. - Hausmynd

.

Leita í fréttum mbl.is

Vökuþorrablót .....

Var haldið í félagsheimilinu í gærkvöldi.  Við ákváðum að fara enda liðin 13 ár frá því að síðast var farið á þetta tiltekna blót. En það kom babb í bátinn, landsleikur Íslands og Danmerkur byrjaði korter yfir sjö.... við næðum fyrri hálfleik. Frúrnar ( Lena og Árni  fóru með okkur) voru komnar í bingogallan og búnar að setja upp andlit vel fyrir leik, já og opna hvítvínskútinn sem skyldi tekinn með á blót.  Það hefði jú verið skandall að fara með vont hvítvín... testa fyrst.  Það fór jú illilega um okkur mæðgur nokkrum sinnum meðan fyrri hálfleikur stóð yfir, en róuðumst töluvert þegar ljóst var að staðan í hálfleik var 13/15  ...... okkur í hag.  Löbbuðum því yfir í félagsheimili sem var nánast tómt af fólki, það tíndust svona tveir og þrír í einu og mörg borð tóm þegar við settumst við okkar borð.  Þeir sem mættu eftir af seinni hálfleikur hófst, komu fæstir inn í sal, stoppuðu í anddyrinu og horfðu þar á útsendingu frá leiknum. Það þýddi því ekkert að starta matnum fyrr en leikurinn var búinn og ekki laust við að væri farið að síga í sessunaut minn, hann var orðinn svangur.  Og hefur minna en engan áhuga á handbolta.  En leikurinn tók enda og við fengum að borða. Góður matur að mestu, Árni og Gísli kvörtuðu yfir að það væri varla lykt eða bragð af hákarlinum, ég veit ekki um bragðið en ég fann lykt..  Leikfélagsmeðlimir tóku að sér að skemmta blótsgestum og gerðu það á kostnað gesta mestan part ... hörkugaman hjá þeim.  Á engan hallað þó að ég segi að þar hafi farið á kostum Kalli Ellerts og Sigrún Lovísa.  Kalli er búinn að viðra svo oft grallarann í sér, en hún Sigrun ... þessi prúða og hægláta kona að breyta sér í svona frekar gleðilega ljósku....... þú ert snillingur Sigrún mín.  Gerðu meira af þessu að rækta söng og leikhæfileika þína.

Annars lá við að ég hætti við að fara þegar ég sá miðann minn.  Á honum stóð... ellilífeyrisþegar og unglingar .... ég er nefnilega viss um að ég tilheyri hvorugum hópnum.......


Stóra stelpan mín.....

Sem fór í fyrravetur að rifja upp hvernig væri að setjast aftur á skólabekk , á þann bekk hafði hún ekki sest síðan hún var fimmtán ára.  Í haust ákvað hún að fara sömu braut og pabbi hennar og Lena, fara í nám sem skilaði henni viðurkenningunni viðurkenndur bókari. Þetta urðu margar ferðir suður yfir heiðar ... bensín er dýrt .....  og oft hefur hún verið viðskiptis eins og jarðýta... með ripperinn niðri, en hún hafði þetta.  Þurfti að taka eitt próf upp aftur en fyrst hún þurfti þess, þá tók hún annað upp... til að vita hvort hún gæti ekki betur. Ekki furða þó að hún væri gott fet frá gólfi þegar hún hringdi í pabba sinn í miðju lummuáti í gær, hann skammaði ekki einu sinni okkur Árnýju fyrir að öskra hástöfum ... jess... við að heyra fréttirnar. 

Ég er yfir mig stolt af henni, sem og hinum líka, er alltaf að sjá það betur og betur hvað ég er rík að eiga svona mörg börn.


Bóndadagur.....

Og mínum heittelskaða eiginmanni tókst að komast á fætur án þess að vekja konu sína.  Hefur sennilega vandað sig með meira móti að fara gætilega framúr, ég hef sofið illa undanfarið fyrir verkjum og oft ekki sofnað fyrr en undir morgun.  Og er þá frekar skapstygg ef ég vakna svo um sjöleytið... með honum.  Ég gleymdi svo að óska honum til hamingju með daginn þegar ég hafði mig á fætur og eldaði mat hjá þeim í hádeginu.  Til að bæta úr hugsunarleysi mínu við hjásvæfil minn til tuga ára ..... fær hann lummur með kaffinu.  Vonandi kemur hann heim á undan Árnýju, hún veit af lummunum... og þykir þær góðar.

 Fór til Maju minnar í dag og þegar ég kom út heyrði ég í fugli og fannst eins og væri að koma vor, það er sex eða sjö stiga hiti úti og ótrúlegt um miðjan janúar að sé farið að vora.  Sólin er farin að hækka vel og sýnir mér vel hve skítugar rúðurnar mína eru, en legg ekki í þrif á þeim.  Nema þessari einu sem er út á svalirnar... það eru ekki bara kostir að búa uppi á annarri hæð......

Mér barst dánarfregn áðan, mamman mín  á Þingeyri hringdi og sagði mér lát Davíðs Guðbergssonar.  Mamma og hann eru bræðrabörn og hann var faðir Árna sem var í sveit á Núpi sem unglingur og fórst í bílslysi aðeins sextán ára.  Veturinn sem Árný mín var á leiðinni... og hann vitjaði nafns og sýndi mér samt að þetta væri stelpa.

Á ströndinni hinumegin hafa því feðgar fallist í faðma, seinnipart nætur síðastliðna nótt.


Nýtt ár .... og ekkert bloggað.

Ég fékk áminningu í gær .... og var svosem búin að heyra svona ábendingar um að nýja árið safnaði dögum eins og óð fluga og ég skrifaði ekki staf, þrátt fyrir loforð þar um að standa mig nú sæmilega á nýja árinu.

Ég  þurfti reyndar að eyða nokkrum þessara fyrstu daga ársins sunnan heiða í eltingaleik við bæklunarlækninn minn.  Indæli það sendi mig í myndatöku á þessum liðum mínum sem verstir eru og svo átti að ákveða framhaldið daginn eftir í gegn um síma.  Ég er ekki farin að heyra í honum enn, þrátt fyrir að hafa minnt á mig nokkrum sinnum við símadömuna hans.  Er að hugsa um að nota spariröddina á mánudaginn... það eru komnar rispur í þolinmæði mína.

Það er svo hinsvegar margt sem hefur komið upp á í fjölskyldunni síðustu daga, alvarleg veikindi sem tekur tíma að sjá fram úr.  Slæm staða og átök við aðstæður hjá sumum barnanna minna taka stundum toll af manni en, ...... börnin mín eru hörkutól þegar á þarf að halda... og mér þykir óendanlega vænt um þau.

Niðri á neðri hæðinni er Gummi tengdasonur að endurnýja baðherbergið, þar var sturtubotninn farinn að leka og veggur að fúna af þeim sökum og lykt herfileg.  Meðan ég var sunnan heiða rifu þau Árný og hann allt út úr baðinu og hentu... nema salerninu, það fær að standa..... svo Árný þurfi ekki  að koma allar ferðir á wc hingað upp ... .. þangað til að nýtt k....... er mætt á staðinn.

Það er á todo listanum mínum að finna fleiri gamlar myndir og setja inn á fésið mitt ... góðir hlutir gerast hægt.


Áramót.......

Eru í kvöld og ég er ekki viss um að við þau verði ég jafn bjartsýn og í fyrra á sama degi.  Ég var svo bjartsýn.. og barnaleg að halda að  stjórnvöld myndu axla með sæmd ábyrgð þá sem sem á þau voru lögð.  Það er langt síðan ég hef upplifað ár sem hefur verið jafn þéttpakkað af vonbrigðum með stjórnvöld.  Lokavonbrigðin urðu svo í gærkvöldi.... eru menn löngu búnir að gleyma þeim gamla íslenska sannleik að orð skulu standa.  Menn virðast ekki einu sinni vita hvað orðið samviska eða sæmd stendur fyrir.

Nóg um það, mitt blogg hefur aldrei verið ætlað til að ausa úr skálum skaps míns yfir stjórnmálum hér á landi. Þar hafa aðrir  staðið vaktina með "prýði".  Hér er gleði og gaman flestar stundir hjá okkur um jól og áramót, unga fólkið okkar sér til þess.  Strákarnir hafa skipst á um að sofa niðri hjá frænku sinni og Halla Katrín gisti síðustu nótt.  Þetta þykir mikið sport.  Fyrir hádegið í dag plataði ég þá út með mér að grafa upp ruslatunnurnar, þær voru orðnar fullar.  Sigurjón skemmti sér hið besta við að hoppa á innihaldinu, fyrst með pappa á milli en svo lét hann sig hafa það að sleppa pappanum, og hoppaði fast. Nú kemst töluvert rusl til viðbótar í tunnurnar.

Nú er það undirbúningur á síðasta græðgisáti ársins sem er að líða ... á næsta ári er það bara harkan sex við að halda í við sig og hætta að eyðileggja viktina með álagi........

Guð gefi ykkur öllum gleðilegt ár og takk fyrir gamalt, öll þið sem hafið lesið þessar hugleiðingar mínar sem rata hér inn......


Jólanótt......

Við undirleik roks og snjógangs heilsar jólanóttin okkur hér á Húnabraut 11.  Rafmagn fór af meðan stóð yfir upptekt á jólapökkum sem urðu til þess að það leið yfir jólatréð einu sinni enn .....og  að minnsta kosti tvisvar í morgun.  En það er vasaljós á vísum stað og svo voru það blessuð kertin.  Búin að heyra í þeim barnanna sem ekki voru á staðnum og rétt í þessu var Annan að tilkynna sig í vinnuna, við heyrum oft í henni á leiðinni þangað.  Veður sér til þess að héðan var ekki farið í miðnæturmessu í Hólaneskirkju og þaðan upp í Skeifu til mömmu og pabba .... mér er því hugsað mikið til mömmunnar minnar sem fékk að vera heima í kvöld og í nótt, guð gefi henni væra nótt í eigin rúmi.

Við erum líka búin að heyra í mömmu og pabba fyrir vestan, þar er vont veður og snjókoma, en þau hafa það gott og voru sátt við sitt ... guð gefi þeim líka góða nótt.


Aðfangadagur......

Ég mætti jólagestunum mínum í dyrunum í gærkvöldi, var að stökkva af stað upp á sjúkrahús til að bjóða mömmunni minni góða nótt. Hún var sofnuð en rumskaði til að segja góða nótt og ég las kvöldbænina í þetta sinn í hljóði. Síðan var það heim til að heilsa gestunum.  Birnir litli á stóra sviðinu, búinn að hvíla sig vel á leiðinni en mamma hans var veik, hafði verið slæm í maga allan daginn og sat því með æ.. dall í fanginu meiri part leiðar norður og hafði litla lyst í gærkvöld. Kvenfólk gekk því frekar snemma kvölds til hvílu og Birnir litli var lagður til svefns hjá ömmu og afa og svaf þar í nótt svo mamman fengi svefnfrið í  morgun.  Ekki veit ég hvenær feðgarnir fóru að sofa, ég var steinsofnuð.

Við Birnir vorum svo  farin að undirbúa hádegisgrautarpottinn þegar frænkan af neðri hæðinni kom í dyrnar og uppúr ellefu var stóri potturinn kominn á borðið... næstum fullur af nýelduðum jólagrjónagraut með tveim möndlum..... við vorum svo mörg, Fannar kom með sín börn, Vala með allt sitt og Lena og fyrir vorum við fimm. Ég elska svona daga þegar sem flestir eru við matarborðið.

En nú er hafinn undirbúningur að eldamennsku kvöldsins, aspassúpa að hætti Oddnýjar, hamborgarahryggur, nammisalat og annað meðlæti, já og svo nokkrar kótilettur til að finna anda fyrri jóla við matarborðið.  

Guð gefi ykkur, lesendum þessara hugleiðinga, gleðileg jól.


Messa Þorláks hins helga ..... einu sinni enn.

En einu sinni er þessi dagur runninn upp. Í bernsku minningunni er þetta lengsti dagur ársins að líða, þó auðveldari en föstudagurinn langi í páskavikunni, þann dag varð maður að vera þæg og stillt .... allan heila daginn.  Ekki það að óþægð væri leyfð á þorláksmessu, öðru nær.....

Hér á bæ ríkir ró og friður, ennþá.  Þau eru nefnilega á leið norður í kvöld Jökull og Oddný með Birni litla og ætla að vera fram á annan dag jóla.  Ekki það að þeim fylgi einhver ófriður en ég er sannfærð um að Birnir Snær verður  fjörugri þessi jólin en þegar hann var hér tæplega ársgamall sín fyrstu jól.  Svo er bara að hafa nóg að borða og ísskápinn fullan, þá er sonurinn alsæll. Fyrir Oddnýju þarf aldrei neitt að hafa. Og ekki má gleyma yngstu dóttlunni, hún kemur upp til mömmu um jólin.

Nú eru það morgunverk sem eftir eru ..... og ég má gera, síðan er það skatan með öllum ungunum mínum sem ég næ til, ekki halda samt að ég sé að koma á fætur núna ..... laangt síðan.

 


Búin að .......

Vera geysi dugleg... allavega að eigin mati.  Nánast búið að pakka inn öllum jólagjöfum og ganga frá jólapósti, Gísli gerði nú samt drjúgan hluta, ég hengdi upp mikið af útsaumaða jólamyndaflóðinu mínu, taldi upp úr kassanum með minnstu hlutunum .... þar voru 51 hlutur ... og eitthvað var komið upp, ætti kannske að telja restina.  Ekki einu sinni wc pappir rúllur heimilisins sleppa, utan um þrjár er hengi sem skreytt er jólasveinum .... uppi á vegg við hliðina á .... þið vitið.......

Fórum út í göngutúr með Smáranum, á Árbakkann þar sem Hrefna og Gunna voru með afrakstur sinnar jólaiðju til sölu, Gunna er blómaskreytir og Hrefna heggur niður bæði sína runna og annarra og tálgar flotta jólasveina úr greinunum og málar þá .  Flott hjá báðum.  Biðum heillengi eftir kakóbollum og kaffisopa, sem smökkuðust vel þá loksins þeir mættu á borðið.  Nú svo var það áfram hald á jólatiltekt, gestakoma sem gladdi og svo kvöldmatur með dóttlunni.  Og bjóða mömmunni minni sem er hér á sjúkrahúsinu góða nótt áðan.... ég get farið sátt að sofa.

Bara til útskýringar...... það er mamman mín frá Skagaströnd sem er hér á sjúkrahúsinu, hin var spræk vestur á Þingeyri þegar ég heyrði í henni í gær.......


Hugmyndaflugið hennar stórusys......

Það má vel vera að ég haldi áfram að rifja upp gamlar minningar Sigrún mín en ekki held ég að takmarki verði ævisaga.  En það styttist enn til jóla og það eru fyrri jól sem banka fast í minningagluggann hjá mér þessa dagana.

Síðast rifjaði ég upp fyrstu jólin sem Gísli hélt með mér og Völu.  Uppi á Núpi að sjálfsögðu og ég var ekki til viðræðu um að breyta þeirri tilhögun.  En jólin 1973 var komin einn einstaklingur í viðbót í fjölskylduna á Brekkubyggð 18. Annan mín birtist þann 10 nóvember um haustið og var því ekki há í loftinu sín fyrstu jól.  Samt ætlaði ég í Núp á aðfangadag þegar Gísli væri búinn að vinna, en þar tóku veðurguðirnir fram fyrir hendur mínar.  Kiddi komst fram eftir, hann gat lagt fyrr af stað en varð þó að labba að ég held frá Mánaskál og heim.  Þar með var það útilokað að komast þetta með kornabarn og veður versnaði undir hádegið.

Það var frekar úrill húsmóðirin  á Brekkubyggð 18 sem fór um miðjan dag að undirbúa  jólamatinn ..... í fyrsta sinn á eigin spýtur.  Valan gerði sér enga rellu útaf þessu, hvað þá Annan og Gísli reyndi hvað hann gat að sætta sína úrillu konu við staðreyndirnar.  En jólin komu þrátt fyrir allt og síðan hef ég aldrei hugsað sem svo að vera annarstaðar en á eigin heimili á jólum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Eigandinn

.
.

Amma, mamma, frænka, fyrrverandi, á og síðast en ekki síst eiginkona, með ólæknandi útsaumsáhuga 

halla@efrimyrar.is 

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband