. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Helgin búin.........

Næstum því.  Ég var búin að skrifa hér töluvert í morgun en einhver hefur verið svo hjálpsamur að henda því fyrir mér. Þá það.

Við fórum á Akureyri, hjónin, í gær svona til að ljúka jólaverslun.  Hefðum betur gert þetta fyrr, því annar hver Húnvetningur og þriðji hver Skagfirðingur gerði slíkt hið sama.  Enda var erfitt að komast um hvar sem maður kom .... nema í miðbænum, þar var varla hræða á ferli.  Eitt af því sem gera þurfti var að Gísli þurfti að finna á sig spariskyrtu, sú sem gegnt hefur því hlutverki undanfarin ár  er týnd, strauk um svipað leyti og svarti jakkinn minn sem flúði um mitt sumar og finnst ekki enn.  Ég veit að manni mínum þykir langt frá því gaman að kaupa á sig föt, hvað þá þegar ég er að skipta mér af.  Því bar vel í veiði fyrir mig, Beggi "bró" var þessa sömu erinda í Dressman svo nú gat ég slett mér fram í hans litaval líka.  Nema hann reyndist þægari en Gísli, fór út með tvær ægiflottar á litinn, ljósa og dökka með tilheyrandi bindum með.  Þarf nokkuð að taka fram hver liturinn er ?  Við vorum sammála alveg einróma, Signý kona hans og ég að þetta væri flott hjá honum og um að gera þegar breytt væri til að gera það þá hressilega.  Látum duga að Gísli var varfærnari í vali á lit.

Morguninn var drjúgur hjá mér enda vaknaði ég snemma.  Gísli fór í verk uppi á Mýrum, Árný er enn að glíma við þursinn sem beit hana í bakið núna í síðustu viku.  Tók samt  börnin hennar Sollu í fóstur í gær svo þau kæmust á jólahlaðborð, Fannar og hún.  Smárinn og Anna Guðbjörg voru þæg við frænku, hjálpuðu til við kvöldmatareldun og tíndu upp dót og tóku til.  Sú stutta var komin í rúmið frænku þegar ég kom upp eftir í stutta heimsókn í gærkvöldi, með Alexander Snæ í kjölfarinu, hann fékk að vera hjá ömmu meðan mamma hans var í jólamat/hlaðborði.

Miðjunni úr deginum eyddum við Lena við kökubakstur og Elísa með okkur, hún fékk að taka þátt í bakstrinum og skemmti sér vel.  Eitthvað var ég farin að þreytast í restina og settist með þeim ummælum að ég væri að verða bensínlaus.  Sú stutta leit á mömmu sína og spurði.... þarf þá ekki að setja bensín á ömmu? Í hláturskastinu sem á eftir fygldi var Lena að gera sér í hugarlund svipinn á Bróa " vinnumanni" þegar hún kæmi með mömmu gömlu og segði honum að kellan væri bensínlaus.......


Enn er galið veður......

Enn einn veðurhvellurinn, ofsarok og rigning. Suðvesturhornið í uppnámi en slysalaust þó.... ég er að hlusta á kvöldfréttir.  Og alþingi að fjúka í jólafrí. Hefðu átt að vera farnir í frí fyrir löngu, þegar þessir 63 óvitar hafa ekki annað þarfara að gera en að ræða hvort að eigi ekki að leggja niður bleika og bláa litinn á nýburafatnaði á fæðingardeildum, nú eða að stytta ræðutíma manna á þingi svo þeir geti ekki haldið uppi málþófi um ekki neitt, þá er best að þeir séu bara heima, það er þó von til að þeir séu til einhvers gagns þar. Punktur.

Mér hefur ekki liðið vel undanfarið og kemur þar margt til, sumt umræðuhæft hér inni, annað ekki. Er búin að upplifa mikinn vanmátt minn til að bæta svo margt sem ég sé í umhverfi mínu fara aflaga og það veldur mér ama sem ég veit ekki hvað ég á að gera við.  Kvíði fyrir Hveragerðisdvölinni og það finnst mér slæmt.  Nú verð ég að finna nýja leið til að líða vel þarna og byggja upp þrek, ekki veitir af.


Skrýtinn dagur..........

Ekki laust við það já.  Hófst með miklum látum í veðri í gærkvöldi svo Árný forðaði sér heim, hafði verið að baka kökur með mér og undirbúa morgunkaffi í lok prófa hjá Lenu og Árna.  Klukkan þrjú í nótt hringdi hún, rafmagn farið og hún að fá ráðleggingar hjá pabba.  Hér var náttúrlega engin ljósavél.... og jafn rafmagnslaust, meðan Gísli var að leita uppi flíkur sínar, plús vasaljósið, kom rafmagnið aftur.  Að vísu blikkandi svo netsamband datt út af tölvunni jafnharðan og Gísli tengdi... til að byrja með.  Árný ákvað hinsvegar að láta vélina ganga í nótt meðan rokið væri svona brjálað, annars yrði hún að kveikja og slökkva til skiptis.  Henni tókst hinsvegar ekki að sofna aftur svo hún klæddi sig og fór uppí hús til að pakka  eggjunum.   Vakti okkur svo klukkan sjö, vitandi það að mamma myndi fjúka ærlega upp úr skónum sínum þegar morgunkaffigestir mættu ....... og kökur ekki komnar á borð og eftir að hella uppá könnuna.   Mér tókst að baka JC köku meir að segja.  Lena kom svo á réttum tíma í "vinnuna" og Vala á hæla henni, enginn Árni.  Þetta varð góð stund þangað til systurnar sammæltust um að kvarta yfir kokknum á skrifstofunni.  Kokksi á það til að nota blandarann sinn í að mauka grænmeti og soð saman sem súpu og það hafði verið gert í hádeginu í gær.  Gerðist líka í síðustu viku og það er ekki eftir hafandi hvað þeim datt í hug að væri í pottinum þeim.  Nú er kokksi að bræða það með sér hvort segja eigi upp störfum.... eða láta nákvæma innihaldslýsingu fylgja mat þeim sem skal etinn í það og það skiptið.

P.S.  Kaffivélin stíflaðist áðan, henni líkaði ekki að þurfa að hella upp á tvisvar með 30 mínútna millibili. Vatn út um allt borð og til að ná öllu vatni af hitaplötu notaði ég hníf og tusku. Að þrifum loknum setti ég tuskuna í uppþvottavélina  og var að setja hnífinn ásamt fleiru í þvottavélina niðri í þvottahúsi.  Er einhvesstaðar hægt að fá uppfært minniskort í höfði konu á miðjum aldri?


Jóla........ hvað?

Undanfarnir dagar desember mánaðar hafa ekki um margt minnt mig á jákvæðan hátt að jól séu í aðsigi.  Skrokkurinn gæti alveg að skaðlausu verið skárri ...... og þá er ég ekki að meina útlitið, þótt svo það sé ekkert spes, margt í mínu lífi stendur annaðhvot fast eins og tappi í flösku, nú eða þá fer heldur aftur á bak sem mér líkar stórilla, veikindin á Birni litla, hann er nú samt á hraðri leið til betri heilsu.  Þetta er þriðja barnabarnið mitt sem fær þennan fja...... RS vírus, Svanhildi næstum misstum við þegar hún var fjögurra mánaða, hún var ranglega greind hér heima og var vægt sagt orðin illa á sig komin þegar foreldrar hennar komu með hana á barnadeild FSA. Sigtryggur Einar fékk þetta líka , en var þó kominn á annað árið og men hvað var erfitt að hemja hann í rúminu, í einangrun í marga daga og sjá til þess að hann sliti ekki úr sér slöngur og svoddan óþarfa.  Ekki furða þótt mamma hans væri illa þreytt þá dagana.

En það var jólaandinn, hvar er hann?  Ég veit að hann er þarna einhverstaðar, best að halda áfram að leita. Enda koma jól, hvernig svo sem mér líður eða eigi ógert sitthvað sem ég ætlaði að ljúka fyrir þessi jól.......


Ég þoli ekki hroka.......

Var að lesa um raunir lögreglunnar á Sauðárkróki, nú er svo bágur starfsandinn þar að einungis einn laganna vörður sá sér fært að mæta á jólahlaðborð með starfsfólki sýslumannsembættisins.  Það var líka tekið fram að fulltrúi sýslumanns (nýlegur í embætti) hafði bannað lögregluþjónum embættisins að hleypa inn á stöðina sauðsvörtum almúganum og gefa þeim kaffi .... og spjalla í leiðinni um daginn og veginn.  Ekki langt síðan að yfirlögregluþjóninum á staðnum var bannað að reka bílaleigu á stöðinni. Svo er fólk að furða sig á að illa gangi að halda virðingu fyrir yfirvöldum, jahjarna.........

Er komin heim og er að slást við þvottafjallið og hengja upp jólaskraut........... 

 


Duglegur snáði......

Oddný kom heim með soninn í hádeginu, í leyfi en ekki útskrifaðan en hann er samt á góðri leið til baka.  Etur eins og fyrr, það þarf greinilega mikið til að Jökulsbörn missi matarlyst í veikindum.  Hvaðan skyldu þau hafa það... mér er spurn?

Við hjónin fórum í jólaljósaleiðangur eftir hádegið, vorum svo heppin að Anna keyrði okkur, það auðveldaði Gísla að þurfa ekki að rata, fyrir svo utan hvað honum leiðist umferðin í Reykjavík ..... og búðir, hjálpi mér sá sem vanur er.


Helgin er hálfnuð......

Og ég er ekki vestur á Sögu á jólahlaðborði númer tvö um helgina.  Jökull hringdi í nótt þegar ég var nýsofnuð , þá var verið að flytja Birni litla bráðaflutning á barnaspítalann, hann hafði hætt að anda í slæmu hóstakasti og blánað upp, en náð sér aftur af stað kominn út á tröppur og hristur duglega.  Jökull var inni í Reykjavík að vinna svo hann náði í mig og ég tók við stóru börnunum sem voru öll á Bergveginum um helgina.  Birnir litli er með RS vírussýkingu  en er að jafna sig, ég var með hann miðjuna úr deginum svo mamma hans kæmist í sturtu og aðeins út, en skipti svo aftur og nú gætum við afi bús og barna hér á Bergvegi 10.  Meðan ég er að blogga er Gísli að koma börnunum í háttinn.  Stendur sig eins og sönnum afa sæmir.


Minn tími mun koma.......

Þessi orð urðu fleyg fyrir mörgum árum þegar öskureiður núverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir tapaði formannsslag í Alþýðuflokknum sáluga fyrir Jón Baldvin Hannibalssyni.  Hún nær varla sætinu af Jóni héðan af því flokkurinn er ekki lengur til.  En hennar tími í pólitík er löngu kominn og ég er að verða nokk langeyg eftir að konan láti kné fylgja kviði ef ég má taka svo til orða.  Maður verður aldrei jafn mikið var við fátækt hér á landi og fyrir jól, kannski vegna þess að þá er mest talað um þetta.  En allir þurfa mat 365 daga ársins, ekki bara í desember, einnig þak yfir höfuðið hina ellefu mánuði ársins.  Í gær komu fram í sjónvarpi og blöðum einir fjórir ráðherranna okkar með úrbætur fyrir aldraða og öryrkja, víst er þetta betra en ekkert, en í þjóðfélagi sem ráðamenn stæra sig af að sé eitt hið besta í heimi, ætti að vera hægt að gera betur en þetta.  Talsmaður eldri borgara sagði í morgun í útvarpi... of lítið, of seint.  Því miður er þetta líklega rétt hjá honum. 

Það er svo margt sem mætti bæta, og mitt rauða hár bærir á sér af bræði þegar skýringin á því að ekki er hægt að fella niður tekjutenginguna við maka, er ... tæknilegir örðugleikar.  Arg og hóst.


Get ekki sofið........

Hvað gerir maður þá?  Byltir sér til að byrja með marga hringi, snýr við sænginni .... og gefst upp.  Allavega er ég búin að vaka síðan um fjögur og sé ekki fram á breytingu þar á svo ég fór bara framúr og sit nú við tölvuna. Best að blogga aðeins.

Ég eyddi megninu af gærdeginum uppi á Mýrum hjá Árnýju, fyrst við að ljúka verkum og svo fórum við að baka smákökur.  Að vísu gleymdi ég uppskriftabókinnni minni gömlu  heima en hélt það nú í lagi, búin að baka þessar kökur fyrir hver einustu jól síðan ég fór að búa, ég hlyti að muna uppskriftirnar.  Það reyndist vera rangt hjá mér, við mæðgur skildum ekkert í hversvegna túkallarnir urðu svona skrýtnir, það var ekki fyrr en í annarri tilraun sem ég sá mistökin. Þeir voru nú samt ætir.  Mömmukökurnar heppnuðust hinsvegar vel.  Túkallarnir, spyr einhver?  Þetta eru kókosbitakökur með súkkulaði, og Kiddi bróðir á þessa nafngift á þeim, hann reiknaði einhverntíman út hvað hver kaka úr einni uppskrift kostaði og það var túkall = tvær krónur.  Næsti bakstur verður framkvæmdur með skrudduna uppi á viftunni þar sem hún er vön að vera meðan ég baka ........ eitthvað annað en vandræði.

Jólin þokast nær og þrátt fyrir góð áform um að vera nú ekki á síðustu stundu við jólagjafakaup og annan undirbúning jóla, er ég harla lítið farin að gera, jú hengja upp ljós um alla íbúð  með aðstoð Gísla.  Eitthvað af þessu ljósadóti virkar samt ekki og það skal athugast um næstu helgi í borg óttans.  Jólahlaðborð á föstudagskvöldið, líka á laugardagskvöldið, gista á Sögu ........ letilíf.

 


Minning Helenu......

Hún Helena ljósa, eins og hún var oft kölluð, verður jarðsungin í dag.  Hún kom hingað til Íslands 1949 ásamt manni sínum frá Þýskalandi, þau réðu sig hingað í sýsluna til landbúnaðarstarfa.  Án efa hefur það ekki verið auðvelt að slíta sig upp með rótum af æskustöðvum í lok stríðs, til ókunnugs lands og vita ekkert hvað við tæki.  Þessi ár man ég ekki til að hún hafi rætt, nema þá við sína nánustu.  Hún varð fyrsta ljósan mín, tók á móti minni elstu dóttur 22 júlí 1971.  Ég man að mér þótti hún kuldaleg en duldist hinsvegar ekki að hún var góð ljósa, var ekkert að hanga yfir mér frameftir degi, svona meðan að lítið gekk, mamma var hjá mér, en þegar eitthvað fór að ganga fór hún ekki fet frá mér.  Ég man enn þegar hún sagði mér laust fyrir kvöldmat að barnið væri rauðhært og óþægt að drífa sig ekki fyrst svona langt væri komið.  Ég var löngu búin að missa þolinmæðina, búið að kalla lækni á staðinn, þá missti Helena sína þolinmæði, greip til gamals ráðs og nokkrum mínútum seinna var mætt rauðhærð og öskrandi Vala, klukkan korter yfir átta að kvöldi. Mér var létt og Helena dæsti ... þú vera óþæg .....  meðan hún gætti vel að hvort ekki væri nú allt eins og það ætti að vera.

Ég sagði fyrr að mér hefði þótt hún kuldaleg, en ég skil það í dag. Ég átti ekki eftir að fæða fleiri börn í hennar umsjá en ég átti eftir að vinna með henni í mörg ár og orðin eldri og reynslunni ríkari, skildi ég betur konuna sem hafði þurft að flýja fæðingarland sitt sökum skorts, skildi við fyrri mann sinn eftir fárra ára sambúð, en hún giftist aftur og eignaðist alls fjögur börn og alla tíð vann hún mikið utan heimilis.  Fyrir innan harða skel sem lífið hafði búið henni sló hlýtt hjarta konu sem valdi sér að lífsstarfi að taka á móti nýju lífi í heiminn og seinna hjúkrun.

Farir þú í friði, Helena mín og megi heimkoman hinumegin verða þér góð.  Þökk fyrir allt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband