. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Áramót.......

Eru í kvöld og ég er ekki viss um að við þau verði ég jafn bjartsýn og í fyrra á sama degi.  Ég var svo bjartsýn.. og barnaleg að halda að  stjórnvöld myndu axla með sæmd ábyrgð þá sem sem á þau voru lögð.  Það er langt síðan ég hef upplifað ár sem hefur verið jafn þéttpakkað af vonbrigðum með stjórnvöld.  Lokavonbrigðin urðu svo í gærkvöldi.... eru menn löngu búnir að gleyma þeim gamla íslenska sannleik að orð skulu standa.  Menn virðast ekki einu sinni vita hvað orðið samviska eða sæmd stendur fyrir.

Nóg um það, mitt blogg hefur aldrei verið ætlað til að ausa úr skálum skaps míns yfir stjórnmálum hér á landi. Þar hafa aðrir  staðið vaktina með "prýði".  Hér er gleði og gaman flestar stundir hjá okkur um jól og áramót, unga fólkið okkar sér til þess.  Strákarnir hafa skipst á um að sofa niðri hjá frænku sinni og Halla Katrín gisti síðustu nótt.  Þetta þykir mikið sport.  Fyrir hádegið í dag plataði ég þá út með mér að grafa upp ruslatunnurnar, þær voru orðnar fullar.  Sigurjón skemmti sér hið besta við að hoppa á innihaldinu, fyrst með pappa á milli en svo lét hann sig hafa það að sleppa pappanum, og hoppaði fast. Nú kemst töluvert rusl til viðbótar í tunnurnar.

Nú er það undirbúningur á síðasta græðgisáti ársins sem er að líða ... á næsta ári er það bara harkan sex við að halda í við sig og hætta að eyðileggja viktina með álagi........

Guð gefi ykkur öllum gleðilegt ár og takk fyrir gamalt, öll þið sem hafið lesið þessar hugleiðingar mínar sem rata hér inn......


Jólanótt......

Við undirleik roks og snjógangs heilsar jólanóttin okkur hér á Húnabraut 11.  Rafmagn fór af meðan stóð yfir upptekt á jólapökkum sem urðu til þess að það leið yfir jólatréð einu sinni enn .....og  að minnsta kosti tvisvar í morgun.  En það er vasaljós á vísum stað og svo voru það blessuð kertin.  Búin að heyra í þeim barnanna sem ekki voru á staðnum og rétt í þessu var Annan að tilkynna sig í vinnuna, við heyrum oft í henni á leiðinni þangað.  Veður sér til þess að héðan var ekki farið í miðnæturmessu í Hólaneskirkju og þaðan upp í Skeifu til mömmu og pabba .... mér er því hugsað mikið til mömmunnar minnar sem fékk að vera heima í kvöld og í nótt, guð gefi henni væra nótt í eigin rúmi.

Við erum líka búin að heyra í mömmu og pabba fyrir vestan, þar er vont veður og snjókoma, en þau hafa það gott og voru sátt við sitt ... guð gefi þeim líka góða nótt.


Aðfangadagur......

Ég mætti jólagestunum mínum í dyrunum í gærkvöldi, var að stökkva af stað upp á sjúkrahús til að bjóða mömmunni minni góða nótt. Hún var sofnuð en rumskaði til að segja góða nótt og ég las kvöldbænina í þetta sinn í hljóði. Síðan var það heim til að heilsa gestunum.  Birnir litli á stóra sviðinu, búinn að hvíla sig vel á leiðinni en mamma hans var veik, hafði verið slæm í maga allan daginn og sat því með æ.. dall í fanginu meiri part leiðar norður og hafði litla lyst í gærkvöld. Kvenfólk gekk því frekar snemma kvölds til hvílu og Birnir litli var lagður til svefns hjá ömmu og afa og svaf þar í nótt svo mamman fengi svefnfrið í  morgun.  Ekki veit ég hvenær feðgarnir fóru að sofa, ég var steinsofnuð.

Við Birnir vorum svo  farin að undirbúa hádegisgrautarpottinn þegar frænkan af neðri hæðinni kom í dyrnar og uppúr ellefu var stóri potturinn kominn á borðið... næstum fullur af nýelduðum jólagrjónagraut með tveim möndlum..... við vorum svo mörg, Fannar kom með sín börn, Vala með allt sitt og Lena og fyrir vorum við fimm. Ég elska svona daga þegar sem flestir eru við matarborðið.

En nú er hafinn undirbúningur að eldamennsku kvöldsins, aspassúpa að hætti Oddnýjar, hamborgarahryggur, nammisalat og annað meðlæti, já og svo nokkrar kótilettur til að finna anda fyrri jóla við matarborðið.  

Guð gefi ykkur, lesendum þessara hugleiðinga, gleðileg jól.


Messa Þorláks hins helga ..... einu sinni enn.

En einu sinni er þessi dagur runninn upp. Í bernsku minningunni er þetta lengsti dagur ársins að líða, þó auðveldari en föstudagurinn langi í páskavikunni, þann dag varð maður að vera þæg og stillt .... allan heila daginn.  Ekki það að óþægð væri leyfð á þorláksmessu, öðru nær.....

Hér á bæ ríkir ró og friður, ennþá.  Þau eru nefnilega á leið norður í kvöld Jökull og Oddný með Birni litla og ætla að vera fram á annan dag jóla.  Ekki það að þeim fylgi einhver ófriður en ég er sannfærð um að Birnir Snær verður  fjörugri þessi jólin en þegar hann var hér tæplega ársgamall sín fyrstu jól.  Svo er bara að hafa nóg að borða og ísskápinn fullan, þá er sonurinn alsæll. Fyrir Oddnýju þarf aldrei neitt að hafa. Og ekki má gleyma yngstu dóttlunni, hún kemur upp til mömmu um jólin.

Nú eru það morgunverk sem eftir eru ..... og ég má gera, síðan er það skatan með öllum ungunum mínum sem ég næ til, ekki halda samt að ég sé að koma á fætur núna ..... laangt síðan.

 


Búin að .......

Vera geysi dugleg... allavega að eigin mati.  Nánast búið að pakka inn öllum jólagjöfum og ganga frá jólapósti, Gísli gerði nú samt drjúgan hluta, ég hengdi upp mikið af útsaumaða jólamyndaflóðinu mínu, taldi upp úr kassanum með minnstu hlutunum .... þar voru 51 hlutur ... og eitthvað var komið upp, ætti kannske að telja restina.  Ekki einu sinni wc pappir rúllur heimilisins sleppa, utan um þrjár er hengi sem skreytt er jólasveinum .... uppi á vegg við hliðina á .... þið vitið.......

Fórum út í göngutúr með Smáranum, á Árbakkann þar sem Hrefna og Gunna voru með afrakstur sinnar jólaiðju til sölu, Gunna er blómaskreytir og Hrefna heggur niður bæði sína runna og annarra og tálgar flotta jólasveina úr greinunum og málar þá .  Flott hjá báðum.  Biðum heillengi eftir kakóbollum og kaffisopa, sem smökkuðust vel þá loksins þeir mættu á borðið.  Nú svo var það áfram hald á jólatiltekt, gestakoma sem gladdi og svo kvöldmatur með dóttlunni.  Og bjóða mömmunni minni sem er hér á sjúkrahúsinu góða nótt áðan.... ég get farið sátt að sofa.

Bara til útskýringar...... það er mamman mín frá Skagaströnd sem er hér á sjúkrahúsinu, hin var spræk vestur á Þingeyri þegar ég heyrði í henni í gær.......


Hugmyndaflugið hennar stórusys......

Það má vel vera að ég haldi áfram að rifja upp gamlar minningar Sigrún mín en ekki held ég að takmarki verði ævisaga.  En það styttist enn til jóla og það eru fyrri jól sem banka fast í minningagluggann hjá mér þessa dagana.

Síðast rifjaði ég upp fyrstu jólin sem Gísli hélt með mér og Völu.  Uppi á Núpi að sjálfsögðu og ég var ekki til viðræðu um að breyta þeirri tilhögun.  En jólin 1973 var komin einn einstaklingur í viðbót í fjölskylduna á Brekkubyggð 18. Annan mín birtist þann 10 nóvember um haustið og var því ekki há í loftinu sín fyrstu jól.  Samt ætlaði ég í Núp á aðfangadag þegar Gísli væri búinn að vinna, en þar tóku veðurguðirnir fram fyrir hendur mínar.  Kiddi komst fram eftir, hann gat lagt fyrr af stað en varð þó að labba að ég held frá Mánaskál og heim.  Þar með var það útilokað að komast þetta með kornabarn og veður versnaði undir hádegið.

Það var frekar úrill húsmóðirin  á Brekkubyggð 18 sem fór um miðjan dag að undirbúa  jólamatinn ..... í fyrsta sinn á eigin spýtur.  Valan gerði sér enga rellu útaf þessu, hvað þá Annan og Gísli reyndi hvað hann gat að sætta sína úrillu konu við staðreyndirnar.  En jólin komu þrátt fyrir allt og síðan hef ég aldrei hugsað sem svo að vera annarstaðar en á eigin heimili á jólum.


Leiftur liðinna daga......

Ellan mín kær.  Það var notalegt að sjá til þín hérna á undan..... vitandi hve sterkar rætur við eigum þarna báðar. Ég bjó um mig í gamla rúminu mínu í herberginu innaf hjá þeim mömmu og pabba, þar beið gamla rúmið mitt, trérúm með göflum sem Signý á Balaskarði hafði gefið fram í Núp þegar fjölgaði þar í heimili sumarið 1957. Í því var firnaþykk og stór undirsæng fyllt með fiðri og hve yndislegt það var að hreiðra um sig í holunni sem myndaðist við að leggjast útaf og vefja svo utan um sig sænginni svo hvergi kæmist að kuldi, það var ekki alltaf hlýtt þarna.  Vala mín var í burðarrúmi fyrstu vikurnar sínar, ég átti ekki rúm handa henni en einhvers staðar fundu afinn og amman lítið rimlarúm sem hún var komin í seint um haustið.  Það var svo bara flutt á milli herbergja þegar ég var heima  og sett fast upp við rúmið mitt, þá var svo gott að rétta hendina og hlúa að henni og oft hélt hún lítilli hendi um einn putta hjá mér.  Yndislegt.

Þetta fyrsta sumar hennar Völu kom Helga Sigurjóns norður með Þorvald sinn, þá líklega fimm ára gamlan.  Þau tóku miklu ástfósti við stelpuna og oft spurði snáðinn hvort mamma sín mætti ekki eiga hana.  Hann var búinn að bíða eitthvað eftir því að eignast systkini en það gekk ekki sem skyldi.  Því fannst honum sjálfsagt að mamma hans fengi þessa stelpu, þá myndi hún fá pabba.  En ég var nísk og vildi ekki gefa honum litla systur.  Helga var hinsvegar oft með hana og ég held að þakklætið hafi ekki flotið út úr hjá mömmu þegar Helga bauðst til að passa fyrir mig svo ég kæmist á réttarball í Víðihlíð um haustið. Þangað fór ég og sá þar í fyrsta skipti elskulegan eiginmann minn til margra ára.  Hann var þar að skemmta sér, öskufullur með skólasystur mína úr kvennaskóla í fanginu og hafði ekki minnsta áhuga á að sleppa henni, hvað þá að sitja með mig líka. 

Heim komin af þessu ágæta balli voru allir í fastasvefni... og ég þurfti að stikla yfir nokkra næturgesti til að komast í bólið mitt ... það voru göngur að morgni og til allrar hamingju hafði mamma engan sett í rúmið mitt.  Valan svaf vært við hlið Helgu.......

P.S.  Það hafði haft góð áhrif á Helgu að stússast svona mikið með Völuna, 15 júlí árið eftir eignaðist hún Bjarkann sinn.......


Hvít jól.........

Sá á forsíðu mbl áðan að veðurfræðingur spáir hvítum jólum norðan og vestanlands.  Mér þykir þetta hið besta mál, alltaf er hátíðlegra á jólum sé hvít jörð þó svo að manni þyki ekki verra að ekki sé svo mikill snjór að mann komist ekki ferða sinna um jólin.

Fyrstu jólin hennar Völu var ég ein á báti  og flutt aftur heim í foreldrahús með ungann minn.  Var byrjuð að vinna niður á sjúkrahúsi og Valan mín í öruggu skjóli afa og ömmu uppi á Núpi.  Ég var svo heppin að vera ekki á vakt á aðfangadagskvöld og gat því notið jóla á nýjan hátt, Vala orðin fimm mánaða og athygli hennar orðin auðsæ á margan hátt.  Hún þurfti ekki að beita röddinni lengi á afa sinn þegar hann kom inn úr útiverkum eða úr fjósi, til þess að hann kæmi og tæki hana upp ... og með sér fram í eldhús til að fá sér kaffisopa og skipti þá engu hvort búið var að klæða hana eða ekki.  En áfram með jólaminninguna mína.  Pabbi og mamma gáfu henni stól til að sitja í  sem jólagjöf, það er til mynd af henni í stólnum sínum (sem hún á enn ) baslandi við að nota sem snuð ranann á uppblásnum fíl. Mér eru þessi jól ógleymanleg, það er fátt sem jafnast á við undrunina og gleðina í augum barnsins síns við jólaljósin marglitu og skrautið sem prýddi gamla bæinn minn á jólum, allt þetta hafði ég alist upp við og deildi því þarna með eigin barni... í fyrsta sinn.

Næstu jól héldum við þarna líka en þá var Gísli kominn til sögunnar svo hann upplifði jól á annan hátt en hann var vanur þau jólin.  Vala var löngu orðin mjög hænd að honum og ég minnist en undrunarsvips á pabba þegar sú stutta valdi á milli þeirra við eldhúsborðið ... og valdi Gísla.  Það rumdi í pabba...... þetta kvenfólk, aldrei hægt að treysta því.  Ég minnist líka svipsins á pabba þessi jól þegar ég opnaði jólagjöfina frá Gísla.  Uppúr pakkanum kom matreiðslubók kennd við Helgu Sigurðardóttur, þykk og mikil matarbiblía sem ég hafði lengi óskað mér.  Þú ætlar að vera viss um góði að fá einhverntíman eitthvað ætt að eta .... var athugasemdin sem hann laumaði að tengdasyninum tilvonandi.

Ójá, Gísli minn hefur lengst af fengið bæði mikið og gott að borða, umfangið á honum lengst af okkar búskapar ber þess  ljósan vott, að ég nú ekki nefni eigið ummál.  En nú ligg ég undir grun um að vera farin að spara við hann mat, hann hefur minnkað töluvert en er bara sáttur við.  Ég er samt næsta viss um að mamma sæi ástæðu til að halda vel að honum mat ef hún næði til hans daglega.  Hún elur mann eins og aligrís þegar hún nær til........


Annar en ég er......

Sat áðan og var að hlusta á Gunnar Þórðarson flytja þetta stórgóða lag sitt.  Ég er hinsvegar aldeilis alveg ósammála honum, ég vil ekki vera önnur en ég er.  Það væri að vísu ágætt að losna við sitt af hverju sem hrjáir mig þessa dagana, blóðþrýstingsvandræði, andstyggðarverki í biluðum liðum víðsvegar um skrokkinn ....... að ég nú ekki tali um skammdegissurtinn sem vill ekki halda sig utan höfuðs míns.  Að öðru leyti vil ég bara vera svona eins og ég er, skapstór svolítið og á það til að vera kjaftfor ..... gæti trúað að það væru erfðir þar að verki.  Nóg um það.

Það er sagt að sé maður þungt hugsi út af einhverju sérstöku rétt áður en svefn er festur, þá dreymi mann það sem verið var að hugsa um.  Ég var á laugardagskvöldið að rifja upp atvik sem ég var búin hálfpartinn að gleyma.  Fyrir mörgum árum síðan var ég stödd uppi á Núpi að sumarlagi, ein á ferð og í þungu skapi. Þar ríkti ró og friður og ég rölti þarna um gömlu þúfurnar mínar og hugsaði um liðna daga.  Líklega hef ég dottað, allavega hrökk ég allt í einu upp við hófaslátt nokkurra hesta, reis upp og leit suður götuna og jú, þarna kom einhver ríðandi og með fjóra hesta.  Þarna var kominn Frímann Hilmarsson.  Sennilega fór hann aldrei svo um hlað á Núpi að ekki væri stansað þar þótt fólk væri horfið úr búsetu þar, hvað þá meðan búið var þarna.  Hann var að koma framan Laxárdal, hafði þurft á einverunni að halda rétt eins og ég.  Hann brá ekki vana að stansa og lofaði hestunum að kasta mæðinni og grípa niður á gamla húsahólnum.  Eitthvað spjölluðum við saman áður en hann kvaddi og hélt áfram út dalinn og þar sem ég sá á bak honum niður götuna minntist ég þess hve hann sat vel hestana sína áður og gerði enn, þrátt fyrir hlykki og króka á lífsleið hans undanfarið. Þetta var að rölta um í kolli mér stuttu eftir að ég setti inn bloggið mitt þarna á laugardagskvöldið.  Morguninn eftir vaknaði ég upp frá draumi.......margir ríðandi menn að fara yfir brúna við Skrapatungu og fremstir fóru þeir feðgar Frímann og Kristján  og við hina hlið Frímanns var Sölvabakkabóndinn Jón Árni... sem allir muna betur sem Adda.  Það var gustur á þeim og mikil gleði .... gæti hafa verið kaupstaðarlykt.......


Horfinn yfir Gjallarbrú.......

Við fygldum Frímanni Hilmarssyni til grafar í dag.  Krabbameinið hafði sigur þann 3 des síðastliðinn.  Síðast sá ég hann í réttum á Kirkjuskarði í haust, þangað var hann mættur af veikum mætti, svona í kringum fimmtíu kíló, með vökvagjöf í æð og gat ekki farið út úr bílnum. Áratugum saman hafði hann komið þarna úr göngum... með tvo eða fleiri hesta til reiðar, alltaf glaður, stundum góðglaður.  Ég vissi ekki fyrr en í dag að hann hefði getað sett saman vísur, hitt vissi ég að hann kunni ógrynni af þeim og hafði gaman af að fara með þær.  Og hestana sína þótti honum afar vænt um, það duldist engum sem þekkti Frímann. 

Það var auðséð í kirkjunni í dag að hann var vinmargur, kirkjan full og vel það og hinu megin hafa mætt honum sonur hans og fleiri, það hefur verið skeifnahljóð í lagi á Gjallarbrú, hver veit nema séu Tröllabotnar hinumegin, það hélt prestur alla vega í dag.


Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband