Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 11:10
Bloggleti ????????
Eða hvað, kannski bara eitthvað annað að gera. Núna ákvað ég allavega að taka smápásu við morgunverk og fara bloggrúnt ..... getur það ekki talist hvíld að setjast aðeins við tölvuna?
Við vorum alla helgina uppi á Mýrum við geymsluþrif og hænsnahússverk og sváfum í bílnum. Þetta var svolítið skrýtið, en.... alveg hægt. Nú er að sjá fyrir endann á þessu, loksins. Ég tók svo til við í morgun að ganga frá ýmsu því sem alls ekki var hægt að henda og hafði verið hlaðið hér inn á gólf, já og svo öllu því sem mamma og pabbi báðu okkur um að taka norður og koma til viðtakenda. Það verður að bíða betri tíma , Lena og Árni eru í sumarbústað með börnin, sem og Jökull og Oddný með allt sitt lið og Árný er enn í Eyjum og Gerðan líka. Anna á sínum stað ennþá en er á förum til Danmerkur, Vala er heima enda er hún sú eina sem ég er búin að skila af mér til.
Það var eitthvað fortíðarflipp á mér áðan, við að raða í gamla kommóðu sem kom til mín fyrir mörgum árum og ég hélt að ég sæi aldrei framar. Þessi kommóða var í eigu Betu, uppeldissystur pabba, og stóð allan minn barnsaldur á bak við hurðina inn í baðstofu heima á Núpi, flutti með henni á Blönduós og eftir lát hennar haustið 1979 fór margt af hennar munum í hendur ókunnugra, þá raunasögu ætla ég ekki að rekja hér. En góðviljuð systir sambýlismanns hennar skilaði því sem eftir var af hennar munum, eftir andlát hans. Þetta fæ ég seint þakkað sem vert væri.
Jæja, "möppudýrin"mín þurfa víst eitthvað að eta........ þau sem heima eru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2008 | 11:12
Þingeyri ..... og heim aftur.
Jú þetta tókst, fór til doksa snemma á mánudagsmorgunn, skildi eftir slatta af blóði hjá "blóðsugunni " og fékk svo fararleyfi vestur. Það tók ekki langa stund að hafa sig til, sækja Önnu Guðbjörgu og leggja af stað. Í algjöru spari veðri sem endist enn, sólskin og hiti alla daga. Mamma og pabbi eru að búa sig undir flutning á Tjörn, Gísli gat aðeins létt undir, prinsessan ég sat á rassinum og í mesta lagi fygldist með ömmubarninu, hún var að koma þarna í fyrsta skipi og undi sér vel. Gömlu hjónin voru alveg steinhissa á hve hún var róleg og þæg og góð við þau ... hafandi ekki séð þau fyrri. Við fórum öll til kirkju norður í Holt til séra Stínu á miðvikudagskvöldið, þar var biskup Íslands að vísitera ásamt fylgiliði. Í lok ræðu kallaði hann til sín börnin sem voru í kirkjunni, spjallaði aðeins við þau og gaf þeim lítinn kross og bað þau að hengja hann upp á nagla fyrir ofan rúmið þeirra. Það er ljós fyrir ofan rúmið mitt, svaraði Anna Guðbjörg kotroskin.... og líka kross. En samþykkti svo að hengja þennan upp líka. Afi Gísli náði myndum af þessum samskiptum sem mig hlakkar mikið til að sjá.
Ég skoðaði að sjálfsögðu íbúðina sem þau eru að flytja í á Tjörn og leist bara vel á. Ekkert svo mikið minni, vantar þó gestaherbergi, en það er allt í lagi, gott plan fyrir utan til að leggja á húsbíl og bæði tjaldstæðið og gistiheimilið eru í náttfatafæri.... þ.e. hægt að hlaupa á náttfötunum í morgunkaffi.
Ætla upp í Mýra seinnipartinn með hjásvæflinum, þar bíður eftir okkur gámur til að hægt sé að gera lokaþrif í geymslunni stóru... og henda því sem ekki verður flutt á Húnabrautina. Þetta verður verkið okkar um helgina ásamt að hugsa um púddurnar, Ragnar og Sandra eru að fara á landsmót á Hellu og Árný er komin til Vestmannaeyja ásamt Gerðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2008 | 11:00
Ekki dauð ..... bara lasin.....
Í stað þess að leggja af stað vestur á Þingeyri til pabba og mömmu, mátti ég snáfa í bólið mitt. Var eitthvað ræfilslegri en ég vildi vera og orkulaus og þar sem ég ætlaði að taka blóðþrýstingsmælinn með..... gráupplagt að mæla sig. Þar birtust tölur sem ég vildi alls ekki sjá. Ég vorkenndi sjálfri mér smástund, tók svo símann og hringdi í Majuna mína. Hvað á ég að gera með þessar tölur á mælinum, var spurningin sem hún fékk og af sinni fádæma hreinskilni var svarið ... þú snáfar í rúmið og hringir svo í lækni. Til að gera langa sögu stutta... ég hlýddi. Og því er ég hér heima ennþá, pumpan mótmælir um leið og ég geri eitthvað meira en fara framúr og heimsækja gustafsberg og eldhúsið... til að borða. Þetta er nú samt á niðurleið ... hægt.
Uppi á íþróttavelli standa yfir smábæjarleikar í fótbolta, þar eru þeir að keppa Aron og Smári Þór, Elísa og Anton og hafa staðið sig vel. Jökull og Oddný eru hér með börnin, Jón bróðir á neðri hæðinni með sín tvö + samstarfskonu sína og hennar son, hér hefur aldrei verið neitt mál að hýsa fólk... gamall vani frá Núpi og góður.
Við sváfum nú samt í bílnum bæði í nótt og fyrrinótt og ég get sagt ykkur að það er fátt ef nokkuð sem tekur því fram að vakna í bílnum við fyrstu geisla sólar að morgni fram á Núpi og heyra ekkert nema fuglasöng og stöku kindajarm.
Hrafl úr vísum Einars frænda Guðlaugssonar flugu um kollinn í morgun, hér eru þær allar......
Sumarkvöldin seiða
sannra ævintýra
held ég þá til heiða
heim í ríki dýra.
Heyrist rámur rómur
refir eru að gagga
Svanir sælt og lómur
sér á tjörnum vagga.
Innst í urðarbakka
eirir minkur hljóður.
Sígur húm í slakka
sofnar lamb hjá móður.
Unir inn í lundi
önd hjá sínum maka
sé ég fram á sundi
silungana vaka.
Yfir Eiríksjökul
árdags-sunna flæðir.
Hún í gylltan hökul
hjúpar svartar hæðir.
Himinn hreinn og fagur
hljómar af fuglakvaki
enda er aftur dagur
inn af Hnúfabaki.
Svona orti náttúrubarnið Einar frændi, hafi hann fyrir hjartans þakkir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2008 | 11:01
Ómar Ragnarsson .......
Ég tók daginn snemma, nógu snemma til að vera komin til eldhússverka dagsins þegar Freyr Eyjólfsson kynnti kaffigestinn sinn. Ég ákvað að slökkva á hrærivélinni minni og hlusta, Ómari man ég eftir úr útvarpi og á sviði síðan ég var barn, unglingur, ungamamma, ráðsett eiginkona, margra barna amma ....... enn er Ómar að gleðja mig. Ég vona að óskir hans rætist að við Íslendingar sjáum um síðir hverja perlu við eigum sem landið okkar er. Og hættum að sökkva náttúruperlum undir vatn. Ég á marga perluna með Ómari á geisladisk, gömlum myndböndum, jafnvel segulbandsspólu. Og allar eru þær mér til gleði og gamans.
Ísbjarnarævintýrum er ekki lokið enn, bassi greyið er enn vaktaður af lögreglu og björgunarsveitarmönnum, meðan beðið eftir dönum til að deyfa hann og svæfa ... og flytja hann í dýragarð ....... mig skortir orð í þetta skiptið, sem ekki er venjulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2008 | 19:52
Ísbjarnarblús ... í annað sinn......
Karen Sól, Karen Helga ......... Jón bróðir viltu gjöra svo vel að halda Karen Ósk innandyra á næstunni svo hún komi ekki heim með ísbjörn sem gæludýr. Þeir virðast halda upp á Karenarnafnið þessir Íslandsbersar. Vonandi verður ekki þessi verndurnarvitleysa mönnum að slysi. Nóg að æðarvarpið á Hrauni á eftir að verða afurðalítið.
Sit hér við sjónvarpið að fylgjast með fótboltanum ... að menn skuli ekki fótbrotna við að sparka svona býfunum í kross hvor við annan... nú eða þá sparka bara beint og einbeitt í næsta mann.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2008 | 20:25
Sunnudagskvöld ......
Seinni nótt helgarinnar var farið fram í Núp og sofið þar í mikilli kyrrð og friði. Rákum frá okkur forvitin hross sem vildu skoða, enduðum með því að sjá í rass þeirra yfir í Illugastaði. Annars sneri gönguferðin um að skoða breytingar á lækjarfarvegi Skriðulækjar já og bæjarlæknum. Vatn um allar trissur og helst þar sem það ætti ekki að vera, svosem eins og að hluti Skriðulækjar rennur fyrir neðan Skriðuhólinn eftir veginum og sameinast þar aftur upphafi sínu. Þetta lagast með skóflu að vopni næst þegar við komum þarna.
Gísli var mættur til vinnu uppúr níu í morgun, ég varð eftir upp á Mýrum og náði að pakka úr þrem körfum áður en Árný stóð mig að verki. Með því að hjálpast að við rest vorum við komnar heim í hádeginu. Hún fór svo að vinna upp í Skála um fjögur. Ég hinsvegar stakk af út á Skagaströnd ....þar átti aukapabbinn minn 88 ára afmæli. Þarna datt ég inn í stórskemmtilegt afmæliskaffi hjá Signýju og Ingibergi, þau ásamt Láru og Gunna héldu þarna myndarlega upp á afmælin þeirra beggja, Munda og Soffíu... sem ég er svo lánsöm að eiga sem aukapar af foreldrum ...og þykir óendanlega vænt um. Enginn skal samt halda að mér þyki ekkert vænt um mína raunverulegu foreldra, mér þykir líka mjög vænt um þau.
Það styttist í skrattaskýrslulokin, frétti ég áðan......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2008 | 15:55
Laugardagur .......
Það er farið að bera á bloggleti hjá mér eins og fleirum, en nú fannst smá orka í þetta. Best að byrja á mánudegi þessarar viku, Gísli þurfti til Reykjavíkur og eitt af því sem hann hafði orð á að gera var að kaupa gasgrill í húsbílinn. Minnug þess hvað hann gerði þegar uppgötvaðist í fyrrasumar að gasgrill heimilisins væri ónýtt, ákvað ég að fara með honum. Gasgrill sem notast á í húsbíl verður nefnilega að komast inn í hann. Best að hafa hönd í bagga með þessu. Þetta tókst farsællega og í gærkvöldi vel fyrir fréttir kvöldsins í sjónvarpi skilaði kall minn sér heim. Skolaði af sér skattaskýrslurykið með sturtunni og klæddi sig, tilkynnti síðan að við værum að fara. Jú, það var í lagi, ég var búin að undirbúa að vera í burtu alla vega eina nótt. Það þurfti að taka olíu, fjandinn sjálfur ..... 9000 þúsund kall og þetta voru ekki 50 lítrar. Einhver fékk vonandi hiksta yfir þessum ræningjahætti. Það þurfti líka að bjarga gaskút fyrir nýja grillið og meðan Gísli var að græja þetta gat ég horft á mannlífið. Það var fjörugt get ég sagt ykkur. Bíladagar á Akureyri um helgina og þarna voru fullt af bílum og mestmegnis unglingar sem ég sá, flestir rallhálfir nú eða þá augafullir og ælandi á planið. Hvernig skyldi þetta lið hafa verið orðið um miðja nótt, mér er spurn?
En við sluppum óskemmd út af planinu við skálann og ákváðum að fara út á Skaga ... alla leið út í Kálfshamarsvík. Þar var bílnum lagt og Gísli fór að græja grillið sitt nýja. Hikaði að vísu svolítið þegar hans freka kona tilkynnti að þetta væri hans deild að matreiða á þessu ágæta tæki. En lét sig hafa það að taka við kartöflum sem ég rétti honum ósvífnislega ... vitandi að þetta væri ekki hans uppáhaldsmatur af grilli. Þegar hann var svo búinn að snúa þeim eftir tiltekinn tíma rétti ég honum marinerað kjöt ..... grilla þetta takk. Hann hlýddi og setti sneiðarnar á grillið. Hvarf svo til að spjalla við mann sem bar svo blessunarlega að, hafði verið að vitja um silunganet þarna í sjónum. Til að ég fengi ekki brunnið kjöt að borða, bjargaði ég sneiðunum fyrir hann. Og af því að gesturinn góði gaf okkur silung í matinn, ætla ég að grilla hann sjálf... til öryggis. Sko silunginn, ekki Gísla.
Hann skal nú samt ekki halda að ég sé hætt að reyna að koma honum að grillinu...... og kartöflurnar fékk ég að hafa ein í gærkvöldi.......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 08:42
Stóra systa ........
Ég veit ekki hvort að það var nokkuð óvart að öfunda dæturnar, mér fannst skárra að viðurkenna tilfinninguna og hleypa henni út. Svo veistu að þolinmæði er uppgangsvara hjá mér og er enn að bíða eftir að bróðir þinn ágætur ljúki við skratta....... nei skattaskýrsluhauginn og fari að sinna kellingu sinni betur, slá sjálfur garðinn sinn, ljúka við flutninga frá Efrimýrum ... þú sérð af þessu að það er ekki að ástæðulausu sem hann reynir stöðugt að lengja sólarhringinn......
En nú er hafin ný vika, ég ætla að koma saumavélunum mínum í viðgerð í dag, það er hægt og bítandi að síga áfram myndirnar fyrir Solluna mína í eldhúsgardínurnar hennar og nú þarf ég að fara að koma köppunum upp og setja á þá fyrstu myndirnar..... best að læra að setja hér inn myndir svo ég geti nú sýnt þetta......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2008 | 20:20
Sunnudagur .... til sælu ......
Helgin er að lokum komin, við hjónin búin að sofa tvær síðustu nætur fram á Núpi í nýja bílnum og fór vel um okkur, þrátt fyrir svolitla rigningu, sérstaklega fyrri nóttina. Og þarna ríkir öll sú kyrrð sem þreytt sál þarf á að halda, ekkert símasamband, umferð í lágmarki þannig að mest heyrðist í fuglum og einstöku kindajarmur. Enginn refur að gagga í þetta skiptið.
Núna eru þær Vala og Anna ásamt fylgifiskum + afleggjurum vestur í Dýrafirði í heimsókn hjá afa ög ömmu/langafa og langömmu, það jaðrar við að ég öfundi þau .......
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2008 | 14:15
Föstudagur til fjár ..... ekki satt ....
Og það gladdi mína gömlu sál að sjá viðbrögðin við síðustu færslu, þótt ég átti mig ekki á hver Birnan er ( þekki nokkrar) þá sá ég að einhverntíman hefði ég verið öðrum einhvers virði.
En það var þetta með föstudaginn. Síðastliðinn föstudag þurftum við hjónin snögga ferð á Akureyri, Gísli þurfti að kaupa á sig skyrtur. Tókum Alexander með okkur, hann var hjá ömmu þennan daginn, pabbi hans var á leið norður seinnipart dagsins að sækja snáðana sína. Fyrir utan torg hins himneska friðar (Glerártorgið ) stöðvaði Gísli bílinn og í sama bili hringdi síminn minn. Látum duga um þá upphringingu að erindið kom mér mjög svo á óvart .... þegar ég loksins fékk málið spurði ég gætilega ... ertu fullur. Nei ekki ennþá var svarið. Hafir þú ekki vitað það fyrir, veistu það núna bróðir sæll að ég tæki ofan fyrir þér hatt... væri hann á höfði mér. Mér þykir óskaplega vænt um ykkur alla þrjá, þig ekki síst Kiddi minn.
En áfram með skyrtukaupasöguna ( er þetta ekki nýyrði ?), Gísli fann skyrtur sem voru honum að skapi, mundi meir að segja eftir að kvarta yfir síðustu sokkakaupum sínum í þessari annars ágætu búð , þeir reyndust ekki þola notkun nema yfir einn þvott. Þá var bara ólokið einu erindi sem tók sossum eins og klukkutíma, Alexander var allavega búinn að missa þolinmæðina, enda svaf hann alla leiðina norður og hafði því ómælda orku til að skammast yfir seinagangi afa og ömmu. En um sjö vorum við lögð af stað til baka, drengnum til mikils léttis. Við vorum hinsvegar með höfuðverk mikinn .... hvað eigum við nú að gera. Endirinn varð sá að við ákváðum að stökkva... ekki hrökkva. Afleiðingin... þessar fjórar skyrtur hans Gísla reyndust kosta rúmlega 1,1 milljón króna... stykkið.
P.S.
Við keyptum nefnilega líka húsbíl. Fáum hann afhentan í kvöld og kemur nokkrum á óvart sem þekkir mig að ég ætli ásamt kalli mínum upp í Núp í kvöld.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggvinir
- Anna Gísladóttir
- Rannveig Lena Gísladóttir
- Árný Sesselja
- Svanhildur Guðmundsdóttir
- Solla
- Gerða Kristjáns
- Guðrún Ösp
- Fjóla Æ.
- Mummi Guð
- Evaa<3
- Fanný
- Linda Lea Bogadóttir
- Brynja skordal
- saumakarfan
- Mamma
- Kolbrún Jónsdóttir
- Gylfi Guðmundsson
- Gísli Blöndal
- Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir
- Anna Margret Valgeirsdóttir
- Signý Björg Valgarðsdóttir
- Ásthildur Cesil Þórðardóttir
- aloevera
- Kristín Bjarnadóttir
- Kristján Atli Sævarsson
- Ragnheiður
- Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir
- TARA
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2013
- September 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Maí 2011
- Mars 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007