Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
31.12.2007 | 16:39
Síðasti dagur ársins.........varúð, þetta er langt.
Og ég er að gera það upp við mig hvað skal skrifa í tilefni dagsins. Ef ég skrifa um allt sem mig langar til .... verð ég að læsa færslunni og vita hverjir lesa. Vinir mínir flestir og fjölskyldan vita hvers vegna. Ergo..... ég ætla að vera kurteis og hella ekki úr pokanum sem ég hnýtti fyrir ..... fyrir svo sem eins og ári síðan.
En men hvað mig langar til að opna pokann upp á gátt og láta botninn snúa upp........
Árið varð mér um margt erfitt, mér gengur illa að hemja í mér átfíkilinn, guði sé lof fyrir að ég get þó talað um það í stað þess að hörfa inn fyrir þröskuldinn, skella á eftir mér og BORÐA. Ég veit að það er ekki til neins að kenna því um hve margt gekk á í fjölskyldunni, en verð þó að viðurkenna að það hjálpar manni ekki mikið að líða illa marga daga, horfa upp á annarra vanlíðan og geta ekkert gert nema tekið utan um viðkomandi. Svona vanlíðan í kringum matarfíkil endar því miður oft í ísskápnum...... og sonur minn sæll, já og Svanhildur, það er þess vegna sem ísskápurinn hennar mömmu/ömmu lítur oftast að ykkar mati út eins og eyðimörk. Það er nefnilega eitt ráðið að hafa téðan skáp ekki troðinn af einhverju fitandi, sem flytur utan á mömmu/ömmu og heldur að eigi að hlaðast upp utan á henni. Punktur.
Þetta ár byrjaði með dvöl í Hveragerði hjá mér sem og næsta gerir líka. Dvölin á þessu ári litaðist mjög af veikindum tengdapabba sem fór í geislameðferð til að reyna að tefja krabbamein í lungum. Hann eyddi 95 ára afmælisdeginum sínum hérna hjá Gísla og ég veit að þrátt fyrir allt áttu þeir góðan dag 10 janúar. Daginn eftir fór hann suður með Lenu og næstu dagar og vikur lituðust af hrakandi heilsu hans meðan geislarnir voru reyndir, og ég veit að feginn var hann þegar hann komst aftur heim, en þá var svo komið að það varð að vera alveg hjá honum. Það hélt hún stóra systa mín, Sigrún, utan um af stakri prýði, með aðstoð Mumma, og svo okkar hinna sem erum hér á svæðinu. En það urðu ekki margir dagar sem hann eyddi á sjúkrahúsi í lokin og það var okkur stór gjöf að geta verið hjá honum hverja stund og verið mörg hjá honum daginn sem hann kvaddi okkur. Hann sagði oft að hann væri ríkur, og víst var hann það, með sinn stóra afkomendahóp, sem hann var stoltur af. Og hópurinn stækkaði þessa dimmu daga, 29 janúar eignuðust þau Oddný og Jökull soninn Birni Snæ.
Að kvöldi 31 mars kvaddi tengdapabbi þessa veröld og 10 apríl fór fram útför hans frá Blönduósskirkju að viðstöddu fjölmenni.
Snemmsumars, þann 30 júní giftu þau sig, Annan mín og Óli í Árbæjarkirkju, yndislegur dagur sem við öll nutum vel.
Efrimýrar voru á sölu allt árið og síðsumars var þetta ferli farið að toga svo illilega í taugar okkar Gísla að við gripum fegins hendi boð þeirra Oddnýjar og Jökuls að verða þeim samferða til Torreveja á Spáni í 10 daga, þangað voru þau að fara með Magneu og Smára, já og svo auðvtað Birni litla Snæ. Þetta urðu indælir dagar með þeim og kærkomin hvíld. Litli kallinn var oft í skjóli afa og ömmu meðan foreldrarnir voru að skrattast við eitthvað með stærri ungunum, sem hvorki var við hæfi gamalmenna né ungbarna. Heim komum við sólbrunnin og svolítið brún og mun betur í stakk búin í slag við komandi daga.
Ekkert gerðist samt í sölumálum fyrr en morguninn sem við fórum til Tenerife í nóvember byrjun, við fórun með tilboð í jörðina í farteskinu. Tókum því eftir töluverða naflaskoðun en ótal þröskuldar og tafir urðu til þess að þessu verður ekki landað endanlega fyrr en núna í janúar. Ferðin var mjög góð, í félagsskap þeirra Sigrúnar og Mumma, plús Ingibjargar og Ævars, ekki spillti að hafa þau með.
Stóðréttir í haust er nokkuð sem ég gleymi seint, Kristján bróðir birtist þar óvænt í göngum, ég nuddaði augun og opnaði aftur, en.... hann var þarna samt, ég var ekki að sjá ofsjónir. Mikið óskaplega var gaman að sjá hann svona óvænt, þótt hann stoppaði stutt.
Desember er búinn að vera svolítið dimmur , Birnir litli fékk RS vírusinn og er ekki búinn að jafna sig alveg ennþá, Árný hefur verið mjög slæm í baki síðan um miðjan mánuð og Gummi hennar Völu lenti inn á sjúkrahúsi í gær, með nýrnasteina. Er að vísu heima í leyfi núna, en hafður undir eftirliti, bæði læknis og konu sinnar.
Svanhildur mín var fermd í vor og Gísli yngri er kominn í fjölbrautarskóla á Selfossi, Árný mín er orðin ein í sveitinni með kisu sína, það er sem sé margt breytt í kringum mig.
En ég segi eins og tengdapabbi... ég er rík að eiga svona stóran hóp barna og barnabarna sem öll umvefja okkur foreldrana hvenær sem á þarf að halda. Ég á líka vini sem ég get alltaf leitað til og það er líka mikils virði.
Í lok árs ..... gleðilegt komandi ár, allir þeir sem lesa það sem mér dettur í hug að setja hér inn og hafið þökk fyrir þolinmæðina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.12.2007 | 09:48
Þá er komið að því.....
Að undirbúa sig fyrir útlegðina í Hveragerði, í endurhæfingu á sál og líkama. Er ekki alveg viss um í augnablikinu hvort er í meiri þörf fyrir endurhæfingu, sálartetrið eða búkurinn. En allt um það, ég byrjaði í gær að tína til nauðsynjahluti og fjölskylda og vinir vita alveg á hverju er byrjað ..... handavinnu. Án hennar fýkur geðheilsan fja...... til. Er nú samt ekki jafn stórtæk og ég hef oft verið við þá tiltekt. En það er fátt eins gott þarna og róin og hvíldin sem fæst með því að sitja með fallegt handavinnu verkefni, hlusta á góða tónlist og vita að það er ekkert sem er verið að vanrækja, ég þarf ekki að elda, þrífa né þvo, bara hvíld, þegar að þjálfun og meðferð hvers dags er lokið.
Er búin að leggja línurnar fyrir Maju og Gísla með niðurtekt á jólaskrauti og frágangi á því, hún hafði orð á því fyrir jólin að ég yrði að tolla hérna í einhver ár svo hún þyrfti ekki að læra upp á nýtt hvar ætti að geyma jólaskrautið. Í fyrra var ég niðri í litlu íbúðinni sem stendur núna tóm og bíður eftir Árnýju. Og það er mikið tilhlökkunarefni hjá okkur báðum að hún flytji. Nú fer að sjást í það, við skrifuðum undir kauptilboð í Efrimýra í gær og í janúar er stefnt á að enda þetta langa ferli, næstum meðgöngutími. Sá sem kom hér í gær með pappírana, sagði... nú skal þetta ganga. Ótal óviðráðanleg atvik urðu til þess að þetta dregst fram á árið 2008.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.12.2007 | 13:28
Skál og syngja Skagfirðingar.........
Álftagerðisbræður tvítugir ..... skála og syngja, er tónlistin sem hljómar hér um allt hús í augnablikinu, Gísli ( minn )keypti möppuna sem þeir gáfu út núna fyrir jólin. Það eru sko fleiri en frú Ingibjörg í Álftagerði sem eiga ektamaka með þessu annars ágæta nafni. Mér finnst gaman að því sem ég er búin að heyra, sakna þess nú samt svolítið að heyra þá svona heflaða og kurteisa syngjandi drykkjuvísur og fleira gott sem gjarnan er sungið í" græna herberginu " í Bifröst og karlaklósettinu í Miðgarði. Ekki fara nú samt að halda að ég komi oft á það klósett, menn eru bara svo tillitsamir að loka ekki á eftir sér, sé verið að syngja þar/og pissa. Bunuhljóðið heyrist hvorteðer ekki fyrir söng. Fyrir svo utan það að ég kem sjaldan orðið í Miðgarð, það er af sem áður var. Ef mig ekki misminnir þá eru á þrettándanum næsta nákvæmlega 36 ár síðan ég stakk kínverja undir stól við hlið mér, stödd þar á balli, afleiðingin..... bæði mann og stóll hafnaði upp á borði .... Og engum datt í hug að þessi kurteisa unga kona sem sat við hliðina á þessum annars ágæta manni ætti sökina á þessum hvelli enda var ég bara að kenna honum hvar ég vildi að hans hrammar hvíldu ... ergo ekki á minni lóð.
Úti er snjókoma eins og mann óskar sér um jólin, stór og yndisleg snjókorn sem falla beint niður á jörðina, öll tré eru skreytt þessari fallegu fönn, þurfa í raun ekki fleira skraut.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.12.2007 | 13:23
Maður/kona ársins..........
Konur eru jú líka menn, þótt svo biskupi okkar hafi þótt hæfa í predikun sinni að benda"hógværlega" á að nú sé orðin þörf á að taka meira tillit til karlpenings landsins en gert er nú til dags. Ég heyrði ekki þessa predikun sjálf en ef einhver getur bent mér á hvar ég gæti lesið predikun biskups frá því á aðfangadagskvöld, yrði ég afar þakklát. Sé þetta rétt eftir honum haft ..... ja þá skortir mig orð.
Þeir sem þekkja mig vita að það er ekki algengt.
Mér koma svo sem margir í hug, efst standa þau þó Guðni Ágústson og Þórdís Tinna Aðalsteinsdóttir. Guðni fyrir þrautseigju sína og "lifa af" ótaldar tilraunir manna til að stytta hans pólitísku tilveru eða helst ljúka ...... og Þórdísar Tinnu fyrir þrautseigju sína og lífsgleði í harðri baráttu við illvígt lungnakrabbamein. Viðhorf hennar til lífsins er um margt eftirtektarvert og aðdáunarvert, alltaf er þó í efsta sæti hjá henni prinsessuprikið, en svo nefnir hún títt níu ára gamla dóttur sína. Ég tæki ofan hár mitt fyrir þessari hetju hversdagslífsins, væri henni eitthvert gagn að því, annað hef ég ekki að taka því hatt nota ég sjaldan.
Enn og aftur konur eru líka menn og fyrir mér er Þórdís Tinna
MAÐUR ÁRSINS.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.12.2007 | 15:58
Annar dagur jóla.....
Er að verða meir en hálfnaður og orðið hljótt í húsinu, Jökull og Oddný eru lögð af stað suður með snáðana sína þrjá. Smári og Alexander verða hjá þeim þangað til á næsta ári....................
Það er búið að vera bæði skrýtið og skemmtilegt að vera með smábarn hjá sér á jólum. Birnir litli hefur verið kátur og glaður yfir öllu þessu nýja sem fyrir augun ber, ljósum og pappír .... að maður tali nú ekki um það sem kom innan úr pappírnum á aðfangadagskvöld. Hann var vakinn af blundi um það bil sem messu lauk í útvarpinu, fékk að borða og kom svo með í pakkaupptektina. Afi sá um að mynda þessi fyrstu jól snáðans og leiddist það ekki neitt.
Við ætlum að borða kvöldmat hjá Lenu og Árna í kvöld ...... er farin að hugsa með hryllingi til að vikta mig í jólalok....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.12.2007 | 11:12
Aðfangadagur jóla......
Úti er kyrrt veður, Jökull skaust í búðina, Oddný er í sturtu, afinn í verkum og Birnir sefur. Grautarpotturinn bíður tilbúinn á eldavélinni og ef allir skila sér á eftir ... tuttugu manns . Bara frábært.
Guð gefi ykkur öllum sem slysast hér inn og lesa, gleðilega jólahátíð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.12.2007 | 10:03
Messa hins helga Þorláks...........
Er runnin upp, kyrrt og fallegt veður úti, og ég byrjuð á morgunverkum þessa dags, þ.e að skipta á rúminu mínu. Það er skýr minning frá í æsku að skipta um rúmföt, jólabaðið í gamla stóra blikkbalanum hennar mömmu ( á meðan ég komst ofan í hann) og ný náttföt, og hvað það var gott að hjúfra sig undir sænginni um kvöldið, hrein og fín......... og jólin væru á morgun. Hlusta á jólakveðjurnar á gömlu gufunni meðan svefninn læddist að manni og finna lyktina af jólahangikjötinu sem verið var að sjóða fram í eldhúsi. Svei mér þá ef ég finn ekki vott af lykt....
Gísli er farinn upp í Efrimýra til að ljúka pökkun sem hann byrjaði á í gærkvöldi, svo kemur hann í skötuna í hádeginu á Árbakkann, þar hittist stór hópur með okkur. Valan mín og hennar fólk, Lena með sitt, Gerða og snáðarnir, Árný, Majan mín og fylgifiskur og svo við gömlu hjúin. Við erum rík, ég taldi í gær hve margir yrðu í grautnum í hádeginu á aðfangadag, 20 ef allir mæta sem eru á svæðinu og ekki að vinna. Bara Annan mín sem er svo langt í burtu með sitt fólk að hún verður að elda sinn graut sjálf heima hjá sér.......
Annars er íbúðin niðri tóm og nóg til af mat ef þið viljið drífa ykkur norður........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.12.2007 | 16:47
Jólasnjór.........
Hann svífur hér niður í stórum flygsum, alveg eins og hann á að vera...... og næstum því á réttum tíma. Við mæðgur vorum að fara í búð um miðjan daginn og enduðum heima hjá Völu og Gumma í kaffi, á meðan fór að snjóa. Bara flott.
Fannar birtist hér eftir hádegið, til að setja upp ljós fyrir mig inn við rúmið mitt. Tókst mín megin en Gísla ljós brann yfir um leið og kveikt var. Nú getur hann verið ljóslaus sín megin, ég er búin að bíða leeengi eftir mínu. Óli minn tengdasonur, hér er ekki vanþörf á rafvirkja..... veistu af einhverjum á lausu?
Nú er húsbóndinn farinn í blómasölu fyrir Lions, ég ætla að hygge mig á meðan.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2007 | 08:36
22 desember.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2007 | 20:54
Það sem skiptir máli .........
Er NÚNA, stundin sem er . Ég get ekki breytt því liðna, það er búið og gert, það sem er ókomið ræð ég ekki nema takmarkað um hvernig tekst til, en núna get ég reynt að gera eins vel og ég get. Vonað að allir þeir sem mér þykir vænt um, eigi gleðileg jól. þrátt fyrir að kannski vanti eitthvað sem viðkomandi vildi hafa tiltækt um jólin, þeir sem syrgja, muni fyrri jól með þeim sem er horfinn og reyni að horfa fram á veginn, þrátt fyrir allt þá koma jól.
Það er svo margt sem á hugann sækir, veikindi ungrar móður sem berst fyrir lífi sínu þessa dagana og vill komast heim til dóttlunnar sinnar litlu fyrir jólin, litli snáðinn hennar Hildar Sifjar sem heldur sín fyrstu jól án mömmu, börnin hennar Ástu Lovísu sem líka misstu mömmuna sína á þessu ári, "hrossið mitt" sem missti son sinn í ágúst, öll verða þau að halda jól við aðstæður sem enginn óskar sér að lenda í. Guð gefi þeim öllum eins góð jól og gleðileg og unnt er við þessar aðstæður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggvinir
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- Árný Sesselja
- Svanhildur Guðmundsdóttir
- Solla
- Gerða Kristjáns
- Guðrún Ösp
- Fjóla Æ.
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Fanný
- Linda Lea Bogadóttir
- Brynja skordal
- saumakarfan
- Mamma
- Kolbrún Jónsdóttir
- Gylfi Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir
- Anna Margret Valgeirsdóttir
- Signý Björg Valgarðsdóttir
- Ásthildur Cesil Þórðardóttir
- aloevera
- Kristín Bjarnadóttir
- Kristján Atli Sævarsson
- Ragnheiður
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- TARA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2013
- September 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007