann minn.  Sem betur fer hafði ég þó ekki skellt honum inn í vaskaskápinn þar sem fja...... sápan á að vera.

Ég er farin að drekka kakóið mitt og horfa á Hljóma myndina.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband